Um þessar mundir er eitt ár liðið síðan undirrituð birti grein í Kjarnanum, fyrir hönd hóps bókasafns- og upplýsingafræðinga í háskólabókasöfnum, undir fyrirsögninni #HvarerOAstefnan? Lýst var eftir opinberri stefnu menntamálaráðuneytisins um Opinn aðgang að niðurstöðum rannsókna og þeirri spurningu varpað fram hvort bíða þyrfti til ársins 2022 eftir að hægt væri að hefja innleiðingu stefnunnar.
Greinin var skrifuð í tilefni árlegrar viku opins aðgangs og nú þegar árið er liðið er áhugavert að skoða hvernig stefnumótunarvinna mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur gengið:
- Í desember 2019: Tillögum til mennta- og menningarmálaráðherra að stefnu um opinn aðgang að niðurstöðum rannsókna skilað til mennta- og menningarmálaráðuneytis.
- 13. mars 2020: Mál nr. 70/2020 Opinn aðgangur að niðurstöðum rannsókna sett í samráðsgátt og var til umsagnar til 27. mars 2020.
Í umsögn Háskóla Íslands, sem var sú eina sem barst um málið, er tillögunum fagnað og sagt að þær séu í góðu samræmi við þróunina í nágrannalöndunum og í samræmi við stöðuna hérlendis. Í þessari jákvæðu umsögn um stefnutillögurnar um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum ítrekar HÍ hins vegar skort á stefnu um opinn aðgang að rannsóknargögnum.
- 27. mars 2020: Niðurstöður samráðs máls nr. 70/2020 settar í vinnslu.
- 14. september 2021: Niðurstöður máls nr. 70/2020 birtar í samráðsgáttinni.
Í niðurstöðunum segir m.a.:
„Ráðuneytið vinnur nú að stefnu á grundvelli skýrslunnar með það að markmiði að stuðla að því að rannsóknarniðurstöður sem greiddar eru fyrir opinbert fé séu aðgengilegar á rafrænu formi án endurgjalds svo að flestir geti nýtt sér niðurstöður þeirra.“
Í niðurstöðunum virðist jafnframt tekið undir ítrekun HÍ á skorti á stefnu um opinn aðgang að rannsóknargögnum:
„Með opnum aðgangi að rannsóknargögnum er stuðlað að útbreiðslu þekkingar og nýtingu hennar í samfélaginu, en jafnframt verið að efla gæði rannsókna. Með því að opna aðgang skapast ábóti fyrir allt samfélagið, hraðar vexti þess og hvetur til nýsköpunar.“
Sem sagt eftir að hafa unnið með málið í 17 mánuði virðist lítið sem ekkert hafa gerst og enn vantar stefnuna um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum.
Hvað tefur?
Í stefnutillögunum eru sett fram markmið, leiðir og aðgerðir.
Meginmarkmið stefnunnar verði að „Niðurstöður rannsókna sem notið hafa opinberra styrkja á Íslandi verði aðgengilegar án endurgjalds.“ Jafnframt er sett sem markmið „að breytingin frá hefðbundinni útgáfu vísindagreina til opins aðgangs auki ekki heildarkostnað samfélagsins af útgáfu, dreifingu og aðgangi að vísindalegri þekkingu og gætt verði að því að greiða ekki bæði fyrir birtingu og aðgang.“
Leiðir að markmiðum felist í safnvistun skv. grænu leiðinni til að byrja með þar sem vísindamenn birta niðurstöður/greinar í áskriftartímaritum og vista handritið jafnframt í varðveislusafni. Gert er ráð fyrir að með tímanum verði sú þróun að birtingin færist frá grænu leiðinni yfir í gullnu leiðina en þá birtast rannsóknarniðurstöður alfarið í tímaritum sem eru í opnum aðgangi.
Í aðgerðalið tillagnanna eru svo tilgreindir þeir aðilar sem koma þurfa að málinu og verkefni þeirra vel skilgreind.
Eru ofantalin atriði (markmið, leiðir og aðgerðir) ekki einmitt þau sem eiga að vera í formlegu stefnuskjali? Getur verið að málið tefjist vegna þess að enn virðist ekki hafa verið unnið í stefnu um rannsóknargögn? Í títtnefndum tillögum kemur skýrt fram að verkefni hóps um opin vísindi er tvíþætt; annars vegar um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum og hins vegar um opinn aðgang að rannsóknargögnum. Frá verkefnahópi mennta- og menningarmálaráðherra um opin vísindi eiga sem sagt að koma tillögur að tveimur stefnum en ekki ein heildarstefna um opin vísindi og sá grunur læðist að undirritaðri að hér gæti verið um einhvern misskilning að ræða.
Í viðauka með stefnutillögunum er fjallað um fyrirkomulag útgáfu, áskriftir (að ekki sé greitt bæði fyrir áskrift að tímaritinu og útgáfu greina í opnum aðgangi í því) og að lokum sett fram kostnaðarmat. Ljóst er að viðaukinn (skrifaður árið 2019) þarfnast endurskoðunar nú þegar líður að árinu 2022 en það ætti þó ekki að hindra gerð opinberrar stefnu um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum þar sem þessi atriði teljast líklega þættir í innleiðingu. Ef hins vegar þessi atriði þurfa að liggja fyrir til að hægt sé að ljúka við gerð stefnunnar er þá ekki ráð að ráðuneytisstarfsmaður fái það verkefni og ljúki síðan gerð stefnunnar? Síðan þarf að mynda vinnuhóp þeirra aðila sem nefndir eru í aðgerðakaflanum um innleiðinguna og hefja svo ferlið.
Það að ráðuneytið vinni nú fyrst eftir sautján mánaða töf að stefnunni er klént svar þar sem upplýsingar liggja ekki fyrir um hvernig þeirri vinnu er háttað eða hvenær henni á að vera lokið. #HvarerOAstefnan er því enn í fullu gildi.
Höfundur er forstöðumaður bókasafns og upplýsingaþjónustu Listaháskóla Íslands.
Heimildir:
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (e.d.). Opinn aðgangur að niðurstöðum rannsókna. Samráðsgátt – opið samráð stjórnvalda við almenning. Sótt 13. október 2021 af https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2659
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2019, september). Opinn aðgangur að niðurstöðum rannsókna: Tillögur verkefnishóps mennta- og menningarmálaráðherra. Sótt af https://samradsgatt.island.is/Skrar/$Cases/GetCaseFile/?id=%7B943dc525-4065-ea11-9b94-005056bcce7e%7D