Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með opinberri umræðu um heilbrigðiskerfið undanfarna daga og vikur en umræðan hefur verið sérstaklega lífleg eftir að niðurstöður könnunar BSRB um álit íslensku þjóðarinnar á rekstrarformi heilbrigðiskerfisins voru birtar. Niðurstöðurnar hvað varðar sjúkraþjálfun, þá grunnstoð heilbrigðiskerfisins sem undirritaður lifir og hrærist í, voru einkar áhugaverðar en þar kom fram að 28,9% svarenda vildu að hið opinbera sæi fyrst og fremst um að reka sjúkraþjálfunarþjónustu, 52,9% voru hlynnt blönduðu kerfi og einungis 18,2% vildu að einkaaðilar sæju um reksturinn. Undanfarið hefur einmitt sá grunur læðst að undirrituðum að almenningur sé hreint ekki vel meðvitaður um hvernig reksturinn í heilbrigðiskerfinu er og hvernig hann hafi í raun og veru verið undanfarna áratugi. Umræðan um tvöfalt kerfi þar sem hinir auðugu geta keypt sig fram fyrir í röðinni poppar reglulega upp og oft er tilfinningin af umræðunni sú að þegar fólk heyrir orðin heilbrigðiskerfi og einkarekstur sett saman, þá virðist það sjá rautt án þess að átta sig almennilega á því hvernig málin í raun og veru standa. Heilbrigðiskerfið á Íslandi hefur nefnilega verið bæði rekið af hinu opinbera og einkaaðilum í mjög langan tíma og sjúkraþjálfun fyrir hinn almenna borgara fyrst og fremst verið rekin af einkaaðilum.
Það hefur einnig verið áhugavert að heyra heilbrigðisráðherra og fleiri aðila, sem talað hafa sérstaklega máli opinbera kerfisins, tala um mikilvægi forvarna. Heilbrigðisráðherrann sagði t.d. í fréttum RÚV 27. maí sl., í umræðu um fjárhagsvandræði hjúkrunarheimilanna, að það yrði að setja meira púður í forvarnir svo að eldra fólk gæti búið lengur sjálfstætt í eigin húsnæði. Formaður BSRB nefndi einnig, í pistli í Morgunblaðinu laugardaginn 5. júní sem snerist að stóru leyti um takmarkanir á frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, að við þyrftum að setja miklu meira í forvarnir. Bæði þessi ummæli skjóta skökku við þegar horft er á þá staðreynd að allar sjúkraþjálfunarstofur landsins sem sinna 1. stigs forvörnum (forvarnir sem miða að því að koma í veg fyrir sjúkdóma eða aðra líkamlega kvilla áður en þeir koma fram) og stuðla að lýðheilsu eru einkareknar og hafa verið í rúma þrjá áratugi. Áherslur heilbrigðisráðherra á auknar forvarnir eru að auki í engu samræmi við ákvarðanir hennar um að útiloka hóp nýútskrifaðra sjúkraþjálfara frá því að taka þátt í þessu mikilvæga forvarnarstarfi.
Sjúkraþjálfarar eru nefnilega sú stétt heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir fyrst og fremst forvörnum og stuðlar að aukinni lýðheilsu. Hvernig stendur á því að á sama tíma og ráðherrann talar um mikilvægi forvarna að hún og hennar ráðuneyti taki ákvarðanir sem stuðli að skertu aðgengi fólks að forvörnum? Þessi síendurtekna tugga um að það verði að setja meira púður í forvarnir er orðin ansi lúin. Það að himininn sé blár er álíka vel þekkt staðreynd og sú að forvarnir eru ódýr og hagkvæmur kostur fyrir heilbrigðiskerfið. Það er hins vegar erfitt að gera kröfur um aukin gæði í þjónustu ef ekki er vilji til þess að setja viðeigandi fjármagn í þjónustuna, því líkt og ónefndur knattspyrnuþjálfari sagði hér forðum daga “Þú býrð ekki til kjúklingasalat úr kjúklingaskít”. Því er óskandi að sá stjórnmálamaður sem tekur við ráðuneyti heilbrigðismála eftir kosningarnar í haust hafi góðan smekk og sé tilbúinn að fjárfesta í gæða hráefni í forvarnasalatið. Við þurfum öll á því að halda.
Höfundur er sérfræðingur í bæklunarsjúkraþjálfun og aðjúnkt við Námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands.