Eins og alþjóð veit þá fóru fram formannskosningar í Heimdalli í vikunni. Þessar formannskosningar voru ekki frábrugðnar formannskosningum hjá þeim undanfarin ár. Ungu fólki úr framhaldsskólum Reykjavíkur var smalað á kjörstað og þeim lofað góðu partýi ef þeirra hlið bæri sigur úr býtum.
Þessi mynd af ungliðahreyfingum sem drykkjufélögum fólks hefur verið til staðar frá því ég man eftir og var til staðar löngu áður en ég byrjaði að taka þátt í starfi ungliðahreyfinga árið 2010. Ég ætla alls ekki að halda því fram að ég sé partur af bindindishreyfingu sem aldrei snerti áfengi. Það er alveg rétt að við drekkum bjór og höldum partý, enda er það fullkomlega eðlilegt í öllu félagastarfi að gleðjast saman yfir árangri okkar.
Umræðan á miðlunum virðst þó einskorðast við það að ungliðar stjórnmálaflokkanna geri ekkert nema drekka bjór og halda partý. Því langar mig að segja ykkur frá öllu hinu sem ég hef gert í starfi ungliðahreyfinga.
Frá því ég byrjaði í Ungum jafnaðarmönnum hefur starf samtakana vaxið ótrúlega hratt. Það hefur farið frá því að vera í mikili lægð yfir í fjöldahreyfingu sem tekst á um málefni líðandi stunda. Mikið málefnastarf fer fram í Ungum jafnaðarmönnum og sýnir það sig kannski best þegar horft er á þá skýru breytingu sem varð á stefnu Samfylkingarinnar á síðasta landsfundi.
Við ungliðar unnum mikið og öflugt málefnastarf fyrir landsfund og héldum málefnafundi þar sem við kynntum okkur málin, ræddum hvert við annað um hvað okkur langaði að gera og stóðum svo þétt saman á landsfundi til að berjast fyrir því sem við trúðum á. Ég hef tekið þátt í að skipuleggja atriði allra ungliðahreyfinga í gleðigöngunni til að sýna samstöðu ungs fólks með réttindabaráttu hinsegin fólks. Við höldum landsþing árlega þar sem við tökum heila helgi í það að ræða okkar hjartans mál og þó við drekkum bjór eftir langa fundi til að fagna því góða starfi sem við unnum á árinu, þá er það langt frá því að vera aðalatriði. Við ferðumst út fyrir landsteinana til að hitta skoðansystkini okkar á norðurlöndum og í Evrópu. Í ungliðastarfi hef ég byggt upp tengslanet sem ég hef aðgang að alla ævi og er alltaf að efla.
Maður hefur greiðari aðgang að stjórnmálafólki og gefst færi á að ræða við það um stöðu mála í samfélaginu.
Ég ætla biðja ykkur um að dæma ekki starf ungliðahreyfinga út frá drykkju og lélegum starfsháttum eins félags sem skemmir orðspor okkar hina sem erum í ungliðastarfi til þess að bæta samfélagið. Ég vona að allir sem áhuga hafa kynni sér starf ungliðahreyfinga og taki þátt, þetta starf er gefandi og skemmtilegt. Frábær leið til að byrja er að mæta á landsþing okkar í Ungum jafnaðarmönnum sem fer fram helgina 9. til 11. október og sjá hvernig starfið okkar er í raun og veru.
Höfundur er fyrrverandi formaður Hallveigar, ungra jafnaðarmanna í Reykjavík.