Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur farið mikinn undanfarin misseri og lýst yfir skoðunum sínum á ýmsum hitamálum sem hafa hlotið góðan hljómgrunn á ýmsu fólki sem á fátt sameiginlegt með þorra þingflokks Framsóknarflokksins. Þannig sagði Karl á Facebook nýverið að „Mál Mjólkursamsölunnar er grafalvarlegt og aðför gegn neytendum“. Hann hefur líka sett spurningamerki um hvort bankar séu að fjármagna gríðarlega mikla uppbyggingu hótela á Íslandi eða hvort „hópurinn sem á hundruð milljóna í rassvasanum [sé] orðinn stærri en við höldum?“. Þá hefur Karl talað fyrir aukinni skattlagningu á laxveiði, talað hart gegn kennitöluflakki, gegn boðuðri niðurfellingu á framlögum sem tryggja skilvirk úrræði kynferðisbrota, gegn samkomulagi við Auðkenni um rafræna skilríkjaþörf vegna skuldaniðurfellingar ríkisstjórnarinnar, nauðsyn þess að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla og auðvitað talað mjög hart gegn hugmyndum ríkisstjórnarinnar sem flokkur hans tilheyrir um að hækka hinn svokallaða matarskatt.
Í Bakherbergjunum tala margir um að Karl sé markvisst að marka sér stöðu með þessum yfirlýsingum sem mögulegur kandidat í forystusveit Framsóknarflokksins, jafnvel sem formannskandidat framtíðar. Þar líkja margir í hálfkæringi stöðumörkun Karls við atferli hins slynga Franks Underwood, sem Kevin Spacey túlkaði svo óaðfinnanlega í sjónvarpsþáttunum frábæru House of Cards. Líkt og aðdáendur þáttanna muna skilaði plott Underwoods honum alla leið á topinn. Mjög hefur reynt á óþol margra fyrirferðamikilla Sjálfstæðisþingmanna og annarra lykilmanna í flokknum gagnvart Framsókn undanfarið eitt og hálft ár. Það óþol virðist bundið við nokkra einstaklinga í forvígissveit samstarfsflokksins. Frammistaða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins og forsætisráðherra, veldur auk þess mörgum innan flokksins og utan áhyggjum. Formaðurinn þykir einangra sig mikið og vera í litlum samskiptum við bæði samstarfsflokkinn og sinn eigin þingflokk. Til viðbótar mælist fylgi Framsóknar tæpur helmingur þess sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Erfitt verður að draga sambærilega kanínu úr kosningahattinum og skuldaniðurfellinguna fyrir næstu kosningar og staðan mikið áhyggjuefni. því gætu möguleg forystuskipti orðið í aðdraganda þeirra. Þá virðist Karl Garðarsson ætla að verða tilbúinn.