Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur afdráttarlaust lýst því yfir að Ísland eigi að hætta stuðningi sínum við refsiaðgerðir Bandaríkjanna, ESB og fleiri ríkja gegn valdstjórninni í Rússlandi. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem Ásmundur fer fram á slíkt, hann hefur kallað eftir því opinberlega áður að Íslendingar reyni að koma Rússum til hjálpar með einhverjum hætti í efnahagskröggum þeirra.
Ásmundur og minnst handfylli annarra stjórnarþingmanna sem nú hafa opinberlega bæst í hóp þeirra sem vilja hætta stuðningi við refsiaðgerðirnar hafa auðvitað alla tíð verið mótfallnir inngöngu Íslands í ESB. Þjónkun þeirra við Rússland nú er þó nýr kafli í þeirri baráttu, jafnvel þó gríðarmiklir viðskiptahagsmunir Íslands við Rússa séu óumdeilt undir.
Hagsmunir Íslands
Það sem þingmennirnir virðast ekki skilja er að pólitísk samstaða Íslands með bandalagsþjóðum okkar í NATO og ESB gegn Rússlandi Pútíns þessi misserin snýst beinlínis um baráttuna fyrir lýðræði, mannréttindum og frjálsum viðskiptum í Evrópu. Þessi barátta snýst því um mikilvægustu langtímahagsmuni íslensku þjóðarinnar, pólitíska jafnt sem efnahagslega. Þar liggur hið mikilvæga hagsmunamat sem sífellt er kallað eftir. Afstaða Íslands í utanríkismálum frá lokum seinni heimsstyrjaldar hefur að mestu markast af þessari stefnu og fáar ef einhverjar atvinnugreinar hér á landi hafa notið ávaxta hennar betur en sjávarútvegurinn. Sjálfstæðisflokkurinn stærir sig jafnan af því að hafa verið aðal aflmótor þessarar stefnu í íslenskum stjórnmálum.
Afstaða ritara Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins síðastliðnar tvær helgar hafa einnig verið nokkuð sérkennilegar, sérstaklega söguskýringar á atburðarásinni í Úkraínu síðastliðin ár þar sem áróður Pútíns fær óþægilega mikið vægi.
Afstaða ritara Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins síðastliðnar tvær helgar hafa einnig verið nokkuð sérkennilegar, sérstaklega söguskýringar á atburðarásinni í Úkraínu síðastliðin ár þar sem áróður Pútíns fær óþægilega mikið vægi. Það skal viðurkennt að í nýjasta Reykjavíkurbréfi Davíðs er engin bein afstaða tekin með Pútín. En hún leiðir samt beint af skrifunum. Og hinn alþjóðapólitíski veruleiki sem röksemdarfærsla Davíðs um að Ísland skuli hætta stuðningi sínum við refsiaðgerðirnar er mótaður eftir er mjög á skjön við allt sem við blasir – raunar er sá veruleiki ekki til.
Friði í Evrópu er ógnað
Þótt hörðustu andstæðingar ESB-aðildar Íslands, bæði til vinstri og hægri, haldi að Ísland geti með einhverju móti rekið fullkomlega sjálfstæða og eftir atvikum „hlutlausa“ utanríkisstefnu er hinn blákaldi veruleiki sá að öryggi, friði og lögmætum landamærum ríkja er ógnað í Evrópu af valdamesta og hættulegasta þjóðernispopúlista álfunnar. Blóðsúthellingarnar eru hafnar. Hlutleysi í þeirri baráttu er ekki til og á ekki að vera það. Við þurfum á bandamönnum okkar í NATO og Evrópu að halda í þessari baráttu, ekki öfugt, og eigum að taka afstöðu með þeim og með stríðshrjáðum íbúum Úkraínu.
Klapplið Pútíns
Ég get ímyndað mér að fyrir marga kjósendur Sjálfstæðisflokksins sé Ásmundur Friðriksson kominn óþægilega nálægt klappliði Pútíns innan hinna þjóðernissinnuðu popúlistaflokka í Evrópu þegar hann kallar eftir því að við reynum að koma Rússlandi Pútíns „til aðstoðar“. Sama á við um Davíð þegar hann skrifar um „meinta (!) undirróðursstarfsemi Rússa í Austur-Úkraínu“. Bæði Davíð og Ásmundur hafa þó áður fært sig nálægt orðræðu þjóðernissinnaðra popúlista í umræðum um innflytjendur og moskur.
Framsóknarflokkurinn hefur á undanförnum árum fært sig nær ýmsum þjóðernissinnuðum popúlistum í Evrópu og fór beinlínis yfir öll velsæmismörk í síðustu borgarstjórnarkosningum. Fékk þá eftirminnilegan stuðning í leiðara Morgunblaðsins. Gunnar Bragi stendur hins vegar fastur fyrir í Úkraínudeilunni með alla utanríkismálanefnd Alþingis sér að baki. Það er mikilvægt.
Fótgönguliðar Pútíns í Evrópu
Hinir þjóðernissinnuðu popúlistaflokkar Evrópu eru hins vegar miklir bandamenn Pútíns. Ekki bara de facto í rasisma sínum, sögufölsunum og hatri á Evrópusamvinnunni (sem kaldhæðnislega hefur fært þeim sjálfum frið, málfrelsi og velsæld) heldur fara þau ekki einu sinni leynt með stuðning sinn við Pútín lengur. Þessi öfl styðja nær öll Pútín opinberlega, þiggja sum frá honum fé, styðja ólöglega innlimun Krím og lýstu yfir stuðningi og aðdáun á stórkostlega brengluðum og ólýðræðislegum kosningum á Krím eftir að dátar Pútíns höfðu lagt skagann undir sig. Atkvæði Evrópubúa til Le Pen, Strache, Wilders og Farage eru nú beinlínis stuðningsyfirlýsing við Pútín; stuðningur við ethníska ofbeldis- og útþenslustefnu stjórnar hans og við markmiðið um að grafa undan pólitískri samstöðu innan Evrópu – samstöðu sem grundvallast fyrst og fremst á því að virða alþjóðalög, mannréttindi og lýðræði.
Það sem nú hlýtur því að brenna á kjósendum Ásmundar og hugsanlega kjósendum fleiri þingmanna stjórnarflokkanna er hvort atkvæði til þeirra sé hér eftir slík stuðningsyfirlýsing við útþenslustefnu Rússa.
Nýr heimur - auðvelt val
Sé hægt að selja Rússum áfram fisk án þess að samþykkja leynt og ljóst yfirgang og ofbeldi Kremlarstjórnarinnar er það auðvitað frábært. Sá heimur virðist hins vegar vera horfinn að sinni. Val okkar hvoru megin skuli standa í þessum nýja heimi er auðvelt og sjálfsagt. Það er byggt á siðferðilegri afstöðu, virðingu fyrir mannréttindum og langtímahagsmunum Íslands, þó Morgunblaðið, Ásmundur og átakanlega margir aðrir þingmenn stjórnarflokkanna skilji það ekki ennþá.