Líftæknifyritækið Ísteka, sem nýtir sjálft beint, skv. áreiðanlegum heimildum, blóðtökustað nr. 6, Skeggjastaði, í heimildamyndinni um blóðmeraníðið, hefur rift samningi við bændur vegna meðferðar þeirra á hrossum. Efla á nú eftirlit fyrirtækisins við blóðtöku mera og ýmislegt fleira, sem ógerlegt er þegar grannt er skoðað sbr. röksemdafærslu hér að neðan. Spyrja má: ætlar Ísteka þá að rifta samningi við sjálft sig eða er þetta, eins og margan grunar, eitt stórt leikrit, sett á svið, í tengslum við að mælt var fyrir frumvarpi um bann við blóðtöku í liðinni viku af Ingu Sæland formanni Flokks fólksins?
Framangreint kemur fram í tilkynningu frá Arnþóri Guðlaugssyni, framkvæmdastjóra Ísteka, sem dúndraði tilkynningu um betrumbætur á alla þingmenn og fjölmiðla um hádegisbilið 8. desember, korteri áður en mælt var fyrir frumvarpinu. Ástæðan er myndskeið, sem sýnt var nýlega á vegum AWF/TSB, alþjóðlegra dýraverndunarsamtaka, þar sem ólíðandi aðbúnaður og meðferð mera í blóðtöku var sýndur. Ekki er tilgreint í tilkynningunni hversu mörgum samningum var rift, en 119 bændur hafa átt í samstarfi við fyrirtækið um blóðtöku mera.
Allar blóðtökur myndaðar
„Þá ætlar fyrirtækið einnig að ráðast í umbætur á eftirliti með blóðgjöfum með aukinni fræðslu og þjálfun bænda og fjölga velferðareftirlitsmönnum við blóðgjafir. Þá verður framvegis myndavélaeftirlit með öllum blóðtökum. Með þessu vonast forsvarsmenn fyrirtækisins til þess að ólíðandi frávik varðandi dýravelferð í blóðgjöf hryssna á Íslandi endurtaki sig ekki.“ segir í tilkynningunni.
Um þetta er eftirfarandi að segja
- Blóðtakan ein, að mati Evrópuþingsins, er óverjandi gagnvart velferð meranna og verður sýnt fram á það fljótlega með grjóthörðum gögnum frá erlendum fræðimönnum.
- Vonlaust er að halda hálfvillt dýr í því skyni að smala þeim 7 sinnum á ári á stuttum tíma til blóðtöku án þess að beita aðferðum sem algerlega stangast á við lög um velferð dýra. Bætt fræðsla og þjálfun bænda breytir ekki eðli hálfvilltra blóðmera. Bændur þekkja flestir 1. gr. laga um velferð dýra og vita þetta.
- Bætt og jafnvel 100% eftirlit af hálfu MAST myndi gera þennan iðnað sjálfdauðan því eftilitsdýralæknir myndi sjá strax það sem fram kemur í heimildamyndinni og mun ekkert breytast. Eðli og viðbrögð hálfvilltra blóðmera með folöld breytist ekki í takti við draumkenndar hugmyndir Ísteka. Aukinheldur hefur MAST hvorki getu né fjármagn til að sinna þessu eftirliti. Hið fyrra hefur verið rökstutt áður, hinu síðara hefur MAST marg kvartað undan.
- Bættur aðbúnaður breytir engu, jafnvel þó hann yrði á pari við aðbúnað á bestu kúabúum landsins. Viðbrögð meranna yrðu nákvæmlega þau sömu sbr. rökstuðning hér á undan.
- Ekki er ólíklegt að þeir bændur, sem þurfa að lúta riftun gætu eignast himinháar skaðabótakröfur á hendur Ísteka ehf og ríkinu enda eftirlitið á ábyrgð beggja.
Höfundur er dýraréttarlögfræðingur.