Snæbjörn Brynjarsson rithöfundur.
Það er ákveðin hópur fólks í íslenska hægrinu sem ég skrifa til. Hópur sem mætti kalla reiða fólkið. Það er fólkinu sem finnst óbærilegt að hugsa til þess að ekki verði allt, alltaf, allan tímann eftir vilja þess farið. Ég vona fyrir hönd nánustu fjölskyldumeðlima og vina þeirra, að það sé auðveldara að vera í sambúð með þeim heldur en að mynda samfélag. Pólitíkin virðist allavega ekki auðveld með þeim. Enda sjá þeir stjórnmálin einungis sem átakaflöt án þess að koma auga á samstarfsmöguleika. Allt endurmat og sjálfsgagnrýni er séð sem sorgarferli og öll utanaðkomandi gagnrýni ósvífin árás. Jafnvel samsæri.
Ég vona fyrir hönd nánustu fjölskyldumeðlima og vina þeirra, að það sé auðveldara að vera í sambúð með þeim heldur en að mynda samfélag.
Maður ætti aldrei að mæta í byssubardaga einungis vopnaður hníf. Þetta er eflaust gott ráð sé maður á leið í byssubardaga, og ef eitthvað er að marka fréttir og yfirlýsingar stjórnmálafólks má gera ráð fyrir mikilli fjölgun á byssubardögum (Fólk sem bendir á lækkun glæpatíðni með tölfræðigögnum er bara naívt og fylgist ekki með útlöndum). En mig langar ekki til að skrifa til reiða fólksins um það. Sem betur fer fara stjórnmálaátök ekki fram með byssum á Íslandi ennþá, heldur með umræðu og átökum hugmynda. Það sem mig langar að skrifa til íslenska hægrisins er bréf um hugmyndafræðilega fátækt þess, skortinn á nýjum lausnum og þröngsýnina sem einkennir það.
Það var hrun. Já, ég veit að í íslenska hægrinu er önnur túlkun á þeim atburðum, en, lesið nú samt. Það getur verið að íslenska hrunið hafi orsakast út af séríslensku eftirlitsleysi, spillingu og klíkuskap og svo getum við bara kennt kauphallarhruninu bandaríska um þetta allt saman. Margir íslenskir hægrimenn hampa seinni skýringunni og tala um efnahagsleg fárviðri án þess að hugsa það fyllilega til enda.
Jafnvel ef við gefum okkur að íslenskt stjórnmála og bankafólk hafi staðið sig með prýði en ekki veðrað erlendan storm þá er hugmyndafræðilega krísan enn til staðar.
Jafnvel ef við gefum okkur að íslenskt stjórnmála og bankafólk hafi staðið sig með prýði en ekki veðrað erlendan storm þá er hugmyndafræðilega krísan enn til staðar. Enda var fyrirmyndin sótt til Bandaríkjanna og hugmynda þaðan um fáar reglugerðir og lága skatta sem nauðsynlegt var að koma á til að fyrirmyndarríki frjálshyggjunar gæti orðið að veruleika. Bandarísk hægristefna hefur haft mikil áhrif á seinustu árum. Skyndilega sér maður trúarlega viðburði í boði íslenska hægrisins, bænastundir með fyrrverandi forsætisráðherra þar sem beðið er fyrir kvótakerfinu og áður óþekktan ákafa fyrir vopnavæðingu. Jafnvel tungutakið virðist óíslenskt. Talað er um „attack‟ á skóla á Íslandi.
Nei, þingmaðurinn sem talaði um „attack‟ var ekki genginn í Attac-samtökin heldur að lýsa því hvernig hann sæi fyrir sér íslenskan lögregluþjón stökkva úr bíl og bjarga skólakrökkum frá morðóðum brjálæðingi (Eins og riflasamtökin bandarísku, NRA, myndu segja: It takes a good guy with a gun to stop a bad guy with a gun).
Attack er frekar slappt nýyrði, en honum var vorkunn því það var ekkert íslenskt orð til yfir „school-shooting‟ (Þótt að skóla-skotárás myndi kannski vera þjálla á móðurmáli okkar). Ástæðan fyrir þessum skorti er einfaldlega sú að það lýsir ekki íslenskum raunveruleika eða aðstæðum. Mig grunar að ástæða þess að þingmaðurinn greip til þessa dæmis til að réttlæta stóra byssu-innflutninginn hafi ekki verið sú að hann væri endilega rökþrota, heldur frekar sá að hugmyndafræði hans og skoðanir hans mótast nærri algerlega á enskri tungu.
Mér var hugsað til þess að nærri öll dellan sem Hannes Hólmsteinn þýðir yfir á íslensku er framleidd af bandarískum hugsanaveitum, reknum af bandarískum milljarðamæringum.
Mér var hugsað til þess að formaður Sjálfstæðisflokksins og annað ráðherraefni hefðu skroppið rétt fyrir síðustu kosningar á landsfund Repúblikanaflokksins. Mér var hugsað til þess að nærri öll dellan sem Hannes Hólmsteinn þýðir yfir á íslensku er framleidd af bandarískum hugsanaveitum, reknum af bandarískum milljarðamæringum. Mér var hugsað til að uppáhaldsbækur ykkar eru oft á tíðum einhver af sjálfshjálparbókum Ayn Rand.
Það eru reyndar sláandi líkindi milli því hvernig Repúblikanar hafa hagað sér á valdatíð Obama og hvernig Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn höguðu sér meðan Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra. Í báðum tilvikum voru málþóf, samsæriskenningar og öllum tilraunum til málamiðlana hafnað. Í báðum tilvikum var litið á sigurvegara kosningana sem einhvern veginn óréttmæta. Í tilfelli Obama blandaðist ógeðfelldur rasismi inn í kenningar um afrískan fæðingarstað en á Íslandi var vinstristjórnin álitin óásættanlegt frávik. Eitthvað sem gerðist einungis af því látið var undan ósvífnum anarkistum (Með vænu dassi af kvenfyrirlitningu).
Svo virðist sem að þið lítið svo á að ekki hafi verið gengið nógu langt. Þið virðist líta á að í þetta sinn verði að vera hægrisinnaðri og samheldnari. En samt virðist þið ekki einu sinni fyllilega getað svarað þeirri spurningu hvað það þýði að vera hægrisinnaður. Sum ykkar virðast líta í átt til þjóðernishyggjunnar og svokallaðra „kristilegra gilda.‟ til að fylla upp í hugmyndafræðilegt tóm sitt, mjög í anda bandaríska hægrisins.
Ég skal alveg játa að ég væri til í að sjá Ísland færa sig til frjálsræðis og „borgaralegra gilda‟ að ýmsu leyti. Ég hef ekkert á móti bjór í búðum og held að einokun mjólkursamsölunnar sé af hinu illa. En ég velti fyrir mér hvaða fleiri hugmyndir þið hafið aðrar en að taka vínið úr vínbúðinni og stilla upp við hliðina á mjólkinni?
Kannski geta fulltrúar frjálsræðis og borgaralegra gilda litið víðar en bara til Ameríku? Til hægristjórna í Þýskalandi eða Norðurlöndunum? Kannski samtaka og hugsanaveita innan Evrópu eða jafnvel Asíu? Eða? Ég veit ekki, þetta er ykkar naflaskoðun.
Það hefur stundum verið sagt um íslenska vinstrið að það mæti í byssubardagann aðeins með hníf. Að það leyfi hægrinu að skilgreina kosningarnar og nái seint að bregðast við útspilum þess. Annað sem hefur orsakað að hægri flokkarnir hafa mótað íslenskt samfélag að mestu leyti er klofningur vinstri manna, ótal vinstriflokkar hafa sprottið upp í gegnum tíðina en fáir hægri flokkar hafa skotið rótum. Akornin falla ekki langt frá eik Sjálfstæðisflokksins, þau deyja í skugga hans.
En að sigra kosningar forðar manni ekki úr hugmyndafræðilegri krísu. Ef það er eitthvað sem vinstri menn eru góðir í þá er það að vera ósammála, en það er eins og litrófið verði grárra hægra megin. Hvaðan koma hugmyndir ykkar? Hvar er endurmatið? Hvar er viljinn til að koma til móts við önnur sjónarmið?
Það gengur allavega ekki mikið lengur að vera reiði maðurinn. Það er hrikalega erfitt að vera í samfélagi með honum, hvað þá sambúð.
Það gengur allavega ekki mikið lengur að vera reiði maðurinn. Það er hrikalega erfitt að vera í samfélagi með honum, hvað þá sambúð. Ef við eigum að búa á Íslandi saman þá þurfum við að fara ræða málin og hlusta á hvort annað, og ef einn aðilinn gefur undan þá þarf hinn að gera það líka. Kannski komumst við þannig hjá einhverjum hörmungum, annarri búsáhaldabyltingu þar sem illa sofnar lögreglur mæta bitrum mótmælendum og hríðskotavopn rífa sár sem ómögulegt verður að græða.