Eftir fjöldamorðin í París í síðustu viku hefur heimsbyggðin ekki talað um margt annað en árásina á Charlie Hebdo. Hingað til hafa lang flestir talað um morðin sem árás á tjáningarfrelsið. En færri líta á þau sem taktík, leið til að búa til gjá milli múslima og annarra. Hvernig við lítum á ástæður árásarinnar hefur mikið að segja um það hvernig við bregðumst við henni. Þar skiptir mestu máli að við látum hana ekki kynda undir fordómum og hatri gagnvart múslimum í samfélaginu.
Helga Tryggvadóttir þróunarfræðingur.
Í kjölfar þessara hryllilegu morða hafa viðbrögðin að miklu leyti skipst í tvennt. Fyrri hópurinn álítur þau stafa af einhverju fáránlegu hatri múslima á „okkar“ málfrelsi. Eins og samhengi og saga skipti þar engu máli. Hinn hópurinn er svo upptekinn af tengingum milli atvinnuleysis, fátæktar og stöðu múslima sem minnihlutahóps, að hann sér ekki að sú skýring segir heldur ekki alla söguna. Þó fátækt og útilokun hafi vafalaust sitt að segja þá er ekkert samasem merki á milli þess að vera ómenntaður og þess að „vita ekki betur“ .
Lausnin er því ekki endilega fræðsla enda treðurðu ekki fræðslu ofan í kokið á einhverjum sem vill ekkert með hana hafa. Getur verið að tilgangur árásarinnar hafi fyrst og fremst verið taktískur, leið til að ná undirtökunum í stríði? Því það eru víst allnokkur stríð háð í okkar nafni, þó ef til vill hætti okkur til að gleyma því. Þau eru ekki alltaf í sjónvarpinu og því síður á facebook.
Hverjar eru líkurnar á því að árásarmennirnir, fæddir og uppaldir í Frakklandi, hafi ekki áttað sig á því árás á Charlie Hebdo myndi valda reiðiöldu gegn múslimum?
Hverjar eru líkurnar á því að árásarmennirnir, fæddir og uppaldir í Frakklandi, hafi ekki áttað sig á því árás á Charlie Hebdo myndi valda reiðiöldu gegn múslimum? Hvers vegna sækjast þeir eftir því að handsprengjum sé varpað á moskur og hatur gegn þeirra eigin fólki magnist?
Því það mun óhjákvæmilega gerast, þrátt fyrir fögur fyrirheit ráðamanna um samstöðu. Svarið er tiltölulega einfalt; því fleiri árásir sem munu eiga sér stað gegn múslimum í Frakklandi, því meiri líkur á því að franskir múslimar gangi til liðs við Al Qaeda og ISIS í Miðausturlöndum. Þessari taktík hafa sömu hópar beitt áður í Írak en hún er ein aðal ástæðan fyrir þeim undirtökum sem ISIS hefur náð á svæðinu.
Ef til vill varð Charlie Hebdo ekki að skotmarki sökum innihalds þess (sem hefur þó kannski ekki hjálpað til). Skotmarkið hefði í raun getað verið hvað sem er, svo framarlega sem það hefði skapað næga reiði og ótta. Höfum í huga þá ímynd sem þessir hópar sem morðingjarnir tilheyrðu eru að reyna að skapa sér; árásir á barnaskóla, afhöfðanir blaðamanna, hryðjuverk. Þjóðir reyna að skapa sér ímyndir og það sama á við um hryðjuverkasamtök, þarna er allt gert til að skapa sem mestan ótta og viðbjóð hjá andstæðingnum. Að sumu leyti má skilgreina þetta sem algjöra andstæðu þeirrar ímyndar sem Vesturlönd reyna að skapa sér; Við komum með frelsi og lýðræði en í raun ætlum við að geyma þig í appelsínugulum galla án dóms og laga í áratug, aflífa þig með mannlausri sprengjuflugvél eða beita „nýstárlegum“ yfirheyrsluaðferðum sem, ef þær væru notaðar af hinum aðilanum, væru kallaðar villimannslegar.
En það er ekki þar með sagt að árásin á Charlie Hebdo hafi ekki áhrif á tjáningarfrelsið, þó ég vilji halda því fram að það hafi ekki verið eini tilgangurinn. Vissulega getur það gerst núna að skopmyndateiknarar hugsi sig tvisvar um áður en þeir birta skopmyndir af spámanninum vegna ótta við afleiðingarnar.
En það er ekki þar með sagt að árásin á Charlie Hebdo hafi ekki áhrif á tjáningarfrelsið, þó ég vilji halda því fram að það hafi ekki verið eini tilgangurinn. Vissulega getur það gerst núna að skopmyndateiknarar hugsi sig tvisvar um áður en þeir birta skopmyndir af spámanninum vegna ótta við afleiðingarnar. Það er hins vegar líklegra að við sjálf leyfum tjáningarfrelsinu að ganga okkur úr greipum með því að horfa í hina áttina á meðan hið alltumlykjandi eftirlitskerfi ríkisins andar ofan í hálsmálið á okkur. Rétt eins og hefur nú þegar gerst með friðhelgi einkalífsins. Og hvernig geta Vesturlönd státað sig af málfrelsi á meðan fólk á borð við Chelsea Manning, Edward Snowden og Julian Assange eru ýmist fangelsuð eða á flótta, fyrir það að koma upplýsingum á framfæri? Á sama tíma berast fréttir um að múslimar séu í auknum mæli dæmt fyrir ummæli á netinu (þeir eru víst ekki að segja „rétta“ hluti) og hinn umdeildi grínisti Dieudonne var nýlega fangelsaður fyrir þá sök að „afsaka hryðjuverk“ í facebook kommenti. Ef við ætlum að verja tjáningarfrelsið þýðir ekki bara að verja það gegn öfgamönnum, við verðum líka að verja það gegn okkur sjálfum.
Í því andrúmslofti fordóma og haturs sem nú ríkir eru margir sem rugla því saman að útskýra og réttlæta. En ef við viljum ekki búa til vítahring stigvaxandi ofbeldis gæti verið skynsamlegt að setjast niður og reyna að skilja hvað gerðist og hvers vegna. Það skiptir engu máli hvort við höldum áfram að dansa á hinni fínu línu kaldhæðni og móðgana, á meðan ríkisstjórnir Vesturlanda eru enn að ráðast inn í önnur lönd og pynta fólk í nafni frelsis og lýðræðis. Jafnvel þó fyrstu viðbrögð á yfirborðinu séu þau að kenna ekki múslimum sem heild um það sem gerðist, þá býr samt þessi hugmynd í kollinum á mörgum, að kannski séu þeir bara öðruvísi, að kannski sé þeim bara illa við málfrelsið, að kannski er þetta bara það sem gerist þegar þú ert með stóran hóp af ómenntuðum atvinnuleysingjum sem koma úr annarri menningu en þú. Og á endanum, þegar fennir yfir atburðina og samstaðan er fokin út um gluggann þá munu þessar hugsanir gægjast fram úr skúmaskotunum, skýringar sem fela það í sér að þetta séu meiri villimenn en „við“, að „þeir“ hati málfrelsið „okkar“ en ekki það að þeir hati hræsnina sem felst í því að ráðast inn í lönd múslima með málfrelsið í annarri og mannlausan dróna í hinni, reiðubúin til að mata þá inn um öfugan enda. Hvernig getur þetta endað öðruvísi en með ósköpum?
Núna sleikja öfgahægrimenn út um því þeir fá loksins tækifæri til að segja: „Við sögðum ykkur það“
Þetta er taktík, ætlunin er að æsa alla nógu mikið upp þannig að þeir drífi sig til Sýrlands til að láta sprengja sig í loft upp. Og hún er strax farin að virka, með árásum á moskur og yfirlýsingar Marine Le Pen um að endurvekja eigi dauðarefsingar. Núna sleikja öfgahægrimenn út um því þeir fá loksins tækifæri til að segja: „Við sögðum ykkur það“ en á meðan erum við hin, þau „frjálslyndu“ og “fordómalausu“ að endurskilgreina „ef þú ert ekki með okkur þá ertu á móti okkur“ yfir í „ef þú hlærð ekki þá ertu terroristi“.