Helen Ólafsdóttir
Umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum um vopnainnflutning, vopnaval og áætlanir um breytingar á meðferð vopna innan íslensku lögreglunnar síðustu misseri hafa vakið athygli mína. Án þess að þekkja vel til lögreglunnar á Íslandi voru engu að síður nokkur atriði sem hljómuðu fremur sérkennilega í eyrum þeirrar sem vinnur við þessi mál á alþjóðavettvangi.
Hluti af mínu starfi hjá Sameinuðu Þjóðunum felst einmitt í því að þróa löggæslu í löndum sem hafa átt í átökum þar sem innviðir samfélagsins eru oft rústir einar og fátt um regulgerðir, búnað eða þjálfað starfsfólk. Vopnvæðing lögreglu og lagaramminn er mikilvægur hluti af þessari uppbyggingu og bótum, þar sem farið eftir ströngum alþjóðlegum reglum sem fela í sér klár skilyrði í tengslum við meðhöndlun lögreglu á vopnum og innflutningi.
Skortur á verklagsreglum og gagnsæi
Það fyrsta sem þarf að skoða eru reglugerðir um innflutning á vopnum. Á Íslandi eru slíkar reglugerðir en lögreglan sætir sérákvæðum og er greinilegt af spurningum þingmanna að þessar verklagsreglur eru ekki mjög kunnar, ef það þá yfirhöfuð liggja fyrir slíkar reglur. Það er hins vegar venjan á Vesturlöndum að þessi mál, sér í lagi val á skotvopnum fyrir löggæslu og her, séu yfirfarin í sérstökum þingnefndum sem gæta eftirlits með framkvæmdavaldinu, sér í lagi þar sem um útgjöld skattgreiðenda er að ræða.
"Slíkar stórar breytingar á regulgerðum lögreglu væri eðliegt að vinna í fagnefnd þar sem hægt væri að leita eftir sérfræðiáliti og vinnuferlið gagnsætt nema þjóðaröryggi komi í veg fyrir opna umræðu."
Nú sýnist mér reyndar deilt um hvort vopnin séu gjöf en það er engu að síður kostnaður við viðhald og skotfæri sem hljóta að koma inn í myndina og gera þarf ráð fyrir því hvernig eigi að losa sig við vopnin þegar þau eru útrunnin en það getur verið ansi kostnaðarsamt.
Breytinga er þörf á regulgerð lögreglu
Í lögum og reglugerðum um lögreglu er minnst á vopn í tengslum við reglugerð 774/1998 um sérsveit lögreglustjórans. Þar segir í 1. Grein: „Ríkislögreglustjórinn annast viðfangsefni sem eðli máls samkvæmt eða aðstæðna vegna kalla á miðstýringu eða samhæfingu lögregluliða á landsvísu. Hann skal starfrækja sérsveit lögreglu til að takast á við vopnuð lögreglustörf og öryggismál þegar þörf krefur hvar sem er á landinu og innan efnahagslögsögu Íslands.”
Ekki fæ ég séð við fyrstu sýn að ákvæði sé að finna um vopnaburð almennrar lögreglu og myndi það því eðli málsins samkvæmt þurfa breytingar á reglugerð lögreglu sem þyrfti samþykkt ráðherra áður en vopn gætu farið í almenna umferð. Slíkar stórar breytingar á regulgerðum lögreglu væri eðlilegt að vinna í fagnefnd þar sem hægt væri að leita eftir sérfræðiáliti og vinnuferlið gagnsætt nema þjóðaröryggi komi í veg fyrir opna umræðu.
Álit fagmanna og samráð nauðsynlegt við val á vopnum
Það er einnig venja að þegar gerðar eru breytingar á vopnaburði löggæslu í lýðræðislegu samhengi þar sem stjórnsýsla er gagnsæ, að rækilega sé skoðað hvaða vopn eigi við hverju sinni. Þess má t.d. geta að ákveðin útgáfa af MP5 vopnum (til eru yfir 100 afbrigði) er í notkun hjá ameríska sjóhernum. Sú breyting að fara úr því að vera með óvopnaða löggæslu yfir í vopnaða löggæslu með tilkomu MP5 vopna gefur í skyn að mikil hætta steðji að sem réttlæti slíka breytingu. Eðlilegt væri að vísa til aukinna árása í samfélaginu þar sem skotvopn koma við sögu en hvergi hefur slík tölfræði litið dagsins ljós, að minnsta kosti ekki tengt þessari umræðu.
"Mikilvægast er að meta líkurnar á að vopnvæðing lögreglunnar leiði ekki til stigmögnunar á notkun skotvopna og eins þarf að gera góðar ráðstafanir um meðhöndlun og geymslu á skotvopnum áður en þau eru sett í umferð svo borgurum stafi hreinlega ekki hætta af."
Ef megin ástæðan er ótti við hryðjuverk þá hefði slík umræða átt að fara fram í tengslum við öryggisáætlun landsins eða sem kallað er ‘national security strategy’. Slík strategía felur í sér áhættumat og þar væri eðlilegt að taka ákvarðnir um hvaða búnaður séu nauðsynlegur fyrir lögreglu og landhelgisgæslu til að bregðast við hættunum. Það er misjafnt hvaða ráðuneyti hefur yfirumsjón með slíkri vinnu en umfjöllun um þjóðaröryggi fer venjulega fram í viðkomandi þingnefnd eins og raunin var einmitt nýlega þegar gerð öryggisáætlunar var rædd í þinginu.
Málið ekki endilega leyst með vopnvæðingu
Þegar búið er að skilgreina hættuna sem steðjar að lögreglu og borgurum þá fyrst er kominn grundvöllur til að ræða hvers kyns vopn séu viðeigandi en hafa ber í huga að það eru margar aðrar leiðir sem hægt er að fara til þess að auka öryggi í samfélaginu sem felur ekki í sér aukna vopnvæðingu heldur forvarnir, betra upplýsingaflæði milli lögreglu og borgara, samfélagsvinnu (community oriented policing) og betri þjálfun lögreglu. Mikilvægast er að meta líkurnar á að vopnvæðing lögreglunnar leiði ekki til stigmögnunar á notkun skotvopna og eins þarf að gera góðar ráðstafanir um meðhöndlun og geymslu á skotvopnum áður en þau eru sett í umferð svo borgurum stafi hreinlega ekki hætta af.
Síðast en ekki síst má taka það fram að Ísland er númer fimmtán á lista yfir lönd með skotvopn í einkaeigu. Þetta er ekki nýtt af nálinni og hefur hingað til ekki krafist þess að almenn lögregla gangi um vopnuð. Þess vegna er mikilvægt að rannsaka betur hættuna til þess að brugðist sé rétt við vánni og lögregla geti brugðist við án þess að þurfa að grípa til vopna.
Alþjóðlegar leiðbeiningar hvetja til samvinnu lögreglu og borgara
Það skal ekki lesast þannig að ég hafi mótað mér skoðanir um það hvers kyns vopnabúnaður sé viðeigandi í þessu tilfelli og ljóst að lögreglan þarf að búa yfir tækjum og tólum til þessa að verja sig og almenna borgara gagnvart glæpamönnum eða jafnvel hryðjuverkamönnum en það eru til alþjóðlegar leiðbeiningar um hvernig þessum málum skuli best háttað í lýðræðisríkjum þar sem gagnsæi stjórnsýslunnar er hornsteinn lýðræðisins og ákvarðanartakan á að vera sem næst almennum borgurum sér í lagi þegar kemur að löggæslu.
Það er því kannski ábending til íslenkra stjórnvalda og þingmanna að kynna sér vel alþjóðlegar reglur og leiðbeiningar um þessi mál og skoða rækilega hvernig haldið er á spöðunum í nágrannaríkjunum. Þess má einnig geta að lögreglan í Bretlandi hefur það sem yfirlýst markmið að vera gagnsæ um kaup og notkun vopna innan lögreglunnar. Það er ekki talinn góður siður í lýðræðisríkjum að skotvopnaeign lögreglu og notkun þeirra sé einkamál lögreglu og ráðherra.
Höfundur starfar sem ráðgjafi hjá Sameinuðu þjóðunum meðal annars varðandi vopna- og öryggismál.