Haft er eftir Degi Eggertssyni borgarstjóra í grein í Kjarnanum þann 8. sept.að: „Það er allt sem bendir til þess, miðað við þessa greiningu, að Hvassahraun sé þarna á einu öruggasta svæðinu á öllum Reykjanesskaganum,“ sagði Dagur á fundi borgarstjórnar, en minnti á sama tíma á að Veðurstofan væri að vinna að sinni eigin greiningu á fýsileika flugvallarstæðisins í Hvassahrauni.”
Greiningin er gerð, eins og höfundur greinarinnar (Arnar Þór Ingólfsson) upplýsir, fyrir sveitarfélagið Voga til að meta eldgosavá innan sveitarfélagsmarka þess. Kort með greininni, úr skýrslunni sem sérfræðingar við Jarðvísindastofnun HÍ vann, sýnir að a.m.k. hluti mannvirkja mögulegs flugvallar (alþjóða- eða til innanlandsflugs eingöngu) liggur í þeim hluta Hvassahrauns þar sem hverfandi eða lítil hætta er talin á hraunrennsli.
Ábending Dags um að Veðurstofan meti heildrænt fýsileika flugvallastæðis (með tilheyrandi vegum og öðrum mannvirkjum, auk flugbrauta) minnir á að sá fýsileiki snýst um mat á fleiru en eldgosavá. Til að mynda verður að horfa til jarðskjálfta vegna gliðnunar á togsprungum í tveimur nærliggjandi eldstöðvakerfum, auk jarðskjálfta í Brennisteins- og Bláfjöllum. Þar skelfur á brotalínum samfara hliðrun í jarðskorpunni en ekki gliðnunar. Fyrstnefndu skjálftarnir geta náð stærðinni 4,5 til 5,5. Þeir nálægustu við flugvöllinn eru líklegir til að valda litlum skaða í heild en geta hrist upp í lausamunum, rafrænum kerfum og skelft farþega á staðnum. Tíðni þeirra er í meðallagi há og nú hærri en oft áður vegna umbrotahrinunnar á Reykjanesskaga. Síðarnefndu skjálftarnir geta náð stærðinni 6 og jafnvel aðeins yfir hana, með upptök í norðaustri, allnálægt mannvirkjunum. Sennilega stæðust þau í meginatriðum hreyfingar af þeirra völdum en þeir yllu þó einhverju tjóni. Tíðni slíkra skjálfta hefur verið lág. Jarðskjálftavá er sem sagt inni í matsmyndinni.
Þessu til viðbótar koma fleiri ytri skilyrði, svo sem vindafar, eins og alkunna er og mælingar hafa beinst að.
Skýrslu sérfræðinganna við HÍ hef ég lesið og hún er góð og gild, eins og við var að búast. Skýrsla Rögnunefndar, hvað jarðfræðilegar niðurstöður varðar, gengur aftur á móti ekki upp nú þegar nýtt umbrotaskeið er mjög líklega hafið á skaganum (sjá greinina í Kjarnanum).
Orð Dags um öryggi Hvassahrauns til flugþjónustu eða annarra innviða eru óvarleg af einfaldri ástæðu: Skýrslan fyrir Voga nær ekki til eldstöðva og hraunflæðis úr þeim í norðausturhluta eldstöðvakerfisins sem lúrir austan við Hvassahraun (kennt við Trölladyngju og Krýsuvík). Skýrslunni er heldur ekki ætlað að fjalla um hraunið sem álverið í Straumsvík stendur á og rann nær örugglega 1188. Ekki heldur um hraun sem nálgast t.d. Helgafell úr austri og runnu á 10/11. öld, hvað þá hraunið í Hafnarfirði og Garðabæ sem rann á forsögulegum tíma úr gígnum Búrfelli inn af byggðum Garðabæjar.
Enginn veit gjörla um framhald óróatímabilsins á Reykjanesskaga né hvert af fjórum (sumir telja þau fimm) eldstöðvakerfum skagans rumska næst og í hvaða röð, á komandi áratugum, kannski í eina eða fleiri aldir. Því miður. Látum okkur bíða eftir heildstæðu náttúruvármati fyrir innanverðan Reykjanesskagann í tilefni af “flugvallarmálinu”.
Höfundur er jarðvísindamaður og fyrrv. þingmaður Vinstri grænna