Kaflaskilin í Kína

Jón Ormur Halldórsson skrifar um stöðuna í kínverskum stjórnmálum.

Auglýsing

Á meðan heimurinn horfði sem dáleiddur á Trump urðu róttækar breytingar í Kína sem munu hafa mikil og margvísleg áhrif víðs vegar um heiminn. Líklega mun ekkert sem Trump tók sér fyrir hendur hafa eins miklar og langvarandi afleiðingar fyrir eins marga og breytingar síðustu ára í Kína.

Þótt ekki sé kosið í Kína er pólitíkin þar bæði lifandi og óraflókin. Stærðin ein gerir samanburð við önnur lönd erfið. Ef sama hlutfall væri á milli fjölda ráðamanna og íbúa í Kína og á Íslandi væru vel yfir fjörutíu þúsund ráðherrar í Kína og kvart milljón þingmanna. Kerfið er auðvitað allt öðruvísi upp byggt en valdakerfið er risastórt, margskipt, víðfeðmt og flókið.

Leiðtogi ríkis og flokks, Xi Jinping, hefur nú á fáum árum náð fram breytingum á grundvallaratriðum í stefnu og starfsháttum Kína í alþjóðamálum og stærstu greinum innanlandsmála. Um leið hefur hann einfaldað og styrkt, í bili að minnsta kosti, valdakerfi landsins. Þetta hefur lítið með persónu hans að gera, þótt hún sé sterk, en hvílir þess meira á aðstæðum í pólitískum, efnahagslegum og menningarlegum veruleika í Kína.

Auglýsing

Zhongnanhai og Hvíta húsið

Tilraunir sérfræðinga til að geta sér til um framvindu átaka á bak við múrana um Zhongnanhai, aðsetur æðstu stjórnar bæði ríkis og flokks í miðri Peking, hafa yfirleitt þótt dálítið exótískt lesefni og sjaldnast mjög brýnt. Forsetarnir tveir, Jiang Zemin og Hu Jintao sem réðu einna mestu í tuttugu ár fram á annan áratug þessarar aldar, stjórnuðu líka með eins konar samræðustjórnmálum innan flokksins. Almenningur kom auðvitað lítið að því samtali en forystusveitin var hins vegar nokkuð fjölmenn og sumpart með ólíka hagsmuni að baki sér. Alls kyns stofnanir, háskólar og hugveitur virtust líka beina þekkingu og skoðunum inn í annars fremur leynilega umræðu um stefnu ríkisins í helstu greinum. Um tíma virtist sem umræðan væri að opnast og ólíkar skoðanir, sem greinilega voru fyrir hendi, fengju að takast á með skýrari hætti en áður. Svo varð ekki. Það mynduðust heldur engar samstæðar pólitískar sveitir eða hópar menntamanna sem gætu haft forystu um hugmyndafræðilega umræðu. Nema í kringum Xi Jinping. Nú virðist umræðunni lokið í bili og stefnan tiltölulega skýr. Hún er önnur en hún var.

Um leið og melódrama Trump-áranna var flutt á fjölum Hvíta hússins var þannig boðið upp á sannkallaða epík í Zhongnanhai. Þar mun líka ráðast mikið af örlögum okkar aldar ekki síður en í Hvíta húsinu. Enda munu mikilvægustu átök í alþjóðakerfinu næstu árin, bæði pólitísk og efnahagsleg, öðru fremur hverfast um Kína.

Stærra en fall Sovétríkjanna

Opnun Kína undir forystu Deng Xiaoping og samverkamanna hans hafði sennilega bæði víðtækari og dýpri áhrif á heiminn en fall Sovétríkjanna um líkt leyti. Hún var forsenda margra þeirra stóru breytinga sem hafa orðið á atvinnulíf flestra ríkja heims. Hún studdi líka stórlega við heimsvæðinguna sem hefur mótað samfélög manna á síðustu áratugum.

Fyrirferð Kína er nú orðin slík að stærsta viðfangsefni alþjóðamála er hvernig alþjóðakerfið getur rúmað ört vaxandi áhrif Kína. Átökin nú snúast ekki einungis um framtíð fríverslunar og skilvirkra hnattrænna framleiðslukeðja heldur einnig um meginatriði í stjórnmálum og um öryggi heilla heimssvæða. Ólíkt því sem var um Sovétríkin á sínum tíma, sem ekki voru þátttakendur í heimsviðskiptum, snýst spurningin um Kína beinlínis um framtíð alþjóðlegs atvinnulífs. Og nú líka um pólitísk kerfi, allt frá innanlandsstjórnmálum til alþjóðakerfisins.

Tvær möntrur

Staðan er alvarleg í mörgum greinum og ekki sú sem flestir spáðu fyrir skemmstu. Tvær möntrur fanga vel kjarna þeirra hugmynda sem flestir höfðu um framtíð Kína, önnur þeirra kínversk og hin alþjóðleg.

Sú innlenda, sem sannfærði þorra almennings þar í landi, var um lífsnauðsyn þess að trufla ekki með pólitískum átökum þá stórkostlegu lífskjarabyltingu sem nú lyftir Kína úr sárri fátækt í að verða stærsta hagkerfi heimsins. Þessi mantra er enn kyrjuð í Kína og lýsir án nokkurs vafa mjög útbreiddum skilningi og vilja almennings. Árangur Kína er líka heimssögulegur og án hliðstæðu, lífskjör hafa batnað þrítugfalt á þrjátíu árum. Og það fyrir meira en milljarð manna.

Alþjóðlega mantran var ekki síður sannfærandi söngur um að Kína myndi þróast frá einræði í átt til lýðræðis, frá ríkisrekstri til einkaframtaks og smám saman til ábyrgrar þátttöku í opnu og frjálslyndu alþjóðakerfi. Ólíkt innlendu möntrunni er þessi fyrir bí. Síðustu ár hafa farið í að snúa Kína á aðrar brautir. Flokkurinn hefur hert tökin á ríkinu og ríkið á atvinnulífi og þjóðlífi. Um leið er orðið ljóst að Kína ætlar sér ekki að verða þægilegur samverkamaður ríkjanna sem hafa ráðið mestu í alþjóðamálum frá því á nýlendutímanum.

Róttæk stefnubreyting.

Breytingarnar í Kína hníga nær allar til sömu áttar. Þær snúast um að auka vald leiðtogans yfir forystunni, forystunnar yfir flokknum, flokksins yfir ríkinu og ríkisins yfir bæði atvinnulífi og þjóðlífi. Þetta hefur auðvitað kostað spennu og stundum átök en þetta hefur almennt gengið mjög hratt og vel frá sjónarhorni leiðtogans og hans samverkamanna. Það örlar núorðið lítið á andstöðu meðal flokksmanna eða almennings. Ástæðan fyrir því er ekki snilli Xi Jinping, þótt hann sé raunar afar öflugur stjórnmálamaður, heldur miklu frekar sú að þessar breytingar hafa almennan og sterkan stuðning bæði innan forystunnar og úti í samfélaginu. Fórnarlömb hreinsana innan flokksins eru mörg en ekki sterk. Um það bil ein milljón manna hefur hlotið ákæru fyrir spillingu og þar á meðal margir sæmilega digrir flokksmenn og jafnvel yfirmenn úr hernum.

Eftirtektarverðasti andstæðingur Xi innan flokksins, Bo Xilai, sem reyndi að höfða til almennings yfir höfuð flokksforystunnar endaði ekki á stóli valdamanns í Zhongnanhai heldur í fangaklefa þar sem hann afplánar lífstíðardóm fyrir spillingu. Það segir nokkra sögu að þessi hættulegasti andstæðingur Xi var ekki lýðræðissinni heldur vinstri popúlisti sem lofaði liðna tíma þegar flokkurinn var harðari og hreinni. Andstaða úr hinni áttinni hefur verið máttlítil.

Einræði meirihlutans

Þótt það sé einföldun á flóknu máli má fullyrða að í Kína sé sú hugsun næsta ráðandi að hagsmunir meirihlutans eigi að vera ofar rétti nokkurs minnihluta til að fara sínu fram. Ef við bætist að fólk telur sig hafa ástæðu til að gruna viðkomandi minnihluta um skort á hollustu við kínverska ríkið hverfur skilningur almennings á rétti minnihlutans nánast alveg. Þetta má glöggt sjá í afar herskárri afstöðu þorra Kínverja til Hong Kong og mótmæla lýðræðissinna í borginni. Líklega eru viðhorf almennings svipuð gagnvart Uigurum í Xingjiang sem sæta nú herfilegri meðferð kínverskra stjórnvalda. Harka gagnvart minnihlutahópum sem grunaðir eru um að geta valdið einhvers konar upplausn nýtur að öllum líkindum nægilegs stuðnings almennings í Kína til að auka á vinsældir og tiltrú ráðamanna.

Menn geta leitað að pólitískum og menningarlegum ástæðum fyrir þessu en líklega eru þær sögulegu skýrastar. Saga nýlendutímans er barinn inn í haus hvers einasta nemanda í Kína og á nánast hverju kvöldi í höfuð sjónvarpsáhorfenda. Sagan er um upplausn og átök sem í senn voru orsök og afleiðing erlendra afskipta af Kína. Saga þessa tíma niðurlægingar Kína er flókin en hægt er að segja hana án stórkostlegra blekkinga með þeim hætti að úr verður hið skarpasta vopn talsmanna valdstjórnar. Það má reikna með langvinnum efasemdum í Kína um að það geti verið góður siður að réttindi minnihlutahópa fái að flækjast of mikið fyrir hagsmunum meirihlutans. Og alveg sérstaklega ef viðkomandi minnihluti er talinn njóta stuðnings erlendra ríkja.

Spenningur fyrir frjálslyndu lýðræði er því ekki mikill í Kína, hvað sem síðar verður. Sem stendur snýst málið ekki einu sinni um að fórna lýðræði fyrir efnahagslegar framfarir, heldur virðist sem svo að lýðræði þyki ekki álitlegur kostur. Sú staðreynd að Donald Trump kom upp úr kjörkössum í Bandaríkjunum hefur heldur ekki orðið til að styðja þá hugmynd að besta aðferðin við val á leiðtogum sé sú sem almennt er notuð á Vesturlöndum.

Kosturinn við flokkinn

Á síðustu misserum hefur víða vakið athygli sá harði tónn í garð einstakra erlendra ríkja sem nú má heyra nær daglega frá stjórninni í Peking. Þetta er gerbreyting frá því sem var þegar Kína fór með löndum og stjórnin virtist taka sér undarlega langan tíma í gera upp hug sinn í alþjóðamálum. Mikið af þessum reiðilestri yfir vonsku og sviksemi útlendinga er hins vegar ætlaður til heimabrúks. Skammirnar eru nánast eins og hófsamar athugasemdir í samanburði við ósköpin sem daglega er dreift frá almennum notendum samfélagsmiðla í Kína. Stjórnvöld í Peking virka því stundum nánast eins og hófsamur aðili sem vill halda lokinu á pottinum. Fáir sem þekkja til í Kína telja að aukið lýðræði í landinu myndi bæta samskipti landsins við önnur ríki.

Stolt og sannfæring

Skoðanakannanir, sem eru raunar stundaðar af mjög miklum krafti af kínverska ríkinu, eru sumpart lítið áreiðanlegar en þær sem erlendir fræðimenn taka helst mark á benda til mikils og almenns stuðnings fólks við stjórnina í Peking. Þar á meðal er hin svonefnda Edelman Trust loftvog sem sýnir raunar fallandi traust á stjórninni nú alveg að undanförnu en þó yfirleitt meira traust en títt er í löndum heims. Gagnrýni á stjórnvöld, sem er miklu tíðari og útbreiddari en menn kynnu að ætla, snýst líka nánast alltaf um staðbundin umkvörtunarefni. Áætlað er að til mótmæla komi meira en þúsund sinnum á viku einhvers staðar í Kína en mótmælin snúast nær aldrei um stefnu ríkis eða flokks og nánast alltaf um spillingu eða ofríki forystumanna og flokkseigendafélaga í einstökum þorpum og borgum landsins.

Stolt Kínverja yfir stórkostlegum árangri ríkisins á síðustu áratugum verður sífellt áþreifanlegra og stýrir tilfinningum manna meira en nokkur hugmyndafræði. Sú skoðun að þjóðfélög Vesturlanda hafi eitthvað fram yfir kínverskt þjóðfélag hefur mjög veikst, ekki aðeins í Kína, heldur miklu víðar í Asíu þar sem margir líta til fyrirmynda í Kína. Þetta er ólíkt tímum kalda stríðsins þegar hver sem vildi horfa með opnum augum sá greinilega margvíslega yfirburðir vestrænna þjóðfélaga bæði yfir Sovétríkin og lönd þriðja heimsins, hvaða skoðun sem menn gátu haft á framferði vestrænna heimsvelda.

Höf­undur er alþjóða­stjórn­mála­fræð­ing­ur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Við mölunina eru notuð tæki sem eru búin hnífum eða löngum plastþráðum sem snúast hratt og sjálfvirkt. Afköstin skulu vera, að því er fram kemur í svari MAST við fyrirspurn Kjarnans, nægilega mikil til að tryggja að öll dýrin séu deydd samstundis.
Mölun karlkyns hænuunga „er hryllileg iðja“
Á Íslandi er heimilt að beita tveimur aðferðum við aflífun hænuunga; gösun og mölun. Báðum aðferðum er beitt á tugþúsundir unga á ári. „Allir karlkyns ungar sem fæðast í eggjaiðnaði eru drepnir eftir að þeir klekjast út,“ segir formaður Samtaka grænkera.
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit