Í Kjarnanum í dag er sagt frá því að heildarkostnaður við urðun á dagblaða- og tímaritapappír á höfuðborgarsvæðinu er 40 til 45 milljónir króna á ári. Þetta er kostnaður sem lendir á SORPU þrátt fyrir blátunnu, grenndargáma og endurvinnslustöðvar. Hann lendir beint á skattgreiðendum á höfuðborgarsvæðinu sem eiga og reka SORPU. Sveitafélögin niðurgreiða því útgáfu dagblaða og tímarita um þessa upphæð á ári hverju.
Uppistaðan=fríblöð
Uppistaðan í pappírsruslinu sem þarf að urða eru fríblöð. Um það er enginn vafi. Vegna þessa kostnaðar greiða skattgreiðendur því óbeint, og án vals, nokkurs konar áskrift að þessum blöðum. Þeir borga fyrir að fá þau í póstkassann á hverjum morgni þótt þeir hafi ekki beðið um það.
Fréttablaðinu, langstærsta fríblaði landsins, er dreift í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar. Í krafti þessarar miklu útbreiðslu er blaðið með yfirburðarstöðu á auglýsingamarkaði. Það má vel færa rök fyrir því að hið opinbera sé að niðurgreiða útgáfu blaðsins til að stuðla að þessari sterku stöðu. Með öðrum orðum er tugmilljóna kostnaði sem hlýst af dreifingu blaðs sem fólk hefur ekki val um hvort það fær árlega velt yfir á almenning með vitund og vilja hins opinbera.
Það er fullkomlega eðlilegt, út frá mörgum mismunandi sjónarhornum, að velta því fyrir sér hvort þetta sé í lagi. Út frá samkeppnislegu sjónarhorni verður að teljast að niðurgreiðsla á einum einkafjölmiðli, einvörðungu vegna þess, og þrátt fyrir að, af honum hlýst umhverfislegur skaði, sé í besta falli fáránlegur. Betur færi á því að fjölmiðlum myndu bjóðast fjárhagslegir hvatar til að draga úr slíkum skaða. Að þeir fjölmiðlar sem eru „grænir“ myndu hafa hag af því. Staðan í dag er þveröfug.
Notkun hefðbundinna fjölmiðla á undanhaldi
Þess utan fer lestur fríblaðsins hríðlækkandi. Í aldurshópnum 18-49 ára á höfuðborgarsvæðinu hefur lestur Fréttablaðsins farið úr 77,48 prósent í apríl 2010 í 61,68 prósent í febrúar síðastliðnum. Lesturinn í hópnum hefur minnkað um tæp 16 prósentustig!
Heildarlestur Fréttablaðsins hefur á sama tímabili minnkað um átta prósentustig og stendur í 55,93 prósentum. Flestir aðrir prentmiðlar glíma einnig við markvissa hnignun í lestri og hún hefur aukist hratt á undanförum misserum, meðal annars vegna almennari eign og notkun snjalltækja við fjölmiðlanotkun.
Prentmiðlar eru líka með um helming auglýsingamarkaðarins á Íslandi. Það er hlutfall sem er einstakt í heiminum. Í Evrópu er hlutfall þeirra af kökunni til dæmis komið undir 20 prósent. Ástæðan er auðvitað sterk staða frímiðla hérlendis. Fréttablaðið og Fréttatíminn, sem kemur út einu sinni í viku, voru til að mynda með 65 til 75 prósent hlutdeild í auglýsingasölu prentmiðla á árinu 2011, samkvæmt tölum frá Samkeppniseftirlitinu.
Markaðsráðandi staða í lagi
Fréttablaðið er auk þess hluti af 365 miðlum, langstærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins. Það rekur einnig einn stærsta fréttavef landsins, sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Samkvæmt niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins eru „talsverðar líkur“ á að fyrirtækið sé í markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir auglýsingar á Íslandi. Í krafti þeirrar sterku stöðu sem 365 hefur á öllum mörkuðum fjölmiðlunar og afþreyingar náði fyrirtækið í 50-55 prósent allra auglýsingatekna á Íslandi árið 2011. Sú hlutdeild hlýtur reyndar að minnka í ljósi þess hríðminnkandi lestrar sem Fréttablaðið glímir við og vegna þess að sjónvarpsáskriftum af flaggskipinu Stöð 2 hefur fækkað stórkostlega á undanförnum árum.
Árið 2007 voru 45,1 prósent heimila með slíka áskrift. Í lok síðasta árs var það hlutfall komið niður í 29,4 prósent. Þessi þróun er afleiðing af nýrri neysluhegðun. Samkvæmt Neyslu og lífstílskönnun Capacent sækja eða skoða 82 prósent þjóðarinnar sjónvarp eða myndbönd á netinu og 54 prósent hennar sækir sér kvikmyndir og/eða sjónvarpsþætti þangað.
RÚV fær að tapa milljón á dag þrátt fyrir milljarðaauglýsingatekjur
Ofan á allt þetta eru landsmenn líka rukkaðir um tæpar 20 þúsund krónur á ári í skatt til að starfrækja RÚV. Fyrir utan þá meðgjöf er RÚV á auglýsingamarkaði og tekur til sín 20 til 25 prósent af þeim tekjum sem hann skapar árlega. Samt tapar RÚV milljón krónum á dag samkvæmt nýjustu upplýsingum. Og hver borgar það tap? Jú, það gera eigendur RÚV, skattgreiðendur. Það er vert að taka fram að ég er þeirrar skoðunar að RÚV eigi að vera til. Fyrirtækið á hins vegar að sníða sér stakk eftir vexti og vera einfaldlega í þeirri stærð sem fjárframlög ríkisins heimila því. RÚV á ekkert erindi á auglýsingamarkað. Á meðan að svo er þá skapast bara enn ein hindrun fyrir frjálsa fjölmiðla til að þrífast í örsamfélaginu okkar.
Og því spyr ég aftur...er þetta í lagi? Er í lagi að hið opinbera niðurgreiði stóra fjölmiðla með þeim afleiðingum að kostnaður skattgreiðenda vegna þeirra hleypur á tugum milljóna króna og markaðsráðandi staða þeirra styrkist samhliða ár frá ári? Er í lagi að ríkið stuðli að því að fjölmiðlafyrirtæki í þess eigu taki til sín auglýsingatekjur sem gætu nýst öllum hinum fjölmiðlafyrirtækjum landsins við að skapa sér tilverugrundvöll?
Mitt svar er nei. Mér finnst þetta út í hött. Hvað finnst þér?