„Er ekki bara best að kjósa Framsókn.“ Barnslega einfalt. Engar flóknar útskýringar. Engar útlistanir. Engir bornir sökum. Komið beint í kjarnann. Best heppnaða kosningaslagorð í áratugi. Hitti með barnslegu sakleyti sínu fjölmarga Íslendinga í hjartað. Og með afleiðingum. Auðvitað! Eins og til var ætlast. Svona eiga almannatenglar að vera!
Og svo kom ...
Svo kom „sú svarta“. Svo kom bankasalan. Svo fylgdi reiði almennings. Svo fylgdu fjölmennir andmælafundir. Svo fylgdu kröfur almennings un skýr svör og um öxlun ábyrgðar Svo fylgdi margra sólarhringa þögn ráðherra í ríkisstjórn Katrínar . Enginn ráðherra fékkst til að opna munninn. Enginn til þess að tjá sig. Enginn til þess að svara .
Nema – viðskiptaráðherrann Lilja Dögg tjáði skoðun sína í Morgunblaðsviðtali kvöldið áður en þögnin hófst. Þar sagðist hún hafa lýst andstöðu sinni við þá leið, sem valin var við bankasöluna. Katrín var spurð hvort rétt væri – en svaraði auðvitað ekki. Sagði bara að ekkert slíkt hefði verið fært til bókar. Hvorki í ráðherranefndinni – þar sem Lilja Dögg sat ekki – né í ríkisstjórninni – þar sem Lilja Dögg átti sæti.
... að fara heim
Svona eiga almannatenglar að svara. Hin gömlu, fleygu og árangursríku kosningaslagorð hvíldu á tungu ráðherrans. Fremst á tungubroddinum. Nánast sögð! Minnug góðs árangurs barnslega einfalds úrræðis. Best heppnaða kosningaslagorðs Íslandssögunnar „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“ Já – „Er ekki bara best að treysta Bjarna?“!!! Einfalt.
Engar flóknar útskýringar. Hittir landsmenn beint í hjartastað. Svona eins og þegar þreytt foreldri segir við blessað barnið sitt eftir erfiðan dag: „Er ekki bara best að við förum að fara heim?“.
Höfundur er fyrrverandi heilbrigðisráðherra og formaður Alþýðuflokksins.