Leiðari Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra 365 miðla, í páskaútgáfu blaðsins vakti töluverða athygli. Þar fjallaði Kristín um Aurum-málið svokallaða og sagði nauðsynlegt að upplýsa hvort sérstakur saksóknari hafi logið þegar hann sagðist ekki hafa vitað um tengsl Sverris Ólafssonar, eins dómara málsins, og Ólafs Ólafssonar, sem var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu svokallaða. Leiðarann endaði hún með þeim orðum að þetta megi ekki „vera endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlarnir við“.
Lokaorðin þóttu áhugaverð, sérstaklega í ljósi þess að ómerkingarkrafa sérstaks saksóknara í Aurum-málinu á grundvelli ofangreindra vensla verður tekin fyrir í Hæstarétti í næstu viku. Einn sakborninga í málinu er Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur stærsta eiganda 365 miðla, og náinnar vinkonu Kristínar. Þeir sem til þekkja vita líka að Jón Ásgeir ræður því sem hann vill ráða innan 365 miðla.
Í gær birtist síðan forsíðufrétt í Fréttablaðinu þar sem fjallað er um grein sem Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar segir að eiginmaður hennar hafi verið dæmdur í fangelsi á grundvelli misskilnings. Í frétt Fréttablaðsins er hinn ætlaði misskilningur ekkert skoðaður, ekkert vitnað í Hæstaréttardóminn eða sú fullyrðing hennar krufin að bæði ákæruvaldið og héraðsdómur hafi þegar áttað sig á því ekki var verið að ræða um „Óla“ hennar. Einungis var sagt frá túlkun Ingibjargar á málinu og rætt við lögmann Ólafs. Saksóknari málsins benti skömmu síðar á það í öðrum fjölmiðlum að það væri misskilningur að um misskilning væri að ræða.
Í bakherberginu hefur verið rifjað upp að áður en Kristín var gerð að útgefanda, og síðar að aðalritstjóra 365 miðla, sat hún í stjórn fyrirtækisins og skrifaði endrum og sinnum greinar í Fréttablaðið. Tvær þeirra vöktu mikla athygli. Sú fyrri var skrifuð í febrúar 2012 og fjallaði um meintar ofsóknir sérstaks saksóknara á hendur bankamönnum. Þar sagði m.a.: „Drögum úr lögreglurannsóknar- og dómstólaþrasi, sem er allt að drepa úr heift og leiðindum. Verjum kröftunum þess í stað í að átta okkur á hvað fór úrskeiðis í raun og veru og fáum til þess fólk sem er sérhæft í að kryfja samfélagið og mannlega hegðun. Vinna saksóknarans getur orðið hluti af þessu verkefni. Það getur ekki verið að allt í einu hafi fjöldi glæpamanna á Íslandi margfaldast og lausnin felist í að dæma sem flesta til tugthúsvistar.“
Hún skrifaði síðar aðra grein sem birtist 3. janúar 2013 um sömu mál. Þar sagði Kristín að sér sýndist sem bæta ætti fyrir ósómann sem átt hefði sér stað fyrir hrun „með því að ákæra sem flesta og setja þá bak við lás og slá. Engin ástæða er til þess að ætla að góðir saksóknarar verði hristir fram úr erminni frekar en góðir bankamenn. Það á örugglega eftir að koma í ljós – vonandi áður en of mörg réttarmorð verða framin.“
Í bakherberginu eru margir hugsi yfir þessu, sérstaklega þegar greinar Kristínar eru settar í samhengi við áherslur Fréttablaðsins undanfarna daga. Sú yfirlýsing Kristínar, sem ritstýrir stærsta fjölmiðlafyrirtækis landsins í einkaeigu, um að „nú taka fjölmiðarnir við“, og margir túlka á þann veg að miðlar undir hennar stjórn muni nú leggja áherslu á að halda uppi málstað þeirra sem embætti sérstaks saksóknara er að saksækja og dómstólar hafa þegar dæmt, er mjög bagaleg fyrir margt það stórgóða fólk sem starfar að heilindum á fréttastofu 365. Það þarf, og hefur lengi þurft, að ósekju að sitja stanslaust og ranglega undir ásökunum um að ganga erinda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem sjálfur er andlag margra frétta vegna rannsókna á hendur honum.
Í bakherberginu eru menn þeirrar skoðunar að eitt eigi yfir alla að ganga, brjóti þeir lög. Það sé vissulega alltaf harmleikur þegar menn eru dæmdir í fangelsi, óháð því hvort þeir klæðist jakkafötum eða hettupeysum. Margir þeirra sem þurfa að sitja inni eru ósáttir við dóma sína og allir eiga þeir fjölskyldur. Komist réttarkerfið hins vegar að því að þeir hafi brotið lög þá hljóta þeir refsingu sem þeir verða að una, sama hversu mikið þeir eiga af peningum.