Fólki dettur stundum í hug að það gæti verið snjallt og jafnvel alveg einstaklega lýðræðislegt að kjósa borgarstjóra beint. Þá væri hann óháður þessum þreytandi pólitíkusum sem þenja sig stöðugt í borgarstjórninni og gæti gengið erinda borgarbúa beint og milliliðalaust.
Það er út af fyrir sig alveg hægt skilja að sumum finnist einfaldara og betra að geta gengið að sínum manni vísum. En það er skrítnara að tengja þetta fyrirkomulag við lýðræði. Það er svona álíka gáfulegt og að segja að lýðræði sé í rauninni einræði.
Einræðisherra er einræðisherra alveg sama þótt hann hafi verið kosinn. Lýðræði er hins vegar hópavinna og trúin á það er ósköp einföld: Hún gengur út á að það sé líklegra til árangurs að vinna saman í hópum en að stóla alltaf á einhvern karl eða konu sem grenjar í símtól inni á skrifstofu eða þykist stöðugt vera að leysa öll mál upp á eigin spýtur.
Smátt og smátt er líka að verða ljóst að fyrirkomulag þar sem kjörnir fulltrúar ráða öllu um skeið og eiga helst ekkert að hlusta á nöldrið í kjósendum er að ganga sér til húðar. Stöðugt er bent á nýjar leiðir til að ráðgast við borgarana um stærri og smærri mál utan við hefðbundnar kosningar.
Reykjavíkurborg hefur á þessu kjörtímabili unnið að því að þróa tvenns konar þátttökuleiðir undir heitinu „Betri Reykjavík“ (sjá betrireykjavik.is). Annars vegar er það formlegur farvegur hugmynda og tillagna sem rökræddar eru á netinu og fara að lokum til afgreiðslu á viðeigandi sviði borgarinnar. Þannig geta Reykvíkingar sent tillögur sínar beint til þeirra nefnda sem fjalla um hvert og eitt mál.
Þannig verður Reykjavík betri. Hverfin geta líka orðið betri, fallegri og skemmtilegri með aðstoð borgarbúa. Um það snýst verkefnið Betri hverfi. Þá fá borgararnir úthlutað fé til viðhalds og framkvæmda í eigin hverfum. Þátttaka er ekki tímafrek. Fyrst er óskað eftir hugmyndum, þá er gefinn kostur á rökræðum um hugmyndirnar á netinu og að lokum er þeim raðað í forgangsröð sem ákvarðar hvaða hugmyndir verða framkvæmdar. Það má segja að Betri hverfi sé eins konar æfing enn sem komið er. Þátttökuverkefnum af þessu tagi mun fjölga í framtíðinni og þau stækka. Það er engin spurning.
Borgin hefur líka átt samstarf við stjórnmálafræðinga sem vinna að þróun aðferða til samráðs við almenning. Hér var til dæmis á síðasta ári James Fishkin frá Stanford-háskóla sem hefur skipulagt svokallaðar rökræðukannanir víða um heim. Rökræðukannanir blanda saman aðferð skoðanakannana og rökræðufunda til að sjá breytingar sem verða á viðhorfum fólks þegar það fær tækifæri til að kynna sér mál í hörgul. Það kemur í ljós að slíkar breytingar geta verið umtalsverðar.
Stjórnmálamenn verða að átta sig á að samráð við almenning er mjög mikilvægt. Aukið lýðræði íbúanna er einfaldlega framtíðin og hún er björt. Þetta fyrirkomulag felur ekki í sér einhvers konar lýðskrum eða takkalýðræði. Það er ekki hægt að ætlast til þess að við séum öll vel að okkur um þau fjölmörgu mál sem þarf að móta stefnu um eða taka ákvarðanir um. En það þarf að vera eitthvert vit í ákvörðunum. Besta leiðin til að þetta vit verði sem allra mest er að búa til aðstæður þar sem fólk getur bæði sett sig inn í mál og tekið þátt í að móta stefnu og jafnvel taka ákvarðanir. Það er lýðræði.
Góðir leiðtogar eru fínir og þeir geta hjálpað heilmikið. En þeir toppa ekki visku fjöldans. Þeir eiga því aðallega að hjálpa til við að sú viska nýtist sem best.
Greinin birist í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.