Dýrmætar skopmyndir

audur-jons.jpg
Auglýsing

Einu sinni, fyrir tæpum áratug þegar ég bjó í Kaupmannahöfn, reyndi ég að verja viðbrögð þeirra múslima sem mótmæltu birtingu á skopmyndum af Múhameð spámanni. Ástæðan var hatursorðræðan í garð múslima sem var þá, og er sennilega ennþá, því miður, ríkjandi þar í landi og miklu víðar.

Eldheit umræðan um þessar myndir var sem bensín á bál fordóma. Í dag, í kjölfar morðanna í París, er vissulega hætta á að það sama gerist, að saklaust fólk, þ.e. hófsamir múslimar, verði fyrir hættulegum hatursfordómum. Í Þýskalandi er nú þegar risin upp óhugnanleg hreyfing sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið, nefnilega PEGIDA (Patriotische Europäer gegen die Islamisierung des Abendlandes) en fólk hér í landi hefur fjölmennt víða til að reyna að draga strax úr áhrifum hennar, mætt í andstöðugöngur gegn PEDIDA-göngum og staðið fyrir tignarlega táknrænum gjörningum gegn þeim, gjörningum á borð við myrkvaða Dómkirkjuna í Köln.

En þarna um árið gerði ég mig seka um að rugla saman ólíkum málum, fordómum og frelsi, og það er hættulegt að rugla þeim saman.

Auglýsing

Morðin í París eiga líklega eftir að hafa afleiðingar, slæmar fyrir margt gott fólk, en það má aldrei gleyma því að mál- og tjáningarfrelsið er heilagt. Og þá ekki síður fyrir fólk í samfélögum þar sem mannréttindi eru fótum troðin. Því ef við svíkjum grundvallarhugmyndir á borð við það þá eru samfélög okkar á varhugaverðum stað.
Charlie Hedbo

Heimurinn stærri en Danmörk


Ég hafði rangt fyrir mér þegar ég reyndi að réttlæta viðbrögð múslima í Danmörku við skopmyndunum. Þá horfði ég á hlutina í dönsku samhengi, það að eitt stærsta dagblað Danmerkur væri að hjóla í minnihlutahóp í samfélaginu sem ætti erfitt með að fóta sig í fordómafullu umhverfi, nokkuð sem á enn við.

En átökin um tjáningarfrelsið eru svo miklu stærra mál en svo, það er eitthvað sem snertir allar manneskjur djúpt. Tjáningarfrelsið frelsar okkur manneskjurnar úr viðjum ranghugmynda okkar. Í dag er ég því þakklát þessum skopmyndum sem hafa fengið mig til að hugsa nánast daglega um tjáningarfrelsið síðasta áratuginn, nokkuð sem ég hefði líklega ekki gert hefðu þessar myndir aldrei birst.

Vissulega getur í sumum tilfellum verið fínleg, jafnvel ójós lína á milli hatursorðræðu og tjáningarfrelsis en þessi mörk eru samt ólýsanlega áhugaverð og efni í endalausar pælingar, pælingar sem við ættum að velta upp á hverjum einasta degi því einmitt rökræðan færir okkur nær skilningi. Oft kostar það að við þurfum að fikra okkur í blindni eftir krókaleiðum – og reka okkur á í rökræðum – en kannski er það eina leiðin, að takast á við hugmyndir, bæði góðar hugmyndir og ranghugmyndir, vega þær og meta, skilja mótsagnirnar í bæði sjálfum sér og öðrum og gleyma aldrei að í lífinu fyrirfinnast hlutir sem eru æðri okkur sjálfum. Einmitt þessa hluti er ekki alltaf auðvelt að skilja, birtingarmyndir þeirra geta verið flöktandi.

Opinberun heimskunnar


Umræðan um skopmyndirnar af Múhameð er dýrmæt. Hún var – og er – nauðsynleg. Allar þessar ólíku raddir sem heyrðust. Raddir sem hefðu aldrei heyrst ef myndirnar hefðu ekki birst og fengið fólk til að hugsa um gjörninginn í stærra samhengi, út frá öllum hliðum. Þær fengu fólk út um allan heim til að rífast, rökræða og hugsa.

Vissulega varð öll þessi umræða kveikja að fordómum, eins og áður sagði, en þegar öllu er á botninn hvolft þá kom meira gott en vont út úr birtingu myndanna. Hlutir sem þurftu hreinlega að koma upp á yfirborðið og hefðu gert það, fyrr eða síðar. Gjörningurinn varð til þess að meðvitund fjölmargra um mál- og tjáningarfrelsið jókst til muna, held ég.

En frelsinu fylgir ábyrgð og því er hræðilegt að sjá nú fólk þjóta fram á vígvöll samskiptamiðlanna með fordómafullum upphrópunum í garð múslima almennt, líkt og það hlakki í því yfir ódæðinu.

Þetta fólk vil ég minna á að Stephane Charbonnier, ritstjóri Charlie Hebdo sem lést í gær, sagði í viðtali við BBC eftir sprengjutilræði árið 2011 að það væri á ábyrgð heimskra öfgamanna en endurspeglaði ekki múslima í Frakklandi.

Sennilega eru múslimar í Frakklandi upp til hópa eins og fólkið í götunni minni hér í Berlín, í henni er hátt hlutfall íbúanna múslimar. Upp til hópa fólk sem lifir sínu lífi í frið og spekt. Elskulegt fólk sem hefur orð á sér fyrir að vera barnvænt og greiðviknara en margur þungbúinn þýskættaði Berlínarbúinn. Fólk sem þarf að lifa við að í sögulega meðvituðu heimalandi þess, Þýskalandi, sé hættuleg hreyfing á borð við PEGIDA orðin að veruleika.

Það er auðvelt að misnota tjáningarfrelsið til að dulbúa hatursorðræðu. Andstæðu alls þess sem er þess virði að lifa og deyja fyrir. En tjáningarfrelsið er ekki það sama og afsökun fyrir opinberun heimskunnar, sama þótt það veiti okkur frelsi til að tjá hana.
Gleymum heldur ekki að sama dag og ráðist var með vopnum á tjáningarfrelsið í París þá var heill Víðsjárþáttur tileinkaður bágri stöðu fjölmiðla á Íslandi og því hvernig eignarhald fjölmiðlanna kæfir tjáningarfrelsi blaðamanna. Sýnum öllum sem látið hafa lífið fyrir tjáningarfrelsið þá virðingu að hlúa að því hvern einasta dag, af virðingu en þó áræðni.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit
None