Kvótakerfið hefur verið við lýði á Íslandi frá árinu 1984. Það öðlaðist lagalegt gildi þegar ég var þriggja ára og eins mánaðar gamall. Samkvæmt því fá útgerðir úthlutað ákveðnu magni af kvóta í mismunandi fiskitegundum á grundvelli veiðireynslu. Árið 1990 var gert heimild að framselja kvóta. Þá var ég tíu ára. Þótt skýrt sé kveðið um það í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar máttu þeir sem fengu úthlutað kvóta án þess að greiða fyrir hann, selja hann til hæstbjóðanda og hirða ágóðann. Fjölmargir ákváðu að gera þetta og því hefur kvótinn safnast á færri og færri hendur undanfarna áratugi.
Kvótakerfið er skynsamlegt kerfi. Um það eru flestir sammála. Það kemur í veg fyrir að við göngum um of á þá takmörkuðu auðlind sem fiskurinn í sjónum er, og getum þar af leiðandi nýtt hana á sjálfbæran hátt. Úthlutun kvótans, og síðar leyfilegt framsal hans, er hins vegar það mál sem rifist hefur verið mest um á Íslandi á meðan að ég hef verið til, en í dag er ég 34 ára gamall. Og ef ekki verður ráðist í endanlegt sáttarferli þá verður rifist um þetta þangað til að ég verð kominn undir græna torfu. Og jafnvel miklu lengur.
Þjóðin á en ræður ekki yfir
Það sem situr í flestu venjulegu fólki er að þótt þjóðin eigi fiskveiðiauðlindina í orði þá virðist hún ekki gera það á borði. Stórútgerðir, sem hagnast samanlagt um tugmilljarða króna á ári, halda eftir þorra þess hagnaðar. Og eigendur þeirra stórútgerða hafa orðið ævintýralega ríkir fyrir vikið.
Það er engin krafa uppi um að útgerðirnar sem veiða og verka sjávarauðlindina af miklum myndaskap, og skapa um leið fjölmörg störf og útflutningstekjur fyrir íslenskt þjóðarbú, haldi ekki eftir neinum ágóða. Krafan er einfaldlega að ágóðanum af auðlindinni verði skipt jafnara á milli þeirra sem eiga hana og þeirra sem nýta hana. Því í dag fá eigendurnir miklu minna í sinn hlut en notendurnir.
Þetta væri kannski ekki jafn umdeilt kerfi ef eignarhald útgerðanna væri dreifðara. Ef þær væru allar skráðar á markað og lífeyrissjóður og almenningur ætti hlut í þeim. En tvær hendur duga til að telja upp stærstu eigendur flestra útgerðarfyrirtækjanna. Þann litla hóp einstaklinga sem græðir nokkra milljarða króna á ári hver á nýtingu hennar.
Kannski er þjóðin bara fífl
Það er vart umdeilanlegt að langstærsti hluti þjóðarinnar er á þeirri skoðun að þessi skipting arðs af auðlind sem á að vera í hennar eigu, en fámennur hópur tekur að mestu til sín, sé ósanngjörn og óforsvaranleg. Samt breytist í raun ekkert, að öðru leyti en það að byrjað var að rukka mjög hóflegt veiðigjald sem rennur að hluta í að borga fyrir þá þjónustu sem ríkið heldur úti fyrir sjávarútveginn og kvótakerfið.
Það er mjög sérkennileg staða. Að þjóð sem á samkvæmt lögum eitthvað er ítrekað hindruð í því að nýta þá eign með þeim hætti sem hún vill. Í vegi fyrir því standa annars vegar hinn fámenni og ofsaríki hópur eigenda útgerða, sem vill eðlilega halda áfram að græða rosalega, og hins vegar stjórnmálamenn. Útgerðarmennirnir hafa getað notað alla þessa peninga sem veiðarnar hafa fært þeim til að kaupa upp aðrar eignir í samfélaginu. Olíufélög, stærstu heildverslanirnar, fjölmiðla, fyrirtæki í orkutengdum iðnaði, ýmiskonar hluta- og skuldabréf, fasteignir osfr. Völd þessa fólks í íslensku samfélagi eru orðin nánast óhugnarleg og áhrifin eftir því.
Hvað stjórnmálamennirnir fá út úr því að standa gegn þjóðarviljanum er hins vegar erfiðara að greina. Kannski eiga einhverjir þeirra fjáhagslega hagsmuni undir. Kannski treysta einhverjir á stuðning útgerðarinnar til að halda stöðu sinni. Kannski finnst þeim bara þjóðin sem vill breytingar vera fífl sem viti ekki hvað sé þeim fyrir bestu. Það þjónar í raun og veru engum tilgangi að giska á hvað valdi. Svona er þetta.
Á þjóðin í raun auðlindina?
Nú er enn og aftur hlaupinn ofsi í umræður um fiskveiðistjórnunarkerfið, þegar verið er að úthluta stórútgerðum tugmilljarða króna virði af makríl til sex ára. Sú úthlutun byggir á veiðireynslu sem skapast hefur eftir að kvótanum var úthlutað endurgjaldslaust til útgerða árum saman.
Yfir 30 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun um að setja það mál í þjóðaratkvæði. Ljóst er að ef málið kemst í gegnum þingið þá verður mjög áhugavert að sjá hvort Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skrifi undir lögin. Í aðdraganda síðustu kosninga sagði hann að fá mál hentuðu betur í þjóðaratkvæði en það hvernig farið væri með sameiginlega fiskveiðiauðlind þjóðarinnar.
Og það má með sanni segja að það sé gjá milli þjóðarinnar annars vegar og ákveðinna þingmanna, útgerða og hagsmunasamtaka þeirra hins vegar í þessum málum. Eina leiðin til að brúa þessa gjá er að leiða fram þjóðarviljann í málinu með þjóðaratkvæðagreiðslu. Nóg hefur verið tekist á um málið og ljóst að það verður ekki komist að niðurstöðu í því án þess að fara þessa leið.
Stjórnmálamenn hljóta að treysta löglegum eigendum fiskveiðiauðlindarinnar til að ákveða sjálfir hvernig haga eigi skiptingu á þeim arði sem hún skapar. Ef eigandi hefur ekki ákvörðunarrétt yfir eign þá er hann ekki raunverulegur eigandi hennar.
Þá er líka heiðarlegra að segja það beint út.