Stóra skákin – Átökin í kringum Kína

Jón Ormur Halldórsson segir að ekki sé lengur hægt að útiloka að til afdrifaríkra átaka geti komið í kringum Kína.

Auglýsing

Ævintýralega ör uppgangur ríkja í Austur og Suðaustur Asíu hefur hvílt á alþjóðlegum kerfum í pólitík, viðskiptum og hernaði. Mörg þessara kerfa eru farin að riðlast. Þetta er fyrst og fremst vegna vaxandi fyrirferð Kína og nýlegra viðbragða annarra við henni þótt fleira komi til enda eru fleiri ríki í örum vexti. Kerfin hafa sýnt mikið þanþol en nú virðist sumt vera að bresta. Verulegar breytingar eru því í vændum. Ekki er lengur hægt að útiloka að til afdrifaríkra átaka geti komið í kringum Kína þótt varla verði það alveg á næstu árum. 

Trump eða Xi?

Sambúð Kína og Bandaríkjanna versnaði stórlega á valdatíma Trumps. Þetta má þó enn frekar rekja til breytinga á utanríkis og efnahagsstefnu Kínverja undir stjórn Xi Jinping. Þar kemur einkum tvennt til. Annað er mjög aukin pólitísk miðstýring í atvinnulífi sem og stjórnmálum. Hitt er að Kína virðist liggja öllu meira á en áður. Í stað frekar hikandi stefnu í alþjóðamálum vilja Kínverjar nú ná sem fyrst alþjóðlegum áhrifum í einhverju samræmi við stærð og efnahag ríkisins. 

Framganga Kínverja kann að vera úthugsuð en hún einkennist samt talsvert af klaufaskap og stundum af litlum skilningi á öðrum ríkjum eins og til dæmis hefur sést í furðulegri framgöngu Kína gagnvart Ástralíu að undanförnu. Hið svonefnda Belti og braut verkefni sem nær til allra heimsálfa hefur líka almennt gengið illa og komið Kína í vandræði. Stjórn Biden fylgir í raun áfram svipaðri stefnu og stjórn Trumps þótt áferð hennar sé önnur og gefi meiri möguleika á samstarfi við Peking. Áherslan nú er þó mest á að afla bandamanna til að sporna við vaxandi áhrifum Kína. 

Stjórn Biden hefur fylgt sömu stefnu og stjórn Trump gerði. Mynd: EPA

Tvö mál og kaflaskil

Frá sjónarhóli Bandaríkjanna snúast málin um tvö úrslitaatriði sem skipta heiminn miklu máli. Annað er hvort Kína skákar áhrifum og hervaldi Bandaríkjanna og verður ráðandi stórveldi í Asíu. Hitt er hvort Kína verður leiðandi í hátækni í heiminum og grafi þar með undan arðbærasta hluta atvinnulífs Bandaríkjanna.

Þetta eru greinilega langtímamarkmið Kína. Efnahagslega markmiðið er eðlilegt fyrir land sem hefur fyrst og fremst þjónað sem verktaki á neðri stigum virðiskeðja í heimsviðskiptum þótt það sé ört að breytast. Pólitíska markmiðið er skiljanlegt vegna stærðar Kína og vaxandi þarfa landsins fyrir víðtæka hagsmunagæslu. Að auki kemur sú einfalda staðreyndar að Kína er í Asíu en Bandaríkin ekki. Því væri ekki síður eðlilegt að spyrja um ástæður Bandaríkjanna fyrir að vilja vera ráðandi herveldi í Asíu. Nái Kína þessum pólitísku, hernaðarlegu og efnahagslegu markmiðum myndi það þýða kaflaskil í alþjóðamálum.

Vaxandi áhyggjur

Margir sérfræðingar í heimsmálum telja verulegar líkur á hernaðarátökum í Austur Asíu á næstu árum eða í það minnsta á næstu áratugum. Kenningar manna eins og John Mearsheimer hafa notið vaxandi athygli að undanförnu, ekki síst vegna þess að gamlar spár hans um versnandi sambúð Bandaríkjanna og Kína hafa sumpart ræst. Hann segist nú óttast enn meira en áður að stríð brjótist út í kringum Kína þótt hann telji það ekki sérlega líklegt alveg á næstu árum. Annar þekktur fræðimaður, Clyde Prestowitz, segir í nýútkominni bók að uppgangur Kína sé erfiðasta og hættulegasta ógn sem Bandaríkin hafi nokkru sinni staðið frammi fyrir.

Auglýsing
Átök á milli Kína og Vesturlanda verð án efa eitt helsta einkenni alþjóðakerfisins næstu áratugi. Í Asíu má raunar víða rekast á þá skoðun að Vesturlönd muni ekki skipta miklu máli fyrir framtíð Asíu. Frekar er þá spurt hvernig stór eða öflug ríki eins og Indland, Japan, Suður-Kórea, Indónesía, Ástralía og fleiri ríki bregðist við Kína og aðlagi sig vaxandi áhrifum landsins.

Flotaveldi Bandaríkjanna og aðgangur að bandarískum mörkuðum hljóta þó enn að vera til miðju í öllum skynsamlegum útreikningum. Það er þó stutt þangað til ný eldflaugatækni Kínverja og uppbygging kafbátaflota landsins mun gera bandarískum flugvélasmóðurskipum erfitt fyrir með aðgang að hafsvæðum í kringum Kína. Á þeim aðgangi hvílir hervald Bandaríkjanna í þessum heimshluta. Tíminn vinnur ekki með Bandaríkjunum.

Hættulegir veikleikar?

Margir benda á veikleika Kína og efast um að ríkið muni hafa nægilegt afl í náinni framtíð til að skáka bandarískum áhrifum í Austur og Suðaustur Asíu, hvað þá til að ná sterkum ítökum í kringum Indlandshaf þar sem fleiri búa en við Atlantshaf. Auðvelt er að finna rök um alvarlega veikleika í Kína. Gallinn við þau rök í þessu samhengi er hins vegar sá að veikleikar kínverska ríkisins kunna að vera hættulegri en styrkleikar þess. Þetta er vegna þess að margir þeirra eru þess eðlis að stjórnvöld í vanda gætu bætt stöðu sína innanlands með því að sýna fulla hörku í samskiptum við aðrar þjóðir og kenna samsæri útlendinga um öll vandræði. Þetta er gömul saga og ný í pólitík um víða veröld.

Þjóðernishyggja í stað kommúnisma

Kínverski kommúnistaflokkurinn sem stjórnar Kína með vaxandi afskiptasemi af litlu sem stóru í atvinnulíf og pólitík er alls ekki lengur kommúnískur flokkur. Hann er fyrir nokkru orðinn næsta hreinræktaður þjóðernisflokkur sem lýtur hugmyndum um valdstjórn í þágu þjóðernislegra markmiða. Þjóðernishyggja, eins og sagan sýnir, er alltaf úrræði þeirra sem vilja síður ræða af alvöru um innri erfiðleika eins og ójöfnuð.

Þörfin fyrir opinn heim

Aðrir sem andæfa því að hættulegir tímar fari í hönd benda á að kínverska hagkerfið sé sérlega háð viðskiptum við umheiminn. Þar er í senn átt við nauðsynleg aðföng, arðinn af útflutning sem knúði lengi vöxtinn í Kína og aðgang að þróaðri tækni sem verður sífellt alþjóðlegri að uppruna. Þótt innlend eftirspurn verði sífellt stærri hluti kínverska hagkerfisins hefur kínverskt atvinnulíf enn ríka þörf fyrir sæmilega opin alþjóðaviðskipti. Í því felst ein helsta ástæðan fyrir bjartsýni varðandi framtíðina.

Sporin hræða

Ófriður hefur nær alltaf hefur hlotist af vaxandi afli nýrra stórvelda og hnignun þeirra sem fyrir voru. Nánast eina dæmi sögunnar um heimsveldi sem bakkaði í friðsemd fyrir nýju stórveldi er að finna í yfirtöku Bandaríkjanna á forræði breska heimsveldisins eftir síðari heimsstyrjöldina. Þá hélst góður friður og samvinna á milli viðkomandi stórvelda. Tvennt þarf hins vegar að hafa í huga í því samhengi. Annað er að Bandaríkin voru á þeim tíma nánast menningarlegt afkvæmi Bretlands. Hitt er að uppgangi Bandaríkjanna fylgdu mörg og stór stríð við aðra en Breta.

Vandi stórvelda

En hvers vegna sækjast öflug ríki eftir því að verða stórveldi? Og stórveldi eftir því að verða heimsveldi? Breska heimsveldið var fyrst og fremst einokunar bissness í skjóli hervalds. Það breytti heiminum meira en nokkuð annað stórveldi hefur gert. Fátt af því var þó úthugsað. Eins og önnur heimsveldi áttu Bretar í sífellt meiri erfiðleikum með að draga mörk afskipta sinna. Bandaríkin eru líka dæmi um land sem missti tökin á afskiptasemi sinni. Þetta byrjaði með vörn fyrir bissness í rómönsku Ameríku og þróaðist yfir í alheimslögreglu á tímum kalda stríðsins með hundruð herstöðva hringinn í kringum jörðina. Bandaríkin hafa eytt trilljónum dollara í tuttugu ára langt tilgangslítið stríð í Afghanistan. Og það í kjölfar enn dýrara og mannskæðara stríðs í Írak sem var byggt á misskilningi af því tagi sem hrokinn einn getur fært mönnum. Kína mun smám saman líka lenda í vandræðum með að greina helstu hagsmuni sína og draga sín mörk. Aðstæður Kína til mótunar utanríkisstefnu eru hins vegar gerólíkar aðstæðum Bandaríkjanna. Í því felast bæði hættur og tækifæri fyrir umheiminn.

Innikróað stórveldi

Bandaríkin eru umlukin stærstu úthöfum heimsins til austurs og vesturs, nánasta vini sínum til norðurs og máttlitlum ríkjum til suðurs. Stríð Bandaríkjanna voru líka flest í öðrum heimsálfum. Kína er í gerólíkri aðstöðu. Það mótar bæði möguleika landsins til áhrifa og hættur á ófriði.

Kína á landamæri að 14 ríkjum og landamæri á sjó við sjö önnur. Kína á í einhvers konar landamæradeilum við átta af þessum ríkjum. Öfugt við Bandaríkin sem söfnuðu að sér nánum bandamönnum, bæði innan og utan hins engilsaxneska heims, á Kína hvorki vini né eiginlega bandamenn. Möguleikar Kína til áhrifa í öðrum heimsálfum eru takmarkaðir af því að landið innikróað af meira en tuttugu ólíkum nágrönnum sem hver um sig hefur ólíka hagsmuni. Þetta eykur hins vegar líkurnar á því að Kína lendi í átökum í sínu eigin nágrenni.

Vilja ekki velja

Flest ríki Suðaustur-Asíu hafa þá meginstefnu að koma sér hjá því að velja á milli bandalags við Bandaríkin eða Kína. Val væri líka erfitt fyrir þau. Sú hugsun að Bandaríkin séu fyrst og fremst markaður en að Kína sé og verði risinn í næsta húsi er algeng í þessum heimshluta.

Auglýsing
Flest ríkin vilja þátttöku Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja í málefnum svæðisins en aðeins þó að vissu marki. Dæmi um þetta er Víetnam sem er fullt tortryggni gagnvart Kína og býr við yfirgang Kínverja á hafinu í kring en er hins vegar af ýmsum ástæðum mjög andstætt nánu bandalagi við Bandaríkin.

Vaxandi viðspyrna

Formlegt samstarf Bandaríkjanna við þrjú lykilríki í þessum heimshluta, Indland, Japan og Ástralíu sem á sér langa sögu og gengur undir nafninu Quad, eða ferningurinn, hefur verið eflt að undanförnu. Japanir hafa reynt allt sem þeir mega til að ná sem nánustu samstarfi við nokkur ríki á svæðinu og þá fyrst og fremst Indland en einnig ríki í Suðaustur Asíu eins og Indónesíu og Víetnam.

Í öllum þessum stóra hóp ólíkra ríkja hefur Indland algera sérstöðu, fyrst og fremst vegna stærðar landsins. Indverjar verða brátt fjölmennari en Kínverjar og þeir verja nú miklum fjármunum til uppbyggingar á herafla. Samstarf Vesturlanda og Japan við Indland er hins vegar að ýmsu leyti erfitt vegna þeirrar trúarsetningar í indverskum stjórnmálum að landið eigi ekki að ganga í ríkjabandalag heldur halda í algert sjálfstæði. Í þessu samhengi er athyglisvert að Vesturlöndum hefur gengið mun betur að eiga samstarf við Kína en Indland í stórum málum eins og varðandi loftslagsvá og opin alþjóðaviðskipti.

Stóru spurningarnar

Átök við Kína í alþjóðastjórnmálum munu taka á sig margar myndir. Hættulegasta deiluefnið er Taiwan. Flest ríki viðurkenna að Taiwan sé hluti Kína en krefjast þess um leið að sameining verði með friðsamlegum hætti. Markmið Kína er samruni ríkjanna fyrir árið 2049, hundrað ára afmæli kínversku byltingarinnar. Kína kann hins vegar að hafa einsett sér að þetta gerist fyrr.

Hvort Bandaríkin muni beita hervaldi til að stöðva innrás Kínverja á Taiwan er ekki ljóst. Vaxandi óvissa er líka um hvort floti Bandaríkjanna hafi lengur afl til að stöðva slíka innrás. Uppbygging á herafla Kínverja hefur ekki síst snúist um vopnabúnað sem gæti gert öflugasta flota heimsins ófært að blanda sér af alvöru í hernaðarátök á nærsvæðum Kína.

Önnur spurning snýr að keppni Kína og Bandaríkjanna í tækniþróun og að þeim átökum sem þegar eru farin af stað í þeim efnum. Hún getur truflað heimsviðskipti með ýmsu móti en í leiðinni getur hún leitt til örari þróunar ýmis konar tækni. Önnur átakaefni eru meðal annars mannréttindi í Kína og framferði kínverska ríkisins gagnvart íbúum Hong Kong og Tíbet og múslimum í Xinjiang. Enn önnur og mjög alvarleg átakaefni er að finna á hafsvæðunum sunnan og austan Kína. Þar gera Kínverjar óhóflegar kröfur um yfirráð á hafsvæðum sem eru mun nær Víetnam, Malasíu, Indónesíu og Filippseyjum en ströndum Kína. Þar byggja þeir nú flugvelli og hernaðaraðstöðu á smáeyjum og skerjum.

Stærstu spurningarnar snúa hins vegar að kínverskum innanríkismálum. Þar, og í viðbrögðum umheimsins, mun það ráðast hvers konar stórveldi Kína verður.

Höf­undur er alþjóða­stjórn­mála­fræð­ing­ur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit