Mikilvæg forsenda þess að Ísland geti áfram verið góður staður til að búa á, er að við nýtum auðlindir okkar og hugvit til að skapa verðmæti til sjós og lands. Fyrir utan mannauð, geta auðlindir verið af margvíslegum toga; land, einstakir dýrastofnar eða orka í iðrum jarðar, gnauðandi vindi eða beljandi ám. Mikilvægt er að öll slík nýting sé á forsendum sjálfbærni og dýravelferðar.
Vaxandi líftækniiðnaður
Orkufyrirtækin eru fyrir löngu orðin að máttarstólpum í efnahagslífinu en öflug líftæknifyrirtæki hafa líka skotið rótum hér á landi hin síðari ár. Sum nýta hliðarafurðir úr sjávarútvegi, græna orku til að framleiða þörunga og enn önnur dýraafurðir úr landbúnaði. Þessi fyrirtæki eru afar mikilvæg viðbót við atvinnulífið og til hefur orðið fjöldi góðra starfa og ný stoð líftækni- og hugvits sem aflar þjóðarbúinu gjaldeyris. Allt bendir til þess að þessi geiri muni áfram vaxa. Þar með verða til fleiri góð störf fyrir unga fólkið og virðisauki fyrir þjóðfélagið.
Virðing við náttúru og umhverfi
Til viðbótar eru þessi fyrirtæki almennt til fyrirmyndar þegar kemur að því að sýna virðingu við náttúruna í verki með áherslu á sjálfbærni og góða umgengni í hvívetna. Bætt nýting hráefna, orku eða dýrastofna er auðvitað í anda þeirrar stefnu að draga úr, endurnýta eða endurvinna. Því meira sem við fáum út úr því sem við þegar eigum, því betra fyrir umhverfið og efnahagslífið. Það er því mikilvægt að þessi fyrirtæki fái að skjóta hér sterkum rótum og vera fyrirmynd annarra varðandi samfélagsábyrgð í verki. Nokkur þeirra hafa þegar komið undir sig fótunum og fjölmargir spennandi sprotar eru á þeirri leið.
Öflug fyrirtæki í sókn
Verðmætasköpun þessara líftæknifyrirtækja er oft á sviði fæðubóta- eða lyfjaiðnaðar sem ekki var til fyrir fáeinum áratugum. Algalíf, Ísteka, Primex, Genís og Kerecis og eru dæmi um fyrirtæki af þessum toga. Öll eiga þau það sameiginlegt að nýta hugvit og líftækni til að skapa verðmæti og störf. Rétt er að nefna alveg sérstaklega Algalíf og Ísteka, en segja má um bæði fyrirtækin að þau séu vaxin upp úr sprotastiginu. Hvort um sig skilar þjóðfélaginu næstum tveimur milljörðum í gjaldeyristekjum sem kvíslast svo út um samfélagið í formi launa, skatta, aðfangakaupa um allt land og ýmis konar öðrum hætti.
Sköpun verðmætra starfa
Algalíf vinnur fæðubótaefni úr örþörungum. Nú eru hafnar framkvæmdir við fjögurra milljarða stækkun og veltan verður komin í fimm milljarða eftir nokkur misseri. Fyrirtækið hefur vakið mikla athygli og unnið til verðlauna um allan heim. Ísteka vinnur dýrmætt lyfjaefni úr hryssublóði. Þetta tiltekna fyrirtæki er í fararbroddi í íslenskum landbúnaði hvað varðar dýravelferð og eina afurðafyrirtækið hér á landi sem gerir velferðarsamninga við alla sína bændur.
Velferðarsamningar til fyrirmyndar
Velferðarsamningum Ísteka er fylgt eftir í samvinnu við opinberar eftirlitsstofnanir og dýralækna. Allt framleiðsluferlið er undir eftirliti innlendra og erlendra stofnanna. Lokaafurðin er afar verðmætt hormón sem nýta má í ýmis konar frjósemislyf fyrir öll spendýr. Undirritaður þekkir meðal annars til franskra sauðfjárbænda sem nýta slík lyf. Líftæknifyrirtæki eins og þau sem hér eru til umræðu eru afar mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf. Þau fimm fyrirtæki sem nefnd voru hér að framan, skila líklega fimm til sex milljörðum króna af gjaldeyri til þjóðarbúsins á ári. Fyrir utan auðvitað að skapa samanlagt um 150 störf. Þessi kaka stækkar svo með hverju misserinu.
Mikilvæg erfðaauðlind
Íslensku búfjárstofnarnir eru mikilvæg auðlind og við höfum skyldur varðandi vernd og viðgang þeirra samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD). Aukin verksmiðjuframleiðsla og einsleitni í landbúnaði um allan heim skapar raunverulega hættu. Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hafa um þúsund búfjárstofnar dáið út síðustu öldina. Með þeim hurfu ostar, staðbundnir réttir og alls kyns þekking og menning sem ekki verður endurlífguð. Fyrir utan erfðaefni sem kannski bar í sér lausnir við læknisfræðilegum ráðgátum án þess að við vissum það.
Verndun með nýtingu
Íslenska geitin var ekki fjarri því að enda á þessum sorglega lista útdauðra dýrakynja. Þar með hefði einstakt erfða mengi tapast. Sérfræðingar sameinuðu þjóðanna segja bestu leiðina til að vernda og viðhalda einstökum búfjárstofnun, eins og þeim íslensku, sé að rækta þá og nota. Það sé mun betri leið en að láta þjóðminjasöfn halda hjarðir, eins og sums staðar er, eða að tapa tegundum að eilífu. En ætli menn að viðhalda gömlum stofnun með nýtingu, þá verður að leita allra leiða til að búa til nýjar og verðmætar afurðir. Þar kemur líftæknin sterk inn.
Hugvit og gamlar hefðir
Fyrrnefnd nýting á merarblóði byggir á áratuga löngum rannsóknum sem getið hafa af sér nýja atvinnugrein sem hjálpar til við að halda sveitum í byggð, skapar störf fyrir menntað fólk og tryggir enn betur varðveislu erfðafræðilegs fjölbreytileika. Segja má, að með því að byggja á árþúsunda gömlum hefðum blóðnýtingar með nútíma vísindum og dýravelferðarsjónarmiðum, sé komin fram ný búgrein sem uppfyllir allar samtímakröfur um sjálfbærni, dýravelferð og verðmætasköpun. Það er afar mikilvægt fyrir hinar dreifðu byggðir og þjóðarbúið allt.
Velferð og vellíðan
Rannsóknir og gögn eftirlitsaðila sýna að hryssunum verður ekki meint af blóðgjöfinni, enda er hún vel innan þeirra marka sem dýrin þola. Þá er dýravelferðin einnig vel tryggð með velferðarsamningunum sem tryggja það að aðstaðan er eins og best verður á kosið, bæði fyrir, á meðan blóðgjöfinni stendur og eftir hana. Til að mynda er dánartíðni þeirra hryssa sem nýttar eru í þessum líftækni landbúnaði sú sama og almennt gerist og aðbúnaður á þeim bæjum sem taka þátt í verkefninu er síst verri.
Umgengni við náttúru og dýr til fyrirmyndar
Nútímaleg nýting líftækni í anda þess sem að framan er rætt um getur skapað þúsundir góðra starfa þegar fram í sækir. Verðmætasköpunin er mikil og umgengni við náttúru og dýr til fyrirmyndar. Öll eiga þessi fyrirtæki það sameiginlegt að bæta samfélagið með tilvist sinni, hvort sem það er vegna áhrifa í nærsamfélaginu eða vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem afurðir þeirra hafa. Aukin samvinna og samspil landbúnaðar og sjávarútvegs við líftækni og hugvit á forsendum grænnar orkunýtingar, sjálfbærni og velferðar, mun á komandi árum hjálpa okkur að vera áfram í fremsta flokki meðal þjóða heims.
Höfundur er sérfræðingur í matarmenningu, stefnumótun og markaðsmálum.