Það eru tvær hliðar á hverjum peningi
Samtími okkar er ógnvekjandi og samtími og okkar er fallegur, það fer eftir því hvernig við horfum á hann. Á síðustu 45 árum hafa meðal lífslíkur mannsins aukist um a.m.k. 25 ár, sem er álíka hröð þróun og var frá steinöld til þess tíma. Þrátt fyrir mikla mannfjölgun hafa meðaltekjur manna aukist og ólæsi minnkað frá því að eiga við um helming mannkyns til þess að fjórðungur manna er ólæs.
Lengri meðalævi mannsins er almenn og fæðingartölur halda áfram að lækka.
Afturförin í samfélögum manna er að efnahagslegur munur er meiri en um aldir, en ekki aðallega á milli þess sem eitt sinn var kallað þriðji heimurinn og Vesturlanda, því þær línur hafa færst verulega til. Hlutfallslega fleiri einstaklingar sitja engu að síður eftir í samfélagi vaxandi neyslugetu.
Hætt er við að reiði sé fylgifiskur þess að vera ekki fullgildir þátttakendur í efnahags- og tækniundrinu. Samfélag manna er sömuleiðis brothættara en nokkurn tíma fyrr vegna örra og mikilla samskipta heimshluta. Það sem gerist á einum stað hefur áhrif víða um jarðkringluna, svo sem sjá má á útbreiðslu kórónuveirufaraldursins og ekki síður afleiðingum stríðsins í Úkraínu.
Matarvenjur og menning í fjarlægum löndum kemur þeim víðreistu ekki lengur á óvart, en jafnframt glíma menn og menningarheildir enn við tiltölulega fast mótaðar hugmyndir hvor um aðra. Þekkingar- og skilningsleysi á aðstæðum annarra er útbreytt. Fólksflutningar fara vaxandi, bæði vegna stríða og náttúruhamfara og líka vegna þess að það vantar fólk til ólíkra starfa. Þörfin fyrir vinnuafl getur verið í annarri heimsálfu en fyrirtækið, vegna alþjóðavæðingar hagkerfa.
Ógnir
Umhverfisspjöll og mengun eiga sér veikburða landamæri og ber þar hæst aukna losun kolefnaríkra gróðurhúsalofttegunda, ofnýtingu trjáa og vaxandi notkun mengandi efna við jarðrækt og dýraeldi. Mengunarslys á einum stað geta orðið til þess að íbúar fjarlægra landa þurfa að bregðast við á heimaslóðum, eins og gildir t.d. um mengun hafsins. Það sama á við um flest stríð og efnahagskreppa í einu ríki dreifist eins og kórónuveira víða um lönd.
Svo er komið í líftækniiðnaðinum að líffæri má búa til með og auka má líffræðilega hæfni einstaklinganna með ýmsum hætti. Einangrun stofnfruma og meðferð er daglegur veruleiki á rannsóknarstofum víða um heimi. Spurningin er þó hverjir munu njóta góðs af. Er ávinningurinn aðeins mögulegur fyrir allra efnuðustu einstaklingana? Hraði nýjunga í tækni eykst og hægt er að kaupa öfluga tölvutækni fyrir sífellt lægra verð. Gervigreind í hugbúnaði stendur framar hugsun mannsins á vissan hátt, því gagnamagn og vinnsluhraðinn er meiri en mannsheilans.
Reiði
Í mörgu ofangreindu er falin hætta, sem er ekki ósvipuð ógninni sem hefur stafað af kjarnorku og kjarnorkuvopnum í 77 ár. Því miður eru meiri líkur á slysi nú en þá og ekki síður virðast möguleiki á að reiðir einstaklingar ýti á takkann. Mistök við vinnslu í tölvutækni, sem er öflugri en mannsheilinn, og ýmis konar efna- og orkuiðnaður að kjarnorku meðtalinni, geta verið afdrifarík. Í því tilliti má horfa til fjölgunar tilefnislausra skotárása á almennra borgara og árásir hryðjuverkasamtaka. Fyrstu tvær kjarnorkusprengingarnar sem voru í Hiroshima og Nagasaki voru vonandi þær einu. Engu að síður ráða að lágmarki níu ríkisstjórnir yfir kjarnorkuvopnum árið 2022 og eru vopnin öflugri en nokkurn tíma áður.
Mönnum hefur tekist að koma í veg fyrir frekari morð og hörmungar af völdum kjarnorkuvopna, bæði fyrir frumkvæði einstaklinga og samtakamáttar margra.
Tveir eðlisfræðingar voru þar í fremstu röð, Joseph Rotblat (1908-2005), nóbelsverðlaunahafi og baráttumaður gegn kjarnorkuvopnum og Albert Einstein (1879-1955), höfundur afstæðiskenningarinnar og áhrifamesti eðlisfræðingur 20. aldarinnar. Þeir voru Pólverji og Þjóðverji. Fjölþjóðlegur samningur um að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna frekar en orðið var, var undirritaður að fimm helstu stórveldum jarðar árið 1968. Síðan hafa fjölmörg alþjóðleg samtök, sem berjast gegn algerri afvopnum kjarnorkuvopna, bæst við.
Hnattvæðingin er tvíeggjað sverð
Þetta getur verið síðasta öldin okkar og þetta getur orðið stórkostleg öld. Hafa núverandi fjölþjóðlegar stofnanir getu til að taka á afar erfiðum málefnum samtímans? Ráða Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, G9-hópur níu helstu iðnríkja heims, Atlandshafsbandalagið og Alþjóðaviðskiptastofnunin við það verkefni? Eða eru þær stofnanir, sem eru eingöngu byggðar út frá vestrænum hagsmunum, gildum og stjórnmálum fremur en að endurspegla alþjóðavæðingu mannlegrar tilveru? Tilveru, sem verður sífellt flóknari.
Það er vonandi óþarfi að örvænta. Við getum til dæmis horft til ársins 1993 og sigurs yfir aðskilnaðarstefunni í Suður-Afríku, sem margir töldu vonlausan. Hann varð þegar saman komu hæfleikar leiðtogans Nelsons Mandela (1918-2013) og samtakamáttur fólks, innan lands sem og á heimsvísu. Fjölmörg friðarsamtök eru til í henni veröld og náttúrverndar- og umhverfissamtök sömuleiðis. Auðvelt er að skipuleggja fjölþjóðleg samstöðu um ýmis málefni.
Samfélagsmiðlar
Snjallsímar hafa nú meiri vinnsluhraða og minni en öflugustu tölvur fyrir um þrjátíu árum síðan. Þessar nýjungar breyttu samskiptaháttum manna og auka upplýsingaflæði, flæði fréttamiðlunar, þekkingar sem og poppmenningar. Það er til góðs og það getur verið til ills. Sá veldur er á heldur. Kunna menn að fara með verkfærið og eru læsir í víðum skilningi þess orðs, eða er einfalt myndmál árangursríkast, eins og í bókum fyrir yngstu börnin?
Hörmulegt stríð geisar nú í Úkraínu og það er nálægt okkur. Annað stríð hefur geisað í Sýrlandi í ellefu ár, en helstu fréttir af því í hinum vestræna heimi voru vegna ljósmyndar af drukknuðu barni á strönd. Ljósmyndar sem höfðaði til myndasmiðsins, því þetta hefði getað verið hans eigin barn, en foreldrar barnsins voru ekki sátt við myndbirtinguna.
Kynslóðabil í hugsun og hegðun hefur þekkst á öllum tímum, en misjafnlega mikið. Í nútímanum, tíma breytinga sem eru hraðari en þorri mannkyns fylgist með, eykst þetta bil hraðfara og því hraðar ef ekki er vel af gáð. Við megum varla nokkurn tíma missa.
Ungt fólk í samtímanum hefur alist upp í tækniveröld og öflugri fjölmiðlun dægurmenningar, þekkingar og þekkingarleysis. Þau þekkja reyndar ekki annað en hraða þess tíma sem við lifum á. Hann er hluti af veruleika þeirra og því okkar þeirra fullorðnu um leið. Fyrir forráðamenn ungmenna og kennara getur því hik í eigin símenntun verði nánast það sama og að tapa forystuhlutverkinu.
Það er alltaf von
Ungmennin vita oftast meira en við höldum, og reyndar oftast meira en þau sjálf halda. Hvernig búum við unga fólkið sem best undir jarðlífið öðruvísi en með því að reyna að fylgjast með nýjungum sjálf? Hægt er að telja upp það sem heimsborgarinn þarf helst að tileinka sér við fyrstu sýn, s.s. tækni- og vísindaþekkingu, að nokkru leyti í tengslum við nýsköpun og því skapandi hugsun. Góð tök á a.m.k. tveimur tungumálum, en góð kunnátta í móðurmálinu er reyndar forsenda annars tungumálanáms. Menningarlæs viljum við vera, hafa þekkingu á helstu stofnunum samfélagsins og ákvarðanatökum. Þekkja heimsþorpið, ef það þá stendur undir nafni. Þekkingu í hagfræði þarf að vera til staðar, á eigin fjármálum, umhverfisvernd og loks starfstengda þekkingu og færni.
Fólk þarf líka að vera samskiptahæft, sjálfstætt, geta starfað í teymi, verið gagnrýnið og valið sér nám- og starf við hæfi. Enn fremur þarf að gefa svigrúm til að fræðast um það óvænta hvort heldur það eru stafrænt ofbeldi, kynrænt sjálfstæði, eiturlyf, einelti, kynþáttafordómar eða kynlíf. Og heilbrigður lífsstíll er nauðsyn. Segjum þetta gott í bili. Höfum samt líka í huga hvað er gott að kenna í ljósi fjölgreindarkenningar Howards Gardner og að skapandi hugsun, sem vinstra heilahverlið hýsir, hefur örvandi áhrif á rökhugsun hægra heilahvelisins. List-, verk og skapandi námsgreinar eru því ekki síður nauðsynlegar.
Hver ætli sé svo heppilegasta umgjörðin um þetta nám? - Það mætti ætla að „nútíminn sé trunta, með tóman grautarhaus, hjartað sé hrímað og heilinn gangi laus“, eins og segir í söngtexta Egils Ólafssonar frá því fyrir hátt í hálfri öld síðan. Er textinn e.t.v. orðinn of gamall til að eiga enn þá við? Ég held það, því sem mannkyn virðumst við alltaf finna nýjar og uppbyggilegar leiðir.
Höfundur er grunnskólakennari og frambjóðandi til formennsku í Kennarafélagi Reykjavíkur.