Ég lít á dagatalið og sé ártalið 2015.
Þegar ég var 10 ára gamall fóru fram forsetakosningar á Íslandi. Nokkrir buðu sig fram og einn þeirra stefndi að friði árið 2000. Það hljómaði sem ágætis markmið í mínum eyrum man ég. En friðurinn náði ekki fram að ganga og Íslendingar kusu fyrrum ráðherra og þingmann í stólinn á Bessastöðum.
Núna nálgast ég óðfluga þrítugt og enn er sami maður forseti. Robert Mugabe í Simbabve hefur samt setið enn lengur en hann í embætti. Margt hefur breyst í heiminum og á Íslandi frá árinu 1996. Friðurinn kom ekki árið 2000 en hrunið kom árið 2008. Forsetinn þurfti að endurheimta traust þjóðarinnar eftir að hafa flogið í einkaþotum „útrásarvíkinga“ og mært þá í bak og fyrir.
Á þessu tímabili hefur orðið bylting í tækniþróun, sem hefur haft gríðarleg áhrif á aðgengi að upplýsingum. Aldrei hefur verið auðveldara að fletta upp og reka lygar og útúrsnúninga ofan í stjórnmálamenn. Pottverjar í heitu pottunum ræða enn stjórnmálin og nýjasta slúðrið eins og árið 1996, en „virkir í athugasemdum“ eru meira áberandi í dag.
Árið 1996 var Morgunblaðið stærsta dagblað Íslands og virtasti fjölmiðillinn ásamt Ríkisútvarpinu. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sátu saman í ríkisstjórn. Jóhanna Sigurðardóttir var formaður Þjóðvaka og beið eftir að sinn tími kæmi. Áhrifamestu hagsmunasamtök landsins voru LÍÚ, eins og í dag, en hafa nú skipt um nafn. Kvikmyndin Djöflaeyjan kom út og Braveheart hlaut Óskarsverðlaun sem besta myndin. Spaugstofan var kærð fyrir klám þetta árið og árið eftir fyrir guðlast. 1996 var árið eftir að Kombucha sveppurinn svokallaði sló í gegn á mörgum íslenskum heimilum og var ræktaður í krukkum og vaskafötum af mikilli list. „Galdraseyði“ sem bruggað var úr ræktuninni var talið allra meina bót. Morgunblaðið greindi frá uppruna æðisins í Bandaríkjunum.
Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá árinu 1996. Íslenskt samfélag hefur gjörbreyst. Hnattvæðing og tækniframfarir hafa skapað ótal ný tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Mikilvægi internetsins sem vettvangs samskipta, upplýsinga og viðskipta hefur margfaldast. Fjöldi nýrra sprotafyrirtækja hafa orðið til og blómstrað í þessum jarðvegi og listamenn og íþróttamenn hafa slegið í gegn um víða veröld. Ísland er komið rækilega á kortið sem vinsæll áfangastaður ferðamanna.
Stjórnmál á Íslandi hafa því miður ekki fylgt þessari þróun. Áratugum saman hefur verið stöðnun í íslenskum stjórnmálum (sem sumir kalla stöðugleika). Starfshættir Alþingis hafa sáralítið breyst á þessum tíma. Enn eru hugmyndir skotnar niður ef þær koma frá „óvinum“ í öðrum flokkum eða utan úr samfélaginu. Enn er gagnrýni svarað með því að klína flokksstimplum á gagnrýnendur. Menn ljúga óhikað og snúa út úr og verða síðan „fórnarlömb neikvæðrar umræðu“. Enn er málþóf helsta vopn stjórnarandstöðunnar gegn „ofríki ríkisstjórnar“ eins og Bjarni Benediktsson kallaði það í stjórnarandstöðu 2013. Enn eru ráðamenn tregir til að læra af reynslunni eða reynslu nágrannaþjóða. Enn hreykja þeir sér af hagstjórn sinni, nú þrátt fyrir fjölmenn verkföll og landflótta, eins og þeir hreyktu sér alla leið inn í hrunið.
Það þekkist varla að íslenskir stjórnmálamenn axli ábyrgð eða biðjist afsökunar á mistökum sínum, mistökin eru alltaf einhverjum öðrum að kenna.
Flokksmenn slá skjaldborg um samherja sína sem „lenda í ósanngjarnri umræðu“. Það þekkist varla að íslenskir stjórnmálamenn axli ábyrgð eða biðjist afsökunar á mistökum sínum, mistökin eru alltaf einhverjum öðrum að kenna. Stundum eru þau líka réttlætanleg ef aðrir gerðu sambærileg mistök. Fordæmisgildi mistaka fyrri ára skapar sérstakan kvóta sem stjórnmálamenn geta alltaf vísað í og nýtt sér. Í Bretlandi sögðu þrír flokksformenn af sér á vordögum, til þess að axla ábyrgð á slæmu gengi flokka sinna í kosningum. Það þurfti ekki meira til.
Árið 1992 var skipuð nefnd til að fjalla um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, vegna aðildar Íslands að EES samstarfinu. Síðan hafa fleiri nefndir, ráð og þing verið skipuð með tilheyrandi kostnaði, en sama stjórnarskrá stendur enn svo til óbreytt. Stjórnarskráin frá árinu 1944, sem átti að vera til bráðabirgða, er komin yfir sjötugt. Allar tilraunir til heildarendurskoðunar hennar hafa mistekist hingað til. Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 virðast gleymdar. Í rúm sjötíu ár hafa menn rætt málin og þrasað án niðurstöðu.
Allar tilraunir til heildarendurskoðunar hennar hafa mistekist hingað til. Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 virðast gleymdar.
Ólafur Ragnar hefur gjörbreytt forsetaembættinu í krafti óljósra greina um valdsvið forseta og misnotaði nýverið aðstöðu sína við þingsetningu til þess að koma andstöðu sinni við stjórnarskrárbreytingar á framfæri. Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur eru óljós. Er lýðræðislegt að atkvæði Vestfirðings í kosningum til Alþingis gildi u.þ.b. tvöfalt á við atkvæði Hafnfirðings? Hverjir hagnast á núverandi kosningakerfi? Framsóknarflokkurinn hefur hagnast mest allra flokka á því í gegnum tíðina. Eru til góð rök fyrir skiptingu landsins upp í kjördæmi í dag og misjöfnu vægi atkvæða eftir landshlutum?
Það er himinn og haf milli lífskjara sem því býðst á Íslandi (einkum Reykjavík vegna húsnæðisverðs) samanborið við flest nágrannalöndin.
Ekki sér fyrir endann á flótta ungs fólks úr landi, það er himinn og haf milli lífskjara sem því býðst á Íslandi (einkum Reykjavík vegna húsnæðisverðs) samanborið við flest nágrannalöndin. Einstaka stjórnarþingmenn lýsa yfir áhyggjum af stöðu húsnæðismála og áhyggjum af að ná ekki almennilega til unga fólksins. En gerist eitthvað eða er þetta bara enn eitt kjaftæðið? Staðan á húsnæðismarkaði hefur líklega aldrei verið verri, þar er uppsafnaður vandi margra ára sem aldrei hefur verið tekið almennilega á. Stjórnvöld virðast vanmeta stórkostlega umfang og áhrif fólksflutninga frá landinu, bæði ungs fólks og annarra sem hafa fengið nóg af hrokafullum viðbrögðum og ráðaleysi ráðamanna við fjölmennum verkföllum. Stjórnarskráin er ekki það eina sem þarfnast heildarendurskoðunar, verkföll eru mun algengari á Íslandi en í nágrannalöndum. Gæti verið að íslensk stjórnvöld geti lært eitthvað um hagstjórn og vinnumarkað af þeim? Gæti hugsast að þau geti lært eitthvað um húsnæðismarkað?
Þegar Davíð Oddsson lýsir frati á einstaklinga og stofnanir samfélagsins í ritstjórnargreinum á Morgunblaðinu er oft fjallað um það í öðrum fjölmiðlum. En hvert er upplýsingagildið? Hvað er fréttnæmt við að hann uppnefni fólk opinberlega eða geri lítið úr Ríkisútvarpinu?
Hvort er árið 1996 eða 2015 í stjórnmálum á Íslandi?