Í Bandaríkjunum í dag er dagur barna í sorg, þá minnist ég ástkærrar móður minnar, sem lést þegar ég var fimmtán ára, eftir fjögurra ára baráttu við krabbamein sem endaði í jafntefli.
Í tilefni dagsins ætla ég að skrifa um það sorgarferli sem ég gekk í gegnum sem barn vegna veikindanna hennar. Þetta ferli mun fylgja mér mjög lengi, en þar sem ég er nýhættur að vera barn hentar það að líta örstutt yfir öxl og spóla sirka átta ár aftur í tímann.
Skýrasta minningin úr þessu ferli er þegar við komumst fyrst að því að hún mamma væri með brjóstakrabbamein, ég man eftir tilfinningunni sem fylgdi því að heyra alla gráta, en sá það reyndar ekki, því að ég grét svo mikið (ég sló pottþétt Íslandsmet í hágráti). Eftir þetta hef ég ekki grátið mikið, enda var botninum náð þarna.
Vegna grátskorts tók ég sérstaklega inn á mig umræður um karlmennsku og fann oft (daglega, sérstaklega á kvöldin) fyrir þrýstingi um að ég ætti að gráta meira. Ég hélt að ég væri geðveikur og siðlaus aumingi því að ég grét svo lítið. Ef allir í kringum mig vildu að ég myndi gráta af hverju gat ég ekki grátið? Ég túlkaði þetta sem merki um að ég elskaði ekki mömmu mína. Þessi gaslýsing var eitt af því versta í mínu sorgarferli, gott hafa í huga að sorg er mjög einstaklingsbundin og kemur mismunandi fram hjá fólki.
Tímabilið eftir að hún dó var ekkert skárra, en það bætti svörtu ofan að það síðasta sem ég sagði við hana var að ég kæmi aftur eftir smá. Þessu fylgdi sektarkennd sem var erfitt að vinna sig úr. Ég gat ekki hugsað skýrt um þetta fyrr en ég fór á heimavist, tveimur árum eftir að mamma lést. Ég setti ekki í samhengi hversu illa mér leið fyrr en að ömurlegasta þynnka ævi minnar minnti mig á venjulegan skóladag í tíunda bekk.
Mér finnst vera hálf neikvæð slagsíða í þessum texta (af hverju skildi það vera?), þannig að ég vil þakka öllum sem hafa aðstoðað mig í þessu ferli. Ég hef ekki almennilega þakkað vinkonum mömmu og fjölskyldunnar, frændum, frænkum, ömmum, öfum, pabba, vinum mínum, vinkonum mínum, starfsfólki félagsmiðstöðva, sálfræðingum og námsráðgjöfum. Takk fyrir alla aðstoðina og hjálpina. Svo vil ég líka þakka Erninum og Ljósinu fyrir þau frábæru störf sem þau stunda, en þökk sé Erninum hef ég náð að tala við jafningja og myndað ómetanleg vinatengsl. Reyndar myndi ég kalla flest fjölskyldu- og vinatengsl sem ég hef ómetanleg.
Höfundur er nemi.