Eitt megineinkenni íbúaþróunar á Íslandi að undanförnu hefur verið mikill aðflutningur fólks frá útlöndum. Minna hefur verið gert úr því hvað margir þeirra sem eiga uppruna sinn hér á landi hafa valið að flytjast erlendis og búa þar. Ég gerði þessu nokkur skil í grein hér í Kjarnanum í október en að þessu sinni ætla ég að fjalla um aðra aðalbreytu íbúafjöldans; fæðingar. Hin almenna mynd af þróun þeirra er að fæðingartíðni hafi farið minnkandi og að það stefni í að þjóðinni fækki ef ekki kemur til áframhaldandi aðflutningur. Lítum nánar á þetta.
Það eru tveir mælikvarðar á fólksfjölgun vegna fæðinga og þeir segja örlítið mismunandi sögu. Annars vegar er fæðingartíðni á hverjum tíma en það er fjöldi barna sem fæðist á hverju ári sem hlutfall af fjölda kvenna á fæðingaraldri, sem venjulega er miðaður við 15-44 ára aldur, þótt fjöldi mæðra innan við 17 ára aldur sé orðinn hverfandi meðan algengara er að mæður séu eldri en 44 ára en áður var. Hinn mælikvarðinn er hversu mörg börn hver kona eignast á ævinni. Þar er talað um frjósemi. Þessar tölur eru að sjálfsögðu náskyldar en geta vikið hvor frá annarri t.d. ef konur eignast börn síðar á ævinni en áður var. Til þess að íbúatala lands eða landsvæðis þar sem búferlaflutningar hafa lítil eða engin áhrif á heildarmyndina haldist stöðug þarf hver kona að eignast rúmlega 2 börn að meðaltali en með því móti skilar hver kona annarri til næstu kynslóðar. Fjöldinn þarf að vera nokkuð hærri en 2 vegna þess að stúlkur eru rétt innan við helmingur fæddra barna.
Konur sem fæddust í upphafi síðustu aldar eignuðust að meðaltali 3,15 börn yfir ævina og sá fjöldi fór lækkandi þannig að tíu árum yngri konur áttu 2,6 börn að meðaltali. Eftir það fór frjósemin vaxandi, væntanlega með bættri afkomu og minni ungbarnadauða. Þær konur sem fæddust árið 1932 áttu að meðaltali 3,5 börn en eftir það hefur þeim börnum sem konur eignast að meðaltali yfir ævina farið nær stöðugt fækkandi. Mynd 1 sýnir hvernig þessi þróun hefur verið fyrir konur sem fæddust frá 1945 til ársins 1976. Fækkunin var nær stöðug fram til 1953 en eftir það kemur tímabil stöðugleika allt fram til 1960 en þá tekur frjósemi enn að minnka, nú væntanlega með tilkomu pillunnar og annarra getnaðarvarna. Síðustu árin sem myndin sýnir eru sveiflukenndari.
Annar mælikvarði sem notaður er við mat á fólksfjölgun er fæðingartíðni en það er sá fjöldi barna sem konur eignast á hverjum tíma. Hann tekur ekki tillit til þess að pör geta ákveðið að seinka barneignum miðað við það sem gilti áður. Fæðingartíðni kann þá að gefa til kynna að um verði að ræða færri börn á ævi hverrar konu sem svo gerist ef til vill ekki þegar upp er staðið. Það er einmitt þetta sem hefur verið að gerast bæði hér á landi og erlendis eins og sjá má á mynd 2.
Þessi mynd þarfnast nokkurrar skýringar. Hún sýnir meðalfjölda barna sem konur höfðu eignast þegar þær voru þrítugar og aftur þegar þær voru orðnar fertugar eftir fæðingarári þeirra. Konur sem fæddust árið 1957 voru að meðaltali búnar að eignast 1,8 börn þegar þær voru þrítugar en 2,5 börn þegar þær voru fertugar. Konur sem eru tíu árum yngri, fæddar 1967, höfðu eignast 1,6 börn að meðaltali þegar þær voru þrítugar en 2,2 börn þegar þær voru fertugar. Konur fæddar árið 1977 höfðu eignast færri börn þrítugar, 1,2 að meðaltali en þær höfðu eignast næstum jafn mörg börn fertugar og tíu árum eldri konur. Þarna sést seinkun fæðinga greinilega. Konur sem fæddar voru 1987 höfðu eignast 1,1 barn að meðaltali þegar þær voru þrítugar og 1,4 börn 34 ára gamlar 2021. Því stefnir í að þær muni eignast færri börn yfir ævina en konurnar sem eldri eru hvað sem síðar verður.
Á mynd 3 er sýnt hversu hátt hlutfall hvers árgangs kvenna hefur eignast a.m.k. eitt barn eftir aldri og hvenær þær voru fæddar. Myndin er frekari staðfesting á því hvernig konur eru að seinka því hvenær þær eignast sitt fyrsta barn en hún gefur einnig sterka vísbendingu um að hækkandi hlutfall kvenna eignast ekki neitt barn. Hjá konum sem fæddar voru árið 1957 (blá lína) var svo komið þegar þær voru um þrítugt að níu af hverjum tíu voru búnar að eignast a.m.k. eitt barn. Í þessum hópi er einungis um 5% sem ekki hefur eignast neitt barn. Hlutfallið sveiflast nokkuð vegna þess að það hefur fjölgað í hópnum á síðari árum vegna aðflutnings frá útlöndum. Það á einnig við um aðra fæðingarárganga sem hér eru sýndir. Af konum sem eru fæddar árið 1967 (rauð lína) mun um tíunda hver ekki eiga barn og hjá þeim sem fæddar eru 1977 (grá lína) lítur út fyrir að fimmta hver kona muni ekki eignast barn. Ekki er ótrúlegt að hlutfallið verði enn hærra fyrir konur sem fæddust árið 1987 (gul lína). Myndin sýnir einnig hvernig fyrstu fæðingu hefur seinkað á undanförnum árum. Það er nokkuð merkilegt að frjósemi og fæðingartíðni hafi ekki lækkað meira en raun ber vitni þegar horft er til þess að hækkandi hlutfall kvenna eignast ekki börn.
Eins og kunnugt er hafa mjög margir flutt hingað til lands á undanförnum árum. Þar á meðal eru margar konur sem nú eru eða hafa verið á svo kölluðum fæðingaraldri. Árið 1996 voru konur sem Hagstofan flokkar sem fyrstu eða annarrar kynslóðar innflytjendur á aldrinum 15-44 ára 3,6% af öllum konum á þessum aldri. Í upphafi árs 2022 var þetta hlutfall komið í 24,5% og hafði vaxið nær stöðugt allan þennan tíma. Þessar konur hafa hins vegar ekki eignast jafn mikið af börnum og jafnöldrur þeirra sem ekki eru innflytjendur. Þetta má sjá á mynd 4.
Hún sýnir að fæðingartíðni þeirra kvenna sem hingað hafa flutt hefur allan tímann sem gögn hafa verið birt um verið mun lægri en gildir um konur sem ekki eru innflytjendur. Það vekur athygli að fæðingartíðni innflytjenda fór hækkandi fram að hruni fjármálakerfisins en hefur farið lækkandi síðan, samhliða fjölgun í hópi innflytjendakvenna. Fæðingartíðni meðal kvenna sem ekki eru innflytjendur[2] hefur verið mun hærri en þeirra aðfluttu, tók þó dýfu eftir 2010, en hefur hækkað umtalsvert frá árinu 2018.
Fæðingartíðni og frjósemi á Íslandi eru með því hæsta í Evrópu en það er einungis í Frakklandi þar sem frjósemi er meiri en hér á landi að mati OECD. Þetta er þrátt fyrir það að hún sé lægri meðal innflytjenda en annarra íbúa landsins og innflytjendur séu hátt og hækkandi hlutfall íbúa hér á landi. Fjöldi barna með erlendan bakgrunn er orðinn mikil áskorun fyrir grunnskólakerfið og aðra þjónustu sveitarfélaganna en hún er þó um helmingi umfangsminni en hún væri ef fæðingartíðni innflytjenda væri sú sama og annarra íbúa. Til lengri tíma má reikna með að innflytjendur aðlagist samfélaginu að þessu leyti en þó eru engin merki þess að finna í gögnum Hagstofunnar varðandi fæðingartíðni.
Höfundur er skipulagsfræðingur.
[1] Um er að ræða fjölda barna innan við eins árs á móti fjölda kvenna 15-44 ára í upphafi viðkomanda árs. Því eiga tölur við um fæðingar árið á undan. Notast er við þessar tölur vegna þess að Hagstofa birtir ekki tölur um fæðingar eftir bakgrunni foreldra.
[2] Í þeim hópi eru einstaklingar þar sem annað foreldrið er erlent, hvort sem þeir fæðast á Íslandi eða ekki, ásamt þeim sem hafa engan erlendan bakgrunn, hvort sem þeir fæðast á Íslandi eða erlendis. Hið sama gildir um flokkun barna.