Á annan tug þúsund manns hafa þegar skrifað undir áskorun til forsetans á síðunni þjóðareign.is þar sem hann er hvattur til að vísa frumvarpi um úthlutun makrílkvótans til þjóðaratkvæðis. Að baki söfnuninni stendur alls kyns þungavigtarfólk: Jóns Steinsson hagfræðingur, Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, Guðrún Pétursdóttir, fyrrum forsetaframbjóðandi, Þorkell Helgason, fyrrverandi prófessor, Elín Björg Ragnarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, hagfræðingarnir Henný Hinz og Bolli Héðinsson og Agnar K. Þorsteinsson, sérfræðingur í upplýsingatækni.
Mjög áhugavert verður að sjá hvernig Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, bregst við áskoruninni. Í aðdraganda síðustu forsetakosninga sagði hann í viðtali við útvarpsþáttinn Sprengisand á Bylgjunni að það væri erfitt að hugsa sér stærra mál sem væri eðilegt að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu en kvótamál. Það væri orðið stærsta mál þjóðarinnar. „Þar er um að ræða ráðstöfun á sameign þjóðarinnar. Þar er um að ræða hvað þjóðin, eigandi auðlindarinnar, fær í sinn hlut. Það er erfitt að hugsa sér stærra mál en það, sem myndi vera eðlilegt að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef einhver hluti þjóðarinnar telur það mikilvægt[...]
Þannig að ég tel að eðli málsins sé þannig, að það séu tiltölulega fá mál jafn vel til þess fallin að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kvótamálin. Því þar er þjóðin sjálf að taka afstöðu til þess hvernig hún vill ráðstafa sameign sinni,“ sagði forsetinn.
Í júli 2013 fékk forsetinn afhent 35 þúsund undirskriftir þar sem hann var hvattur til að synja lögum um lækkun veiðigjalda á útgerðir, sem þá glæný ríkisstjórn gerði að fyrsta máli sínu til að keyra í gegnum þingið. Eftir að hafa legið undir feldi í nokkra daga ákvað forsetinn að skrifa undir lögin. Í yfirlýsingu útskýrði hann ákvörðun sína svona: „Lögin fela því ekki í sér grundvallarbreytingar á nýtingu auðlindarinnar en kveða á um tímabundnar breytingar á greiðslum til ríkisins, sköttum vegna nýtingar. Að vísa lögum af því tagi í þjóðaratkvæðagreiðslu væri svo afdrifaríkt fordæmi að víðtækar umræður og afar breiður þjóðarvilji þyrfti að vera á bakvið slíka nýskipan í meðferð skattlagningar, þjóðaratkvæðagreiðslur um hækkanir eða lækkanir á einstökum tekjuliðum ríkisins[...]Ég hef þess vegna ákveðið að staðfesta lögin en árétta um leið hvatningu til stjórnvalda, Alþingis og ríkisstjórnar, um að kappkosta við boðaða endurskoðun að ná varanlegri og víðtækri sátt um skipan fiskveiða og arðgreiðslur til þjóðarinnar enda sýnir fjöldi undirskrifta vegna laganna um veiðigjald að almenningur hefur ríkan vilja og réttlætiskennd í þessum málum.“
Lítill vafi er á því að frumvarpið um úthlutun makrílkvótans felur í sér grundvallarbreytingu á tilhögun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Samkvæmt því verður makrílkvóta, sem skilar tugum milljarða króna á ári, úthlutað til útgerðarmanna í sex ár hið minnsta. Því er útgerðarmönnum í fyrsta sinn veitt óafturkallanlegt forræði yfir aflaheimildum til lengri tíma en eins árs.
Lögin fjalla alls ekki einvörðungu um tímabundnar greiðslur til ríkisins og með þeim er sannarlega verið að ráðstafa arðinum af sameign þjóðarinnar til fárra útgerðarfyrirtækja.
Í bakherberginu eru allir sammála um að ef Ólafur Ragnar ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér sé borðliggjandi að hann vísi þessu „stærsta máli þjóðarinnar“ til þjóðaratkvæðis svo þjóðin geti sent þingmönnum skýr skilaboð um hvort hún vilji að kvóti sé gefinn útgerðum eða hvort hann eigi að skila meiru í samneysluna.
Þannig gæti forsetinn hætt (kjörtímabilið hans rennur út á næsta ári) eftir 20 ára fordæmalausa setu í embættinu með því að leggja mesta deilumál síðustu áratuga í hendur þjóðarinnar.
Það verður að telja ólíklegt að Ólafur Ragnar, sem er mikill aðdáandi hins dramatíska, láti slíkt tækifæri renna sér úr greipum.