Samkvæmt svari til umboðsmanns Alþingis, um enduruppvakta hugmynd Brúarskóla um einveruherbergi er nú unnið í mennta-og barnamálaráðuneytinu að leiðbeinandi verklagsreglum um einveruherbergi, fyrir kennara og starfsfólk skóla. Afstaða ráðuneytisins sé sú að ekki þurfi að banna herbergin alfarið, heldur verði brugðist við málinu með fjölbreyttum hætti og að m.a. verði stofnaður vinnuhópur um útfærsluna. Tekið er fram að þar verði tilgreint hvenær og við hvaða aðstæður megi nota slík herbergi og hvaða málsmeðferðarreglur skuli miða við.
Við þessu er brýnt að bregðast. Vil ég leyfa mér að draga alvarlega í efa allar hugmyndir um einveruherbergi fyrir börn sem meðferðarleið, þar með taldar allar hugmyndir um fegraða útfærslu á hugtakinu sem úrræði eða að það geti átt eitthvað skylt við fagmennsku eða mennsku í siðferðilegri merkingu. Hugmyndin ein og sér færir hugann áratugi aftur í tímann. Ómannúðleg meðferð á geðsjúkum fram eftir síðustu öld tengdist þekkingarskorti, ótta, fordómum og frumstæðum hugmyndum um „lækningar“. Notaðir voru einangrunarklefar, vatnsböð (e. hydrotherapy) og raf „meðferðir“. Þroskaheftum var komið fyrir í garðskýlum eða rimlakofum.
Skilyrðingar, skömmustuvopn, niðurlæging og útilokun gagnvart öðrum tengir flest upplýst fólk við vanmátt og skeytingarleysi um líðan og sjálfsvirðingu þolandans. Það er því ánægjuefni að þótt afstaða ráðuneytisins sé sú að ekki þurfi að banna herbergin alfarið, þá verði brugðist við hugmyndinni með gagnrýnum hætti og m.a. skoðaður fýsileiki þess að setja upp miðlæga ráðgjöf í stað nálgunar sem Brúarskóli og aðrir sérskólar sem sinna börnum sem eiga í alvarlegum geðrænum, hegðunar eða félagslegum erfiðleikum, hafa beitt.
Einvera sem úrræði gagnvart börnum í vanda
Einverurými fyrir börn er í raun og veru annað orð fyrir „betrunarstað“, skammarkrók, einangrunarklefa eða andlegan pyntingarstað. Í því felst að í staðinn fyrir að tala við barn, reyna að skilja tilfinningar þess, líðan og viðbrögð sé það markvisst beitt frelsissviptingu, sniðgengið eða útilokað frá samskiptum. Félagsleg útskúfun og tilfinningaleg höfnun er öllum þungbær reynsla en sérstaklega varnarlausum börnum. Þolandi slíks ofbeldis á mótunarárum er líklegur til að þróa með sér laskaða sjálfsvirðingu og brotna sjálfsmynd. Ekki aðeins missir barnið traust á öðrum og von um gæsku annarra heldur líka trú á möguleikum sjálfs sín og rétti til hamingjuríkrar tilveru í einkalífi og sem samfélagsþegn.
Vanmáttug viðbrögð föðurins í Emil í Kattholti þegar hann lokaði Emil inni í smíðakofanum með slagbrandi, lýsa skilningsleysi hans og einfeldni. Kannski er hugmynd nútíma „barnahegðunarfræðinga“ um óráð á borð við einveruherbergi fyrir börn fengin þaðan - að hluta?
Erfið börn – erfiðar aðstæður
Sýn barnaverndar sem rís undir nafni er að hugtakið erfið börn sé ekki viðeigandi né ásættanlegt og að ábyrgðin á að hjálpa börnum liggi hjá þeim fullorðnu. Vanlíðan og vonbrigði barna sem brjótast út í erfiðri hegðun tengist því atlæti sem þau fá. Það getur átt við umhverfi þeirra og uppeldisaðila (foreldrar, kennarar, umönnunaraðilar ofl.) sem hafa brugðist því hlutverki sínu að vernda þau á grunni þekkingar, samkenndar og skilnings -- hvort sem rót vandans er af sálfélagslegum toga, líffræðilegum- eða samfélagslegum. Eitt er víst, að hugmyndagrunnur sérfræðinga í Brúarskóla um leiðir til að bregðast við börnum í vanda er ekki í samræmi við samtímahugsun um mannréttindi barna almennt, hvað þá mannskilning og umhyggjuhvöt gagnvart börnum með hegðunarvanda í erfiðum lífsaðstæðum. Annað er jafnvíst, að slíkar hugmyndir eiga lítið sammerkt með hugsuninni að baki löggjöf um farsæld barna. Mennta-og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason vinnur nú að innleiðingu þeirra laga með liðstyrk breiðs hóps fagfólks í velferðarþjónustu.
Einvera fyrir fagfólk – þáttur í þróttmeira meðferðarstarfi
Einn liður í sálgæslu fagfólks í velferðarþjónustu, skólum, í barnavernd osfrv. gæti verið aðgangur að einveruherbergi til að stunda innhverfa íhugun, iðka jóga og finna frið. Þannig má umsnúa hugmyndinni um einveruherbergi svo að hún beinist að fagfólkinu og hegðun þess frekar en að barninu. Með því að fagfólk efli styrk eigin huga og handa má virkja endurnýjaðan þrótt til að ná undirtökum á aðsteðjandi vanda. Hér má tengja við hugsun Hönnu Arendt um samþætt gildi kyrrðar og ígrundunar („vita contemplativa“) annars vegar og hins vegar samfélagslegrar ábyrgrar virkni („vita activa“) – til innsæis og góðra verka. Slík einvera til ígrundunar getur verið eins konar forstig að faglegu samtali sem fer fram í trúnaði með opnum huga og gagnvirkri speglun frá öðrum, þeas. í handleiðslutengslum. Með slíka hugsun að leiðarljósi getur fagfólk mætt sterkara til leiks í þjónustuumhverfinu og frekar orðið aflögufært fyrir skjólstæðinga - einkum börn: „Settu súrefnisgrímuna á sjálfan þig áður en þú hjálpar barninu“.
Forvarnarkerfi handleiðslu verndar og eflir fagfólk
Handleiðsla snertir bæði hugmyndina um einveru og um meðferðarsamræðu (e. dialogue). Handleiðsla varðar gagnrýna hugsun og ábyrgð á hugmynda- og aðferðaþróun í meðferðarstarfi, þar með talin meðferðarnálgun skilyrðinga og tamninga sem oftast eiga frekar við um hesta- og hundatamningar en mannfólk þótt það geti skilað mælanlegum árangri.
Handleiðsla tengist einnig umræðunni um vanmátt meðferðar- og uppeldisstofnana (skólans) gagnvart ungum börnum og nauðsyn fag-siðferðislegs aðhalds og eftirlits. Þegar starfsfólk í heilsu-, félags- og skólaþjónustu er örmagna af álagi, málaþunga og úrræðaleysi er hætt við að það geti bitnað á notendum þjónustunnar, börnum, fullorðnum og öldruðum. Þá er freistandi að koma böndum á “erfiða“ skjólstæðinga, skeyta skapi sínu á þeim, eða „losna“ við þá og fjarlægja úr augsýn. Þegar álag á fagfólk verður of mikið yfir of langan tíma án fullnægjandi úrræða verður þráðurinn styttri. Það snjóar yfir fagþekkinguna og neistinn í starfinu slokknar. Við tekur fagþreyta sem lamar dómgreind og dáð.
Með því að innleiða skipulegt handleiðslukerfi í stofnunum velferðarkerfisins verður handleiðslu ekki beitt tilviljunarkennt, eða sem „slökkvitæki“ á eld, heldur er hún þróuð sem fagleg leið til forvarnar og fagþroska. Með því að handleiðslukerfi sé fastur hluti í innviðum stofnana velferðarþjónustu skapast forsendur fyrir frjórri meðferðarmenningu með viðurkenningu á þörfum, mannlegum takmörkunum og viðkvæmni - bæði fagfólks og skjólstæðinga.
Ásamt því að vera fagsiðferðislegt aðhald er faghandleiðsla ein vænlegasta vörnin gegn starfsþreytu og ófaglegum starfsháttum. Faghandleiðsla veitir rými fyrir opið samtal og innsæi, fyrir ígrundun, gagnrýna hugsun og umræðu um mörk og faglega nálgun í ögrandi málum. Hún er vettvangur fyrir stuðning, fagþroska og þróun í starfi velferðarþjónustu - ekki síst barnaverndar. Hún er svar við uppgjöf og örþrifaráðum og er í anda þjónustu sem hefur farsæld barna að leiðarljósi.
Höfundur er prófessor emerita og klínískur félagsráðgjafi.