Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN, sendu nýverið umsögn til Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrslu Landsnets vegna Blöndulínu 3, sem er 100 km 220 kV rafmagnslína frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Línulögnin er liður í styrkingu svokallaðrar byggðalínu hringinn í kringum landið og kemur næst á eftir Hólasandslínu sem tengir Akureyri austur í Kröfluvirkjun og verður tekin í gagnið á árinu. Ný og stærri Hólasandslína margfaldar þá orku sem hægt er að flytja inn á svæðið og ætti orku til atvinnuuppbyggingar á svæðinu því ekki að skorta á komandi árum og áratugum. Ágætt er að hafa í huga að rafmagnslína af þessari stærðargráðu er til þess fallin að þjóna iðnaði en ekki byggð og því má deila um hvort heitið byggðalína sé viðeigandi.
SUNN telur mörgu ábótavant í matsskýrslu Landsnets, þá helst greining á valkostum sem ákvarða hversu stóran hluta Blöndulínu 3 hægt er að leggja í jörðu. Skipulagsstofnun hefur gert kröfu um ítarlega umfjöllun um þær tæknilegu takmarkanir sem stýra því hversu langar jarðstrengslagnir eru mögulegar á leiðinni. Eitt af skilyrðum Skipulagsstofnunar er að Landsnet kanni „hvaða áhrif það kann að hafa á vegalengd þá sem hægt væri að leggja jarðstrengi á línuleið Blöndulínu 3 ef kerfið á Norður- og Austurlandi væri tengt við sterka kerfið á Suðurlandi”, eins og segir orðrétt í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun 29. desember 2020.
Ofangreind skilyrði um mat á lengd jarðstrengja á Blöndulínu 3 í ljósi mögulegra tengsla milli línukerfis Norður- og Austurlands annars vegar og Suðurlands hins vegar er að mati SUNN ósvarað í núverandi umhverfismatsskýrslu. Gera samtökin þá kröfu að Landsnet fari að kröfum Skipulagsstofnunar eins og lög gera ráð fyrir. Fleira mætti nefna sem samtökin telja að sé ábótavant í skýrslunni miðað við skilyrði Skipulagsstofnunar en það verður ekki tíundað hér. Umsögnin er aðgengileg á heimasíðu samtakanna www.sunn.is.
Í umfjöllun Kjarnans um umsögn SUNN um Blöndulínu 3 sem birtist 5. maí síðastliðinn segir í fyrirsögn að SUNN leggi til jarðstreng um Sprengisand. Það er ekki svo. SUNN gerir þá einföldu kröfu að Landsnet fari að skilyrðum Skipulagsstofnunar og reikni út hvaða áhrif slík tenging hefur á kerfið í heild og möguleika til jarðstrengslagna á leið Blöndulínu 3, og á aðrar línuleiðir ef því er að skipta. Það er sjálfsögð krafa að Landsnet fari að skilyrðum Skipulagsstofnunar þegar um svo umfangsmikla framkvæmd er að ræða. SUNN telur mikilvægt að gerð sé grein fyrir þessu á skilmerkilegan hátt, upplýsinga aflað og þær gerðar aðgengilegar, áður en lengra er haldið. Sérstaklega í ljósi þess að slík tenging milli landshluta er ráðgerð skv. kerfisáætlun.
Höfundar sitja í stjórn SUNN.