Fjármálaráðherra og stjórnarmeirihlutanum skorti ekki viðvaranir vegna sölu í Íslandsbanka. Þau kusu að hunsa þær allar, snúa út úr gagnrýni og grafa undan heilindum þeirra sem stigu fram. Spillt bankasala er engin tilviljun heldur fyrirsjáanleg afleiðing skorts á heilindum. Hún er fyrirsjáanleg afleiðing rótgróinnar ábyrgðarleysismenningar. Sú menning er heldur engin tilviljun. Stjórnarflokkarnir hafa barist með kjafti og klóm gegn því að siðbótin nái til stjórnmálanna sjálfra. Þess í stað hafa þau skýlt sér bak við nefndir, siðareglur og „armslengd“ líkt og siðferði sé fyrst og fremst tæknilegt atriði. Það megi bara forrita í burt vandann. Algjört vantraust á útboði hlutar ríkisins er því ekkert slys heldur afleiðing sama hugsunarháttar og leiddi til hrunsins.
„Ég hef aldrei selt banka áður,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd, í kjölfar sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka í lok síðasta mánaðar. Hún sagðist svekkt út í sjálfa sig fyrir að hafa ekki spurt nægilega mikið. Þá áréttaði Bryndís að ef hún og fleiri hefðu til dæmis sett frekari skilyrði væri margt af því sem nú er til umræðu um söluna frá. „Það er líka vegna þess að ég er svo eindregin stuðningsmaður þess að við seljum banka. Mér finnst það svo mikilvægt að ríkið sé ekki í bankarekstri og mér finnst svo mikilvægt að það komi skýrt fram að við erum búin að breyta regluverkinu i kringum banka. Við erum með mjög öflugt regluverk í kringum það líka hvernig á að selja banka.“
Það er auðvitað rétt að þingkonan hefur aldrei selt banka áður en við skulum ekki falla í þá gryfju að gleyma því að stofnanaminni um sölu banka er til staðar hjá framkvæmdavaldinu. Það er líka til staðar hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er bara umtalsverð reynsla af einkavæðingu banka á Íslandi. Það er einmitt upphafið af því sem flokksfélagar Bryndísar kalla „hið svokallaða hrun“. Sagan af því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn læsti flokkinn og félaga í bönker sögufölsunar er okkur öllum kunnug. Flokkurinn trylltist á öllum sem skrifuðu um veika stöðu bankanna fyrir hrun þeirra. Sakaði Morgunblaðið um að tala niður krónuna og vildi að greinandi Merrill Lynch skellti sér í endurmenntun. Neituðu staðfastlega fram að falli bankanna fyrir að nokkuð væri að. Bjarni Benediktsson seldi í Sjóði 9 sama dag og neyðarlögin voru sett. Góðir flokksfélagar fengu símtöl um að nýu ættu þau að selja. Umbótaskýrsla flokksins var rifin á landsfundi. Þau hömuðust gegn Landsdómi. Hafa alla tíð haldið fram að Landsdómur hafi sýknað fyrrverandi formann flokksins og ef Landsdómur sýknaði hann ekki, þá var hann dæmdur fyrir eitthvað formsatriði sem engu skiptir. Geir var reyndar dæmdur fyrir brot á ákvæði stjórnarskrár). Flokkurinn réð Hannes Hólmstein til að skrifa skýrslu um hvernig hrunið var öllum öðrum að kenna en Sjálfstæðisflokknum.
Varðandi endurmenntunarkommentið skal tekið fram að Þorgerður Katrín sem var ráðherra Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma en er nú í Viðreisn. Þorgerður gerði upp ummælin eftir að hafa yfirgefið flokkinn. „Ég hef sagt það áður: á sínum tíma talaði ég um endurmenntun en fór svo sjálf í nokkurs konar endurmenntun. Ég þurfti á henni að halda. Það var bæði sárt og heilandi í senn. Að horfast í augu við eigin mistök, læra af reynslunni, bæði því góða og slæma, og horfa síðan fram á veginn er ákveðið þroskaferli,“ sagði hún við Kjarnann.
Eyðum ekki meiri tíma í síðustu einkavæðingu. Varðandi söluna á Íslandsbanka þá er vert að taka fram að ýmsar vísbendingar eru um að sú eindregna afstaða stjórnmálanna að nauðsynlegt sé að selja, selja selja, njóti ekki meirihlutastuðnings almennings. Það er svolítið undarlegt ef horft er til stjórnmálanna að sú skoðun að ekki eigi að selja bankanna er jaðarsett líkt og varla finnist nokkur talsmaður þeirra sjónarmiða. Þar liggur kannski eitt fyrsta dæmið um viljaleysi til að hlusta á viðvaranir. Kannski frekar vilja til að stroka út skoðanir almennings.
Í könnun sem ASÍ lét framkvæma í janúar 2021 kom fram að innan við fjórðungur landsmanna styður sölu ríkisins á Íslandsbanka. Í sömu könnun kemur fram að aðeins meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins nýtur sala bankanna stuðnings meirihluta kjósenda stjórnarflokkanna. 56% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru að öllu leiti hlynnt, mjög og frekar hlynnt sölunni. Andstaða meðal kjósenda flokksins er umtalsvert minni eða 22%. Meðal kjósenda VG eru 65% andsnúin sölunni en 22% fylgjandi. Í Framsóknarflokknum er staðan svipuð 21% eru fylgjandi sölunni en 53% mótfallin. Í heildina, meðal kjósenda, er innan við fjórðungur almennings hlynntur sölunni á Íslandsbanka. Málið flækist örlítið þegar litið er til þess að núverandi stjórnarflokkar sigruðu síðustu kosningar og földu ekki þá fyrirætlan sína að selja bankann. Út frá þeirri niðurstöðu má auðvitað láta líkt og stjórnarflokkarnir hafi umboð til að gera nokkurn veginn hvað sem þeim sýnist. Það gera flestir stjórnarþingmenn þau örfáu skipti sem spurt er út í þennan anga stefnu þeirra.
Það er kannski einmitt hér sem vandinn liggur. Súr og andlýðræðisleg menning ábyrgðarleysis. Menning þar sem fólk heldur því fram án þess að fara hjá sér, að kannanir sem gefa vísbendingar um að verk þeirra, hafi ekki neina meiningu nema þegar það hentar þeim. Í kosningum er kosið um stóran pakka og stefnu. Alveg eins og við kennum börnum að þau geti ekki alltaf fengið allt eru Alþingiskosningar kennsla í því sama fyrir kjósendur en ekki síst eiga stjórnmálamenn. Hver og einn kjósandi metur sín forgangsmál og kýs í kjölfarið þá sem falla best af sinni hugsun. Það er hins vegar hluti af samningnum að lýðræðislegir mekkanismi sé ekki gjörsamlega aftengdur næstu fjögur árin. Stjórnmálamenn eru einfaldlega ekki kjörnir á þeim forsendum að öll þeirra verk séu samþykkt.
Lýðræði er nefnilega ekki bara rétturinn til að kjósa og lýðræðið er svo sannarlega ekki rétturinn til að ráða. Lýðræði er rétturinn til þátttöku og að skoðanir kjósenda séu teknar til greina. Þrátt fyrir kosningar er ætlast til þess að meirihlutinn sem myndaður er vinni í samræmi við væntingar um heilindi.
Salan á Íslandsbanka er ekki gott dæmi um slíkar hugmyndir. Eins og áður segir liggur ekki fyrir hvort raunverulegur áhugi sé meðal almennings á að selja. Enn síður er aðdragandi sölunnar hafin yfir gagnrýni. Alvarlegast er ríkur vilji meirihlutans til að hundsa allar viðvaranir. Ekkert regluverk, siðareglur eða minnisblöð koma í staðin fyrir viljann til samráðs og sáttar. Hafi stjórnarmeirihlutinn á þingi og ráðherrar ákveðið að öll gagnrýni séu pólitískar tilraunir til að grafa undan þeim er ekkert sem gott regluverk áorkar.
Raunar lýsti Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, því best hvernig tekið er í ábendingar. „Það er nú þannig að margir þeirra sem vilja lýsa vantrausti á öllu ferlinu að þeir eru gjarnan á móti því að allur bankinn sé seldur og eins stjórnarandstæðingar,“ sagði ráðherra í Kastljósinu þann sjöunda apríl síðastliðinn. Í Silfrinu á sunnudag mátti svo heyra samskonar hugmyndir. „Það er náttúrulega þannig að þessi umræða verður náttúrulega mjög pólitísk vegna þess að stjórnarandstaðan hún hefur ákveðna hagsmuni af því að gera ferlið tortryggilegt. Þá veltir maður fyrir sér, er betra fyrir stjórnarandstöðuna að koma með gagnrýnina eftir á frekar en að koma með hana þegar að ferlið sjálft er í undirbúningi,“ sagði Andrea Sigurðardóttir verkefnisstjóri um þá gagnrýni sem fram hefur komið á söluna. Það er ekki hægt að draga einfalda línu á milli þess að vera mótfallinn sölu ríkisins á bönkum og vilja einfaldlega að salan endi þannig að Bjarni selji pabba sínum hlut í bankanum á bónusdíl.
Mikilvægara er þó að þessi söguförðun er ósönn. Það var einfaldlega gerð athugasemd við ferlið áður en í það var farið. Fyrst hlustuðu þau ekki og nú ætla þau að gera þá sem reyndu meðsek.
Ímyndum okkur nú hvernig það er að koma með ábendingar á ferlið í kúltúr þar sem allt sem þú segir er málað upp sem tilraun til að grafa undan ferlinu en ekki tilraun til að gera vel. Í slíku umhverfi gæti það vel átt sér stað að umsögn efnahags- og viðskiptanefndar um greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra vegna framhalds á sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka yrði einfaldlega dautt skjal þar sem horft er fram hjá athugasemdum minnihlutans. Í sama umhverfi gætu stjórnarliðar veigrað sér við að sinna eftirlitsskyldu sinni enda örugg leið til að vera stimplaður sem hluti af pólitískum leik óvinarins. Kannski hafði þessi stemning áhrif á Bryndísi? Hún sem eindreginn stuðningsmaður þess að selja banka þurfti kannski ekkert að spyrja og stimpla sig út sem ómarktæka. Meðlimur í hinu ómarktæka liðinu sem vill bara alls ekkert selja banka. Sami kúltúr skapar svo kælingaáhrif meðal almennings og álitsgjafa.
Hvað kemur fram í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar?
Markmið sölunnar eru samkvæmt greinargerðinni eftirfarandi:
- að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu;
- að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði;
- að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum;
- að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma;
- að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta;
- að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.
Í sömu greinargerð er tekið fram að umfjöllun nefndarinnar afmarkast í samræmi við skiptingu málasviða fastanefnda og því sé megináhersla nefndarinnar á; að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu, efla virka samkeppni á fjármálamarkaði, stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma og auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta.
Í umsögn meirihluta er lýst yfir stuðning við söluna og ferlið. Þá er bent á að hugsanlega sé ekki heppilegt að lífeyrissjóðirnir verði ráðandi í söluferlinu og vitna þar til umsagnar Samkeppniseftirlitsins. „Líkt og rakið er í umsögn Samkeppniseftirlitsins er líklegt að hlutfallsleg eign lífeyrissjóða í bankanum aukist við áframhaldandi sölu. Huga þurfi að því að lífeyrissjóðirnir eru bæði mikilvægir viðskiptavinir bankanna og keppinautar þeirra á húsnæðislánamarkaði. Þá eru lífeyrissjóðirnir veigamiklir hluthafar í ýmsum stærri fyrirtækjum sem einnig eru meðal helstu viðskiptavina bankans. Jafnframt kom fram við umfjöllun nefndarinnar að beiti stærri hluthafar ekki eigendaafli sínu sé meiri hætta á að minni eignarhaldsfélög öðlist meiri völd en eignarhlutur þeirra segi til um. Í samhengi við framangreint hefur komið fram að aðkoma erlendra fjárfesta, t.d. norrænna banka, geti verið fýsilegur kostur. Almennt er talið að íslenski bankamarkaðurinn sé of lítill til að erlendir aðilar sjái sér hag í því að hasla sér völl hér á landi með stofnun nýs banka. Í því samhengi geti falist ákveðin tækifæri til aukinnar samkeppni með aðkomu erlendra aðila að sölunni.“ Þessi fyrirvari meirihlutans er ágætur og ef horft er á útboðið virðist hafa verið hlustað á þessar ábendingar. Það er hins vegar gert með því að draga inn fjöldann allan af smáum fjárfestum sem engin sérstök ástæða er til að hleypa inn í sérstakt útboð sem almenningi var selt á þeim forsendum að væri til að draga að öfluga fjárfesta sem staðið gætu með bankanum. Draga má í efa að það hafi verið markmið varnarorðanna en ekki verður horft fram hjá því að varað var við að það gæti einmitt orðið afleiðingin.
Í umsögn fyrsta minnihluta, það er Guðbrands Einarssonar, þingmanns Viðreisnar, er tekið undir ábendingar meirihlutans og lagt til að „Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að við söluna verði litið til þeirra viðmiða sem fram koma í umsögn Samkeppniseftirlitsins, sér í lagi varðandi það að stefnt verði að sem fjölbreyttustu eignarhaldi aðila sem hafa að leiðarljósi langtímahagsmuni þjóðarinnar af traustum bankarekstri. Mikilvægt er að eignarhald bankans sé dreift og að kaupendur á hlutum í bankanum hafi ekki ríkra hagsmuna að gæta sem beinir samkeppnisaðilar bankans, eigendur stórra hluta í samkeppnisaðilum bankans eða séu umsvifamiklir viðskiptavinir hans.“ Sé þessi umsögn skoðuð sést svart á hvítu hversu ósanngjörn og hættuleg þessi pólitíska menning er. Það er nefnilega ekki samhengi á milli þess að allt sem frá minnihlutanum kemur sé ómarktækt eða í óeðlilegri pólitískri andstöðu við stjórnarmeirihlutann. Enn síður er réttmætt að afskrifa óánægju með ferli sem augljóslega er ekki í samræmi við væntingar.
Minnihlutinn varaði þó við ýmsu sem síðar kom í ljós. „Ef ráðherra hyggst selja 65% hlut í Íslandsbanka er nauðsynlegt að tryggja gæði nýrra eigenda umfram þau lágmarksskilyrði sem kveðið er á um í 42. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Ríkið þarf að setja skilyrði fyrir fram um það hvers konar aðilar fái að eignast kerfislega mikilvægan viðskiptabanka. Fall forvera Íslandsbanka markaði upphaf keðjuverkandi atburðarásar sem olli gjaldþroti íslenska bankakerfisins í heild,“ segir í umsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fulltrúa Flokks fólksins í nefndinni. Nú þegar ferlinu er lokið sjá flestir að hér var um réttmæta athugasemd en það hefði líka mátt sjá áður en ferlið fór af stað. „Ríkið þarf við söluna að gera mun meiri kröfur en gerðar eru í lögum um fjármálafyrirtæki enda er það ekki bundið af þeim, nema að lágmarki, og getur sett eigin skilyrði við söluna til að tryggja heilbrigði fjármálakerfisins þar sem stöðugleiki, samkeppni, hagkvæmni og hagur almennings, sparifjáreigenda og lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði haft að leiðarljósi. Ríkið þarf því einnig að krefja væntanlega kaupendur, sem vilja fara með virkan eignarhlut í Íslandsbanka, um að gefi upp fyrirætlanir sínar með eignarhaldinu með því að þeir leggi fram skriflegar áætlanir til lengri og skemmri tíma áður en ríkið samþykkir þá sem kaupendur.“
Jóhann Páll Jóhannsson, fulltrúi Samfylkingar í nefndinni, segir að misráðið hafi verið að hefja söluna í heimsfaraldri. „Eins og Samfylkingin varaði eindregið við að myndi gerast voru hlutabréf í bankanum seld á undirverði með tilheyrandi fjárhagstjóni fyrir íslenska ríkið og almenning. Það er eðlileg krafa að unnin verði ítarlegri greining á fyrsta fasa sölumeðferðarinnar og að fram fari þingleg umræða um frumútboðið áður en söluferlið heldur áfram.“ Það er hættulegt að mála slíka ábendingu sem einungis tilraun stjórnarandstöðunnar til að grafa undan söluferlinu. Það er alls ekki ólíklegt að úttektin hefði leitt í ljós að varhugavert sé að selja aðilum sem líklegir eru til að kaupa á undirverði og selja hratt á markaðsverði.
Fulltrúi Samfylkingarinnar bendir einnig á að 63% vantreysti Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, til að leiða einkavæðingu Íslandsbanka. „Fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd hefur skilning á þessu vantrausti í ljósi þess að Bjarni Benediktsson tók þátt í viðskiptum sem veiktu Íslandsbanka á árunum fyrir hrun ásamt skyldmennum sínum og viðskiptafélögum sem voru í senn meðal stærstu eigenda og stærstu lántaka bankans. Þá kom Bjarni að viðskiptafléttu árið 2008 þar sem Hæstiréttur Íslands telur að hagsmunir lántaka hafi verið teknir fram yfir hagsmuni bankans sjálfs. Til að fullt traust ríki um söluna á Íslandsbanka er réttast að forsætisráðherra feli öðrum ráðherra að fara með málið.“ Í ljósi þess að faðir fjármálaráðherra og fyrrverandi viðskiptafélagar má velta því fyrir sér hvort málefnaleg rök séu fyrir þessum fyrirvara. Það er allavega hollt fyrir alla að afskrifa ekki alla gagnrýni sem pólitískar tilraunir til að grafa undan söluferlinu. Þessi regla á líka við um það sem erfitt er að heyra.
„Fram kemur í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá 2018 að „heilbrigt eignarhald“ sé forsenda þess að bankakerfi standi traustum fótum. Huga þurfi sérstaklega að því við sölu ríkisins á eignarhlut í bönkum að nýir eigendur séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd tekur undir þetta áhersluatriði og furðar sig því á að ekki sé að finna neina umfjöllun um líklega þróun breytts eignarhalds Íslandsbanka í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um framhald bankasölunnar. Í greinargerðinni er heldur ekki að finna neina umfjöllun um áhrif bankasölunnar á samkeppni, til að mynda um samkeppnisleg áhrif þeirrar líklegu niðurstöðu að lífeyrissjóðir stórauki hlutdeild sína í bankakerfinu.“ Eitt af því sem hefur verið kallað til sem útskýring á því hvers vegna smáir fjárfestar fengu að kaupa bréf í útboðinu er einmitt ótti við að aukinn hlutdeild lífeyrissjóðanna í bankanum hafi neikvæð áhrif á samkeppni. Það er því ekkert sérstaklega flokkspólitísk athugasemd að greiningu á þessum ótta skorti.
Í umsögn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, fulltrúa Pírata, koma fram verulegar athugasemdir við hugmyndir meirihlutans um að áhætta minnki við sölu Íslandsbanka. Í umsögninni er gerð athugasemd við framkvæmdina í tengslum við öll yfirlýst markmið. Píratar gerðu athugasemd við hugmyndir um að áhætta sé minni ef bankinn er í einkaeigu. „Fjórði minni hluti bendir á tvískinnunginn í þessu áhættumati, að það sé nákvæmlega jafn mikil áhætta fyrir ríkið að eiga banka og hafa þá einkarekna, a.m.k. ef bankakerfið fer á hausinn. Kostnaður ríkisins yrði líklega svipað mikill hvort sem bankarnir væru einkareknir eða í opinberri eigu. Það þýðir ekki að bankar eigi bara að vera reknir á opinberum forsendum heldur þýðir það bara það að „að minnka áhættu“ séu ekki rök fyrir sölu. Rökin um að láta einkaframtakið sjá um tækniframfarir í bankaþjónustu eru betri, en útskýrir þá ekki eigu ríkisins á Landsbankanum. Áhættan á sölu Íslandsbanka kom svo berlega í ljós í kjölfar frumútboðs. Áhættan á því að bankinn hafi verið undirverðlagður (eins og vakin var athygli á fyrir frumútboðið) var miklu meiri en áhætta ríkisins af öðrum atriðum því það er ýmislegt hægt að gera fyrir 27 milljarðana sem verðið var vanmetið um.“
Varðandi samkeppnissjónarmið segir einnig: „Það er óljóst hvort þessu markmiði hafi verið náð eða því verði náð, síður en svo jafnvel. Umsagnaraðilar búast flestir við því að lífeyrissjóðirnir verði þeir sem kaupa Íslandsbanka. Það er ekki samkeppniseflandi þar sem lífeyrissjóðirnir eru einmitt í samkeppni við bankana um íbúðalán og fjárfestingar. Eins er markviss undirfjármögnun Samkeppniseftirlitsins áhyggjuefni í þessu sambandi þar sem stofnunin á í erfiðleikum með að sinna eftirlitshlutverki sínu vegna undirmönnunar. Ekki er að finna nein áform ríkisstjórnarinnar um að efla getu Samkeppniseftirlitsins til eftirlits samhliða sölunni sem er áhyggjuefni.“ Um það markmið að hámarka endurheimtur ríkissjóðs með sölunni segir einfaldlega að um brandara sé að ræða ef horft er til sölunnar í fyrra. Um dreift eignarhald segir: „Hér voru umsagnaraðilar allir sammála, að það væri auðvitað engin trygging fyrir fjölbreyttu eignarhaldi til framtíðar þar sem hverjum og einum væri frjálst að selja sína hluti í framtíðinni. Eignarhaldið yrði örugglega dreifðara en ef ríkið ætti allt hlutafé en það er engin trygging fyrir að eignarhaldið verði fjölbreytt eða heilbrigt.“ Svona heldur umsögnin áfram.
Hafa verður í huga að fastanefndir Alþingis funda alla jafna ekki á opnum fundum. Því vitum við ekki nákvæmlega hvað fór fram á fundunum. Hins vegar er umsögn nefndarinnar vísbending um hvað kom út úr vinnu nefndarinnar. Í ljósi umsagnarinnar verð ég þó að segja að allt tal um að enginn hafi varað við að illa færi er frekar innantómt.
Umfjöllun nefndarinnar var þó ekki í fyrsta sinn sem efasemdir voru orðaðar. Það vekur raunar furðulega litla athygli að Samkeppniseftirlitið varaði ekki eingöngu við því að lífeyrissjóðir eignuðust of mikið. Samkeppniseftirlitið varaði líka við því að skuldsettum eignarhaldsfélögum yrði seldur hlutur. „.Á innlendum vettvangi er einnig til að dreifa öðrum stórum fjárfestum. Í því sambandi ber að varast þá leið að selja eignarhluti í bönkum mikið skuldsettum eignarhaldsfélögum í eigu einkafjárfesta, vegna þeirrar hættu sem slíkt eignarhald getur skapað. Í því sambandi vísast til reynslunnar af bankahruninu 2008 en bankarnir voru á þeim tíma að verulegu leyti í eigu og undir stjórn skuldsettra eignarhaldsfélaga í eigu einkafjárfesta sem gjarnan voru jafnframt meðal stærstu viðskiptavina bankanna, ýmist beint eða óbeint“ Nú hafa komið fram upplýsingar um að slíkt geti hafa gerst í þessu útboði.
Það má týna til fleiri viðvaranir. Bankasýslan sjálf sagði þetta um þá aðferð sem valið var að fara: „Það er þó ljóst að slíkt fyrirkomulag er ekki að fullu í anda meginregla laga nr. 155/2012 um opið söluferli og gagnsæi. Þannig njóta ákveðnar fjárfestar betri réttinda en aðrir ásamt því að almenningur getur ekki tekið beinan þátt og þar með ekki tryggt fullt jafnræði bjóðenda. Aftur á móti er um að ræða hefðbundna venju á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum sem talin er ákjósanlegasta aðferðin við áframhaldandi sölur til að hámarka verð og lágmarka áhættu.“ Þessi viðvörun kom fram í janúar á þessu ári.
Sama fólk og hlustaði ekki á viðvaranir vegna þess að þær komu ekki innan úr klíkunni reynir nú að telja okkur öllum trú um að enginn hafi einu sinni reynt að vara við. Það er jafn hættulegt að hlusta á þau nú og síðast þegar þau keyrðu landið í þrot.
Höfundur er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International.