Á næstu vikum gæti dregið til tíðinda í einu mesta hagsmunamáli í sögu Íslendinga. Með afnámi gjaldeyrishafta stendur þjóðin frammi fyrir þeirri hættu að sitja eftir með risavaxnar og óréttmætar skuldir, sem rekja má til bankahrunsins.
Það liggur fyrir að glæfralegir og á köflum ólöglegir starfshættir gömlu bankanna hafa kostað almenning á Íslandi ævintýralegar fjárhæðir og þar með stórskaðað þjóðarhag. Við sitjum eftir með drúgjan hluta reikningsins í formi himinhárra skulda ríkisins, sem eru um 1500 milljarðar. Íslendingar skulda þannig næstum heila þjóðarframleiðslu, sem má að mestu leyti rekja til afleiðinga af starfsemi gömlu bankanna.
Tjón ríkisins gríðarlegt, tjón almennings ekki minna
Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2012 kemur fram að íslenska bankahrunið var þriðja dýrasta í heiminum hvað varðar útgjöld ríkisins, sem námu 740 milljörðum króna. Samkvæmt AGS jukust skuldir ríkissjóðs um rúmlega 70% af landsframleiðslu vegna aðgerða til að takast á við bankahrunið, eða um 1200 milljarða króna. Ofan á þetta bætist svo árlegur vaxtakostnaður upp á tugi milljarða um ókomin ár. Svo er ótalinn sá kostnaður sem lenti á almenningi og fyrirtækjum þegar kaupmáttur hrundi og rekstrarskilyrði þrengdust verulega í kjölfar hrunsins. Á móti öllum þessum kostnaði hefur ríkið fengið um 300 milljarða eignarhlut í nýju bönkunum, en það dugar ekki einu sinni fyrir 400 milljarða króna vaxtakostnaði sem ríkið hefur þegar greitt vegna skuldanna frá 2008!
Vesturænar þjóðir sammála um prinsípið
Á síðustu árum hafa bæði Evrópusambandið og Bandaríkjastjórn sett lög og reglur til að tryggja að þrot fjármálafyrirtækja lendi ekki á almenningi. Sparifjáreigendur skulu njóta forgangs í þrotabú fallinna banka og allur kostnaður sem kemur til vegna uppgjörs þeirra skal vera borinn af eigendum fyrirtækjanna, kröfuhöfum þeirra og jafnvel öðrum starfandi bönkum. Prinsípið er skýrt: kostnaður vegna falls fjármálastofnanna á ekki að lenda á skattgreiðendum.
Af hverju á þetta að vera öðruvísi hér á Íslandi? Í þrotabúum föllnu bankanna liggja um 2.200 milljarðar króna. Ætlum við virkilega að sitja eftir með óbætt tjón upp á næstum heila þjóðarframleiðslu til þess eins að hleypa áhættufjárfestum úr landi með slíkar fjárhæðir, sem eru að stórum hluta til ávinningur af endurreisn landsins sem við kostuðum með miklum fórnum af hálfu samfélagsins og himinháum lántökum? Fjármálaráðherra hefur nefnt að leggja mætti útgönguskatt upp á a.m.k. 40% á kröfuhafa sem vilja fara með sinn hlut út úr landi. Betur má ef duga skal. Það er augljóst að ríkissjóður þarf að innheimta að lágmarki 60% af verðmæti eigna úr þessum þrotabúum bara til að bæta beinan kostnað ríksins af fallinu.
Höfundar eru Dr. Agnar Helgason, mannfræðingur, Dr. Torfi Þórhallsson, verkfræðingur, Ólafur Elíasson, tónlistarmaður og MBA og Ragnar F. Ólafsson, félagssálfræðingur. Undirritaðir starfa með InDefence hópnum.