Dánaraðstoð er viðkvæmt mál og því mikilvægt að sem flestir taki þátt í umræðunni. Einn hópur sem hefur haft áhyggjur af lögleiðingu dánaraðstoðar er fatlað fólk. Reynslan í þeim löndum þar sem dánaraðstoð er til umræðu sýnir að það hafa komið fram efasemdir og varnaðarorð frá hagsmunasamtökum fatlaðra. Nefnt hefur verið að löggjöf um dánaraðstoð sé ótímabær, siðferðilega röng og óæskileg. Ástæða er til að svara áhyggjum fatlaðs fólks og ástvina þess í umræðunni um dánaraðstoð. Skoðum helstu rök fatlaðs fólks gegn dánaraðstoð.
Félagslegar aðstæður fatlaðra
Ein rökin eru þau að nauðsynlegt sé, áður en dánaraðstoð verði heimiluð, að farið verði í róttækar endurbætur á heilbrigðis- og félagsþjónustunni og að hætt verði að mismuna fötluðu fólki. Ef fatlað fólk búi ekki við gott öryggisnet og góð lífskjör og hafi ekki góðan aðgang að heilbrigðis- og félagsþjónustu noti það mögulega dánaraðstoð sem leið út úr því. Það sé ódýrari kostur að hjálpa því að deyja en veita því viðeigandi stuðning og tryggja því samfélagsþátttöku. Með því að fjarlægja þær hindranir sem fatlað fólk standi frammi fyrir og hjálpa því að lifa með reisn þyrfti það ekki lengur að biðja um dánaraðstoð þar sem líf þess yrði bærilegra.
Hér er fötluðu fólki og fólki sem er óbærilega kvalið blandað saman. Það eru ekki samfélagslegir erfiðleikar sem fá fólk til að biðja um dánaraðstoð heldur sársauki, óbærilegar þjáningar og vanlíðan sem fólk glímir við síðustu mánuði og vikur ævi sinnar, oftast vegna ólæknandi sjúkdóma. Jafnvel þótt hægt væri að breyta og bæta aðstæður eða umhverfi þessara einstaklinga hyrfu ekki þjáningarnar. Þeir sem eru eingöngu með fötlun en ekki ólæknandi sjúkdóma eða óbærilegar þjáningar myndu ekki fá beiðni um dánaraðstoð samþykkta.
Löggjöf um dánaraðstoð myndi mynda þrýsting
Einn stærsti óttinn er að þegar dánaraðstoð er leyfð myndist þrýstingur til að binda endi á líf sitt hjá þeim sem upplifa sig byrði á samfélaginu eða sínum nánustu, t.d. fjárhagslega eða vegna umönnunar. Í samfélaginu ríki gjarnan þekkingar- og skilningsleysi og jafnvel fordómar í garð fatlaðra. Valkosturinn um dánaraðstoð gæti falið í sér skilaboð og þrýsting um að nýta sér þennan möguleika þar sem líf fatlaðs fólks sé óæðra og minna virði en líf þeirra sem ekki búa við fötlun. Lögleiðing dánaraðstoðar myndi þannig leiða til þess að fatlað fólk þyrfti að réttlæta vilja sinn til að fá að lifa.
Áhyggjur af hlutverki lækna
Önnur rök eru áhyggjur af hlutverki lækna og hvernig dánaraðstoð hefði áhrif á störf þeirra og tilfinningalegt ástand. Það sé hlutverk lækna að lækna fólk en ekki deyða það.
Greina má hugarfarsbreytingu hjá læknum en bresku læknasamtökin ákváðu sem dæmi fyrr á þessu ári, fyrst læknasamtaka í heimi, að breyta afstöðu sinni til dánaraðstoðar úr því að vera andvíg og í það að vera hlutlaus. Auk þess er mikilvægt að nefna að í þeim löndum þar sem dánaraðstoð er heimiluð er aldrei hægt að þvinga lækni til að veita dánaraðstoð. Læknar hafa ótvíræðan rétt til að neita ef dánaraðstoð stríðir gegn sannfæringu þeirra eða samvisku. Sjúklingur á ekki rétt á dánaraðstoð; hann á aðeins rétt á að biðja um dánaraðstoð.
Leið til að losa samfélagið við fatlað fólk
Stundum er haldið fram að dánaraðstoð sé aðferð samfélagsins til að losa sig við fatlað fólk og dánaraðstoð jafnvel líkt við aðferðirnar sem notaðar voru í Þýskalandi á tímum nasistastjórnarinnar.
Þessi röksemd felur í sér afar villandi viðhorf. Það er enginn að fara að losa sig við neinn. Dánaraðstoð er í fyrsta lagi aðeins veitt að beiðni einstaklings og það er aðeins hann sem getur lagt mat á eigin lífsgæði. Aðeins lítið hlutfall þeirra sem líða óbærilegar þjáningar biður um dánaraðstoð. Læknir veitir þar að auki aldrei dánaraðstoð að eigin frumkvæði og mun aldrei veita fólki dánaraðstoð án samþykkis þess. Enginn mun fá dánaraðstoð gegn eigin vilja, hvort sem um er að ræða fatlað fólk eða aðra.
Í öðru lagi yrði dánaraðstoð aldrei heimiluð hér á landi nema að uppfylltum skýrum og ströngum skilyrðum. Skýrir verkferlar myndu tryggja að ekki yrði farið gegn vilja einstaklings á neinn hátt.
Köllum eftir málefnalegri umræðu
Það er þörf á góðri og faglegri umræðu um þetta mikilvæga málefni. Það skiptir máli að fatlað fólk, heilbrigðisstarfsmenn, hagsmunasamtök sjúklinga, stjórnmálamenn og samfélagið allt komi inn í þá umræðu. Lífsvirðing leggur áherslu á að dánaraðstoð verði mannúðlegur valkostur. Félagið berst ekki fyrir þvi að sem flestir velji þessa leið, eingöngu að dánaraðstoð standi þeim örfáu til boða sem þrá lífslok vegna óbærilegra þjáninga.
Höfundur er formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð.