Einu sinni á ári fer fram mikil umræða um laun í íslensku samfélagi. Það gerist þegar upplýsingar frá skattinum eru birtar og fjölmiðlar vinna úr þeim fréttir þar sem greina má með nákvæmum hætti hvernig launaþróunin hefur verið í íslensku samfélagi. Fólkið á gólfinu upplifir sem fyrr minni hækkun launa sinna heldur en stjórnendur fyrirtækja, sem er bæði ósanngjarnt og óskynsamlegt. Best væri ef fólkið á gólfinu upplifði það á eigin skinni að árangur starfs þeirra væri metinn, að minnsta kosti til jafns við það hvernig hann er metinn hjá stjórnendum. Þá væri hlutfallsþróunin í launum stjórnenda og fólksins á gólfinu svipaður. Svo er ekki þessi misserin og það ætti að vera mikið áhyggjuefni fyrir komandi rökræður um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði.
Ein elítudeild
Launaskriðið í fjármálageiranum er meira en annars staðar í samfélaginu. Hann er hálfgerð elítudeild þegar kemur að launum og hefur verið lengi. Það sama er uppi á teningnum víða um heim.
Þetta finnst mér mikið umhugsunarefni og fullt tilefni er til þess að staldra við og velta því upp, hvort þetta sé skynsamleg þróun og hvort það geti verið að launahækkanirnar séu innistæðulausar þegar málið er skoðað frá öllum hliðum.
Bankaþjónusta á Íslandi er úr takti við alþjóðalega fjármálamarkaði eftir hrunið, eða því sem næst. Íslenskir bankar, þeir endurreistu, hafa stigið hænuskref inn á alþjóðlega lánamarkaði og eru fyrst og fremst byggðir upp á grunni innlána frá almenningi á Íslandi, einstaklingum og fyrirtækjum. Hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðir hafa verið að rísa úr rústum hrunsins og hefur umtalsverður árangur náðst á skömmum tíma við að glæða þessa markaði lífi, svo þeir geti þjónustað íslenskt atvinnulíf og almenning. Það sem síðan er mest einkennandi fyrir íslenskan fjármálamarkað, þegar hann er borinn saman við fjármálamarkaði annars staðar, er að hann er nær allur í örmyntinni íslenskri krónu, innan víðtækra fjármagnshafta.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_31/3[/embed]
Ekki nein samkeppni
Þessar séríslensku aðstæður gera algengustu röksemdina sem bankamenn nota til að réttlæta himinhá laun afar máttlitla. Hún er sú að fjármálamarkaðir landa heimsins séu samofnir og því þurfi fjármálafyrirtæki að vera hluti af alþjóðlegri launaþróun þar sem öll vötn renna til lokum til Wall Street í New York, City í London og víðlíka svæða þar sem stærstu fjármálafyrirtæki heimsins eru með starfsemi. Samkeppnishæfnisrökin eru veik af þessum fyrrnefndu sökum, svo ekki sé meira sagt.
Íslenskur fjármálamarkaður er í dag innilokaður í fjármagnshöftum og byggir tilveru sína að mestu á því að íslenskur almenningur getur ekkert annað gert en að vera með reikninga hjá hinum nýendurreistu íslensku bönkum. Auk þess er í gildi yfirlýsing um opinbera ábyrgð á innlánum, það er ríkisábyrgð á innlánunum, skuldum fjármálafyrirtækjanna. Í skjóli þessarar yfirlýsingar er allur fjármálageirinn á Íslandi, jafnvel þó það virðist augljóst öllum að hún er frekar haldlítil.
En fyrst yfirlýsingin er virk, og íslenskur almenningur þar með settur í viðbragðsstöðu ef allt fer á versta veg, þá skýtur það skökku við að launaskriðið sé langsamlega mest í fjármálageiranum. Það er óskiljanlegt raunar, því engar forsendur eru til þess. Mikið eigið fé í fjármálakerfinu og „góður“ árangur byggir á séríslenskum aðstæðum eftir allsherjarhrun viðskiptabankakerfis þjóðarinnar.
Annað sem er mikið umhugsunarefni er að um 25 til 30 prósent af öllum hagnaði fyrirtækja á Íslandi er hjá endurreistu bönkunum þremur, að því er Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, greindi frá í pistli á vefsíðu sinni 9. mars. Þar vitnaði hann til þess sem George Soros, fjárfestirinn þekkti, hefur gagnrýnt harðlega í Bretlandi, en þar er fjármálageirinn með um 35 prósent hagnaðar í hagkerfinu. Þetta finnst Soros alltof hátt hlutfall og að betra væri að láta hagnaðinn verða til í verðmætaskapandi starfsemi frekar en í fjármálaþjónustu við atvinnulífið.
Frosti er einn fárra þingmanna sem hefur lagt sig fram í því að vekja fólk til umhugsunar um hlutverk fjármálageirans í hagkerfinu og hvort það geti verið að það þurfi að breyta því verulega, með það að markmiði að draga úr vægi fjármálageirans, beinlínis minnka umfang hans og auka umfang framleiðslu, iðnaðar og nýsköpunar ýmis konar.
Launaþróunin í fjármálageiranum, við þær séríslensku aðstæður sem hér eru, ætti ekki að vera á skjön við þróun launa í öðrum geirum hvað varðar launahækkanir. Það eru engar málefnalegar ástæður fyrir slíku. Fjármálageirinn er í þjónustuhlutverki við atvinnulífið og mikilvægt að muna að hann skapar ekki ný verðmæti sem eru grundvöllur hagvaxtar og framgangs. Blekkingarheimurinn sem fjármálageirinn hefur skapað, í krafti þess að hann er of stór til að falla án þess að vandamálin lendi í fanginu á almenningi, verður að fá að reka sig á raunveruleikavegginn.