Hugmyndin um Ísland og menn sem giftast náfrænkum sínum

Jón Gnarr tekur fyrir hina svokölluðu Íslandssögu í pistlaröð. Áttundi pistill Jóns fjallar um að skálda í eyðurnar.

Auglýsing

Því er gjarnan haldið fram að heimildir um okkar svokallaða landnám sé mjög traustar og trúverðugar. Margir taka þessu sem heilögum sannleika.

Upplýsingar um landnám Íslands eru að mestu teknar úr tveimur fornritum. Annars vegar Íslendingabók Ara Fróða Þorgilssonar sem talin er hafa verið skrifuð á árunum 1122-32 og hins vegar Landnámabók. Enginn veit hver samdi hana upprunalega en þekktasta útgáfa hennar er útgáfa Sturlu Þórðarsonar frá 13 öld.

Þótt höfundar leggi mikla áherslu á að heimildarmenn þeirra sé traustir þá get ég nú ekki annað en efast um það. Ari fróði á að hafa byrjað að skrifa Íslendingabók 1122. Ef við göngum út frá því að landið hafi verið numið fólki 872 þá er hann að skrifa um atburði sem eiga að hafa gerst 250 árum áður. Það er ekkert smáræðis tímabil. Það er eins og við ætluðum núna að rekja, án nokkurra heimilda og bara eftir munnmælum, eitthvað sem gerðist 1770. Ef við höfum það líka í huga að lífslíkur á þessum tíma voru ekki nema 50-60 ár þá eru kynslóðirnar orðnar 4 eða jafnvel 5. Það er svona einsog ég ætti að setjast niður með einhverjum og segja frá langöfum mínum og ömmum. Þrátt fyrir aðgengi að ítarlegri heimildaskrám og ritum en þekktust á miðöldum og internetinu þá veit ég ákaflega lítið um þetta fólk. En ef mér væri stillt upp við vegg þá gæti ég alveg logið einhverju upp. Ég myndi auðvitað reyna að hafa það upplífgandi og jákvætt. En sannleiksgildið væri vafasamt. Ef ég hefði þekkt afa mína og þeir sagt mér frá öfum sínum og ömmum þá væru þær frásagnir líka litaðar af þeirra upplifunum. Við höfum eðlislæga tilhneigingu, sérstaklega þegar við segjum frá okkar eigin fólki, að draga úr því neikvæða en ýkja hið jákvæða og skemmtilega. Við reynum meðvitað að gleyma því sem lætur okkur líða illa. Það hefur jafnvel verið ákveðin aðferðarfræði við að takast á við áföll. Ef ég gruna mann um að vera barnaníðing þá skiptir eiginlega engu máli hvað ég er viss um það í hjarta mínu, ég get ekki ámálgað það nema hafa einhverjar sannanir fyrir því. En ef ég gruna sama mann um að vera skemmtilegan sögumann þá get ég óhikað talað um það við hvern sem er.

Auglýsing
Mér sýnist nú flest fræðafólk sammála um það að þessar bækur tvær séu vafasamur sannleikur. Það segir ekkert um litteratúrískt gildi þeirra. Það segir ekki að þau hafi gagngert verið samin af illum ásetningi og til að blekkja. Miklu frekar eru þau hafi verið samansett úr brotabrotum, flökkusögum og góðum ásetningi fólks sem þóttist muna meira en það raunverulega gerði. Markmiðið var að segja sögu. En samt bjó líka pólitískur tilgangur að baki, heitar tilfinningar og háleitar hugsjónir.

Annar mjög stór vandi varðandi þessar tvær bækur eins og flest önnur fornrit okkar er að frumritin eru glötuð og við eigum aðeins seinni tíma afritanir. Einn afkastamesti afritari íslenskra fornrita var nánast algjörlega óþekktur maður; Jón Erlendsson prestur. Um hann er ákaflega fátt vitað. En hann vann að þessum skrifum fyrir Brynjólf Sveinsson biskup. Miklu meira er vitað um Brynjólf en Jón. Brynjólfur var fróðleiksfús en líka ofsatrúarmaður og kvenhatari eins og algengt var með marga menn á þessum tíma. Hann var biskup á meðan Stóridómur gilti á Íslandi og yfir 50 menn og konur voru líflátin fyrir hórdómsbrot og fjöldi fólks og sérstaklega kvenfólk þurfti að þola hræðilegt óréttlæti. Brynjólfur giftist náfrænku sinni og þurfti sérstaka undanþágu til hjúskaparins. Saman eignuðust þau Ragnheiði og skoðun margra að Brynjólfur hafi komið einstaklega illa fram við hana og sérstaklega eftir að hún varð barnshafandi rétt tvítug og ógift.

Ég hef ekki farið í grafgötur með það að ég held að landnám Íslands hafi verið með allt öðrum hætti en almennt er talið og landið hafi byggst mest upp af réttlausu verkafólki og þrælum sem hafi bara verið send hingað. Að halda því fram að það hafi verið framtakssamir víkingabændur og höfðingjar sem flykktust hingað því þeir sáu svo mörg spennandi tækifæri í landbúnaði hér er algjör meinvilla. Ísland hentar ekki til landbúnaðar, bæði er veðrið hér vont og sumurin stutt og köld. Íslenskur jarðvegur er rýr og næringarlaus og eldsumbrot, gos og öskufall er regluleg ávísun á uppskerubrest.

Ég held að þjóðsagan um landnámið hafi upphaflega verið samin til að skapa hér eitthvað hópefli, að við værum ekki varnarlaust fólk og afkomendur þræla og illmenna heldur sjálfstætt fólk sem var ekki tilneytt til að vera hér heldur valdi það sjálft. Ísland var á þeim tíma einungis fylki í Noregi sem taldist þar til krummaskuða og þar leit fólk gjarnan niður á okkur og þá gjarnan vegna upprunans. Eflaust hefur sumt af því landnámsfólki, sem upp er talið, verið raunverulegt en ég á bágt með að trúa að það hafi verið þeir spaðar sem sagt er og líf þess frekar óttalegt hokur og býli þeirra frekar kot sem hrúgað var upp með torfi og grjóti. Megnið af þeim nöfnum sem talin eru upp held ég þó að séu tilbúningur og markmið höfundar að búa til ákveðinn fjölda fólks í pólitískri baráttu gagnvart yfirvöldum í Noregi, tryggja reglulegar skipasamgöngur og lagalega stöðu fólksins hér, sem hafði náttúrlega verið réttleysingjar frá upphafi. Yfirvöld í Noregi höfðu takmarkaða getu til að staðfesta eða kanna trúverðugleika upplýsinga sem héðan komu og neyddust til að taka þetta trúanlega. Þetta var seinna kallað hreppapólitík og kjördæmapot, allskonar meðul en á endanum til bóta fyrir hreppinn og íbúa hans. Þessi aðferð virðist hafa virkað vel og það held ég að sé aðal ástæðan fyrir því að henni var haldið áfram og fólk áttaði sig á því hvernig það gat nýtt sér skáldskap til að skapa samfélag og sjálfsvirðingu. Hér eru mörkin á milli skáldskapar og lygi mjög óljós. Þegar við sköpum gervifólk þá byrjað það oft sem lygi sem verður smátt og smátt og með tímanum skáldskapur. Lygi er ekkert alltaf slæm. Þegar blóðugur maður spurði mig einu sinni, með krepptan hnefa á lofti, þar sem ég sat unglingur fyrir utan Hlemm um miðja nótt, hvort ég væri strákur eða stelpa þá sagðist ég auðvitað vera stelpa. Hann sagði að þar væri ég heppinn því hann lemdi ekki stelpur. En hann bætti því líka við að ég væri sú ljótasta stelpa sem hann hefði séð.

Þetta ferli í þroskasögu þjóðar er líka að eiga sér stað á sama tíma og kristin trú er að festa hér rætur. Fyrir tíma hennar trúði fólk bara á stokka og steina. Með kristninni er það í fyrsta sinn kynnt fyrir samræmdri hugmyndafræði sem blandaðist smátt og smátt þjóðtrúnni. Jesú var í upphafi aðeins einn af fjölmörgum öðrum guðum og náttúruvættum. Við sjáum þess til dæmis skýr merki í íslenskum skartgripum og helgimunum frá þessum tíma. Margir þekkja silfurkrossinn sem er líka Þórshamar eða styttuna af Frey sem heldur á krossi á hvolfi.

Með kristninni kemur trúin á ímyndaðar persónur frá útlöndum; Jesú og Maríu mömmu hans, Pál postula og her dýrlinga. Forfeður og mæður okkar höfðu engar handbærar sannanir fyrir tilveru þessa fólks heldur var það tilneytt til að trúa eða ekki, sem er í raun nákvæmlega sama aðferð og við notuðum sjálf gagnvart Noregi og öðrum þjóðum. Þetta var sjálfsbjargarviðleitni sem knúin var áfram af útsjónarsemi og hugmyndaauðgi, þar sem hiklaust var skáldað í allar eyður eftir þörfum og kryddað trú. Kristin trú og heiðinn siður runnu hér saman í eitt og þar var Egill Skallagrímsson jafn raunverulegur maður af holdi og blóði og Jóhannes skírari.

Saga Íslands er ekki historía. Hún er saga eins og orðið ber með sér. Saga og historía eru tvö ólík hugtök en hér er þeim steypt saman í eitt. Í örvæntingarfullum tilraunum sínum við að reyna að rækta eitthvað hér í rokinu, myrkrinu og kuldanum komst fólk að því að það eina sem hægt er að rækta hér af einhverju ráði er skáldskapur.

Orðtakið „að skálda í eyðurnar” verður til í öll þau fjölmörgu skipti sem Íslandssagan hefur verið endurskrifuð eftir gömlum heimildum sem síðan „týndust.”

Ísland er fyrst og fremst hugmynd. Fólk getur trúað á þessa hugmynd eða ekki en það er þó frekar ætlast til þess að maður geri það. Við höfum enga þolinmæði gagnvart trúvillingum og hvað þá -leysingjum. Ísland er bókstafstrúarsamfélag þar sem efahyggjufólk er hiklaust útskúfað úr samfélagi hinna trúuðu. Alveg eins og gert er í öllum öðrum alvöru sértrúarsöfnuðum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit