Ég er farin að hafa verulegar efasemdir um það. 14. maí nk., eftir rúmar tvær vikur verða sveitarstjórnakosningar í samfélaginu sem ég bý í. Hvar sér þess stað? Hvar eru upplýsingarnar um þessar kosningar? Hvar eru frambjóðendurnir kynntir? Hvar eru umræðurnar?
Ár hvert er mér boðið upp á ítarlega umræðu á Ríkisútvarpinu um Eurovision-söngvakeppnina. Umræðan um hana byrjar strax janúar og stendur óslitið fram í lok maí. Boðið er upp á kynningarþætti á lögunum í sjónvarpi á besta tíma og umræðu um keppnina er haldið lifandi í marga mánuði með þeim hætti að fyrir manneskju eins og mig, sem hefur nákvæmlega engan áhuga á þessari keppni, er gjörsamlega ómögulegt að komast hjá því að vera mjög vel meðvituð um að hún sé í gangi. Ekki bara það, heldur er umræðu um þessa keppni haldið svo hátt á lofti að það er ómögulegt annað en halda að þessi viðburður sé mál málanna í íslensku samfélagi ár eftir ár eftir ár.
Og þá að íþróttunum. Haldin eru heimsmeistaramót, Evrópumót, Ólympíuleikar og alls kyns landsmót og önnur mót sem talið er lífsnauðsynlegt að bjóða mér upp á í dagskrá sjónvarps allra landsmanna á besta tíma. Ég, sem hef nákvæmlega engan áhuga á íþróttum, á ekki val um að losna undan þessari áþján. Eða svo það sé skýrt orðað: Það er algjörlega ómögulegt fyrir mig að komast hjá því að vita að þessi mót séu í gangi. Dagskrá sjónvarpsins er ár eftir ár eftir ár eftir ár yfirtekin af íþróttamótum og það þykir eðlilegt og sjálfsagt að bjóða mér upp á það. Það eru ekki bara íþróttamótin sem mér er boðið upp á, heldur þykir nauðsynlegt að bjóða upp á umræðuþætti á hverjum degi þar sem menn liggja yfir úrslitum og viðburðum dagsins á viðkomandi móti.
Og þá aftur að kosningum í landinu. Þær standa fyrir dyrum eftir hálfan mánuð og þess sér hvergi stað. Ekki hefur enn verið boðið upp á einn einasta þátt á besta tíma í sjónvarpi um þessar kosningar. Hvað þá að boðið hafi verið upp á kynningu á málefnum eða frambjóðendum. Jú, sagt hefur verið frá því í fréttum RÚV hvaða mál hver flokkur ætlar að hafa í öndvegi í Reykjavík og þar með er það upptalið.
Í gær ákvað ég að fara að leita að kosningaefni þar sem það virtist augljóst að það yrði ekki á vegi mínum öðruvísi. Fór inn á kosningavef RÚV til að leita að því hvaða efni stæði þar til boða um kosningarnar framundan. Jú, þar var að finna hlaðvarpsþætti. Fjóra hlaðvarpsþætti þar sem talað er við ritstjóra (mestmegnis karlkyns) héraðsfréttablaða um hvað þeir teldu að væru helstu kosningamálin í kjördæmunum, auk þess sem hringt var í einstaklinga af handahófi (langflesta karlkyns) til að spyrja þess sama.
Ég er ekki komin lengra í hlustuninni en í miðjan annan þátt af fjórum en ég spyr mig: Á þetta að vera svona? Þykir þetta í lagi í lýðræðisríki? Að lýðræðislegar kosningar í öllum sveitarfélögum landsins séu afgreiddar með þessum hætti? Á sama tíma og Eurovision-keppnin yfirtekur sama fjölmiðil mánuðum saman?
Mér finnst þetta stórmerkilegt. Hlýtur þetta ekki að þýða að nú megi ég biðja RÚV um að hafa umræðuna um Eurovision í hlaðvarpsformi framvegis? Umræðuþættina um íþróttirnar? Má ég vinsamlegast biðja um þeir verði færðir yfir í hlaðvarp?
Nú er það svo að RÚV hefur skýrt hlutverk í lögum. Það er beinlíns lögbundin skylda Ríkisútvarpsins að stuðla að lýðræðislegri umræðu í samfélaginu. Það er líka lögbundin skylda þeirra að kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða, frambjóðenda og fylkinga eftir atvikum og það skal gefa fylkingum jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín „… í hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi …“
Þetta hlutverk RÚV er mjög mikilvægt og það er ekki síst mikilvægt vegna þess að því er ætlað að tryggja nauðsynlega kynningu og undirstöður fyrir lýðræðislega umræðu í aðdraganda kosninga.
Það getur vel verið að ungu fólki á RÚV og öðrum miðlum þyki línuleg dagskrá hallærisleg og hafi þær hugmyndir að hún sé úrelt. Það breytir ekki því að hún hefur enn mikið gildi og skiptir miklu máli í aðdraganda kosninga. Ríkisfjölmiðill sem bregst hlutverki sínu á þessu sviði á sér engar málsbætur. Þessi skylda um hlutverk RÚV er alveg skýr. Í raun og sann, ásamt öryggishlutverkinu, sterkustu rökin fyrir því að halda almannaútvarpi gangandi.
Mér þykir vænt um RÚV og geri kröfur til þeirrar stofnunar um að standa sig í stykkinu hvað þessi mál varðar. Þetta er ekki boðlegt.
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál.