Enn af þrælmennum

Jón Gnarr tekur fyrir hina svokölluðu Íslandssögu í pistlaröð. Sjötti pistill Jóns, sem er beint framhald þess fimmta, fjallar um það harðræði sem þrælar og ambáttir hafa mátt sæta í gegnum tíðina.

Auglýsing

Það er mikilvægt að hafa það hugfast, þegar við lesum eða hugsum um þrælana á Norðurlöndum til forna, að þetta var ekki vinnusamt og fátækt farandverkafólk, heldur bandingjar og algjörlega réttlaust fólk sem var álitið eign húsbónda síns og hann mátti gera við það sem honum sýndist. Þrælar voru lægra settir en fátæklingar. Fátæk manneskja naut ákveðinna mannréttinda og jafnvel virðingar. Þrælar nutu ekki mannhelgi. Fólk var talið hafa líkamlegan ham, en líka hug og anda. Flestu fólki fylgdu líka góðar vættir sem kallaðar voru Fylgjur. Þrælar höfðu bara ham og allar Fylgjur höfðu yfirgefið þá.

Lífsgæði þrælanna hafa auðvitað mikið farið eftir manngerð eigandans, ekkert ólíkt því sem við þekkjum um aðstæður svartra þræla í Ameríku. Sumir höfðingjar voru þrælum sínum góðir, aðrir lentu hjá illmennum.

Ég hef lesið mér til um margt það sem skrifað hefur verið um þrælahaldið til forna, þær litlu heimildir sem til eru og fornleifarannsóknir sem eru líka takmarkaðar því fólkið sem um ræðir var ósýnilegt og jafnvel ekki talið til fólks heldur húsdýra. Það tímabil sem ég hef mest skoðað eru miðaldir, frá 500 til 1500 e. Kr.

Auglýsing

Stór hópur sem hljótt hefur verið um

Þrælar hafa verið eðlilegur hluti af samfélagsgerð Evrópu sérstaklega framan af og taldir hafa verið 5-15% af fólksfjölda. Það er alveg hreint ótrúlegt hvað hljótt hefur verið um þetta vesalings fólk. Hver sem er gat lent í því að verða hneppt í þrældóm. Það gátu verið hópar eða þjóðflokkar sem töpuðu í bardögum og gerðir að þrælum sigurvegarans. Fólk gat verið dæmt til þrælkunar fyrir afbrot eða skuldir. Margir hafa hreinlega fæðst inn í þrældóm. Á Norðurlöndum var þrælum skipt í tvo meginflokka, eftir kyni; þræla og ambáttir. Þegar fólk var á annað borð orðið þrælar hafði það litlar líkur til að eiga afturhvarf til eðlilegs lífs. Þau voru brennimerkt eða líkamlega afskræmd fyrir lífstíð og báru það merki alla ævi.

Höfðingjaveldi fornaldar var feðraveldi fyrst og fremst. Ég held að það hafi ekki verið spennandi hlutskipti að vera kona þar þótt þeirri mýtu sé stundum haldið á lofti. Þær voru töluvert mikið réttlausari en karlar, þótt einhverjar undantekningar hafi verið á því og alls ekkert jafnrétti milli kynjanna. Fornleifarannsóknir á Norðurlöndum sýna hátt hlutfall vannæringar meðal stúlkubarna sem hafa greinilega ekki fengið jafn vel að borða og bræður þeirra. Þótt konum væru tryggð ákveðin grundvallar réttindi þá voru þær samt líka eign eiginmanns síns og föður. Karlar gátu átt margar konur og fjölkvæni víða stundað. Margar frjálsar konur urðu frillur höfðingja. Gamalt orðtak segir: Betra er að vera góðs manns frilla en gefin illa. Hér er að sjálfsögðu ekki átt við greindarfar heldur þann almenna sið að feður gáfu eða seldu manni dóttur sína og jafnvel án hennar samþykkis eða vilja.

Þrælahaldið hefur tekið mikinn kipp í aðdraganda og uppgangi víkingatímabilsins svokallaða. Viðskipti með mannslíf voru uppistaðan í hagkerfi víkinganna. Helsta ástæðan fyrir árásum þeirra var til að ná í unga menn og konur og hneppa í ánauð. Gull og silfur og önnur verðmæti voru bara bónus. Fullorðnir menn og vopnfærir voru drepnir til að takmarka þá hættu sem gæti stafað af þeim síðar. Víkingarnir voru fyrst og fremst þrælasalar og ekkert ósvipaðir þeim sem seinna rændu fólki í Afríku. Sambærilegur hópur í dag væri líklega hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki.

Kynlífsánauð og erfiðisvinna

Eftir að hafa verið fangaðir var þrælunum skipt í hópa. Flestir voru seldir á þrælamörkuðum. Barnungar og óspjallaðar stúlkur voru gjarnan seldar til Miðausturlanda og enduðu í kynlífsánauð í einhverju haremi. Efnað fólk var selt fjölskyldu sinni gegn háu lausnargjaldi. Víkingarnir héldu gjarnan sterkbyggðustu strákunum eftir og tóku þá með sér heim þar sem þeir voru látnir strita við erfiðisvinnu. Hinn mikli uppgangur þessarar hræðilegu atvinnustarfsemi og vaxandi krafan um fleiri og stærri skip krafðist aukins vinnuafls. Það hefur tekið marga mánuði og fjölda manns að smíða eitt haffært skip. Álíka mikil vinna hefur farið í seglagerðina. Það er alveg ljóst á fornleifarannsóknum á þeim stöðum og aðbúnaði þar sem þessi vinna fór fram að hún hefur að mestu verið unnin af þrælum og ambáttum en frjálst fólk aðeins séð um verkstjórn og eftirlit. Þetta hefur verið þrælkunarvinna í bókstaflegri merkingu. Hlutfall þræla á Norðurlöndum á víkingatímabilinu hlýtur að hafa margfaldast á frekar stuttum tíma.

Ambáttir sem ekki kunnu að spinna voru notaðar til almennra starfa og sem kynlífsþrælar og urðu fyrir alveg hreint yfirgengilegu kynferðislegu ofbeldi og voru reglulega fórnarlömb hópnauðgana og flestum mönnum frjálst að gera við þær það sem þeim sýndist. Þetta ógeðslega atriði telst nokkuð staðfest í heimildum. Ambáttir gátu líka átt það á hættu að verða fórnarlömb mannfórna við trúarathafnir og útfarir. Eins og margir aðrir þá horfði ég á norsku þættina Exit af miklum áhuga. Það kom mér á óvart en þegar ég fylgdist með þáttunum varð mér sífellt hugsað til alls þess sem ég hef lesið mér til um víkingana og sá samasemmerki víða, sama drullan en á ólíkum tíma. Báðir kúltúrar deila sömu gildum og lífssýn; græðgi, drykkjuskap, karlmennskubrjálæði, kvenfyrirlitningu og kynferðislegu ofbeldi, eins og eitthvað hyldjúpt ginnungagap fíknar. Jafnvel spakyrðin fannst mér svipuð.

Eitt það allra hræðilegasta sem tilheyrði þessum þrælabissness var limlesting sú sem framkvæmd var á unglingsdrengjum. Þá var pungurinn skorinn af þeim eða eistun kramin eða fjarlægð. Aðgerðirnar og sóðaskapurinn voru slíkar að margir drengir lifðu þetta ekki af. Þetta virðist samt frekar hafa verið regla frekar en undantekning því geldingar þóttu betri þrælar og hærra verð fékkst fyrir þá en ógelda á mörkuðum. Svo miklu munaði á verði að aðgerðin var talin borga sig. Svona gelding veldur beinsjúkdómi og hafa líkamsleifar fundist hér við fornleifauppgröft á Íslandi af einstaklingum sem greinilega voru haldnir þessum sjúkdómi.

Ég hef enga trú á þeim sögum sem sagðar hafa verið um landnám Íslands og tel þær greinilega pólitískar eftiráskýringar og skáldskap meðal annars í þeim tilgangi að hreinsa okkur af öllu þrælablóði. Ég trúi því ekki að hingað hafi verið einhverjir miklir búferlaflutningar frá Noregi eða norskir bændur séð hér einhver spennandi tækifæri í landbúnaði. Ég held að Ísland hafi alltaf verið norsk veiðistöð og sú starfsemi hafi að mestu leyti verið mönnuð þrælum. Á víkingaöldinni, sem stóð frá ca. 750-1100 átti mikil uppsveifla sér stað í Noregi og ég held að iðnaðurinn hér hafi byggst nokkuð hratt upp í samræmi við hana. Nokkrir höfðingjar í Noregi stóðu í nokkuð ábótasömum hernaði sem var þó reyndar meira í ætt við glæpastarfsemi bæði nú og á þeirra tíma mælikvarða. Hér var framleiddur matur, hrájárn til skipagerðar, vefnaðarvara og einhver hluti seglagerðar og annað smálegt sem þörf var á til að halda víkingastarfseminni gangandi. Ég held að þrælar hafi jafnvel verið flokkaðir eftir líkamsburðum og sterkir menn og hraustir sérvaldir til að vera sendir til Íslands og strita þar við erfiðisvinnu í kulda og vosbúð fyrir austan eða vestur á fjörðum, langt fjarri fjölskyldu og blómlegum heimahögum.

Vistarbandið séríslenskt afbrigði þrælahalds

Smátt og smátt fjaraði þessi víkingastemning út. Fólkið sem varð fyrir þessu lærði að verja sig og skipuleggja og kom sér upp vopnum og vörnum. Skyndiárásaaðferðin sem víkingarnir höfðu áður beitt með svo góðum árangri varð fyrirsjáanleg og auðhrundið. Sjálfumglaðir og kokhraustir gengu víkingarnir í gildrur og voru gjörsigraðir. Rómarkirkja var ekkert sérstaklega spennt fyrir sjóræningjum og þrælahaldi og páfar og biskupar kepptust við að setja þrælaviðskiptum skorður. Hún bannaði að hneppa kristið fólk í þrældóm og þar með lokuðu þrælaauðlindirnar á Írlandi og Bretlandseyjum. Með kristninni kom líka fyrst hugmyndin um sálina og ef allar manneskjur hefðu sál þá hefðu þrælar hana líka. Útsendarar kirkjunnar áttu það jafnvel til að frelsa og skíra þræla, eigendum þeirra til ómælds fjárskaða. Kristnin breiddist afar hratt út og varasamt að eiga páfann að óvini. Það fór svo að þrælahald fjaraði út í Evrópu og þótti hvorki kristilegt né siviliserað og þróaðist frekar til bændaánauðar. Það viðgekkst lengst í Norður Evrópu þar sem gamlir krimmar fundu leiðir til að ferja slavneskt fólk, sem þá var ekki kristið, eftir fljótum Rússlands og selja það á þrælamörkuðum í Múslímskum löndum. Mér skilst að enska orðið slave vísi til þess.

Þegar höfðingjar og konungar Norðurlanda tóku kristni var þeim eflaust ekki stætt á öðru en frelsa þræla sína og þrælahald var loks bannað á Norðurlöndum. Ég velti því samt oft fyrir mér hvort það hafi hugsanlega haldið áfram hér. Mig grunar að margur höfðinginn hafi siglt öllum þrælum sínum hingað áður en hann tók skírn, verið með hreinan skjöld heima í Norge en haldið áfram að starfrækja ólögleg aflandsfélög hér sem enginn vissi af. Ég veit það ekki en mig grunar það. Af einhverjum ástæðum var aldrei þörf fyrir bændaánauð hér. En um svipað leyti og hún dó út á meginlandinu tókum við upp afbrigði af henni sem kallaðist vistarband þar sem fjórðungur þjóðarinnar var þvingaður til einlífis vinnumennsku. Einhverra hluta vegna hefur þrælahald aldrei verið formlega afnumið á Íslandi.

Ég er þess algjörlega fullviss að það hafi verið þrælar og ambáttir sem byggðu þetta land og það sé þeirra blóð sem rennur í æðum okkar. Ég veit ekki með ykkur en ég er stoltur af þeim uppruna. Mér finnst snöggtum skárra að vera kominn af harðgerðu og stoltu fólki, sem beitt var misrétti heldur en morðóðum og fégráðugum þrælahöldurum og nauðgurum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
N1 er vinsælasti viðkomustaður þeirra sem hafa notað nýju ferðagjöf stjórnvalda.
Bensínstöðvar, baðlón og skyndibitastaðir vinsælust hjá notendum nýrrar ferðagjafar
Yfir 10 þúsund manns hafa nýtt nýja ferðagjöf stjórnvalda og um 50 milljónir króna verið greiddar út. Kunnugleg nöfn raða sér í efstu sæti þeirra fyrirtækja sem tekið hafa við mestu en baðlónið Sky Lagoon kemur nýtt inn á lista og tyllir sér í annað sæti.
Kjarninn 17. júní 2021
Guðjón Sigurðsson
Alþjóðlegur MND dagur 20. júní 2021
Kjarninn 17. júní 2021
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Fyrrverandi seðlabankastjóri fékk fálkaorðuna
Forseti Íslands sæmdi fjórtán manns fálkaorðunni á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2021
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttuna
„Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það.“ Sósíalistaflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í tilefni af 17. júní.
Kjarninn 17. júní 2021
Ólafur Ólafsson
Mannréttindadómstóll Evrópu vísar kæru Ólafs Ólafssonar frá
MDE hafnaði í morgun með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs Ólafssonar til réttlátar málsmeðferðar.
Kjarninn 17. júní 2021
Dánartíðni var hærri í öllum öðrum EES-löndum, ef miðað er við sögulegt meðaltal.
Umframdánartíðnin minnst á Íslandi
Minnsti munur var á mánaðarlegri dánartíðni og sögulegu meðaltali hennar hér á landi af löndum EES.
Kjarninn 17. júní 2021
Sjúkratryggingar Íslands greiða stærstan hluta af þjónustu sem veitt er á Heilsustofnuninni í Hveragerði.
Lítið gerst í úttekt á Heilsustofnun í Hveragerði og óvíst hvort henni verði haldið áfram
Fyrir rúmum tveimur árum var gerður nýr þjónustusamningur við Heilsustofnunina í Hveragerði. Skömmu síðar var upplýst um rekstrarkostnað sem vakti upp spurningar. Ráðist var í úttekt á starfseminni í kjölfarið. Hún hefur engu skilað.
Kjarninn 17. júní 2021
Eimskip viðurkennir brot sín og greiðir einn og hálfan milljarð í sekt.
Eimskip viðurkennir alvarleg samkeppnislagabrot og fær 1,5 milljarða sekt
Eimskip hefur viðurkennt að hafa viðhaft ólögmætt samráð við Samskip árum saman og greiðir 1,5 milljarð króna í sekt vegna máls sem hefur verið til rannsóknar frá 2013. Samskip eru enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Kjarninn 16. júní 2021
Meira úr sama flokkiÁlit