Í aðdraganda hrunsins var íslensku viðskiptalífi stýrt af hópi manna sem voru oftar en ekki klyfjaðir af hroka og yfirlæti. Mörgum þeirra fannst þeir sjálfir vera ósnertanlegir hálfguðir og flest allir aðrir sem tilheyrðu ekki þeirra kreðsum vera fífl. Í þeirra huga áttu fjölmiðlar að vinna að auknum uppgangi viðskiptahagsmuna þeirra, ekki að vera að vasast í því hvort þeir stæðust leikreglur eða lög. „Bottom line“ var það sem skipti máli og sá sem skildi það ekki „skildi ekki bisness“.
Íslenska fjölmiðla skorti sjálfstraust gagnvart þessum hópi. Völd þeirra voru einhvern veginn yfirþyrmandi og ekki bætti úr skák að allir einkafjölmiðlarnir voru í eigu manna sem voru í forgrunni hans, og hikuðu ekki að skipta sér af fréttaflutningi ef þeim fannst á sig hallað.
Á þessum tíma hikuðu menn (þetta voru nánast án undantekninga karlmenn) ekki við að hóta blaðamanni ef hann spurði erfiðra spurninga. Þær hótanir voru oft undir rós en í þeim fólst að viðkomandi gæti auðveldlega svipt blaðamanninn lífsviðurværinu ef hann hætti ekki þessu veseni. Með fylgdi oft löng ræða um að hann „skildi hvort eð er ekkert bisness“, og ætti þar af leiðandi ekkert að vera að fjalla um viðskipti.
Það kom síðan í ljós að þeir vissu ekkert sérstaklega mikið sjálfir um bisness. Með skelfilegum afleiðingum.
Hættið að horfa afturábak
Undanfarin ár hafa margir blaðamenn eytt miklum tíma í að opinbera það sem þessi hópur stundaði undir því yfirskini að um flókin og háþróuð viðskipti væri að ræða. Niðurstaðan hefur oftar en ekki verið sú að helstu hráefnin í þessum kokteil voru áhættufíkn, sjálftaka, græðgi, hégómi og skeytingarleysi gagnvart afleiðingum gjörða sinna á aðra.
Margir vonuðust til þess að samfélagið myndi læra eitthvað af þessum hrun-hremmingum. Að gerendurnir í stjórnmálum og viðskiptum myndu sjá að nepótisminn og sjálfskörunin af kökunni gengi ekki lengur. Annars mynd múgurinn rísa upp og láta vita að þetta ástand yrði ekki liðið.
Þegar litið er yfir þá vegferð sem við erum á núna, og höfum raunar verið á undanfarin ár, er ekki að sjá að svo sé. Og með hverju árinu sem líður finnst þessu fólki alltaf minna og minna tilefni til að líta til baka og læra. Það vill miklu frekar bara að horfa fram á við og gera. „Bisness as usual“.
Áfram veginn
Hvað felst í slíkum bisness?
Meðal annars að borga starfsfólki banka, sem stofnaðir voru með eignum sem ríkið flutti úr gjaldþrota fyrirrennurum þeirra með stjórnvaldsaðgerð, mörg hundruð milljónir króna í bónusa þegar eignirnar hækka í verði, vaxtaágóðinn af þeim verður prýðilegur eða vegna þess að þóknanatekjur fyrir að selja þessar eignir hækkar milli ára. Og fari síðan á bullandi launaskrið umfram aðrar stéttir til að leiðrétta þann forsendubrest að laun þeirra lækkuðu eftir að geirinn setti heilt hagkerfi á hliðina.
Að Seðlabankinn setji upp leið sem gerir öllum íslensku bisness-mönnunum, sem komust út með peningana sína áður en íslenska hagkerfinu var skellt í lás, með höftum kleift að fá allt að 20 prósent afslátt af íslenskum eignum sem sótsvarta launafólkinu á Íslandi býðst auðvitað ekki.
Að fyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir borgi eins lítið og þau geta í samneysluna en eins mikið og þau komast upp með í arðgreiðslur til örfárra fjölskyldna sem eru orðnar ofurríkar á evrópskan mælikvarða.
Að hlutabréf megi helst ekki falla í verði og að skandalar skráðra fyrirtækja hafi sama sem engin áhrif á gengi þeirra. Ástæðan er sú að lífeyrissjóðir landsins, sem eiga sirka helming skráðra hlutabréfa, geta ekkert selt þau þótt þeim líki illa rekstur fyrirtækjanna, vegna þess að þeir hafa ekkert annað að kaupa.
Að aðilar séu skipaðir sem stjórnarformenn eftirlitsaðila á sama tíma og þeir, og vinir þeirra, eru að mokgræða á í besta falli vafasömum viðskiptum.
Að hópi sem langar í greiðslukortafyrirtæki getur bara rölt sér inn í ríkisbanka og keypt slíkt af honum án þess að aðrir áhugasamir fái að bjóða.
Að sama fólkið og var allt um lykjandi fyrir hrun er nú það fyrirferðamesta í íslenskum viðskiptum, þótt það sé ekki sérstaklega sýnilegt. Ástæðan er sú að fjárfestingar þess eru oft á tíðum faldar í fjárfestingasjóðum sem þurfa ekki að upplýsa um hverjir endanlegir eigendur eru.
Og svo framvegis.
Handvalið til að græða
Í íslenskum bisness felst að fólk er handvalið til að komast yfir peninga. Sumir fá að græða og eiga.
Hrokinn og yfirlætið er lika farið að láta aftur á sér kræla. Aftur er byrjað að segja við blaðamenn að þeir séu allt of neikvæðir. Þeir átti sig ekki á snilldinni. Eigi að hætta þessu veseni. Skilji ekki bisness.
Ég hef verið að fjalla um bisness árum saman. Ég skil hann alveg.
Mér líkar hann bara oft á tíðum alls ekki.