Prestur svarar Pírata!

Gunnar Jóhannesson prest­ur í Ár­­borg­ar­­presta­­kalli heldur áfram að rökræða tilvist Guðs og svarar Birni Leví Gunnarssyni þingmanni Pírata í aðsendri grein.

Auglýsing

[Fyr­ir­vari: Þessi grein er efn­is­mikil og því er ekki ósenni­legt að ein­ungis þeir sem hafa áhuga á umræðu­efn­inu – sem er ólíkar skoð­anir prests og pírata á til­vist Guðs, guðs­trú og guð­leysi – muni lesa. Grein­ina má lesa í þremur lot­um. Góður kaffi­bolli hjálpar til. Að öðru leyti lesa þeir sem vilja lesa, hinir snúa sér að ein­hverju öðru.]

Til upp­rifj­un­ar: Trú Björns Levís Gunn­ars­sonar

Fyrir nokkrum vikum skrif­aði ég grein­ina „Trú Björns Levís Gunn­ars­son­ar“ sem birt­ist hér á kjarn­an­um. Til­efnið voru svo­kall­aðar „guð­fræði­legar pæl­ingar“ Björns Levís Gunn­ars­sonar þing­manns pírata (hér eftir BL), sem kjarn­inn hafði áður gert að umtals­efni í stuttri frétt. Ástæða þess að ég ákvað að leggja orð í belg var ekki síst sú áhuga­verða full­yrð­ing BL að Guð sé ekki til sem að hans mati er ein­föld „stað­reynd“, eins og hann orð­aði það.

Í grein minni leyfði ég mér að benda á að svo ein­falt væri málið ekki og að þeir sem dýfi sér djúpt og íhug­ult ofan í vanga­veltur um til­vist Guðs – guðs­trú­ar­fólk jafnt sem guð­leys­ingjar – leyfi sér ekki að nota jafn stórt orð og „stað­reynd“ með þessum hætti. Enn­fremur hafði ég orð á því að BL gerir heldur alls enga til­raun til þess að rök­styðja mál sitt eða rétt­læta full­yrð­ingu sína um til­vist­ar­leysi Guðs heldur gengur ein­fald­lega út frá því – eins og mjög mörgum guð­leys­ingjum er tamt að gera. Honum er að sjálf­sögðu það heim­ilt en að svo miklu leyti sem hann gerir það er ein­fald­lega um órök­studda og perónu­lega skoðun hans að ræða sem ekki þarf að orð­lengja um frekar en maður vill.

BL þarf því að bæta tals­vert miklu við mál sitt áður en hann getur leyft sér að tala um „stað­reynd“. En það skiptir þó litlu í raun því þegar um til­vist Guðs er að ræða getum við ekki, á hvorn veg­inn sem er, talað um „stað­reynd“ (í merk­ing­unni hund­rað pró­sent vissa), hvað þá „ein­falda“ stað­reynd. Ef hægt er að tala um „ein­falda stað­reynd“ í þessu sam­hengi yfir höfuð (fyrir utan þá rök­legu stað­reynd að annað hvort er Guð til eða ekki til!) er það sú stað­reynd að til­vist Guðs verður hvorki sönnuð né afsönnuð (af ein­hverri stærð­fræði­legri vissu), sem minnir á og áréttar að bæði guðs­trú og guð­leysi byggja, þegar allt kemur til alls, á frum­speki­legri stað­hæf­ingu sem við „ein­fald­lega“ veljum að trúa og göng­umst við án þess að geta sann­reynt hana í ströngum skiln­ingi þess orðs. Og að því leyti er ekki munur á mér sem trúi að Guð sé til og guð­leys­ingj­anum sem full­yrðir að Guð sé ekki til.

Auglýsing

Þótt ég hafi í grein minni tæpt á fleiru sem snertir mál­flutn­ing BL má segja að þetta hafi verið kjarni máls­ins. En eins og nærri má geta er BL ósam­mála mér og finnst honum raunar flest af því sem ég hef til máls­ins að leggja rök­fræði­lega rangt. Hin ein­falda stað­reynd sé að Guð er ekki til.

­Stað­reynd er það sem í veru­leik­anum svarar til sannrar stað­hæf­ing­ar, eða er raun­ger­ing þess, ef svo má segja, sem gerir stað­hæf­ing­una sanna. Þannig er brun­inn mikli í Reykja­vík árið 1915 „stað­reynd“. Geim­ferðir eru „stað­reynd“. Eitt sinn voru þær ein­göngu til í hugum fólks en eru í dag stað­reynd. Pýþagórasar­reglan er „stað­reynd“. Svona mætti lengi telja. Að mati BL, ef ég skil hann rétt, ber að eigna guð­leysi sömu stöðu og vægi, ef svo má að orði kom­ast. Guð­leysi er „stað­reynd“! Ein­föld stað­reynd og eitt­hvað sem er því sann­ar­lega satt. Ástæða þess að stað­hæf­ingin „Guð er ekki til“ er sönn er sumsé sú að veru­leik­anum sé ein­fald­lega þannig háttað að það er eng­inn Guð til.

Full­yrð­ingar af þessum toga eru mjög algengar af hálfu guð­leys­ingja og hef ég oft átt áhuga­verð sam­töl við fólk sem talar á þessa leið. Raunar er ekki langt síðan ég spjall­aði við góðan kunn­ingja sem las grein BL og sýndi mál­flutn­ingi hans mik­inn skiln­ing. Kjarn­ann í því sam­tali má draga saman með eft­ir­far­andi hætti:

Kunn­ingi: Stað­reyndin er, eins og BL seg­ir, að Guð er ein­fald­lega ekki til.

Ég: Er það?

Kunn­ingi: Alger­lega.

Ég: Ertu hund­rað pró­sent viss? Get­urðu sannað það?

Kunn­ingi: Ég þarf þess ekki. Það er aug­ljóst!

Ég: Ókei, en ertu ekki til í að sanna það samt, bara fyrir mig. Mér finnst það ekki aug­ljóst.

Kunn­ingi: Ég get svo sem ekki sannað það með hund­rað pró­sent vissu. En það er besti kost­ur­inn.

Ég: Að Guð sé ekki til?

Kunn­ingi: Já!

Ég: Ókei, þú átt sumsé við að þú getir ekki sannað að Guð er ekki til en þú trúir því samt að guð­leysið sé besti eða lík­leg­asti mögu­leik­inn?

Kunn­ingi: Já, einmitt!

Ég: Þannig að guð­leysi er í eðli sínu trú!

Kunn­ingi minn var ekki til­bú­inn að við­ur­kenna það frekar en BL.

En burt­séð frá því gekkst ég við hinu aug­ljósa í spjalli okk­ar, nefni­lega því að ég get að ekki sannað og sýnt að til­vist Guðs sé ein­föld og óyggj­andi stað­reynd sem allir hljóti að beygja sig fyr­ir. Eng­inn íhug­ull guðs­trú­ar­maður mundi halda slíku fram. En það breytir ekki því að ég tel guðstrú, þ.e. til­vist Guðs, samt sem áður besta og lík­leg­asta – og, já, skyn­sam­leg­asta – kost­inn eða skýr­ing­una þegar ég horfi á eðli lífs­ins og til­ver­unnar og reynslu mína og upp­lifun af líf­inu. Og í því ætti hin raun­veru­lega umræða að vera fólgin að mínu mati, þ.e. hvort verði stutt betri og veiga­meiri rök­um, guð­leysi eða guðs­trú.

En allt um það.

Nokkrum athuga­semdum Björns Levís svarað

BL svar­aði grein minni um hæl með gagn­grein­inni „Prestur prófar póli­tík ... og rök­fræð­i“. Ég þakka honum fyrir að taka sér tíma til að lesa og svara grein minni, og þó seint sé leyfi ég mér að bæta við umræð­una.

Í upp­hafi svar­greinar sinnar segir BL að „[ég full­yrði] meðal ann­ars að það þurfi trú til þess að segja að guð sé ekki til.“

Já, það má segja það, í vissum skiln­ingi.

Í vissum skiln­ingi geta auð­vitað allir sagt hvað sem þeim dettur í hug, m.a. að Guð sé ekki til. En þegar ein­hver full­yrðir, eins og BL ger­ir, án nokk­urrar til­raunar til að rétt­læta eða færa rök fyrir máli sínu, að það sé ein­föld stað­reynd að Guð sé ekki og geti ekki verið til, þá verður það ekki gert án trúar enda er þar um frum­speki­lega stað­hæf­ingu að ræða sem ekki verður sönnuð í ströngum skiln­ingi þess orðs og liggur þar með handan þess sem BL getur vitað fyrir víst. Hann verður ein­fald­lega að trúa því, ganga út frá því.

Trú­ar­hug­takið er vita­skuld marg­þætt. Þannig er til dæmis eitt að trúa að og annað að trúa á. Ég held því ekki fram að guð­leysi sé eitt­hvað sem maður trúir á í sama skiln­ingi og maður trúir á Guð (í merk­ing­unni að treysta Guði, leita til hans o.s.frv.). Í grein minni not­aði ég hug­takið trú hvergi í þeirri merk­ingu eða í merk­ing­unni til­beiðsla eða átrún­aður eða nokkuð í þá veru.

BL minnir líka rétti­lega á að íslenska orðið „trú“ hefur fleiri en eina merk­ingu. Og einmitt af þeim sökum getur mis­skiln­ingur komið upp og auð­velt að vill­ast af leið í umræð­unni, eins og BL gerir að mínu mati.

Heim­speki­lega séð, þegar um trú er að ræða, má segja að trú feli almennt í sér sam­sinni til­tek­innar stað­hæf­ing­ar, eða það að gang­ast við ein­hverju sem sönnu (t.d. því að Guð sé ekki til). Afstaða BL til stað­hæf­ing­ar­innar „Guð er ekki til“ er jákvæð. Hann sam­sinnir henni, fellst á hana og trúir því þar með að Guð sé ekki til. Trú í þeim skiln­ingi felur þannig í sér hvernig eitt­hvað blasir við manni þegar maður íhugar eða leiðir hug­ann að við­kom­andi stað­hæf­ingu.

En svo er hitt allt annað mál – og það skiptir máli í þess­ari umræðu – hvaða þekk­ing­ar­fræði­legu stöðu, ef svo má segja, við getum tekið okk­ur, eða við­eig­andi er að taka sér, gagn­vart við­kom­andi stað­hæf­ingu. Ef við segjum að sann­leiks­gildi full­yrð­ing­ar­innar „Guð er ekki til“ sé 1 (eða með sam­bæri­legum hætti að sann­leiks­gildi full­yrð­ing­ar­innar „Guð er til“ sé 0) þá getum við rétti­lega talað um guð­leysi sem „stað­reynd“. (Og vita­skuld er það stað­reynd að Guð er annað hvort til eða ekki, burt­séð frá því hverju við trúum í þeim efn­um.)

En á hvaða for­sendum leyfir BL sér að taka af öll tví­mæli í þessum efn­um? Hvernig getur hann vitað fyrir víst að Guð er ekki til og að þar sé um stað­reynd að ræða? Hann segir svo sem ekk­ert um það enda færir hann engin rök sem sýna fram á að stað­hæf­ingin „Guð er ekki til“ sé ein­föld „stað­reynd“. Raunar hefur eng­inn guð­leys­ingi nokkurn tíma gert það. Og vita­skuld getur BL það ekki held­ur.

Spurn­ingin um til­vist Guðs, eins og aðrar heim­speki­legar og frum­speki­legar spurn­ing­ar, er ein­fald­lega opin í báða enda. (Hitt er svo annað mál, eins og áður er nefnt, hve skyn­sam­legt eða vel rökum stutt eða lík­legt maður telur svar sitt við þeirri spurn­ingu vera. Það er sann­ar­lega áhuga­verð umræða.) BL verður því ein­fald­lega að ganga út frá því og treysta því að sú sann­fær­ing hans að Guð sé ekki til sé sönn. Í þeim skiln­ingi er alls ekki óvið­eig­andi að tala um „Trú Björns Levís Gunn­ars­son­ar“ enda gengur hann lengra í full­yrð­ingum sínum en það sem honum unnt er að vita með vissu eða sýna fram á með óyggj­andi hætti.

(Í fram­hjá­hlaupi má minna á að vís­indi geta ekki í eigin valdi sannað eða afsannað til­vist Guðs. Það er ástæða fyrir því að eng­inn vís­inda­maður gerir til­kall til nóbels­verð­laun­anna í eðl­is­fræði fyrir að hafa sannað eða afsannað til­vist Guðs. Vett­vangur vís­inda­legra rann­sókna og vís­inda­legrar þekk­ingaröfl­unar ein­skorð­ast við hinn nátt­úru­lega heim – alheim­inn. Guð er hins vegar yfir­nátt­úru­legur (eins og BL minnir sjálfur á í grein sinni síðar meir) og handan þess sem vís­indin geta náð til. Vissu­lega eru til margir vís­inda­menn sem sjá marg­vís­leg spor skap­ar­ans innan sköp­un­ar­innar og telja vís­inda­lega þekk­ingu á engan hátt grafa undan guðs­trú heldur þvert á móti. Og þeir vís­inda­menn eru líka til sem telja að vís­indi sýni með afger­andi hætti að Guð sé ekki til. En allir íhug­ulir og heið­ar­legir vís­inda­menn gang­ast við því að vís­indi sem slík geta ekki full­yrt neitt um til­vist Guðs á hvorn veg­inn sem er enda falli spurn­ingin um Guð ein­fald­lega utan við vett­vang og seil­ing­ar­mátt vís­inda. Orð nóbels­verð­launa­hafans Peter Medawar koma til hugar í þessu sam­hengi: „Að vís­indi eru tak­mörkuð kemur ber­lega í ljós þegar spurt er barns­legra spurn­inga sem vís­indi geta ekki svar­að, spurn­inga er varða hinstu rök til­ver­unn­ar: Hvernig byrj­aði þetta allt? – Hvers vegna erum við hér? – Hver er til­gangur lífs­ins?“)

Hér er því alls ekki, að mínu mati, um ýkja umdeilda athuga­semd að ræða hjá mér, heldur ein­falda ábend­ingu þess efnis að grunn­for­sendan sem býr að baki guð­leysi – nefni­lega stað­hæf­ingin „Guð er ekki til“ – er þess eðlis að við getum ekki gefið henni sama þekk­ing­ar­fræði­lega vægi eins og þegar um „stað­reynd“ er að ræða, ein­falda eða ekki. Þegar talað er um til­vist­ar­leysi Guðs sem klára stað­reynd er maður ein­fald­lega komin út fyrir þann ramma, eins og allir íhug­ulir guð­leys­ingjar átta sig á.

Að þessu sögðu bætir það alls engu við umræð­una þegar BL gerir „trú“ að umfjöll­un­ar­efni í svar­grein sinni á heldur óreiðu­kenndan hátt sem kemur litlu í þess­ari umræðu við. Rétt­mætar ábend­ingar hans þess efnis að við getum valið að ræða hluti (hvort sem það er til­vist heims­ins eða heið­ar­leiki, svo dæmi hans sjálfs séu nefnd) ýmist á trú­ar­legum eða vís­inda­legum for­sendum hafa ekk­ert að gera með það sem ég sagði í grein minni og kemur kjarna máls­ins ekki við. Það grefur ekki heldur undan máli mínu þegar BL þylur upp ólíkar orða­bók­ar­merk­ingar orðs­ins trú og dregur því næst þá nið­ur­stöðu að „[t]il þess að segja ,nei‘ við skoð­unum um æðri mátt­ar­völd þarf ekki traust eða til­trú ...“. En það kemur kjarna umræð­unnar heldur ekki við. Umræðan snýr alls ekki að ein­hverjum til­fallandi skoð­unum á æðri mátt­ar­völdum sem BL segir „nei“ við eða kýs að hafna, heldur þvert á móti snýr hún að því sem sem hann segir „já“ við, þ.e.a.s. hinni órök­studda full­yrð­ingu hans sjálfs að það sé ein­föld „stað­reynd“ að Guð sé ekki til.

BL segir sjálfur að á meðal þess áhuga­verð­asta sem ég skrifa í grein minni sé eft­ir­far­andi: „Sá sem stað­hæfir ,Guð er ekki til‘ og ber þá stað­hæf­ingu fram sem stað­reynd, eins og Björn Leví ger­ir, gerir jú til­kall til þekk­ingar og er það hans að rök­styðja þá skoð­un.“

BL vitnar til þess­ara orða minna og segir í kjöl­far­ið: „[H]érna er sönn­un­ar­byrð­inni snúið á hvolf.“ Hann heldur svo áfram og seg­ir: „Ef ég myndi segja að fljúg­andi spag­het­tískrímslið sé til og fólk þurfi að taka til­lit til þess í sínu lífi þá ættu allir að sjálf­sögðu að spyrja ,hvernig veistu það?‘ og ,af hverju?‘. Ef ég slengi fram full­yrð­ingu um spag­het­tískrímslið þá get ég ekki varpað sönn­un­ar­byrð­inni á aðra. Það virkar nákvæm­lega eins fyrir guð hinnar evang­el­ísku lúth­ersku kirkju og spag­het­tískrímslið. Ég geri ekk­ert til­kall til þekk­ingar heldur hafna ég stað­hæf­ingu presta og allra ann­ara um að guð sé til.“ (Áherslu­breyt­ingin er mín.)

Þetta er býsna þvælið þykir mér, og lítið annað en útúr­snún­ing­ur. Allir sem full­yrða eitt­hvað gera til­kall til þekk­ingar og taka á sig þá byrði að þurfa að rétt­læta full­yrð­ingu sína. BL gerir það sann­ar­lega. Hann stað­hæfir að Guð sé ekki til og bætir um betur með því að segja að þar sé um „ein­falda stað­reynd“ að ræða. Með því gerir hann til­kall til þess að vita eitt­hvað, nefni­lega að Guð sé ekki til, og tekur óhjá­kvæmi­lega á sig þá byrði að þurfa að rök­styðja full­yrð­ingu sína. BL gerir sér grein fyrir þessu hygg ég enda má með ein­földu móti skipta út orð­inu „spa­get­tískrímslið“ í skáletr­uðu setn­ing­unni fyrir orðið „Guð“ (eða hvað sem er): „Ef ég slengi fram full­yrð­ingu um x þá get ég ekki varpað sönn­un­ar­byrð­inni [fyrir x, inn­skot mitt] á aðra.“ Alveg rétt. BL getur ekki gert það. En það er engu að síður það sem hann ger­ir, eða reynir að gera.

Af hverju? Jú, ástæðan fyrir því að sönn­un­ar­byrð­inni er snúið á hvolf, að mati BL, kemur í ljós þegar hann seg­ir: „Ég geri ekk­ert til­kall til þekk­ingar heldur hafna ég stað­hæf­ingu presta og allra ann­ara um að guð sé til.“ Með öðrum orðum er BL ekki að halda neinu fram sjálf­ur! Hann full­yrðir ekk­ert, stað­hæfir ekk­ert, gerir ekki til­kall til þess að vita neitt. Hvernig stendur á því? Jú, mál­flutn­ingur hans er ekki fólgin í öðru, að hans mati, en að hafna full­yrð­ingum ann­arra, þ.e.a.s. þeirra sem halda því fram að Guð sé til. Það sé því þeirra að rétt­læta mál sitt. Sjálfur þurfi hann ekki að svara fyrir neitt.

Ekki er þetta bita­stæður mál­flutn­ingur og lítið annað en fyr­ir­slátt­ur.

Ef ég hafna full­yrð­ingu ein­hvers um eitt­hvað, t.d. þeirri full­yrð­ingu að lög hafi ekki verið brotin við sölu á hluta rík­is­ins í Íslands­banka, þá er ég um leið, eðli máls­ins sam­kvæmt, að halda ein­hverju öðru fram sjálfur – nefni­lega að lög hafi verið brot­in, eða að ég viti ekki hvort lög hafi verið brot­in.

Maður hlýtur í öllu falli að spyrja sig hvað BL eigi eig­in­lega við þegar hann segir að það sé ein­föld „stað­reynd“ að Guð sé ekki til ef hann veit ekki og gerir ekk­ert til­kall til þess að vita að Guð sé ekki til! Gleymum því ekki heldur að full­yrð­ingin „Guð er til“ var alls ekki til­efni þess­ara skoð­ana­skipta, heldur einmitt sú afdrátt­ar­lausa full­yrð­ing BL sjálfs sem margoft hefur verið get­ið. Það er því hann sem snýr sönn­un­ar­byrð­inni við. Og það er gömul og margnotuð tugga hjá guð­leys­ingjum sem oftar en ekki er lítið annað en fyr­ir­sláttur til að koma sér undan því að fást við rökin sem til umræðu eru og/eða til að forða sér frá því að þurfa að standa fyrir máli sínu.

Í öllu falli er BL sam­kvæmt þessu ekki guð­leys­ingi í krafti þess að hafna til­vist Guðs heldur því að „hafna [...] stað­hæf­ingu presta og allra ann­ara um að guð sé til“.

En með því er hin hefð­bundna merk­ing hug­taks­ins guð­leysi aug­ljós­lega skil­greind á nýjan og nýst­ar­legan hátt. Það er vissu­lega rök­legur munur á því segja „Ég trúi að Guð er ekki til“ ann­ars vegar og „Ég hafna full­yrð­ingum þeirra sem segja að Guð er til“ hins veg­ar. En það er mis­skiln­ingur að ætla að hið síð­ar­nefnda feli í sér guð­leysi. Í réttri og hefð­bund­inni merk­ingu er guð­leysi fólgið í því við­horfi að Guð sé ekki til. Það felur ekki í sér vöntun á öðru við­horfi, nefni­lega því við­horfi að trúa að Guð sé til. Guð­leys­ingi er sá sem fellst á stað­hæf­ing­una „Guð er ekki til“. Guð­leys­ingi er í réttum skiln­ingi sá sem hafnar því að Guð sé til og stað­hæfir að Guð sé ekki til, eins og BL sann­ar­lega ger­ir. Með þetta í huga er við­horf BL – að hafna full­yrð­ingum þeirra sem segja að Guð sé til – ekki eig­in­legt við­horf sem er annað hvort satt eða ósatt, heldur miklu fremur lýs­ing á sál­fræði­legu eða per­sónu­legu hug­ar­á­standi hans sjálfs, eins gott og gilt sem það ann­ars er.

Auglýsing

Margir guð­leys­ingjar halda því oft og iðul­lega fram að á meðan engar „sann­an­ir“ liggi fyrir sem sýni með óyggj­andi hætti fram á til­vist Guðs (og hvað telst til sann­ana er oftar en ekki þeirra að ákveða) sé eðli­legt að hafna öllum full­yrð­ingum um meinta til­vist Guðs og ganga út frá því að Guð sé ekki til. Í þeim skiln­ingi er guð­leysi nokk­urs­konar sjálf­virk eða sjálf­gefin afstaða og það sé ein­göngu hinn trú­aði sem ber „sönn­un­ar­byrð­ina“. Það sé hans að sanna eða sýna fram á að Guð sé til. Þangað til er guð­leys­ing­inn sjálfur stikk­frír. En það er aug­ljós mis­skiln­ingur af þeirri ástæðu sem áður er get­ið, nefni­lega þeirri að sá sem stað­hæfir „Guð er ekki til“ gerir jafn­mikið til­kall til þess að vita eitt­hvað og sá sem stað­hæfir „Guð er til“. Guð­leys­ing­inn ber því sína byrði þegar kemur að því að rétt­læta þá stað­hæf­ingu sína að Guð sé ekki til. Sá eini sem ekki þarf að réttlæta neitt er efa­hyggju­mað­ur­inn sem segir „Ég veit það ekki! Guð gæti verið til eða hann gæti ekki verið til. Ég hrein­lega veit það ekki. Og þess vegna tek ég ekki afstöðu til til­vistar Guðs.“ Nú er ekk­ert athuga­vert við heið­ar­lega efa­hyggju, en betra er að kalla hlut­ina réttum nöfn­um. En í þessu ljósi verður kannski skilj­an­legt hvers vegna mörgum guð­leys­ingjum er í mun að þynna út við­horf sitt og end­ur­skil­greina guð­leysi sitt. Því ef litið er á guð­leysi sem eig­in­legt við­horf, nefni­lega það við­horf að Guð sé ekki til, þá hljóta þeir að þurfa leggja fram rök sem rétt­læta það.

En allt er þetta auka­at­riði þegar til kastana kemur því að stuttu síðar í grein sinni tekur BL sjálfur af öll tví­mæli um eigið guð­leysi er hann seg­ir: „Hér er nauð­syn­legt að taka fram hvað ég á við þegar ég nota orðið guð. Þar er ég að vísa í orða­bók­ar­skil­grein­ing­una: ,Yf­ir­nátt­úru­legur máttur sem menn trúa á.‘ Ég er sem sagt að hafna því að til sé yfir­nátt­úru­legur máttur.“ (Áherslu­breyt­ingin er mín)

Við get­um, í þágu þess­arar umræðu, not­ast við þá mínímal­ísku skil­grein­ingu á Guði að hann er yfir­nátt­úru­legur mátt­ur. Það felur m.a. í sér að Guð er annar og aðskil­inn veru­leiki frá hinum nátt­úru­lega veru­leika, eða alheim­inum (enda er Guð orsök hans). Allt ein­gyð­is­trú­ar­fólk mundi fall­ast á þá lýs­ingu þótt það vilji bæta mörgu við hana.

BL hafnar því „sem sagt [...] að til sé yfir­nátt­úru­legur mátt­ur“, eða með öðrum að Guð sé til. Hann hafnar ekki bara full­yrð­ingum þeirra sem segja að Guð sé til, hann heldur sjálfur fram hinu gagn­stæða. Að mati BL er stað­hæf­ingin „Guð er ekki til“ því sönn. Það er sann­ar­lega full­yrð­ing og felur í sér til­kall til þekk­ingar hvernig svo sem BL reynir að fara í kringum þá stað­reynd.

Að lok­um! Um fljúg­andi spa­get­tískrímsli Björns Levís o.fl.

Nú er ýmis­legt fleira að finna í grein BL sem áhuga­vert og þarft er að bregð­ast við og leið­rétta. En það mundi kalla á aðra grein. En ekki er samt hægt að skilja við umræð­una hér, finnst mér, án þess að fara orðum um eft­ir­far­andi full­yrð­ingu BL:

„Ef rök Gunn­ars stand­ast verður hann sjálfur að við­ur­kenna til­vist Cthul­hu, fljúgj­andi spag­het­tískrímsl­is­ins, Óðins og Þórs og allra hinna guð­anna.“

Nú var það ekki mark­mið fyrri greinar minnar að færa rök fyrir til­vist Guðs og því spurn­ing hvaða rök BL er að vísa í. Burt­séð frá því er þetta mjög algengur frasi hjá guð­leys­ingjum sem umfram allt ber vitni um afar ein­faldan og tak­mark­aðan skiln­ing á rök­semd­ar­færslum fyrir til­vist Guðs, á guðs­trú almennt og á eðli Guðs í klass­ískum skiln­ingi. Ein útfærsla þess­arar svoköll­uðu mót­báru, sem oft heyr­ist, er eitt­hvað á þessa leið: „Sýndu mér hvernig þú sannar til­vist Guðs og þá veistu hvernig ég sanna til­vist spa­get­tískrímsl­is­ins ógur­lega.“ Mál­flutn­ingi af slíkum toga má svara með ýmsu móti en ég læt duga að draga saman í stuttu máli eina klass­íska og áleitna rök­semd­ar­færslu fyrir til­vist Guðs sem víða er rædd í dag, heims­fræðirökin svoköll­uðu og vega og meta full­yrð­ingu BL í ljósi henn­ar.

Heims­fræðirökin eru afleiðslurök sem hafa ein­falt rök­legt form:

(1) Ef A þá B

(2) A

(3) Þar með B

Sjálfa rök­semd­ar­færsl­una má setja fram í þremur ein­földum skref­um:

(1) Allt sem verður til á sér orsök!

(2) Alheim­ur­inn varð til!

(3) Alheim­ur­inn á sér orsök!

Að því gefnu að for­send­urnar eru sannar (eða lík­legri en ekki) liggur nið­ur­staðan fyrir af rök­legri nauð­syn og getur ekki verið ósönn.

Fyrsta for­send­an, „Allt sem verður til á sér orsök“, virð­ist aug­ljós­lega og nauð­syn­lega sönn og í öllu falli mun lík­legri en and­stæð­an. For­sendan er grund­völluð í hinu frum­speki­lega inn­sæi (sem jafn­framt býr að baki allri vís­inda­legri hugsun og iðkun) að af engu komi ekk­ert, að eitt­hvað geti ekki orðið til af engu, að á bak við hverja afleið­ingu sé orsök. Hér er jafn­framt um að ræða eitt­hvað sem reynsla okkar stað­festir í sífellu og án und­an­tekn­inga.

Aðra for­send­una, að alheim­ur­inn sé ekki eilífur og hafi því ekki alltaf verið til, má styðja með ýmsu móti. Heim­speki­lega séð má sýna fram á að til­vist raun­veru­legs óend­an­leika (t.d. óend­an­legur tími eða óend­an­lega margir atburð­ir) leiðir til mót­sagna og getur alls ekki verið til. Einnig má sýna fram á að óhugs­andi er að mynda raun­veru­lega óenda­lega langa runu með því að bæta einum hluta við hana á eftir öðr­um. Það má einnig orða með þeim hætti að ómögu­legt er að yfir­stíga hið óend­an­lega með því að flytja sig frá einum hluta þess til þess næsta o.s.frv. Þannig er vand­séð hvernig núver­andi augna­blik (eða dagur eða mín­úta) gat orðið að veru­leika ef óend­an­lega mörg augna­blik þurftu að koma og fara á undan því.

Þá má einnig styðja aðra for­send­una í krafti vís­inda­legs vitn­is­burðar um upp­haf alheims­ins (mikla­hvells­kenn­ing­in) sem bendir ein­dregið til að alheim­ur­inn sé ekki eilífur heldur hafi orðið til á til­greindu augna­bliki í fyrnd­inni. Einnig má vísa til ann­ars lög­máls varma­fræð­innar til stuðn­ings ann­arrar for­send­unn­ar. Sam­kvæmt því ætti alheim­ur­inn, sem lokað kerfi, nú þegar að hafa notað alla nýt­an­lega orku sína (að því gefnu að alheim­ur­inn sé eilífur og óenda­lega langur tími sé þar með þegar lið­inn) og vera því í reynd dauð­ur.

Um þetta allt mætti fjalla í mun lengra og ítar­legra máli. En í ljósi þess að við höfum afar góðar ástæður til að ætla að for­sendur heims­fræðirakanna séu sannar blasir nið­ur­staðan óhjá­kvæmi­lega við: Alheim­ur­inn – allur hinn nátt­úru­legi veru­leiki tíma og rúms, efn­is, orku og nátt­úru­lög­mála og fasta – á sér orsök. Eitt­hvað allt annað er til og er að finna á bak við alheim­inn og er jafn­framt orsökin eða ástæðan fyrir til­vist hans. Það er ekki veiga­lítil nið­ur­staða.

Með því að greina hug­takið orsök í þessu sam­hengi má leiða í ljós afar áleitna og íhug­un­ar­verða eig­in­leika sem þessi vera hlýtur að búa yfir. Sem orsök tíma og rúms hlýtur hún að vera til utan og ofan við tíma og rúm og til­vist hennar því ekki bundin af tíma og rúmi (að minnsta kosti ekki fyrir til­komu alheims­ins). Þessi yfir­nátt­úru­lega vera hlýtur þar með að vera óbreyt­an­leg og óefn­is­leg (þar sem tíma­leysi felur í sér óbreyt­an­leika og óbreyt­an­leiki felur í sér óefn­is­leika). Vera af þessu tagi hlýtur jafn­framt sjálf að vera til án upp­hafs og orsakar – og vera því eilíf. Enn­fremur má ætla að um eina veru sé að ræða því ekki þarf að gera ráð fyrir fleiri orsökum en þörf er á til að útskýra afleið­ing­una. Þá er óhætt að segja að þessi vera, sem skap­aði alheim­inn úr engu (að minnsta kosti án fyr­ir­liggj­andi efni­viðs), sé mátt­ugri en við getum ímyndað okk­ur, ef ekki almátt­ug.

Og meira en það, því við getum líka sagt að þessi óvið­jafna­lega vera er að lík­indum per­sónu­leg vera (þ.e. vera sem býr yfir vit­und, vilja, hugs­un, ásetn­ingi o.s.frv.). Það blasir við þegar horft er til þess að til eru tvær teg­undir útskýr­inga, ann­ars vegar vís­inda­leg (sem byggir á for­sendum nátt­úru­lög­mála og fyr­ir­liggj­andi efn­is­legra aðstæðna) og hins vegar per­sónu­leg (sem hvílir á grund­velli vilja per­sónu­legs orsaka­valds og ásetn­ings hans). Í ljósi þess að upp­hafs­á­stand alheims­ins getur ekki, eðli máls­ins sam­kvæmt, átt sér vís­inda­lega útskýr­ingu stendur hin per­sónu­lega útskýr­ing eft­ir. Sama nið­ur­staða blasir við þegar haft er í huga að til­koma alheims­ins felur í sér til­komu tím­an­legrar afleið­ingar sem orsökuð er af tíma­lausri (ei­líf­ri) veru. Ef orsökin fyrir til­komu alheims­ins væri ein­ungis fólgin í nauð­syn­legum og dug­andi skil­yrðum þá væri óhugs­andi fyrir orsök­ina að vera til án afleið­ing­ar­inn­ar. Með öðrum orð­um, ef öll nauð­syn­leg skil­yrði fyrir til­komu alheims­ins hafa alltaf verið fyrir hendi, þ.e. um alla eilífð, þá hlýtur orsökin einnig að hafa átt að hafa verið til um alla eilífð. En svo er ekki. Eina útskýr­ingin á því er sú að orsökin á bak við alheim­inn búi yfir ásetn­ingi og vilja og hafi í frelsi sínu valið að orsaka til­vist alheims­ins án nokk­urra fyr­ir­liggj­andi skil­yrða eða tak­mark­ana. Með öðrum orðum er ekki um að ræða óskil­greinda, óper­sónu­lega og blinda orsök heldur per­sónu­legan skap­ara alheims­ins.

Með þetta í huga má sjá hve veiga­lítil athuga­semd BL hér að ofan er. Nið­ur­staða heims­fræðirakanna er sú að til sé yfir­nátt­úru­leg vera, óbundin af tíma og rúmi, óbreyt­an­leg og óefn­is­leg, án orsakar eða upp­hafs, eilíf, yfir­máta máttug og per­sónu­legur skap­ari alheims­ins. Sú nið­ur­staða styrk­ist enn frekar þegar aðrar rök­semda­færslur fyrir til­vist Guðs eru lagðar við hlið henn­ar. Þessi nið­ur­staða úti­lokar ekki ein­ungis guð­leysi BL og nátt­úru­hyggju heldur einnig algyð­is­trú (sem ekki gerir grein­ar­mun á Guði og alheim­in­um) og fjöl­gyð­is­trú (sem ekki gerir ráð fyrir einum Guð­i). Svo­kall­aðir guðir á borð við Þór og Seif eru þar fyrir utan á engan hátt sam­bæri­legir Guði krist­innar trúar eða klass­ískrar ein­gyð­is­trú­ar. Slíkir „guð­ir“ eru skap­aðir og birt­ast sem afleið­ing ein­hvers ann­ars efn­is­legs veru­leika. Sá Guð sem heims­fræðirökin leiða fram orsak­aði hins vegar hinn efn­is­lega og nátt­úru­lega veru­leika, þ.e. alheim­inn all­an. Að halda því fram að ég verði að við­ur­kenna til­vist „Ct­hul­hu, fljúgj­andi spag­het­tískrímsl­is­ins, Óðins og Þórs og allra hinna guð­anna“, líkt og BL heldur fram, er ein­fald­lega retórískt þvaður sem sýnir lítið annað en vilja­leysi til að fást við spurn­ing­una um Guð í raun og veru og umræð­una sem slíka.

Vita­skuld getur BL sagt að rök­semd­ar­færslur fyrir til­vist Guðs leiði allt eins til til­vistar spa­get­tískrímsl­is­ins svo­kall­aða (sem er hug­ar­fóstur guð­leys­ingja nokk­urs og átti að sýna fram á fárán­leika rök­semda­færslna fyrir til­vist Guðs) eða Cthulhu (fyr­ir­bæri í ald­ar­gömlum skáld­skap hryll­ings­höf­und­ar­ins H.P. Lovecraft). Slíkt tal er þó í besta falli kjána­legt sem gerir þar að auki ekk­ert til að grafa undan hefð­bundnum og klass­ískum rök­semd­ar­færslum fyrir til­vist Guðs. En ef BL á við með spa­get­tískrímsli (eða hverju því sem hann vill draga fram) það sama og ég á við þegar ég tala um Guð, þ.e. ef hann eignar því sömu eig­in­leik­ana og heims­fræðirökin leiða í ljós, þá má hann mér að meina­lausu gera það, enda erum við þá að tala um það sama undir ólíkum heit­um. En þá hygg ég að BL verði að gefa guð­leysið upp á bát­inn. Vilji hann hins vegar kom­ast undan eða hafna nið­ur­stöðu heims­fræðirakanna verður hann að grípa til ann­arra ráða en að týna upp marg­þvælda og not­aða frasa. Hann verður ein­fald­lega að fást við rök­semd­ar­færsl­una sjálfa og sýna hvar hún og for­sendur hennar bregð­ast.

Að lok­um!

Heims­fræðirök­in, ásamt mörgum öðrum rökum fyrir til­vist Guðs, sýnir að guðs­trú felur ekki í sér nein svik við skyn­sam­lega, rök­lega, vís­inda­lega og upp­lýsta hugsun og túlkun á eðli lífs­ins og til­ver­unn­ar. Þau eru sann­ar­lega ekki „sönn­un“ í þeim skiln­ingi að þau sýni með óyggj­andi og óvé­fengj­an­legum hætti að Guð sé til. Mér dytti ekki í hug að hrópa á torgum eða í ræðupúltum eða í vefritum að hér með væri búið að sýna að til­vist Guðs er ein­föld „stað­reynd“ að hætti BL. Enda er um að ræða heim­speki­lega rök­semda­færslu. En þótt þau leiði ekki til nið­ur­stöðu sem býður uppá hund­rað pró­sent vissu fela þau í sér, að margra mati, – þar á meðal margra af mestu hugs­uðum og vís­inda­mönnum fyrr og síðar – afar sann­fær­andi og áleitin rök fyrir til­vist Guðs, og þar af leið­andi rök gegn nátt­úru­hyggju og þar með guð­leysi. En vissu­lega má skjóta sér undan þeim og öðrum rök­semd­ar­færslum fyrir til­vist Guðs með því að vega þau og meta í ljósi óraun­hæfs þekk­ing­ar­fræði­legs mæli­kvarða, eins og ýmsir guð­leys­ingjar jafnan gera þegar til­vist Guðs er til umræðu. En þótt eng­inn láti sann­fær­ast um neitt gegn vilja sínum væri áhuga­vert (og á margan hátt óskandi) ef guð­leys­ingjar og efa­hyggju­fólk setti sér jafn háleitan mæli­kvarða þegar kemur að við­horfum sínum um Guð og þau krefja trúað fólk um þegar kemur að þeirra. Ef þeir gerðu það er alls óvíst að þeir upp­lifðu sig á jafn föstu landi og áður.

Höf­undur er prest­ur Ár­­borg­ar­­presta­­kalls.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar