Af málflutningi þeirra sem harðast berjast gegn minnstu breytingum á samgönguvenjum Íslendinga mætti stundum halda að bílar væru í bráðri útrýmingarhættu hér á landi. Nýjasta dæmið um það barst okkur fyrr í vikunni í formi gífuryrtrar yfirlýsingar Félags íslenskra bifreiðaeigenda, þar sem talað var um gíslatökur, að fólki hafi verið bannað nota bíla sína þótt líf lægi við og að borgaryfirvöld vildu gera bíla útlæga. Allt vegna þess að miðbænum var lokað fyrir bílaumferð í einn dag svo að þær 120 þúsund manneskjur sem sóttu bæinn heim ættu auðveldara með að komast um. Degi fyrr hafði verið talað á svipuðum nótum í staksteinum Morgunblaðsins, þar sem talað var um ofstæki borgaryfirvalda gegn einkabílnum vegna þess að bílar, sem sannarlega lögðu ólöglega, voru sektaðir fyrir það.
Allir sem að Menningarnótt standa eru sammála um það að það var nauðsynlegt og gott að loka hluta miðbæjarins fyrir bílaumferð þennan eina dag. Lokunin var auglýst rækilega og fjölmargir aðrir kostir kynntir fólki. Kostir sem áttu það meira að segja allir sameiginlegt að vera ókeypis. Auk þess mátti fatlað fólk keyra á lokaða svæðinu, sem og neyðarbílar. Auðvitað mátti fólk líka keyra ef líf þess lá við, að halda öðru fram er algjörlega fáránlegt, nema FÍB hafi dæmi á reiðum höndum um annað. Ég hef að minnsta kosti efasemdir um að björgunarsveitirnar sem gættu gatnanna hafi meinað fólki að komast á Landspítalann.
Auðvitað mátti fólk líka keyra ef líf þess lá við, að halda öðru fram er algjörlega fáránlegt, nema FÍB hafi dæmi á reiðum höndum um annað.
Allir græða á þeim sem keyra ekki
Undanfarna áratugi hefur bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu aukist meira hlutfallslega en íbúafjöldinn. Höfuðborgarsvæðið hefur þanist út, nú búa miklu færri íbúar á hverjum hektara lands en fyrir 30 árum. Þrjár af hverjum fjórum ferðum sem farnar eru á svæðinu eru farnar á einkabíl. Hlutfallið er óvíða hærra en það, og þá skiptir engu máli hvort um er að ræða borgir í heitari löndum eða borgir á svipaðri breiddargráðu og við. Og fyrst farið er að ræða um staðsetningu þá er tómt mál að tala um að það sé svo kalt á Íslandi að við verðum bara að vera á bílum. Í öðrum norðlægum borgum af svipaðri stærð og höfuðborgarsvæðið er ganga fleiri, hjóla eða nota almenningssamgöngur. Reykjavík er með langhæsta hlutfall einkabílaferða.
Ferðavenjur á norðlægum slóðum, úr skýrslu Mannvits, sjá hér.
Sýnt hefur verið fram á að það er nánast ómögulegt að halda áfram á sömu braut, þótt ekki væri nema bara fyrir þá staðreynd að það væri mjög erfitt að finna byggingarland fyrir fólkið sem bætast mun við íbúafjöldann. Ef haldið yrði áfram á sömu braut myndi bílum fjölga um 45 þúsund, bílastæðum þyrfti að fjölga um 85 til 130 þúsund og 60 prósent af uppbyggingu húsnæðis yrði utan núverandi byggðamarka. Það myndi þýða aukna bílaumferð, lengri vegalengdir og það þyrfti að ráðast í miklar framkvæmdir til þess ná fram fullnægjandi afkastagetu. Fólk myndi almennt verja miklu meiri tíma í bíl og aka lengri vegalengdir til að komast leiðar sinnar en það gerir núna. Óskar einhver sér þess?
Það hefur líka verið sýnt fram á það að ef ferðavenjur þótt ekki væri nema nokkurra prósenta íbúa á höfuðborgarsvæðinu breyttust þá myndi það skila miklu meiri ávinningi heldur en það að stækka og fjölga umferðarmannvirkjum. Ávinningurinn er miklu meiri fyrir alla, meira að segja þá sem kjósa að vera áfram á sínum bílum. Einfaldlega vegna þess að eftir því sem fleiri velja aðra samgöngukosti, þeim mun auðveldara verður fyrir bílana að komast sinnar leiðar. Svo ekki sé minnst á þátt bættrar lýðheilsu og umhverfismála, sem eru tvö af stærstu úrlausnarefnum nútímans og framtíðarinnar.
Ennþá helmingur allra ferða
Meðal annars af þessum sökum hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu komið sér saman um svæðisskipulag og segjast vilja bæta aðstöðu þeirra sem vilja taka strætó, ganga eða hjóla. Það hefur nefnilega, þar til á allra síðustu árum, ekki verið gert neitt sérstaklega mikið fyrir þessa hópa fólks. Sveitarfélögin virðast átta sig á því að breytinga eru ekki bara æskilegar, heldur nauðsynlegar.
Og þrátt fyrir þennan góða vilja til breytinga er ennþá gert ráð fyrir því að einkabíllinn verði ráðandi samgöngumáti. „Róttækustu“ hugmyndirnar um breytingar á ferðavenjum fram til ársins 2040 myndu leiða til þess að ferðir með einkabílum yrðu ennþá helmingur allra ferða. Það er nú öll aðförin að og útrýmingin á bílum.