Í umræðu um fordæmalausa breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis að færa fyrst fjóra, síðan þrjá, virkjunarkosti úr biðflokki rammaáætlunar í nýtingarflokk hafa fylgismenn gjörningsins beitt blekkingum sem ástæða er til að leiðrétta. Virkjunarkostirnir sem um ræðir eru Skrokkölduvirkjun á Sprengisandi og Holta- og Urriðafossvirkjanir í neðri hluta Þjórsár.
Rammaáætlunarferlið
Fyrst er þó rétt að fara örstutt yfir rammaáætlunarferlið sem hleypt var af stokkunum árið 1999. Megintilgangur þess var og er að byggja faglegan grunn og sátt um þá afdrifaríku ákvörðun hvar megi virkja og hvar ekki. Lög um rammaáætlun gera ráð fyrir að fjórir faghópar fjalli um, meti og raði í forgangsröð landsvæðum sem hugsanlega koma til tals sem virkjunarkostir. Faghóparnir fjalla um (I) verndargildi náttúru og menningarminja, (II) landnýtingu, svo sem ferðaþjónustu og útivist, (III) þjóðhagsleg sjónarmið, svo sem atvinnu og byggðaþróun, og (IV) hagkvæmni orkunýtingar. Þegar niðurstöður faghópanna liggja fyrir raðar verkefnisstjórn rammaáætlunar viðkomandi landsvæðum í þrjá flokka: Verndarflokk sem ber að friðlýsa, nýtingarflokk sem heimilt er að nýta til orkuvinnslu og biðflokk sem ekki er unnt að flokka vegna skorts á gögnum og óvissu. Lendi landsvæði í biðflokki samsvarar það í raun frestun á ákvörðun um friðun eða nýtingu. Eftir lögbundið kynningar og umsagnarferli leggur verkefnisstjórn rökstudda tillögu fyrir ráðherra. Kjósi ráðherra að leggja til breytingar á tillögunni – sem lögin heimila – skulu þær fara í nýtt kynningar- og umsagnarferli.
Blekkingarnar
Í fyrsta lagi heyrist fullyrt að það sem núverandi meirihluti atvinnuveganefndar sé að reyna með flutningi ofangreindra virkjunarkosta úr biðflokki í nýtingarflokk sé sambærilegt við það þegar sex vikjunarkostir, þar á meðal þeir þrír sem styrinn stendur um núna, voru fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk í tíð fyrri ríkisstjórnar.
Án þess að ég sé eitthvað sérstaklega að mæra fyrri ríkisstjórn þá er þetta tvennt algerlega ósambærilegt. Umhverfisráðherra þá var heimilt samkvæmt lögunum að breyta tillögu verkefnisstjórnar að viðhöfðu kynningar og umsagnarferli. Í því tilviki sem hér ræðir hefur sitjandi verkefnisstjórn rammaáætlunar, aftur á móti, ekki hafið umfjöllun um (Skrokkalda) eða enn ekki talið forsendur til að breyta flokkuninni vegna ríkjandi óvissu (virkjanir í neðrihluta Þjórsá). Þá er þess að geta að það er alls ekki sambærilegt að flytja virkjunarkost úr nýtingarflokki í biðflokk, fresta ákvörðun vegna vafa um umhverfisáhrif, og að flytja kost úr biðflokki í nýtingarflokk, þrátt fyrir vafa. Í fyrra tilvikinu er náttúran látin njóta vafans, í hinu síðara framkvæmdaaðilinn.
Til að setja þetta í skiljanlegt samhengi þá getur það varla talist sáttarrof eða aðför að réttarríki ef dómari, sem hefur líf fanga í hendi sér, frestar aftöku meðan nýjar upplýsingar eru krufðar til mergjar.
Önnur fullyrðing sem heyrist er að í landinu ríki orkuskortur og að þess vegna sé ekki hægt að bíða í eitt ár eftir niðurstöðu núverandi verkefnisstjórnar. Þetta er heldur ekki rétt. Hið rétta er að hugsanlega getur orðið hér orkuskortur eftir nokkur ár þegar og ef ítrustu áætlanir um byggingu kísilvera ganga eftir. Fjögur slík eru fyrirhuguð, þrjár kísilmálmverksmiðjur og ein sólarkísilverksmiðja. Í fyrsta áfanga er orkuþörf þessara verksmiðja um 260 megavött, en 500 megavött miðað við hámarksframleiðslu. Fimm hundruð megavött samsvara 11 Skrokkölduvirkjunum.
Mengandi stóriðja
Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun (sjá t.d. Framleiðsla á sólarkísli – minnisblað um umhverfislega áhættu. Environice 2014) munu kísilmálmverksmiðjurnar þrjár í fullum afköstum blása út vel á aðra milljón tonna af koltvísýringi (heildarlosun á Íslandi árið 2010 var um 4.5 milljónir tonna), 4.300 tonnum af brennisteinsdíoxíði, um 1500 tonnum af nituroxíði, 450 tonnum af svifryki, auk minna magns af fjölhringa kolvetnum, þungmálmum o.fl. Kísilvinnsla er því stóriðja, víðsfjarri því að vera hreinn iðnaður.
Forneskja sem verður að taka endi
Forkastanlegt er að samið sé við stóriðjufyrirtæki um orku áður en fyrir liggur hvort unnt er að afla hennar með ásættanlegum hætti fyrir land og þjóð. Löngu er orðið ljóst að stóriðja getur ekki keppt við ferðamennsku hvað gjaldeyrissköpun, arðsemi og umhverfisáhrif snertir og að áhugi ferðamanna á landinu byggir fyrst og fremst á villtri náttúru þess. Snúa þarf ofan af samningum við stóriðjufyrirtæki frekar en að bæta í. Að farga verðmætum náttúrusvæðum vegna orkuvinnslu fyrir mengandi stóriðju er forneskja sem verður að taka endi.
Höfundur er líffræðingur og formaður Landverndar.