Lærdómurinn af klúðri borgarfulltrúa meirihlutans í Reykjavík, þegar kemur að vanhugsaðri tillögu um að sniðganga vörur frá Ísrael, er ekki endilega bara sá að borgin eigi ekki að blanda sér í utanríkismál Íslands með yfirborðskenndu og órökstuddu orðalagi tillagna, heldur frekar að við lifum í alþjóðavæddum heimi þar sem ákvarðanir stjórnmálamanna hafa bein áhrif á daglegt líf.
Eins og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur bent á sjálfur þá segir hann tillöguna ekki hafa verið nægilega vel undirbúna og íhugaða. Það er óhætt að segja að það sé rétt mat hjá Degi.
Gyðingasamfélagið hefur risið upp víða um heim, samkvæmt fréttum í það minnsta, og mótmælt þessari tillögu með því að taka íslenskar vörur úr búðum og afboða ferðir hingað til lands. Samt er þetta enn sem komið er lítið brot af heildinni, og enn má finna vatn frá Icelandic Glacial, fyrirtæki Jóns Ólafssonar, til sölu í New York (Kjarninn kannaði það áðan!), þrátt fyrir að Jón hafi fundið skýrt fyrir neikvæðum áhrifum af flumbrugangi meirihlutans.
Í bakherberginu er fólk almennt sammála um að viðskiptabönn og viðskiptahömlur séu arfavitlaus leið til að mótmæla pólítískri stefnu eða mannréttindabrotum, þó reyndar séu á því undantekningar. Einkum og sér í lagi þegar alþjóðasamfélagið stendur saman að ákvörðunum með það að markmiði að vernda heimsfrið.
En yfirleitt bitna viðskiptabönn og hömlur beint á almenningi sem hefur ekkert með deilur eða ákvarðanir stjórnmálamanna að gera.
Það má líka ekki gleyma því að ákvarðanir stjórnmálamanna á Íslandi hafa á hverjum degi áhrif á viðskiptamöguleika íslenskra fyrirtækja, ekki síst í Bandaríkjunum. Á þetta hefur Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra bent, og nefnt hvalveiðar Íslendingar sérstaklega í því samhengi og sagt þær „standa í vegi fyrir ákveðnum hlutum“.
Það er ekki alltaf að auðvelt meðhöndla mál þar sem alþjóðlegir hagsmunir eru annars vegar. Líklega er það eins og með margt annað; það er ekki hægt að gera öllum til geðs. En borgarfulltrúar meirihlutans í Reykjavík hljóta að sjá það núna, að þeir þurfa að passa sig þegar þeir gerast svo djarfir að blanda starfi sínu fyrir borgarbúa inn í flóknar og hatrammar deilur á alþjóðavettvangi.