Ég heiti Gunnar Baldvin og er kandídat á Landspítalanum. Það mætti kannski kalla mig „verkfallskandídat“ miðað við hvað Morgunblaðið hefur birt oft myndir af mér (saman með nokkrum öðrum) s.l. hálft ár.
Umræddar myndir voru teknar á Bráðamóttökunni í læknaverkfallinu, að mér og öðrum forspurðum, og hefur síðan verið a.m.k. tvisvar á forsíðu Moggans, nokkrum sinnum innan í Mogganum og oft á mbl.is. Ég bað ekki um að vera einhver verkfallsstrákur, forsíðufrétt eða andlit heilbrigðisstétta í verkfalli. Svo þegar Mogginn setti mig núna aftur á forsíðu sína nýlega, í núverandi verkföllum, ákvað ég að skrifa nokkur orð um verkföllin.
Ég styð verkfallsaðgerðir heilbrigðisstétta, því þessar stéttir eru undirstaða þess að hægt sé að starfrækja öflugt nútíma heilbrigðiskerfi til frambúðar á Íslandi. Án þessa vel menntaða, vel þjálfaða og hæfa starfsfólks er ekkert heilbrigðiskerfi. Ég trúi ekki öðru en að mikilvægi þeirra, í lífi okkar allra, sé næg ástæða til þess að hækka laun þeirra og leysa þann alvarlega vanda sem við stöndum frammi fyrir.
Sýn mín á vandann
Ég vann á Skurðsviði Landspítala þegar læknaverkfallið hófst. Þaðan fluttist ég á Bráðamóttökunni í nóvember. Álagið var mjög mikið fram yfir áramót, þegar ég fluttist yfir á Lyflækningasvið Landspítala. Þar hafði verkfallið líka sín áhrif, en sem betur fer leystist það í janúar þegar inflúensutíminn (mesti álagstími ársins) var hafinn.
Ég, aðrir starfsmenn og auðvitað skjólstæðingarnir, fundum vel fyrir læknaverkfallinu á Bráðamóttökunni, enda ekki annað fyrir marga að leita læknis á meðan á læknaverkfallinu stóð. Einhvern veginn hafðist þetta þó, en auðvitað minnkaði og tafðist þjónusta, biðin var löng fyrir sjúklinga, og öll rúm, á stofum jafnt sem göngum, upptekin. Við gerðum allt til að tryggja öryggi, en það gefur auga leið að í slíku ástandi getur það verið erfitt.
Kerfislægur vandi
Sem betur fer leystist læknaverkfallið, en (kerfis)vandinn var (og er) ekki enn leystur, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Og nú er komið annað verkfall, eða kannski réttara sagt, verkföll. Nú hefur verkfall geislafræðinga, lífeindafræðinga, ljósmæðra og náttúrufræðinga staðið yfir í nokkrar vikur og ekki útlit fyrir að það leysist í bráð. Þetta eru þær stéttir, sem gera læknum kleift að sinna sjúklingum sínum, þannig það hefur verið ansi erfitt undanfarið að stunda nútíma læknisfræði á Landspítalanum.
Það var erfitt að vera á Bráðamóttökunni í læknaverkfallinu, en nú er það mögulega erfiðara, því rannsóknir tefjast og fást jafnvel ekki nema í ýtrustu neyð. Þetta er líka erfitt á Lyflækningasviði, þar sem nánast allt byggir á rannsóknum til frekari greiningar, eftirlits og meðhöndlunar. Rannsóknir fást ekki fyrr en á morgun eða hinn, nema auðvitað það allra nauðsynlegasta. Þetta tefur uppvinnslu, meðferð, eftirlit og útskriftir; og ekki styttast biðlistarnir.
Svo ég vitni í kollega, þá er ekki hægt að starfrækja nútíma bráðasjúkrahús án blóðrannsókna. Það er líka erfitt að reka bráðamóttöku án myndgreiningar, hvað þá sjúkrahús án meinafræði, geislameðferðar og fæðingarþjónustu.
Læknaverkfallið var slæmt. Það er möguleiki að þetta verkfall verði verra (og jafnvel lengra). Það er daglegt, ótímabundið, og hefur þau áhrif að ekki er hægt að stunda nútíma læknisfræði eins og við þekkjum hana. Þessi læknisfræði byggir að miklu leiti á samvinnu fagstétta, einkum þeirra sem sjá um alla rannsóknarvinnuna þ.e. lífeindafræðinga, geislafræðinga og náttúrufræðinga; að ógleymdum ljósmæðrum sem sinna fósturskimunum, mæðraeftirliti, taka á móti börnum og sinna nýburum. Ég get vart til þess hugsað hvernig fer fyrir heilbrigðiskerfinu fari fleiri stéttir þess í verkfall, sem gæti gerst í lok maí ef samningar nást ekki við hjúkrunarfræðinga, en þær hafa þegar samþykkt verkfallsaðgerðir.
Bráðveikt kerfi
Kerfið hefur glímt við langvinn veikindi í mörg ár og nú er kerfið bráðveikt og óstöðugt.
Stöðugt kerfi og stöðugt samfélag þarf að vera heilbrigt. Heilbrigt samfélag byggist á góðri og stöðugri heilbrigðisþjónustu. Slíkt heilbrigðiskerfi er samansett úr fjölmörgum stéttum, sem verða að vinna saman, og þær vilja vinna saman! Þess vegna verður að leysa úr núverandi vanda eins fljótt og hægt er, áður en samfélagið veikist þannig að ekki verður aftur snúið. Það er einmitt það sem er að gerast núna, sérstaklega á Landspítalanum. Þar ríkir ekki stöðugleiki, líkt og krabbameinslæknar og forstjóri hafa þegar bent á. Þar ríkir hættuástand!
Stöðugleiki?
Stjórnvöldum virðist umhugað um stöðugleika og því hlýtur það að vera kappsmál stjórnvalda að lækna óstöðugt og veikt heilbrigðiskerfi, til þess að viðhalda heilbrigðu og stöðugu samfélagi. Hins vegar virðist stöðugleiki stjórnvalda eingöngu vera af efnahagslegum toga; því miður. Og því miður fara sjúklingar, sjúkdómar, slys og veikindi ekki í verkfall, heldur versna og geta valdið ómældum skaða ef ekki er gripið inn í. Í núverandi ástandi óttast ég að skaðinn geti orðið mikill ef ekkert verður að gert sem allra fyrst.
Það þarf að leysa núverandi vanda fljótt og örugglega, því ef hann dregst á langinn, gæti komið til uppsagna og starfsfólk farið að huga að því að flytja utan. Ennfremur gæti komið til verkfalla fleiri heilbrigðisstétta. Því þarf einnig að horfa til þeirra stétta, sem ekki eru í verkfalli, en gæti komið til verkfalla hjá, þ.e. hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, ræstitæknum, vaktmönnum, starfsfólki í eldhúsum og þvottahúsum, og fleiri stéttum í heilbrigðiskerfinu. Þessar stéttir halda heilbrigðiskerfinu gangandi og ef þær fara í verkfall, þá getum við lokað spítölum landsins og vonað heitt og innilega að enginn veikist alvarlega.
Höfundur er læknakandídat á Landsspítalanum.