Borgríki eða landsríki?

14520556196-d8a5c5e5a3-z.jpg
Auglýsing

Utan höfuðborgarsvæðisins búa nú um hundrað þúsund manns og hafa aldrei verið fleiri frá því land byggðist. Menntunarstig um land allt hefur aldrei verið hærra, fjölbreytni atvinnulífs aldrei verið meiri og samgöngur hafa aldrei verið betri. Þá hefur tæknibyltingin skapað stórkostlega möguleika í samskiptum fólks og aðgangi að upplýsingum sem hefði verið óhugsandi fyrir örfáum árum.

Þóroddur mynd Þóroddur Bjarnason.

Þrátt fyrir þessa  stórsókn landsbyggðanna er íslenska ríkið að mörgu leyti skipulagt samkvæmt þeirri hugmyndafræði nítjándu aldarinnar að fimmtíu þúsund manna þjóð geti í besta falli byggt upp einn byggðakjarna fyrir landið allt. Sú útbreidda skoðun á höfuðborgarsvæðinu að opinber starfsemi eigi fortakslaust að vera staðsett þar sem meirihluti þjóðarinnar býr er angi af þessum úrelta hugsunarhætti.

Auglýsing

Það er sönnu nær að opinber þjónusta ætti að vera sem næst þeim sem henni njóta, hvar á landinu sem þeir búa. Störf á vegum ríkissins eru jafnframt mikilvægur þáttur í fjölbreyttum vinnumarkaði, ekki síður en störf á vegum einkaaðila. Með sama hætti og ríkið hvetur einkafyrirtæki til starfsemi um allt land er því eðlilegt að samþjöppun starfsemi ríkisins á höfuðborgarsvæðinu séu endurskoðuð með reglubundnum hætti.

Fjölbreytni byggðanna


Ævintýralegur vöxtur Reykjavíkur og síðar höfuðborgarsvæðisins hófst með flutningi opinberrar starfsemi til þorpsins sem taldi um þrjú hundruð íbúa í upphafi nítjándu aldar. Með samþjöppun stjórnsýslu, menntunar, efnahagslífs og menningar tókst að umbreyta þorpinu í borg og landinu öllu í fjölbreytt nútímasamfélag. Tveimur öldum síðar getum við sannarlega verið stolt af litlu borginni okkar við sundin.

Landsbyggðirnar í seilingarfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu hafa einnig vaxið og telja rúmlega fimmtíu þúsund íbúa á þremur vinnusóknarsvæðum. Akureyringar eru um helmingur 36 þúsund íbúa Norðurlands en Akureyri og aðrir norðlenskir þéttbýlisstaðir styðja fjölda smærri byggðakjarna og sveitasamfélaga. Íbúar Austurlands eru um tíu þúsund talsins, en um 80% þeirra búa á atvinnu- og þjónustusvæði Mið-Austurlands. Þannig mætti áfram telja vaxtarbrodda landsbyggðanna.

Alvarlegur byggðavandi er að mestu takmarkaður við lítinn hluta þjóðarinnar í sveitum og smærri sjávarbyggðum. Tilhneiging fjölmiðlamanna og álitsgjafa á höfuðborgarsvæðinu til að álíta alvarlegan vanda brothættra byggðarlaga dæmigerðan fyrir „landsbyggðina“ hefur hins vegar drepið markvissri umræðu um byggðamál á dreif og fyrir vikið virðast aðgerðir til uppbyggingar ólíkra svæða oft vera illa ígrundaðar eða jafnvel óskiljanlegar.

Ódýrt er ekki alltaf hagkvæmt


Það kann að vera ódýrt fyrir ríkissjóð að þjappa opinberri þjónustu saman á einum stað, en sá sparnaður veltir ferðakostnaði, tímasóun og launatapi yfir á notendur þjónustunnar. Margvísleg þjónusta í heilbrigðismálum, félagsþjónustu, menntun og menningu þarf að vera eins nálægt notendum hennar og mögulegt er.  Þar gegna stærri þéttbýliskjarnar og greiðar samgöngur í hverjum landshluta lykilhlutverki.

Þess ber þó að gæta þess að eftir því sem þjónusta sem almenningur sækir er sérhæfðari krefst hún stærra upptökusvæðis og öflugri vinnumarkaðar. Það er því óhjákvæmilegt að almenningur geti aðeins sótt mjög sérhæfða opinbera þjónustu á einn stað á landinu. Mjög sérhæfða þjónustu ætti að veita þar sem mannfjöldinn er mestur og aðrir landsmenn að njóta stuðnings til að sækja hana þangað. Um það ætti enginn ágreiningur að vera.

Margvísleg fjarþjónusta, stjórnsýsla og  eftirlitsstörf krefjast hins vegar ekki stöðugra persónulegra samskipta við almenning. Jafnframt fer stjórnsýsluleg þörf fyrir að líkamar embættismanna geti snerst á hverjum degi sífellt minnkandi. Raunar leyfir tæknin nú þegar landfræðilega dreifða stjórnsýslu þótt þess verði e.t.v. ekki enn mikið vart í samskiptum stjórnsýslu ríkisins í Reykjavík við íbúa utan höfuðborgarsvæðisins.  Sú tækniþróun mun enn skapa nýja möguleika á næstu árum.

Engu að síður verður að taka tillit til þess að sérhæfð störf krefjast fjölbreytts vinnumarkaðar, ekki síst þar sem makar sérfræðinga eru oft einnig sérfræðimenntaðir. Ýmsar sérhæfðar opinberar stofnanir gætu þó eflaust sinnt hlutverki sínu með prýði á stærri vinnusóknarsvæðum landsins. Á fámennari svæðum er í mörgum tilvikum vænlegra að huga að stofnun útibúa sem tengjast svæðunum sérstaklega eða möguleikum einstaklinga til starfa án staðsetningar.

Byggðastefna fyrir alla landsmenn


Það er löngu orðið tímabært að endurskipuleggja starfsemi ríkisins í takt við þær samfélags- og tæknibreytingar sem orðið hafa og munu verða á næstu árum. Þannig eru tvö hundruð þúsund íbúar höfuðborgarsvæðisins fullfærir um að sjá um ýmis mál sín sjálfir og engin ástæða til að ríkið og sveitarfélögin byggi þar upp tvöfalda þjónustu. Reykjavíkurborg eða Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gætu því til dæmis tekið við margvíslegum verkefnum sem nú eru á hendi ríkisins.

Í kjölfar fólksfjölgunar, hækkandi menntunarstigs, bættra samgangna og tæknibyltingar í samskiptum og upplýsingum eru jafnframt margvíslegir möguleikar á landfræðilega dreifðari stjórnsýslu ríkisins en nú tíðkast. Með sama hætti eru íbúar landsbyggðanna nú í stakk búnir til að taka að sér verkefni sem hefðu verið óhugsandi fyrir nokkrum áratugum, hvað þá við upphaf þéttbýlisvæðingar í upphafi nítjándu aldar. Í því felst mikið sóknarfæri á tímum þegar þörf á vinnuafli í frumframleiðslunni fer sífellt minnkandi og menntun ungs fólks fer vaxandi.

Flutningur eða staðsetning nýrra opinberra stofnana, stofnun útibúa, störf án staðsetningar og flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga eða landshlutasamtaka þeirra eru mismunandi leiðir að því markmiði að aðlaga starfsemi hins opinbera að þörfum allra landsmanna. Þær hafa kosti og galla sem þarf að meta hverju sinni.

Skynsamt fólk getur haft ólíkar skoðanir á skipulagi opinberrar starfsemi en málefnaleg og hófstillt umræða um markmið og leiðir hlýtur að vera vænlegri til árangurs en gleiðgosalegar yfirlýsingar um kjördæmapot og spillingu landsbyggðanna ellegar ofríki meirihlutans á höfuðborgarsvæðinu.

 

Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri og formaður stjórnar Byggðastofnunar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit
None