Guðmundur Páll Ólafsson heitinn var kristaltær náttúrunnandi og umhverfisverndarsinni. Ég á sterkar minningar um Guðmund Pál, meðal annars óborganlega skemmtilegt fimmtugsafmæli sem hann hélt á heimili sínu í Stykkishólmi. En ekki síður ótalmargar vinnuferðir sem hann fór á sína gömluheimahaga þar sem hann gisti heima á Garðarsbrautinni og ræddi náttúruverndarmál og ýmislegt fleira við pabba og mömmu fram á kvöld. Hlátursköst og sögustundir. Heimsóknir í Flatey koma líka upp í hugann. Allt ógleymanlegt.
Í afmælinu hélt pabbi ræðu, þar sem hann rakti söguna þegar Guðmundur Páll sendi hann að Skjálfandafljóti að taka myndir af náttúruundrum þess. Pabbi var ekki góður ljósmyndari og ákvað að reyna að ná réttu augnabliki með því að smella nógu oft. Hann kláraði nokkrar filmur, reyndi allt sem hann gat til að vinna verkið.
Guðmundur Páll þakkaði kærlega fyrir dugnaðinn og einbeittan vilja, en því miður var fullkomnunarátta hans slík að engin myndanna sem pabbi tók var nægilega góð. Raunar langt frá því. En það var ein mynd sem pabbi náði af Skipapolli í Skjálfandafljóti sem Guðmundur Páll gat notað. Það var ekki myndefnið sem óskað var eftir í upphafi. Hún er í Perlum í náttúru Íslands, einni af stórbrotnum bókum Guðmundar Páls um íslenska náttúru.
Ferðin í Stykkishólm var líka eftirminnileg vegna þess að það sveif yfir gamla Subaru fjölskyldunnar haförn, rétt áður en við renndum inn fyrir bæjarmörkin. Svona rétt til að minna á hvar við værum stödd og hvað væri framundan.
Einhugur
Það væri mikill akkur í því núna fyrir umræðu um náttúruvernd og orkubúskap þjóðarinnar til framtíðar að njóta krafta Guðmundar Páls í henni. Hann hefði setið á fremst bekk í Háskólabíói á dögunum, þar sem hálendið og verndun þess var í brennidepli. Fullt hús og einhugur.
Oft hefur sá misskilningur verið á ferðinni þegar náttúruverndarumræða er annars vegar, að náttúruverndarhugsjónin sé jaðarhugmynd í rökræðum um lífsins gang. Að náttúruverndarsinnar séu á jaðrinum, fjarri miðpunktinum. Þetta hefur kristallast í pólitískri umræðu hér á landi, þar sem valdhafar hafa barist fyrir því að semja um að koma upp vinnustöðum alþjóðlegra stórfyrirtækja með áratuga skuldbindandi sölusamningum með raforku, og vísað gagnrýni umræðu til föðurhúsanna. Guðmundur Páll lýsti ýmsu sem hann lenti í þegar hann gagnrýndi Kárahnjúkavirkjun, og þá verðsamninga við Alcoa sem henni voru tengdir, sem hreinum ofsóknum sem fjármagnaðar voru með opinberu fé.
Ekki á jaðrinum
Sagan dæmir þessar deilur ekki vel og sjónarmið Guðmundar Páls og miklu fleiri í málinu hafa ekki reynst vera neinar jaðarhugsjónir heldur vel ígrundaður málflutningur um kjarnaspurningar málsins. Hvers virði er íslensk náttúra? Hvernig eigum við að umgangast hana?
Nú er hefur verið staðfest í mínum huga, að Guðmundur Páll hafði rétt fyrir sér í sínum boðskap, sem birtist ekki síst í bókum hans og vel skrifuðum greinum. Orkuauðlindir landsins eru verðmætari en svo, að það sé hægt að ákvarða virði þeirra í þágu kaupandans áratugi fram í tímann. Meðalverðið til álveranna þriggja hér á landi, sem kaupa 80 prósent raforkunnar, er aðeins einn sjöundi af því sem hægt er að fá fyrir orkuna á alþjóðlegum markaði í dag, og sú staða var fyrirsjáanleg þegar samið var síðast við álframleiðanda. Náttúruverndarsinnar bentu á það að þetta gætu verið slæm viðskipti, og það gerðu margir aðrir líka sem kannski ekki teljast sérstaklega til náttúruverndarsinna.
Í réttan farveg?
Umræðan um raforkusæstreng milli Íslands og Bretlands, tenginguna við umheiminn, ætti að skoðast út frá þessu, og síðan í samhengi við náttúruvernd á Íslandi og í heiminum öllum. Því ekki er útilokað, að þessi tenging get falið í sér tækifæri til þess að sætta ólík sjónarmið, eitt skipti fyrir öll, og snúa orkubúskap þjóðarinnar í réttan farveg. Þar sem hámörkun á virði umframframleiðslu þjóðarinnar á raforku – þar sem heimili og minni fyrirtæki njóta auðlindanna í formi góðra kjara – er leiðarstefið. Álverin eiga ekki heilagan rétt á umframframeiðslunni, og ráðamenn þjóðarinnar verða að skoða þessi mál með opnum huga. Annað er óábyrgt.
Þar er rammaáætlun sem stjórnmálamenn hafa unnið að undanfarin ár algjört lykilatriði og grundvöllur sáttar. Með henni ætti að leiða til lykta umræðu um hvar má virkja og hvar ekki. Orkufyrirtækin ættu að nálgast niðurstöðu þeirrar vinnu að auðmýkt, og fagna niðurstöðunni þegar hún liggur fyrir. Ramminn er mikilvægari en einstaka virkjanahugmyndir.
Það hefur verið sorglegt að horfa upp á suma stjórnmálamenn umgangast umræðuna um rammaáætlun eins og það sé lítið mál að taka hana upp og breyta henni, eftir því sem þurfa þykir seinna meir, ef einhverjum dettur í huga að setja niður vinnustað sem þarf raforku. Vonandi verður hægt að slá þennan hugsunarhátt algjörlega útaf borðinu, og ljúka vinnunni í eitt skipti fyrir öll.
Það sem blasir síðan við þegar kemur að sæstrengnum, er að þrýstingurinn frá umhverfisverndarsamtökum í heiminum, og alþjóðasamfélaginu öllu, um að virkja vistvæna orku til útflutnings mun aukast mikið á næstu árum. Hann er nú þegar orðinn mikill og hafa samtök eins og Green Peace meðal annars sent frá sér skýrslur, þar sem rætt er um mikilvægi þess að tengja ríki heimsins með sæstrengjum svo það sé hægt að draga úr mengun heildarinnar og nýta betur vistvæna orkugjafa.
Ramminn er mikilvægt heilagt plagg
En myndin er flóknari en svo, og því er mikilvægt að stjórnvöld hér á landi verði búin að vinna heimavinnuna sína, skapa rammann sem hægt verður að vinna innan. Án hans verða heiftug átök um hvað eigi að gera á hverjum tíma regluleg og slítandi. Fyrir svo utan hvað Ísland verður veikt fyrir þegar kemur að framlagi til umhverfisverndar á heimsvísu, ef orku- og náttúruverndarstefna, sem hafin er yfir dægurþras, liggur ekki fyrir. Þessa vinnu taka aðrar þjóðir alvarlega þessa dagana, meðal annars nágrannar okkar Norðmenn.
Það er vel hægt að hugsa sér það sem gott tilboð til sáttar um þessi mál, og þá hluta af lögfestingu rammans um virkjanir- og náttúruvernd, að hlusta vel á náttúruverndarsinna sem vilja vernda hálendið. Þeir eru ekki í jaðrinum, heldur inn í miðjunni í kjarna málsins, eins og Guðmundur Páll var. Langtímasýnin ætti að snúast um hvernig hægt er að hámarka virði virkjaðrar orku, með almannahagsmuni að leiðarljósi, og um leið að virða óumdeilt virði óvirkjaðrar íslenskrar náttúru.
Þetta er ekki auðvelt, en það er ávísun á hatrammar deilur og veikburða stöðu Íslands í framtíðinni, ef ekki er vilji til þess fara nákvæmlega í gegnum þessi mál og virða rammann sem uppi stendur að lokum. Hann verður að geta staðið af sér áhuga einstakra þingmanna á hverjum tíma og orkufyrirtækja sömuleiðis. Hann verður að vera ósveigjanlegur í þeim skilningi.