Um miðjan júní sl. var efnt til 2ja daga fundar/vinnustofu að frumkvæði heilbrigðisráðuneytisins sem fól geðsviðs Landspítala umsjón. Auk geðþjónustu LSH var boðið til þátttöku fagaðilum frá ýmsum stöðum og notendum þjónustunnar undir formerkjunum: „Rétt þjónusta á réttum stað“. Markmiðið var skilgreint svo: „Markmiðið er að rýna núverandi hlutverk hverrar þjónustueiningar innan geðheilbrigðisþjónustu, samvinnu þeirra á milli og þá þjónustuferla sem fyrir eru. Sérstök áhersla verður á að straumlínulaga ferla í kringum 18 ára aldurinn. Í kjölfarið á að skilgreina heildstæðan þjónustuferil geðþjónustu og flæði innan hans, þar sem öll þrjú þjónustustig geðheilbrigðisþjónustu eru samþætt og samhæfð. Þannig verði hægt að tryggja notendum samfellu og skilvirkni í þjónustunni.“
Svo mörg voru þau orð. Það er góðra gjalda vert að skilgreina hlutverk og straumlínulaga, ég vil ekki gera lítið úr nauðsyn þess eða að það sé skjólstæðingum til hagsbóta. En ég saknaði umræðu um innihald meðferðar og hvað sé rétt þjónusta, eins og ég hef saknað þeirrar umræðu í geðheilbrigðiskerfinu undanfarin ár. Það bar ekki heldur mikið á umræðu um að draga úr nauðung og þvingunarmeðferð, eða að draga úr fjöllyfjameðferð sem hefur verið stunduð grimmt í kjölfarið á að hið læknisfræðilega og lyfjafræðilega líkan náði hér yfirhöndinni eins og víðast hvar á vesturlöndum.
Í skýrslunni er m.a. bent á að þrátt fyrir að búið sé að loka geðsjúkrahúsum og stofnunum í mörgum löndum hafi það ekki dugað eitt og sér til að bæta meðferð og umönnun á dramatískan hátt. Ekki sé nóg að skipta um stað þegar ráðandi áherslur hafi haldið áfram að vera sjúkdómsgreiningar, lyfja- og og einkennameðferð.
Oft sé litið fram hjá þáttum sem hafa afgerandi áhrif á geðheilsu eins og erfiðar uppeldisaðstæður, námsörðugleika, fátækt, ofbeldi, mismunun, áföll, útskúfun, einangrun, vinnuóöryggi, atvinnuleysi, húsnæðisleysi og lélegur aðgangur að stuðningi frá skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu.
Þetta hafi m.a. leitt til ofgeðgreininga á mannlegri þjáningu og oftrú á geðlyf á kostnað sálfélagslegra inngripa. Auk þess dregur nauðung og þvingun úr tiltrú fólks á kerfið og starfsfólk þess þannig að fólk forðast að leita sér hjálpar eða halda áfram meðferð eftir útskrift. Þetta getur leitt til aukins heimilisleysis og enn meiri þjáninga.
Covid-19 heimsfaraldurinn hefur að þeirra mati dregið fram hve ófullnægjandi og úr sér gengið geðheilbrigðiskerfi og þjónusta er á heimsvísu. Nefnt hefur verið skaðleg áhrif stofnana, skort á samfellu, vangetu við að vinna að eflingu félagslegs tengslanets, félagslega einangrun og útskúfun fólks með geðvanda og brotakennda samfélagsgeðþjónustu.
Efling þjónustu sem leggur áherslu á manneskjuna og mannréttindi hennar kallar á auknar áherslur á samfélagsgeðþjónustu og þátttöku notenda í skipulagi og framkvæmd hennar. Þjónustu sem leggur áherslu á batamiðaða og réttindamiðaða heilbrigðisþjónustu þar sem þarfir eins og að lifa sem eðlilegustu fjölskyldulífi og fá stuðning við uppeldi, húsnæði, menntun, atvinnu og félagslega vernd er í fyrirrúmi. Þannig er tryggt að fólk með geðheilsuvanda sé hluti af samfélaginu og geti átt líf með tilgangi og lífsfyllingu.
Það er dapurlegt að það teymi sem vann eftir ofangreindri hugmyndafræði á geðsviði, samfélagsgeðteymið sem stofnað var 2010, sé nú í dauðateygjunum og óvíst hvernig verður um framhaldslíf þess. Hér er enn ofuráhersla á lyfjagjöf, með eða án nauðungar og enn er verið að útskrifa fólk heim í einmanaleika og vanvirkni sem er eins og margir tala um ávísun á frekari veikindi og sumir segja jafnvel einmanaleiki og einangrun sé jafn skaðleg heilsu manna og að reykja.
Það er kallað eftir róttækum breytingum, ekki bara umræðu um straumlínulöguð ferli og skipulag án þess að minnst sé á innihald meðferðar og hvernig á að veita hana. Vonandi verða ofangreind atriði bráðum á dagskrá hjá stjórnendum geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi og verður áhugavert að fylgjast með þeirri umræðu.
Höfundur er geðhjúkrunarfræðingur.