Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur um vanda flóttamanna, einkum frá Sýrlandi, Írak og Afganistan, undanfarin misseri. Stjórnvöld ríkja í Evrópu virðast hafa áttað sig betur á umfangi vandans og brugðist við með því að opna fyrir fordæmalausa fólksflutninga annars vegar, og hins vegar neyðaraðstoð sem felst í því að koma fólki í skjól.
Þýskaland hefur leitt þess breytingu, með því að heimila för tugþúsunda flóttamanna inn í landið á skömmum tíma, opnað landamærin og hafa aðrar þjóðir fylgt í kjölfarið.
Yfirþyrmandi vandi og of sein viðbrögð
Vandinn sem við er að etja er samt yfirþyrmandi, og því miður virðist Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar og þjóðarleiðtogar stærstu ríkja heimsins – sem ráða ferðinni þegar ákvarðanir undir merkjum „alþjóðasamfélagsins“ eru annars vegar – ekki hafa áttað sig á umfanginu fyrr en of seint. Skaðinn er skeður, að miklu leyti.
Það er eitt að ræða um hlutina á vettvangi utanríkisstjórnmálanna, hvort sem er milli ríkja eða innan alþjóðastofnanna, og annað að beinlínis stíga inn í atburðarásina og hefja stórfelldar neyðaraðgerðir með öllum mögulegum ráðum.
Eins og fram hefur komið, ítrekað, ekki síst í stöðumatsskýrslum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, þá er uppi næstum alveg fordæmalaus staða. Aðeins hörmungar seinni heimstyrjaldarinnar eru sambærilegar, þegar kemur að fjölda fólks á flótta undan stríðsátökum á sama tíma.
Lítið brot
Talið er að allt að 25 milljónir manna séu á vergangi, ýmist innan sinna heimalanda – Í Sýrlandi, Írak og stríðshrjáðum nágrannaríkjum ekki síst – eða utan þeirra, meðal annars í Austur-Evrópu. Því miður eru hörmulegar fréttamyndir frá Miðjarðarhafinu, þar sem þúsundir hafa dáið á flótta, aðeins lítið brot vandans sem við er að eiga.
Til einföldunar má hugsa sér að allir íbúar Norðurlanda séu nú á flótta, heimilslausir í örvæntingu í leit að festu fyrir sig og sína. Það kannski segir fólki eitthvað um stöðu mála.
Kuldinn er ógn
Veturinn er líka mikil ógn í þessu samhengi og ljóst að margar hendur verða að vinna hálfgert kraftaverk, ef ekki á mjög illa að fara þegar kuldinn sækir að flóttafólki. Skýrslur um stöðu mála í Úkraínu og stríðshrjáðu nágrannasvæði Austur-Evrópu, þar sem líf fimm milljóna saklausra borgara er undir neikvæðum áhrifum átaka, benda til þess að vetrarmánuðirnir gætu orðið erfiðir, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Jafnvel þótt skýrslur sem þessar, þar sem þjóðir heimsins eru hvattar til þess að bregðast við vanda fólks fyrir veturinn, sé árlegur viðburður nú orðið, þá er staðan nú óvenjulega slæm.
Hin siðferðislega staða í málinu er áhugaverð en í sjálfu sér ekki svo flókin. Stjórnmálamenn eiga ekki að komast upp með að reyna að beina umræðunni um þessa skelfingu inn á þær brautir, að „rót vandans“, stríð og borgarastyrjaldir, sé ekki rædd nægilega mikið eða framhjá henni litið.
Ég held að allir geri sér grein fyrir því að hernaðarpólitík er flókin og enginn getur komið fram með skyndilausnir á stríðsátökum. En neyðaraðstoðin verður að beinast að þeim sem flýja þessar hörmungar, venjulegu fólki í leit að betra lífi.
Fyrir aðeins tveimur vikum ætluðu stjórnvöld í fullri alvöru að fara taka móti einungis 50 flóttamönnum, sem hefði verið smánarleg afstaða í ljósi þeirra hörmunga sem heimurinn stendur frammi fyrir. Vonandi mun metnaðarfyllri stefna en það líta dagsins ljós og betur má ef duga skal.
Upplýsingar um stöðuna eins og hún var, þegar talað var fyrir móttöku 50 flóttamanna, lágu samt fyrir þá og ítrekanir um að þjóðir heimsins tækju höndum saman og legðu miklu meira af mörkum voru komnar fram, meðal annars frá aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-Moon. Það sem virðist hafa breytt afstöðu stjórnvalda var þrýstingur frá almenningi, og er það hið besta mál.
Ekkert að óttast
Það kann að vera erfitt fyrir stjórnmálamenn að átta sig á því hversu há talan á að vera, þegar kemur að flóttamönnum. Í mínum huga er erfitt að ímynda sér að hún verði of há. Best væri ef landið yrði einfaldlega opnað fyrir flóttamönnum og þeir boðnir velkomnir til Íslands. Ef þjóðirnar í miðríkjum Evrópu, brennimerktar í bækur stríðssögunnar, eru farnar að opna sig upp á gátt fyrir flóttamönnum sem þrá ekkert heitar en að komast í skjól, í tugþúsundatali, þá ætti það að segja litlu auðugu eyríki að ekkert sé að óttast. Komi þau sem vilji og sæki um að fá hér skjól í fyrstu, og vonandi fasta búsetu þegar fram í sækir.
Vandinn sem flóttamenn standa frammi fyrir verður aldrei jafn sýnilegur á Íslandi og við landmærin í ríkjum Evrópu þessa dagana, en einmitt þess vegna höfum við tækifæri á því að sýna mannúðleg viðbrögð við hrikalegum aðstæðum með því að líta ekki undan, þó hin áþreifanlega hlið þessara skelfilegu aðstæðna sé ekki hér við dyrnar hjá okkur nema í mýflugumynd, heldur bregðast tafarlaust við og rétta fram styrka hjáparhönd.