Nú er búið að staðfesta á ótal mismunandi vegu að 80 milljarða króna peningagjafir ríkisstjórnarinnar á skattfé undir hatti skuldaleiðréttingar og forsendubrests eru galnar. Þær þjóna engum tilgangi öðrum en telja þeim kjósendum Framsóknarflokksins sem héldu að þeir væru að fara að fá 230 til 300 milljarða króna úr hirslum vogunarsjóða trú um að það hafi verið með einhverjum hætti staðið við það loforð sem keypti síðustu kosningar. Blessunarlega er sú útvatnaða tillaga sem brátt verður opnað fyrir umsóknir að langt frá því. En hún er samt galin. Á svo ótrúlega marga vegu.
Afar fáir fá fullt
Minnisblað sem fjármála- og efnahagsráðuneytið um skuldaniðurfellingaráform ríkisstjórnarinnar gerði er mjög áhugavert, en það var sent efnahags- og viðskiptanefnd í vikunni. Þar segir meðal annars að „Flest heimili sem skráð voru fyrir verðtryggðum lánum vegna kaupa á fasteignum til eigin nota á árunum 2008 og 2009 hafa notið einhverra úrrræða á borð við sérstakar vaxtaniðurgreiðslur sem greiddar voru árin 2011 og 2012. Eins og fram kemur í frumvarpi til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána reiknast öll opinber úrræði sem heimili hafa þegar notið til frádráttar leiðréttingar. Af þessu leiðir að afar fá heimili eiga rétt á hámarksniðurfærslu sem er 4. m. kr.“
Það liggur semsagt fyrir að „afar fá heimili“ fá 4 milljónir króna. Flestir þeirra sem hafa verið í vanda munu fá mun miklu minna, enda verður fyrri aðstoð dregin frá.
Fer nánast allt til höfuðborgarbúa
Í minnisblaðinu kemur líka fram að 70 prósent upphæðarinnar, væntanlega um 56 milljarðar króna, fer til húsnæðiseigenda á höfuðborgarsvæðinu. Einungis 1,1 prósent, 880 milljónir króna, fara á Vestfirði og 1,3 prósent, rétt rúmur milljarður króna, fara á Norðurland vestra. Þar segir einnig að„meðalfjárhæð niðurfærslu fer hækkandi eftir því sem fasteignamatið er hærra enda eru skuldir að baki verðmætari eignum að jafnaði hærri“. Hæsta fasteignamatið hérlendis er vitanlega á höfuðborgarsvæðinu.
Þar sem skuldaniðurfellingargreiðslurnar eru fjármagnaðar með skattheimtu og greiddar úr ríkissjóði má ljóst vera að landsbyggðin er mjög meluð í þessari risavöxnu sósíalísku millifærslu á peningum okkar allra í vasa „sumra“. „Sumir“ eru nefnilega að langmestu leyti höfuðborgarbúar.
Það liggur því fyrir að skuldaniðurfellingarnar eru fyrst og síðast vasapeningur fyrir hluta þeirra sem búa í Reykjavík og nágrenni, niðurgreiddur af öllum hinum.
Fáir yfirskuldsettir og þeim fer hratt fækkandi
Í þessu dásamlega minnisblaði segir einnig að 35 prósent skuldaniðurfellingalottóvinningsins fari til þeirra sem eru með meira en 100 prósent skuldsetningu miðað við fasteignamat. Fasteignamat er mun lægra en markaðsvirði íbúða, stundum allt að 25-30 prósent. Því er hlutfall þeirra sem eru með meira en 100 prósent skuldsetningu af raunvirði sem eru að fara að fá skuldaniðurfellingarpeninga enn lægra en 35 prósent.
Auk þess er fasteignaverð á fleygiferð upp á við, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur hækkað um 11,1 prósent á einu ári. Haldi það áfram með sama hætti, sem fullar forsendur eru fyrir vegna aðstæðna á íslenska markaðnum, mun íbúð sem kostaði 30 milljónir króna fyrir ári síðan hækka um 50 prósent fram til ársins 2017, þegar skuldaniðurfellingin rennur sitt skeið. Hér verður því spáð að hlutfall þeirra sem eiga rétt á skuldaniðurfellingu, og væru með yfir 100 prósent skuldsetningu miðað við markaðsvirði árið 2017, verði langt undir tíu prósent.
Og þá vaknar sú spurningin, af hverju er verið að gefa þessu fólki peninga þegar markaðurinn mun „leiðrétta“ stöðu þeirra á örfáum árum?
Erum á bullandi yfirdrætti
Seðlabanki Íslands hefur sett fram þá rökstuddu skoðun að skuldaniðurfellingarnar muni auka verðbólgu vegna aukinnar einkaneyslu. Það er vont fyrir alla, líka þann fjórðung landsmanna sem er á leigumarkaði og þann helming heimila sem skuldar ekki í húsnæði. Svo ekki sé minnst á allt það unga fólk verður fast í foreldrahúsum fram á fertugsaldurinn.
Sú aukna einkaneysla sem mun fylgja peningagjöfum ríkisstjórnarinnar gæti eiginlega ekki komið á verri tíma. Vöruskiptajöfnuður okkar, munurinn á því sem við flytjum inn og út úr landinu, er nefnilega orðinn hræðilega neikvæður.
Ímyndum okkur að Ísland sé heimili. Útflutningur eru tekjur þess og innflutningur kostnaður. Þegar innflutningur er lægri en útflutningur þá þarf heimilið að taka yfirdrátt, eða smálán, til að brúa bilið. Í aðdraganda hrunsins þurfti að bæta við þann yfirdrátt nánast daglega, slíkur var munurinn.
Vöruskiptajöfnuður síðustu mánaða er dálítið 2007-hræðilegur. Í mars í fyrra var hann jákvæður um 9,3 milljarðar króna og mánuðinn eftir um 3,8 milljarða króna. Á þessum tveimur mánuðum „græddum“ við því rúma 13 milljarða króna. Í mars 2014 var jöfnuðurinn neikvæður um 600 milljónir króna og í apríl neikvæður um sjö milljarða króna. Neikvæður viðsnúningur á milli ára er því tæpur 21 milljarður króna!
Ástæðan fyrir þessu er í raun sáraeinföld. Útflutningsverðmæti, sérstaklega sjávarafurða og áls, eru að dragast mikið saman. Einkaneysla, sem drífur áfram innflutning, er hins vegar að aukast. Til að takast á við þetta ástand þarf a) krónan verður að veikjast til að laga þetta með tilheyrandi rýrnun á alþjóðlegu virði launa og eigna okkar eða b) sjávarafurðir og ál verða að hækka slatta í erlendri mynt. Eitt er ljóst. EF þetta heldur áfram að þróast svona fer illa.
Og það síðasta sem þarf akkurat núna er peningjagjöf sem mun auka einkaneyslu og hækka verðbólgu.
Ekki of seint
Auk alls ofangreinds standast skuldaniðurfellingarnar ekki grundvallar réttlætiskröfur, um þær ríkir pólitísk óeining innan stjórnarliðsins, kostnaður við framkvæmd þeirra er hár og algjör óvissa er um hvort hin sértæka skattlagning á þrotabú fallinna banka, sem á að fjármagna partýið, standist lög.
Það hefur tekið tíma, en í dag hljóta allir sjá að keisarinn er ekki í neinum fötum. Hann er allsber. Þetta hafa allir sem skoðað hafa málið, án þess að fá leiðarkort að sérstakri niðurstöðu frá stjórnvöldum, séð.
Enn á eftir að afgreiða frumvarpið á Alþingi. Það er því ekki of seint að hætta við þennan fáránlega afleik sem ómarkvissar tugmilljarðar króna peningagjafir til einhverra, af því bara, eru. Þingmenn sem hafa hingað til spilað með og tekið pólitíska fylgni fram yfir skynsemi og heildarhag geta enn stöðvað þetta. Það eina sem þarf er vilji til að sjá raunveruleikann eins og hann er. Og greiða atkvæði í samræmi við það.
Það er enn von.