Afstaða Hjalta Snæs Ægissonar til útgáfumála Braga Ólafssonar var frá upphafi byggð á sandi. Því er fagnaðarefni að hann dregur í nýjustu grein sinni allar fullyrðingar sínar til baka, bakkar eins og bakkað verður. Gott mál. Batnandi manni er best að lifa. Maðurinn sem sagði: „Því skyldi ríkissjóður veita fé til listamanna sem skapa eingöngu fyrir lokaða elítu?“ segir nú: „Enginn hefur óskað eftir því að Bragi Ólafsson verði sviptur ritlaunum fyrir Bögglapóststofuna og að halda öðru eins fram er markleysa.“ Maðurinn sem gaf í skyn að Bragi hefði sett „verðmiða á listamannsheiður sinn“ segir nú að „rithöfundum, líkt og öðrum listamönnum, [sé] fullfrjálst að selja verk sín“ – að vísu bara þeim sem Hjalti hefur velþóknun á. Og reyndar hótar Hjalti því í framhjáhlaupi að hætta að verja ritlaunakerfið ef rithöfundar ætli „upp til hópa” að birta verk með sama hætti og Bragi Ólafsson gerir í Bögglapóststofunni. Hvað þýðir það í raun? Jú, rithöfundar skulu halda sig á þröngt sniðinni mottu um hvernig bókmenntum skuli miðlað en fyrirgera ella stuðningi í baráttunni um ritlaunin. Og Hjalti dregur fokkmerkið sitt meira að segja niður, nú hefur hann allt í einu fulla trú á að rithöfundurinn Bragi Ólafsson, sem átti ekki að hafa sagt neitt markvert í tíu ár, eigi fleiri tromp uppi í erminni.
Gott og vel. Á undanhaldinu saltar Hjalti Snær í mig, sem honum er guðvelkomið að gera, en nær þar markverðum hæðum í ósamkvæmni. Fyrst segist hann hafa skrifað stuðandi grein til að hrista upp í umræðunni, síðan dregur hann þá röngu ályktun að ég hafi í grein minni verið að skamma hann fyrir „öfgafulla yfirlýsingagleði”, finnur síðan til nokkuð mörg dæmi þar sem honum finnst ég hafa gert mig sekan um slíkt hið sama. Upptalningunni (hún er púra retórík og erratísk í ofanálag) er ætlað að sýna fram á að ekki sé neitt mark á mér takandi – en um leið grefur Hjalti undan eigin grein sem, samkvæmt honum sjálfum, er skrifuð með sömu aðferðafræði eða stílmeðulum.
Staðreyndin er sú að ég var ekki að skamma Hjalta Snæ fyrir að vera með kjaft. Ég veit ekki við hverju háskólakennari býst þegar hann sakar rithöfund opinberlega um að hafa haft almenning að féþúfu í tíu ár á listamannalaunum ef ekki að fá eitthvað svipað í hausinn. Ef maður sakar rithöfund um að vera taglhnýtingur auðkýfinga og dregur svo alla rithöfunda (eða alla honum tengda) í eina meðvirka kapítalíska kví getur maður barasta hreint ekki kvartað yfir að fá nákvæmlega það sama til baka. Það er enda í meira lagi skrýtið að Hjalti Snær sé að skrifa um Braga ef hann hefur ekki haft áhuga á bókum hans svona lengi.
Kjarni þessa litla og ómerkilega máls er útgáfurétturinn, réttur rithöfundar til að haga útgáfu eigin verka með þeim hætti sem honum sýnist. Það er tómt mál að tala um útilokun í því samhengi. Ef rithöfundur vill gefa út markpóst gerir hann það. Vilji hann gefa út vefsíðu sem hverfur gerir hann það. Ekkert bókmenntaeftirlit er til. Álíti sig einhver hafa óskorað og óvefengjanlegt forskriftar- og kennivald í þessum efnum er sá hinn sami á villigötum og verðskuldar rækilegt spark.
Kjarni þessa litla og ómerkilega máls er útgáfurétturinn, réttur rithöfundar til að haga útgáfu eigin verka með þeim hætti sem honum sýnist. Það er tómt mál að tala um útilokun í því samhengi. Ef rithöfundur vill gefa út markpóst gerir hann það. Vilji hann gefa út vefsíðu sem hverfur gerir hann það. Ekkert bókmenntaeftirlit er til. Álíti sig einhver hafa óskorað og óvefengjanlegt forskriftar- og kennivald í þessum efnum er sá hinn sami á villigötum og verðskuldar rækilegt spark.
Fyrir 15 árum mátti fá í örfáum bókabúðum ljóðabækur sem José Saramago gaf út í 300 eintökum hjá obskúr forlögum og ég veit ekki til þess að hafi ratað í hans opinberu útgáfusögu eða á bókasöfn (fremur en stór hluti útgefinna verka á Spáni kemst nokkru sinni á neitt bókasafn). Þannig hefur hann viljað hafa það, kannski hefur hann litið svo á að þessar bækur ættu bara erindi við takmarkaðan hóp í Portúgal og Galisíu og kannski hefur hann litið svo á að hann væri hreinlega ekki nógu gott ljóðskáld. Að saka Saramago um að bregðast „samfélagslegri ábyrgð“ sinni með því að velja þessa útgáfuleið væri hreint dellumakkerí.
Og svo er það hin leiðin, mikil útbreiðsla en ekkert nafn: Fjöldi íslenskra rithöfunda og fræðimanna hefur skrifað fróðleikstexta um íslenskt mál og bókmenntir utan á mjólkurfernur, texta með mikla útbreiðslu; samt veit enginn hver skrifaði þá því höfundarnir ráða því hvort þeir telja textana með höfundarverki sínu eða ekki, hvort þeir telji þetta merkileg fræði eða skáldskap, telji stöffið sitt ekki barasta réttilega eiga heima í nafnlausu birtingarumhverfi. Að ræða útilokun hluta höfundarverka í því samhengi myndi hljóma eins og ég veit ekki hvað, sporhundur með ofnæmi. Vilji einhver grennslast fyrir um efnið gæti það auðvitað verið skemmtilegur leikur en hitt væri hrein þvæla.
Sama má segja um höfund sem kysi að gefa út litla bók í tíu eintökum fyrir vini sína. Þess eru mörg dæmi. Fólk stendur í allskonar smáútgáfum fyrir hina og þessa.
Mér finnst raunar ýmislegt næsta ámælislaust af vandlætingarefnum Hjalta, svo sem að Björgólfur Guðmundsson hafi haldið afmæli Einars Más Guðmundssonar (Hjalti heykist á að nefna fólk með nafni í grein sinni). Þetta hefur margur útgefandi gert fyrr og síðar. Sama dag og síðari grein Hjalta birtist voru afhentir við Hugvísindasvið doktorsnámsstyrkir sem ég sá ekki betur en að væru frá Eimskipum.
Að selja Gamma verk, drög að leikverki, er það góð hugmynd eða ekki? Ég veit það ekki, en það er svínslega ósanngjarnt og hreinlega blindbillegt að gera rithöfundinn átómatískt að tákni fyrir spillingu, ég tala nú ekki um ef sá sem slíka gagnrýni reifar hefur lengi verið áhugalaus um höfundinn, fyrir smekks sakir. Engin leið er að taka slíku alvarlega eða ansa öðruvísi en með fyllsta þótta og kalla hrokabeyglað grillufang.
En maðurinn bakkar. Þá má sjá í gegnum fingur með ýmislegt, hið mesta basl með myndmál, skrauthvörf um eigið textalega ofbeldi, sýndarvenslun við vini mína sem eiga víst að bera ábyrgð á skrifum mínum.
Ýmsar spurningar liggja í loftinu um samspil auðmagns við skáldskap og fræði og væri gott ef einhver tækist á við þær af einurð, hreinskiptni, hugrekki, einlægni og alvöru.
En þetta skrif hér er aðeins til að nótera merkingu: Hjalti Snær Ægison hefur dregið fullkomlega í land. Og er það vel.
Það er ágætt ef grein mín, sem að sönnu hafði að geyma yfirgengilegar blammeringar, hafði þau áhrif.
Höfundur er rithöfundur.