Ágrip og hvatning
Ég vil byrja þessa grein á að skora á alla dýraverndarsinna, að leggjast á eitt með áróðri á þeim miðlum, sem þeir hafa tileinkað sér eða með öðrum hætti og ganga á forystumenn stjórnmálaflokka í framboði til alþingiskosninga og frambjóðendur í barráttusætum með spurningum um hvað þeir hyggist leggja af mörkum í þágu dýraverndar nái þeir kjöri. Ég er sannfærður um að margir bregðast við þessu ákalli því allir sem ég hef talað við sl. 10 ár, í minni dýraverndarbarráttu, skilgreina sig dýravini og er það vel. Núna er kjörið tækifæri að tala máli þeirra.
Áfram áhrifavaldar
Mér finnst líka rakið að höfða beint til áhrifavalda og biðja þá um að kýla á almennilega útsendingu um dýravernd fyrir kosningar. Þið eruð þeir sem hafið áhrif á ákveðnar kynslóðir fólks og með sóma margir hverjir.
Gylliboðaveisla frambjóðenda
Forystumenn framboðsflokkanna þarf ekki að kynna. Allar eru þessar elskur með facebook síður, twitter aðgang, máski instagram, tik tok og hvað þetta nú allt heitir. Þar bíða þeir óþreytandi eftir athygli ykkar. Þeim er ómögulegt, að missa af skilaboðum ykkar svo rækilega eru þau öll tengd. Þeir þrá alla athygli og jákvæða einstaklinga, sem sækja þá heim og þeir gætu mögulega lofað gulli og grænum skógum og örugglega ekki síst í dýravernd. Það sem sameinar þá alla er að löngun þeirra, nú rétt fyrir kosningar, er að til að sannfæra ykkur, er nú hömlulaus. Þeir iða í skinninu að þið veitið þeim brautargengi en þeir ákveða að gal opna eyrun í nokkrar vikur á 4ra ára fresti - fyrir kosningar. Svo brestur á heyrnarleysi, sem endranær.
Sannfærið þau frambjóðendur
Sannfærið þau. Þið eruð stjórnendur núna og vinnuveitendur. Auðmýkt frambjóðenda er aldrei meiri en fyrir kosningar. Gefið þeim kærkomið tækifæri til að dansa eftir ykkar höfði í þágu dýraverndar. Þau þrá örugglega, að veita ykkur hlustun, lofa ykkur langt fram úr ykkar björtustu vonum. Þannig eru þau alltaf rétt fyrir kosningar, missa stjórn á sér af ánægju við athyglina. Þið hafið þá amk orð þeirra á þau, eftir kosningar, ef einhver þorir að svara ykkur um þetta verðuga málefni sem dýravernd er. Afritið og vistið svör þeirra með tryggum hætti. Sorry en það er ekki annað hægt en að hefja þetta með smá kaldhæðni sem felur þó í sér mikin sannleika. Öll framboðin utan tveggja munu hlusta vandlega á ykkur. Íhaldið með þá forystu sem það hefur miklu tengsl við útgerðina og fyrirtæki í matvælaframleiðslu hefur þó líklega enga löngun að hlusta á boðskap ykkar. Framsókn mun líta undan enda eiga þeir allt undir dreyfbýlisfólki, sem sinnir kjötframleiðslu og mun ei styggja þau jafnvel þó formaður flokksins hafi sagt í vikunni: Við í Framsókn lítum svo á að Ísland sé land tækifæranna. Sá ljúfi formaður, þótt dýralæknir sé, hefur aldrei á sínum ferli, sem þingmaður, lagt nokkuð til málanna á þeim vettvangi. Undarlegt af dýralækni á Alþingi ekki satt?
Við vitum ekki hvar við höfum formann Miðflokksins, sem hefur svo mikla ástríðu fyrir íslensku búfjáreldi til manneldis að honum finnst það til vinsældaaukna á samfélagsmiðlum, en mögulegt er að hann vilji draga í land með dálæti sitt á föllnu nauti fyrir framan dýrelskandi kjósendur, ljá ykkur eyru sín enda enda því miður á mörkunum að komast á þing þessi afburða skemmtilegi þingmaður. Eftir standa ein 7-8 framboð til að herja á. Herjið á þau!
Vonbrigði með sitjandi þingmenn
Til þessa hefur lítið verið hægt að treysta á valdamestu stofnun landsins, Alþingi í þessum efnum. Varla hefur þingmaður hreyft við málaflokknum á kjörtímabilinu sem er að líða að undanskyldu framlagi Ágústs Ólafs Ágústssonar, sem síðan var bolað úr Samfylkingunni. Þá hefur Inga Sæland í Flokki fólksins drepið á dýravernd auk eins varaþingmanns Pírata. Þar með er upptalningunni lokið á kjörtímabilinu eftir því sem ég best veit. Málefnin hafa þó verið ærin og ber þar líklega blóðmeraiðnaðinn hæst.
Núvitund flokkanna
Svo að kjósendur átti sig á mikilvægi vitundarvakningar á meðal frambjóðenda er ágætt að koma með samanburð á áherslum stjórnmálaflokka þess kjörtímabils, sem er að enda. Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna og ég erum vel til þess fallin enda fylgjumst við gjörla með hvert sínu svið, jafnvel báðum. Tinna segir réttilega í nýlegu viðtali á Bylgjunni íslenska stjórnmálaflokka lélega í umhverfismálum. - Ég segi: áherslur þeirra hafa þó aldrei verið meiri, blaður og gal þeirra í loftslagsmálum aldrei hærra. Árangur þó vart sjáanlegur né áþreifanlegur utan þess að plastpokarnir eru horfnir úr Bónus o.fl. stöðum. Útblástur úr landbúnaði, frá útgerð og skipum og flugi heldur sínu flugi. Eitthvað hefur áunnist með rafbifreiðum. Þið getið rétt ímyndað ykkur að ef flokkarnir teljast lélegir í umhverfissinnar, sem linnulaust er í umræðunni, hvernig þeir eru í málefnum dýraverndar, sem varla nokkurn tíma kemst umræðuna. Hafa þó tilefnin verið ærin s.l. 4 ár. Þar eru þeir ekki bara lélegir heldur handónýtir og hafa verið gagnslausir í þeim málaflokki á kjörtímabilinu sem er að líða að mínu mati. Zeró uppskera.
Svar nýliðans
En svona á léttari nótum og áður en ég helli mér í alvöru málsins. Spurði nýlega, á samfélagsmiðli, einn saklausan en velviljaðan nýliða í framboði, en hann vakið hefur athygli fyrir framsækið framboð og skilur hefðbundna framboðstækni eftir í ryki:
„Hvað með þau allra minnstu og hafa vart rödd en eru gjörnýtt af manninum til sjávar og sveita. Ekkert framboð hefur minnst á þau! Hvað mað þig?“
Svar hans var: ég stend með því fólki sem er misnotað til sjávar og sveita. Íslendingum, Pólverjum, Litháum og öðrum sem níðst er á.
Well. Animals are also good people, segi ég! Þetta fallega og vel meinta svar nýliðans lýsir trúlega almennri vanþekkingu frambjóðenda í líklegum barráttusætum á stöðu dýraverndar á Íslandi.
Eftir að hafa útskýrt málið fyrir honum krafðist hann þess af mér að ég veitti honum liðsinni að skrifa dýraverndarstefnu fyrir þann flokk, sem hann býður sig fram fyrir. Og gott betur hann sagðist ekki hafa étið hákarl í háa herrans tíð en hefur þó dálæti á lifrapilsu og hefur týft tánni samkvæmt Tvíhöfða.
Ég er ánægður með þessi fyrstu veganskref hans og fagna höfnun hans á hákarli því hákarlaveiðar eru eitt grimmasta dýraníðið sem maðurinn framkvæmir. Þeir eru auk þess í útrýmingarhættu! Samþykkti að veita honum liðsinni en í grunninn er það mat mitt að allir nútíma stjórnmálaflokkar ættu hiklaust að hafa þennan texta ritaðan í stefnuskrám sínum, það væri modern: virðum lögum um velferð dýra, framkvæmum þau, dýravernd fari frá Matvælastofnun (MAST) og stofnað verði sérstakt embætti, umboðsmanns dýra eða hreinlega dýralögregla þar sem yfirdýralæknir kemur hvergi nærri! Rökstuðningur í síðari grein. - Punktur.
Verum stolt, skörum framúr
Að frátaldri lögbundinni ábyrgð stjórnmálamanna og framkvæmdavaldsins á sviði dýraverndar, sem þeir aðilar fá greiddar himinháar upphæðir fyrir í formi skattpeninga án sjáanlegs framlags í málaflokknum samanborið við það fé sem borið er í þá almennt á launaseðli, þá berum við dýravernarsinnar þennan kaleik líka. Það er ekki bara siðferðileg skylda okkar heldur er okkur falin ábyrgð í lögum um velferð dýra, sem tilkynningaskyldir eftirlitsaðilar. Við eigum að vera stolt af því að vera öflugustu málsvarar dýra, sem þau eiga, án málamynda, að geta treyst á.
Sjaldgæft tækifæri
Nú er því sjaldgæft tækifæri til að fá svör og beita þeim á hina kjörnu, ef við á, eftir kosningar finnist ykkur jafn slælega gengið til verks á næsta kjörtímabili og rökstutt er í grein þessari að var gert á þvi sem er að ljúka. Við þurfum öfluga dýraverndarsinna sem ráðherra í Atvinnu og nýsköpunarráðuneytið, sem fer með málefni allra dýra utan hinna villtu og í Umhverfisráðuneytið, sem fer með málefni villtra dýra. Þá þurfum við ríkisstjórnarflokka sem taka mark á okkur og ábendingum okkar í þágu dýranna en þagga ei, eins og verið hefur.
Gild kjarnyrt lög um velferð dýra
Í gildi eru kjarnyrt lög nr. 15/2013 auk aragrúa reglugerða um velferð dýra sem tóku gildi 2013 og síðar en framkvæmdavaldinu hefur orðið lítið ágengt með framkvæmd á. Þau eru full af valdheimildum til að grípa inn í. Það er sjaldan gert fyrr en eftir dúk og disk og á meðan þjást dýrin. Stjórnsýslulögin eru skrifuð með þeim hætti að stjórnsýslan (MAST) lætur þau ætíð vega sterkar en rétt dýra samkvæmt lögum um velferð dýra og á meðan kunna dýr að þjást. Stórundarleg lagameðferð vegna svokallaðs andmælaréttur aðila. Sá réttur er aðal þröskuldurinn, rödd mannsins skal vega hærra en dýranna, er mat MAST. Andmælarétturinn getur þó líka, í höndum flinkra lögmanna bjargað, þegar á köflum glórulaust háttalag yfirdýralæknis og lögfræðinga MAST þvert á allar stjórnsýslureglur tekur flug gegn gagnaðilum MAST. Um það eru mörg dæmi.
Ég fullyrði, þrátt fyrir glimrandi lög, væru þau virt, að réttarstaða dýra er ennþá lítilsvirt, einkum í búfjáreldi, allskyns fiskveiðum og eldi fisks sem og hjá villtum dýrum, þrátt fyrir að lagabókstafurinn eigi að tryggja þeim lífsgæði og vernd sem þau gætu vel við unað. Þetta á t.d. við um blóðmerar, loðdýraeldi, mjólkur og hreindýrskýr og kálfa þeirra, hvalveiðar, fiskeldi, gæludýr, veiðar villtra fiska, afmarkaða dýralæknaþjónustu, o.fl., o.fl.
Inngangur
Og er þá komið að því sem ég vildi helst sagt hafa. Margir mikilsvirtir erlendir einstaklingar, áhrifaaðilar og félagasamtök hafa ekki setið auðum höndum í framlögum sínum til alvöru dýraverndar. Því miður er í fá hús að venda á Íslandi nema horft sé heila öld aftur í tímann. Hér smá ádrepa en ég mun fjallar ítarlega um þetta og nútímamenn í dýravernd í þriðju grein.
Þetta er aðeins agnarlítil upptalning en ég mun vitna í miklu fleiri í þriðju grein til að sýna á hvaða caliberi heimsþekktir áhrifamenn telja dýravernd eiga að vera því ástríða fyrir dýravernd eru ekki hávær hróp einhverra fárra sérvitra dýraverndarsinna heldur líka köllun fjölmargra heimsþekktra leiðtoga og fræðimanna.
Langöflugasta og virtasta íslenska dýraverndarröddin frá upphafi er Tryggvi Gunnarsson
Upp úr aldamótunum 1900 hófst, svo eftir var tekið, dýravernd af slagkrafti á Íslandi. Þar var á ferðinni landskunnur stjórnmála og kaupsýslumaður, Tryggvi Gunnarsson, sem stofnaði Dýraverndarfélag Íslands og kom í gegn fyrstu íslensku dýraverndarlögunum. Óumdeilt er að hann er öflugasta rödd dýraverndar á Íslandi frá upphafi á meðal öflugustu stjórnmálamanna á Íslandi frá upphafi. Það sem er sérstaklega eftirtektarvert er að maður á hans kaliberi síns tíma og á sér hreinlega enga eða í besta falli mjög fáa líka í samtímanum hafi verið jafn mikil þungavigtarmaður í dýravernd og hann var. Ferilskráin hans ber vitni um hvaða áhrifamann var að ræða. Hann var um tíma allt í öllu á þinginu á Heimastjórnartímabilinu, bankastjóri, kaupsýslumaður, byggingameistari o.fl. o.fl. o.fl. Ævisaga hans er til í 4 ritum og minnisvarði er um hann í alþingisgarðinum. Hann var potturinn og pannan í tímaritinu Dýravinurinn síða Dýraverndaranum með dyggri aðstoð samtíðarmanna.
Dýravernd er gleymd hjá samtíðarstjórnmálaflokkum og forsetaembættinu
Aldrei hef ég heyrt minnst á mikilvægi dýraverndar af nokkrum forseta frá upphafi lýðveldisins. Það er dapurt. Þykist ég þó vita að núverandi forseti sé hjartahlýr maður sem myndi beita sér ef til hans yrði leitað.
Þegar ég hóf þessi skrif var það hrein tilviljun að ein af fyrstu beinu útsendingum flokkanna stóð yfir. Það var Samfylkingin. Arrogance flokksins í garð dýraverndar var staðfestur. Logi Einarsson, formaður fylkingarinnar, kynnti áherslur flokksins fyrir næstu kosningar. Ekki minnst á dýravernd.
Viðreisn kom með beina útsendingu frá Landsþingi sínu nýlega. Formaðurinn fór, hávær eins og honum er tamt, um víðan völl í Evrópu og Íslandsmálum. Ekki minnst á dýravernd í stjórnmálaályktun flokksins þó stefna ESB sé skýr og fyrirferðamikil í þeim efnum. Þá er hann var landbúnaðarráðherra fyrir nokkrum árum urðu áherslur hans mér skýrar. Ég reyndi að ná fundi með honum í ráðuneyti hans um afmarkað málefni í dýravernd. Hann var of upptekinn vikur fram í tímann til að ljá mér máls í korter.
Bjarni Ben, Gunnar Smári frá Sósíalistum og Kristrún frá Samfylkingunni í pallborði á Stöð2 31. ágúst. - Ekki minnst á dýravernd.
Doðinn er alger alls staðar hjá framboðunum eins og fram kemur hér að neðan þegar stefnuskrár eru lesnar.
Hér fyrir neðan mun ég reifa í goggunarröð stjórnarfars það sem hefur truflað mig mest í afskiptaleysi, handvömm og sviknum loforðum á yfirstandandi kjörtímabili.
Ekki í góðum höndum hjá Vinstri grænum
Fyrsta málsgrein stefnuskrár VG um landbúnaðarmál endar svona „... og velferð dýra í forgrunni“ og er það eini flokkurinn sem minnist á dýravernd í stefnuskrá sinni, sem er frábært. En hverjar eru efndirnar?
Á meðan á skrifum mínum stóð blasti þessi fyrirsögn við mér á netmiðli frá framhaldsfundi Vinstri grænna 28. ágúst s.l.: „Við veljum samtalið yfir bergmálshellinn“
Sagði formaður VG á nýliðnum framhaldsfundi og virðist það vera slogan VG fyrir næstu kosningar. Þarna er digurmannlega mælt eins og háttur formanns VG er.
Staðreyndin um VG er þessi: Í janúar mánuði 2018 skrifaði ég umhverfisráðherra Guðmundi Inga utanþingsráðherra VG í umhverfisráðuneytinu eftirfarandi tölvupóst:
Sæll Guðmundur.
Í stað þess að skrifa þér opið bréf um eftirfarandi málefni, eins og minn er háttur um mikilvæg málefni í dýravernd, ætla ég að gera tilraun með þennan sendingarmáta.
Nýlega skrifaði ég grein í Kvennablaðið, sem fjallaði um heimildir til að aflífa hreindýrskýr frá ungum afkvæmum sínum.
Það hryggir mig að þú skulir taka upp, án gagnrýni, vinnubrögð fyrri ráðherra skeitingarlaus um réttarstöðu dýra á Íslandi skv. lögum um velferð dýra og bera fyrir þig löngu úrelt lög á sama tíma og lög um velferð dýra eru lágmarksreglur, aðeins 3 ára gömul. Ómundeilanlegt er að lögin taka til hreindýra enda eru þau hvergi undanskilin í lögunum.
Það leyfi, sem þú hefur gefið út, er þegar grant er skoðað á mörkum þess að teljast siðlegt svo ég tali nú hreint út.
Þetta er skoðun, sem er ekki bundin við mig. Reynslumiklir dýraverndarsinnar eru flestir á þessari skoðun með rökum. Mín skoðun, í lögfræðilegu samhengi, þar sem ég er sérfræðingur á sviði íslenskrar dýraverndarlöggjafar er sú að þetta leyfi þitt stangist á við meginreglur laga um velferð dýra, sem ég skora á þig að kynna þér vel!
Ég vonast til þess að þú veltir þessu fyrir þér um leið og ég óska þér aftur velfarnaðar í starfi.
Svar umhverfisráðherra, sem var ferskur í ráðherrastól, var þetta:
Sæll og blessaður Árni Stefán.
Þakka þer fyrir bréfið. Það er gott að heyra þessi sjónarmið. Eg mun svara þer betur innan skamms en samhliða ákvörðuninni kallaði eg eftir gögnum um áhrif veiða a kúm a kálfa eins og fram kemur i fréttatilkynningu með auglýsingunni.
Eg mun svara þer betur innan skamms.
Bkv Guðmundur Ingi
Svar barst aldrei og Guðmundur Ingi hefur algerlega hundsað öll skrif ýmissa aðila um málefni villtra dýra og heyra undir hans ráðuneyti. Hann hefur hins vegar haldið áfram að daðra við hina ríku, sem stunda þessa iðju og snúið sér undan. Þetta á ekkert skylt við lokaorð fyrstu málsgreinar stefnuskrár VG um velferð dýra. Hann hefur því ekki unnið til þess að ég veiti honum vinnu aftur.
Ætla mætti að ég hefði sérstaka andúð á VG. Svo er ekki. En það vill einfaldlega svo til að sá flokkur hefur á undanförnum árum lofað miklu án efnda í málefnum dýraverndar og því er kurteisi við kjósendur, sem leggja áherslu á dýravernd, að vekja athygli á efndaleysinu.
Sem sagt: Orð formanns VG ,,Við veljum samtalið yfir bergmálshellinn" eru ekki sönn.
Og efndaleysið nær lengra aftur í tímann hjá umræddum flokki, sem liggur af hreinni tilviljun svo vel við höggi þó ég sé með öllu óháður borgari þ.e. hvergi flokksbundinn heldur styð góð málefni.
Árið 2013 tóku ný lög gildi um velferð dýra. Einn af forystumönnum þeirrar ríkisstjórnar, landbúnaðarráðherra Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir frumvarpinu. Í hnotskurn sagði hann í ræðustól: hvergi verður slegið af vernd dýra.
Þetta hefur ekki orðið raunin nema síður sé eins og mörg alvarleg dýraverndarmál á liðnu kjörtímabili og þeim á undan staðfesta og ég mun reifa rækilega í næstu grein.
Matvælastofnun og yfirdýralæknir
Það er líklega kunnara en frá þurfi að segja að á milli mín og MAST hefur aldrei ríkt kærleikur. Það á rót sína að rekja til ýmissa samskipta við starfsmenn stofnunarinnar fyrir mig persónulega og umbjóðendur mína. Stofnunin hefur frá því að henni var falin framkvæmd laga um velferð dýra unnið viðvaningslega í stjórnsýslulegum skilningi, verið arfaslök í leiðbeiningaskyldu sinni við gagnaðila og verið með ólíkindum slök við að bregðast við aðkallandi málum.
Ég ætla ekki að rekja það nánar hér heldur deila rökstuðningi um það af hverju ég tel að ráðherrum liðinna ára, sem lögin um velferð dýra heyra undir, hafi orðið á mistök að fela MAST framkvæmd laganna. Ég mun hins vegar rökstyðja mál mitt betur í grein nr. 2. og 3. Stofnunin er ekki í neinni aðstöðu til þess að sinna velferð dýra að mínu mati og vegur þar einkum þrennt, þekkingarskortur, mannauður og fjárskortur. Ég varaði við þessu í ítarlegri greinargerð áður en lög um velferð dýra tóku gildi. Þær ábendingar voru virtar að vettugi.
Dýralæknaþjónusta á landsbyggðinni
Yfirdýralæknir með landbúnaðarráðherra fyrir ofan sig eru ábyrgir fyrir mönnun dýralæknaþjónustu á landsbyggðinni. Í áratugi hefur eitt svæði verið svelt. Það eru Vestfirðir. Á því svæði þekki ég mjög vel til vegna tengsla við dýralæknirinn sem MAST hefur valið þar til starfa. Hörkuduglegur og einn okkar reynslumesti dýralæknir. Vel að fálkaorðunni komin eins og yfirdýralæknir! Honum er ætlað að sinna öllum Vestfjörðum 24/7 allt allt árið. Ef sinna á dýralæknaþjónustu eins og hún getur best gerst þá er það útilokað á þessu landsvæði með þeim hætti sem MAST hefur ákveðið undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra, sem var með öllu skeytingalaus í þessum efnum á kjörtímabilinu eins og forverar hans. Á Vestfjörðum þarf miklu betri mönnun.
Neyðarþjónusta dýralækna
MAST sér um að úthluta neyðarþjónustu til dýralækna á höfuðborgarsvæðinu hvar ég bý og hef oft þurft á henni að halda.
Ekki þarf að spyrja að því að sum staðar þessi þjónusta miklu dýrari á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni. Svo mikill er munurinn að dýralæknar á landsbyggðinni taka andköf þegar þeir eru upplýstir um verðlagningu þjónustunnar. Það sem verra er, er að gæludýraeigendur hafa ekkert val í þessum efnum og því er allri samkeppni hrundið með því að úthluta þessari þjónustu til eins aðila fyrir hverja vakt.
Og - það sem ennþá verra er, of oft næst ekki í dýralækni á vakt, sem getur í alvarlegustu tilvikunum leitt til kvalafulls dauða gæludýrs. Um þetta get ég vitnað sjálfur að ekki hefur náðst í læknir á neyðarvakt í 1-2 klst. með hörmulegum afleiðingum - fyrir dýrið.
Dýraverndarsamtök
Í landinu er ekki virk dýraverndarsamtök. Um þau samtök, sem að nafninu til, eru til, verður fjallað um í þriðja hluta.
Hinir vanræktu málaflokkar
Förum yfir málaflokkana, sem stjórnvöld hafa ekki hirt um að sinna á sl. kjörtímabili. Ég mun drepa á nokkrum alvarlegustu málaflokkunum í þessari grein en rökstyðja af meiri dýpt í hverju vanrækslan felst í næstu grein og fjalla um fleiri málaflokka.
Blóðmerar
Á kjörtímabilinu var vakin rækileg athygli á því sem öll Evrópuríki telja siðlausa meðferð á fylfullum merum sem notaðar eru til blóðtöku - blóðmeraiðnaðinum. Það gerði ég fyrstur manna með mest lesnu grein minni frá upphafi og birtist á vefmiðlinum kjarninn.is 14. janúar 2020 og ber heitið Dýravernd – blóðmerahald og fallin folöld þeirra á Íslandi.
Í blóðmeraiðnaðinum felst blóðtaka úr fylfullum merum, allt að 25 lítrar á hverjum sumri. Þeir sem græða á þessu eru blóðmerabændur og eitt fyrirtæki, Ísteka. Úr blóðinu er unnið hormón til að auka frjósemi t.d. í svínaeldi.
Við leyfisveitinguna átti MAST í stökustu vandræðum við að finna lagaheimild sem styddi þessa blóðtöku. Hana var útilokað að finna í lögum um velferð dýra enda augljóslega í andstöðu við meginreglur laganna. Þá fór MAST eða öllu heldur Fagráð MAST krókaleið en það tekur umdeild atriði í dýrahaldi til umfjöllunar og síðan að vera hægri hönd yfirdýralæknis við ákvarðanatöku. Þetta fjandsamlega athæfi var fellt undir reglugerð um vísindarannsóknir á dýrum, sem ég tel svívirðilega aðferð við að réttlæta meðferð á dýrum, sem er í algerri andstöðu við meginreglum laga um velferð dýra. - Og til að toppa allt þá studdi fulltrúi Dýraverndarsambandsins í Fagráði MAST þetta.
En svona virkar Íslands þegar hagsmunaaðilar með bænda og dreifbýlisflokkinn Framsóknarflokkinn situr i ríkisstjórn. Og sá flokkur hefur fleira umdeilt á sinni samvisku í tengslum við dýravernd - jafnvel þó formaðurinn sé eiðsvarinn dýralæknir! Tölum um loðdýraeldið.
Loðdýraeldi
Á kjörtímabilinu hélt loðdýraeldið áfram á Íslandi þó mjög hafi hallað undan fæti undanfarin ár vegna minnkandi eftirspurnar. Umdeildur ,,búskapur" sem er líka kenndur við siðleysi víða í Evrópu. Villtir minkar eru haldnir innilokaðir í agnarsmáum búrum alla sína stuttu lífstíð, sem er miklu skemmri en villtra dýra í náttúrunni. Þeir eru síðan aflífaðir með útblæstri og flegnir þegar ,,bóndinn" vill græða á skinnunum.
Vegna mikils taprekstur í iðnaðinum tók forystumaður Framsóknarflokksins í ríkisstjórn og dýralæknir, Sigurður Ingi Jóhannsson sig til og jós skattpeningum, í greinina til að halda lífi í þeim fáu bændum sem ennþá stunda þennan iðnað, sem ætti að vera löngu búið að leggja niður á Íslandi eins og víðast hvar í Evrópu. Svona háttalag get ég ómögulega stutt. Framsóknarflokkurinn fær falleinkunn hjá mér, bara fyrir þetta.
Hreindýrskýr og kálfar þeirra
Á kjörtímabilinu var vakin rækilega athygli á veiðimanna á hreindýrskúm með kálfa á spena. Já mjólkurþurfi afkvæma. Heimilt er að skjóta kýr frá kálfum á meðan þeir eru ennþá að sjúga mömmu sína.
Þessu var ýtt að umhverfisráðherra, sem snéri sér í hina áttina og vildi greinilega ekkert af þessu vita. Hann þorði ekki að standa upp og banna þessa árás á nánast óburða hreindýrskálfa eins og svar hans og viðbrögð hér að framan sýna.
Hvaða framboð hafa dýravernd í sinni stefnuskrá
Heildarfjöldi, einungis búfjár á Íslandi, er um 2.000.000 (opinber tala frá því fyrir nokkrum árum), sem er margföld íbúatala á Íslandi. Ef gæludýr og villt dýr eru tekin með hleypur þessi tala á milljónum. Því mætti ætla að hjá íslenskum stjórnmálaflokkum væri vernd málleysingjanna nokkuð ofarlega á baugi. Svo er ekki.
Neðangreint er yfirlit yfir hvaða framboð, í næstu kosningum, eru með dýravernd í stefnuskrá sinni.
Píratar: engin stefna en styðja þó tillögur Stjórnlagaráðs þ.m.t ákvæði um dýravernd þar og varaþingmaður drap á dýravernd á yfirstandandi kjörtímabili úr ræðupúlti þingsis.
Flokkur fólksins: engin stefna í stefnuskrá.
Sósíalistaflokkur Íslands: engin stefna í stefnuskrá.
Miðflokkurinn: engin stefna í stefnuskrá en formaðurinn hampar íslensku kjöti af föllnu dýri þegar hann vill auka vinsældir sínar á meðal kjósenda.
Samfylkingin: engin stefna í stefnuskrá.
Sjálfstæðisflokkurinn: engin stefna í stefnuskrá.
Framsóknarflokkurinn: engin stefna í stefnuskrá.
Vinstri hreyfingin grænt framboð: Fyrsta málsgrein landbúnaðarstefnu flokksins endar á að gætt verði að velferð dýra.
Viðreisn: engin stefna í stefnuskrá.
Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn: ekki nokkur stefna.
Þetta er vert að hafa í huga í alþingiskosningunum 24. september næstkomandi. Vilji kjósenda er nefnilega skýr. Hann er kemur í ljós þegar niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá, sem haldin var 2011 er skoðuð. Í 36. gr. þess frumvarps stendur ritað:
„Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda í útrýmingarhættu.“
Engin flokkur utan Pírata hefur hins vegar haft kjark til að virða þá niðurstöðu. Hví ættu kjósendur að virða þau framboð, að óbreyttu, sem nú bítast um að komast á þing og minnast ekki á dýravernd í stefnuskrám sínum
Lokaorð
Svo mörg voru þau orð um afrakstur stjórnmálaflokkanna í dýravernd á því kjörtímabili sem er að ljúka og stefnuleysi allra framboða í þeim efnum fyrir komandi kosningar. Það er til marks um þröngsýni stjórnmálaflokka, illa upplýsta frambjóðendur, virðingar og skeytingarleysi við dýr að sýna málleysingjunum engan stuðning í framboðsbarráttu sinni.
Að lokum birti ég hérna smá konfektmola á léttum nótum en með djúpum skilaboðum
Og til að botna þetta spyr ég: hvað er í gangi hér eða eins og titill myndbandsins hér segir: Was ist her loss, með þýsku hljómsveitinni Eisbracher en við þurfum svo sannarlega að brjóta ísinn til að verða ágengt á Íslandi - ekki bara í dýravernd heldur á öllum sviðum, er mitt mat.
Höfundur er dýraréttarlögfræðingur og verðandi doktorsnemi í dýrarétti