Það er auðvelt að falla í þá gryfju að trúa því að heimurinn sé á leið til andskotans. Dæmin eru allstaðar. Ekki þarf annað en að opna fyrir útvarp til að hlusta á frásagnir af hryðjuverkum, í sjónvarpinu er tekið viðtal við veikt fólk sem ekki fær aðstoð, blöðin fjalla um eymd, plágur og spillinguna sem öllu tröllríður, samfélagsmiðlarnir velja skrattann sem veggskraut og dómur götunnar er að fólk sé fífl. Hljómkviðan boðar að á morgun hrynji himnarnir. Upp rifjast kvæðið „,,Heimur versnandi“ fer eftir Heinrich Heine en miðjuerindi þess er svona í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:
„Nú er heimur heillasnauður
hverskyns eymd og plága skæð.
Á efsta lofti er Drottinn dauður
og djöfullinn á neðstu hæð.“
Herbergjavillt
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Fyrir nokkrum árum (reyndar fyrir um 20 árum) rambaði ég inn á fyrirlestur um heimspeki í Odda. Var reyndar á leið í tíma í lífeðlislegri sálfræði en fór herbergjavillt – hvorki í fyrsta né seinasta skipti sem það gerðist.
2000 ára sannindi
Fyrirlesturinn greip mig hinsvegar strax svo mjög að lítið varð af mætingu í sálfræðitímann. Þar var einmitt verið að fjalla um þetta viðhorf ,,heimur versnandi fer”. Meðal annars var vitnað í eitt af stóru grísku nöfnunum þar sem viðkomandi taldi það til marks um þá vegferð sem heimurinn væri á, að ungmenni dagsins bæru ekki næga virðingu fyrir þeim sem eldri væru, kynnu ekki að meta viðtekin siðferðisleg gildi og væru almennt uppvöðslusöm og erfið. Þessu hélt hann fram fyrir rúmlega 2000 árum.
Svo margt er betra
Staðreyndin er hinsvegar sú að heimurinn er ætíð að verða betri og betri staður að búa á. Stríðsátök eru sjaldgæfari og færri látast vegna þeirra. Mengun nú er minni en hún var árið 1900 (þá var áhættan á dauða vegna mengunar 0,18% en nú er hún 0,04%). Lífslíkur eru stöðugt að aukast (frá árinu 2000 hafa íslenskir karlar t.d. bætt við sig rúmlega tveimur árum í meðalævilengd). Menntunarstig er að hækka (í dag eru t.d. um 24% mannkyns ólæsir, en voru um 70% í byrjun 20. aldar). Atvinnuþátttaka kvenna er að aukast (var 12% af öllu vinnuafli árið 1900 en er núna 40% og fer vaxandi). Lengi má áfram telja.
Þá verður heimurinn enn betri staður til að búa á
Mikið væri gott ef spegill fjölmiðla tæki í auknu mæli mið af veruleikanum eins og hann er. Að við myndum útvarpa því sem vel er gert. Að við myndum rífa okkur út úr þeirri [a.m.k.] 2000 ára hefð að halda að heimur versnandi fari og horfa frekar á hversu mjög við höfum gengið götuna til góðs og gert heiminn að þeim besta stað sem hann hefur verið frá því að maðurinn fór að láta þar til sín taka. Þá yrði heimurinn sennilega enn betri staður til að búa á.