Undanfarið hef ég fjallað talsvert um raforkuverðið til álveranna og annarra stóriðjufyrirtækja hér á landi. Og þau tækifæri sem skapast þegar orkusamningar við stóriðju hér losna. Um þetta skrifaði ég grein á viðskiptavef mbl.is nú í vikunni sem leið, undir fyrirsögninni Tímamót í efnahagssögu Íslands. Í framhaldinu birti Ágúst Hafberg, framkvæmdastóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli, grein á vef Kjarnans. Hér verður þeirri grein Ágústs svarað.
Skoðanaskipti um orkuverð
Ágúst byrjar grein sína á fyrirsögninni Sérfræðingur bullar um orkumál. Þar færir hann lesendum þau tíðindi að raforkuverð til álvera hér á landi sé alls ekki lágt í samanburði við önnur lönd. Og að það sé hærra en meðalverðið í heiminum. Og að raforkusamningur Norðuráls við Landsvirkjun sé ekki að renna út, heldur framlengist.
Að fyrirsögn sinni aflokinni tekur Ágúst til við að fjalla um skrif mín. Og segir að þau lýsi „annaðhvort mikilli vankunnáttu eða einbeittum vilja til að fara rangt með staðreyndir“. Ágúst segir einnig að framsetning mín á upplýsingum sé röng, að ég fari rangt með tölur, að ég beri saman epli og appelsínur og að meðferð mín á tölum sé skelfileg. Í þessu sambandi tiltekur Ágúst nokkur atriði þar sem hann telur mig fara rangt með eða misvísandi.
Gott og vel. Við lestur á grein Ágústs er mikilvægt að byrja á því að sigta efnisatriðin frá skammaryrðunum sem beint er að mér. Og þá kemur í ljós að skoðanaágreiningurinn þarna snýst um tvö meginatriði. Sem er annars vegar það hvort raforkuverðið til álveranna hér sé lágt í alþjóðlegu samhengi - þar sem Ágúst telur mig hafa hagrætt tölum - og hins vegar hvort raforkusamningur Century Aluminum vegna Norðuráls við Landsvirkjun sé senn laus eður ei.
Í þessari grein mun ég leitast við að skýra þau sjónarmið mín sem Ágúst víkur þarna að. Og benda á hvernig málflutningur Ágústs vegna raforkuverðsins byggir á misskilningi hans eða að hann hafi einfaldlega ekki lesið grein mín af nægilegri vandvirkni. Þær upplýsingar mun ég að auki setja í samhengi við verðþróunina á raforkuverði til álvera og umfangið í raforkusölunni til áliðnaðar hér á landi. Loks mun ég fjalla um ósamræmi í upplýsingagjöf Norðuráls/ Century vegna gildistíma raforkusamningsins.
Verður nú vikið að þessu. Og vonandi hjálpa þessi skrif mín lesendum að átta sig á staðreyndum þessa máls. En sökum þess að grein þessi er nokkuð löng, ætla ég hér í upphafi að tilgreina nokkur atriði sem þar koma fram:
- Það er rangt hjá Ágústi að ég hafi í grein minni hagrætt tölum og farið rangt með staðreyndir. Þvert á móti var í grein minni gætt að því að allar tölur sem ég nefndi væru sambærilegar og að rétt væri farið með staðreyndir. Það er aftur á móti svo að Ágúst mistúlkar sjálfur þær tölur sem ég set fram of afbakar með því staðreyndir.
- Það er rangt hjá Ágústi að meðalverð á raforku til stóriðju eða álvera á Íslandi sé yfir meðalverði á raforku til álvera í heiminum. Um þetta er að vísu ekki unnt að fullyrða með algerri vissu, því þegar fjallað er um orkuverð til álvera í heiminum er ávallt vísað til upplýsinga frá þriðja aðila. Og ekki unnt að sannreyna hvort þær séu réttar eða rangar. En allt bendir þó til þess að þarna hafi Ágúst rangt fyrir sér.
- Það er rangt hjá Ágústi að ég beri saman epli og appelsínur í umfjöllun minni. Aftur á móti ruglast Ágúst eitthvað í ríminu þarna í sinni grein og fer að bera saman epli frá mér og appelsínur frá sér – eða vice versa eftir því hvor ávöxturinn telst bragðbetri.
- Ágúst heldur því fram að raforkusamningur Norðuráls og Landsvirkjunar renni ekki út árið 2019 vegna framlengingarákvæðis. Þetta er athyglisvert og er þvert á fyrri upplýsingar sem m.a. eru hafðar eftir forstjóra Century Aluminum.
- Norðurál sér nú fram á að ef fyrirtækið vill halda áfram óbreyttri framleiðslu, mun það að öllum líkindum brátt þurfa að borga miklu hærra verð fyrir stóran hluta raforkunnar en það hefur gert fram til þessa. Þetta á við hvort sem núverandi raforkusamningur fyrirtækisins við Landsvirkjun rennur út 2019 eða framlengist um einhver ár. Stundin nálgast. Og þar eru geysilegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.
Lesendur ættu að hafa í huga að samningsstaða Norðuráls er nú allt önnur og veikari en var þegar gildandi raforkusamningur við Landsvirkjun var upphaflega gerður fyrir tæpum tveimur áratugum. Við endurnýjun orkusamningsins eru í húfi hagsmunir sem nema tugum milljarða íslenskra króna. Þetta er mikilvægt að lesendur muni þegar þeir lesa skrif framkvæmdastjóra Norðuráls - og að lesendur átti sig líka á því hversu mikilvægt það er fyrirtækinu að láta líta svo út sem raforkuverð til stóriðju á Íslandi sé hátt og að fyrirtækinu liggi ekkert á að endurnýja raforkusamning. Það eru nefnilega fyrst og fremst hagsmunir sem ráða málflutningi Norðuráls og þeir hagsmunir eru risavaxnir.
Engin hagræðing á tölum
Ágúst skrifar: Ketill ákveður [...] að draga flutningskostnað á Íslandi frá verðinu hér og bera það þannig saman við erlendan heildarkostnað. Þetta er röng framsetning þar sem einfaldlega er verið að hagræða tölum til að fá þá niðurstöðu sem höfundi þóknast.
Í grein minni er skýrt tekið fram að allar tölur um raforkuverð þar miðast við sjálft raforkuverðið, þ.e. verðið án flutnings. Umrædd fullyrðing Ágústs um að tölum sé þarna hagrætt er því röng. Þvert á móti eru þær tölur sem ég setti fram einmitt samanburðarhæfar, því þær segja til um hvert sjálft raforkuverðið til álvera er og í öllum tilvikum án flutnings.
Ég hefði vissulega geta farið hina leiðina og tilgreint allar kostnaðartölur raforku með flutningsverði. Niðurstaðan hefði orðið sú sama, þ.e. orkuverðið frá Landsvirkjun til stóriðju er með því lægsta í heiminum þegar miðað er við meðalverð raforku. Í grein minni var tölum hvergi hagrætt. Fullyrðing Ágústs þar um er röng og bendir til þess að hann hafi ekki lesið grein mína af nægri athygli.
Sami ávöxturinn; ekki epli og appelsínur
Ágúst skrifar: Í framhaldi af þessu fullyrðir Ketill að stóriðja hérlendis greiði 20 USD/MWst fyrir raforkuna og þar með sé verðið með því lægsta í heiminum. Þetta er auðvitað kolrangt hjá Katli enda ber hann hér saman epli og appelsínur.
Hvað er kolrangt? Hér er mikilvægt að muna að tilvísun mín til 20 USD/MWst á einungis við um raforku frá Landsvirkjun. Og Landsvirkjun gefur það beinlínis upp að stóriðjan hér sé að greiða fyrirtækinu um 20 USD/MWst að meðaltali án flutnings. Þar að auki er hvergi í umræddri grein minni verið að bera saman epli og appelsínur. Heldur er þar alltaf sami ávöxturinn til umfjöllunar; raforkuverð án flutnings. Þetta ætti hverjum lesanda greinar minnar að vera ljóst.
Rangur skilningur hjá Ágústi um prósentur
Ágúst skrifar: CRU metur að meðal orkuverð til álvera á Íslandi sé nokkru hærra en Landsvirkjun gefur upp, eða um 30 USD/MWst. Það er 50% hærra en Ketill fullyrðir að álver á Íslandi séu að greiða.
I þessari framsetningu virðist vera um að ræða einhver misskilning hjá Ágústi - sem þess vegna fipast í prósentureikningnum. Líklega eru það eplin og appelsínurnar sem eru ennþá að flækjast fyrir honum.
Það er leitt að þurfa alltaf að vera að endurtaka sig, en enn og aftur minni ég á að í grein minni var ég ekki að fjalla um meðalverðið frá öllum orkufyrirtækjunum hér á Íslandi, heldur einungis frá Landsvirkjun. Og þar er meðalverðið til stóriðjunnar um 20 USD/MWst án flutnings (og um 26 USD/MWst með flutningi). Talan 30 USD/MWst sem Ágúst nefnir þarna vegna Íslands, skv. CRU, er aftur á móti með flutningi og á þar að auki við meðaltal á raforkuverði allra orkufyrirtækjanna hér en ekki bara Landsvirkjunar. Þarna er Ágúst því að bera eplið sitt saman við appelsínuna hjá mér.
Munurinn á þessum tveimur umræddu tölum (20/30 USD) er vissulega 50% eins og Ágúst tiltekur. En þetta eru ósambærilegar tölur; önnur er með flutningi og hin er án flutnings. Þar að auki á önnur talan við um orkusölu Landsvirkjunar, en hin talan er um orkusölu allra orkufyrirtækjanna hér (og sú tala er vel að merkja áætluð en tala Landsvirkjunar er uppgefin staðreynd). Það er sem sagt Ágúst sem flækist í eplunum og appelsínunum - en ekki ég.
Málið snýst um Landsvirkjun
Til nánari skýringar skal tekið fram að ef við berum þá tölu CRU sem Ágúst vísar til, saman við raforkuverð Landsvirkjunar með flutningi, þá er verðmunurinn þarna um 15%. En ekki 50%. Umræddur prósentumisskilningur hjá Ágústi er sennilega til kominn vegna þess að hann hafi bara alls ekki lesið grein mína af nægilegri athygli.
Það er svo umhugsunarefni af hverju Ágúst kýs að tala um að meðalverðið með flutningi á Íslandi sé skv. CRU 30 USD/MWst - þegar hann veit vel að Landsvirkjun gefur þarna upp u.þ.b. 26 USD/MWst og að grein mín fjallar einungis um Landsvirkjunarverðið. Þetta gæti kannski verið vísbending um einbeittan tilgang Ágústs til að afvegaleiða umræðuna. Hvað sem veldur, þá finnst mér að hann hefði átt að halda sig við orkuverðið sem Landsvirkjun gefur upp fremur en áætlun CRU. Því CRU er þarna ekki að fókusera á Landsvirkjun eins og ég gerði í minni grein.
Meðalverðið í heiminum er miklu hærra en meðalverðið hér
Okkur Ágúst greinir á um það hvert meðalverð er á raforku til álvera víðsvegar um heiminn. Af umræðum um skrif okkar undanfarna daga sé ég að þetta þykir mörgum lesendum undarlegt, því við erum í skrifum okkar báðir að vísa til gagna frá CRU. Um þetta skrifar Ágúst:
[Ketill] heldur því fram að meðalorkuverð til álvera á Íslandi sé með því lægsta í heiminum þegar fyrir liggur að samkvæmt þeim gögnum sem hann vísar sjálfur til, upplýsingar CRU, þá greiða álver á Íslandi verð sem er um eða yfir meðalverði til álvera í heiminum.
Eins og áður sagði er þarna misræmi milli okkar Ágústs. Mér sýnist nokkuð augljóst að í þessum samanburði okkar skiptir bersýnilega miklu að meðan ég var að lýsa meðalverðinu m.t.t. Landsvirkjunar þá var Ágúst að lýsa meðalverðinu m.t.t. Íslands (allra orkufyrirtækjanna). Og þar studdist hann við tölu frá CRU, sem er miklu hærri en talan hjá Landsvirkjun.
Þar að auki sýnist mér vera líklegt að ég sé að styðjast við nýrri upplýsingar en Ágúst og þá mögulega betri uppfærðar upplýsingar. Því skv. tölvupósti til mín styðst hann við skýrslu frá því í apríl, en mínar upplýsingar eru dagsettar síðla í maí. En fyrst og fremst skiptir þarna máli að ég er að fjalla um Landsvirkjun og miða við uppgefnar tölur Landsvirkjunar - en það gerir Ágúst ekki.
Það slær mig svo alveg sérstaklega að Ágúst skrifar þarna að álver á Íslandi greiði „verð sem er um eða yfir meðalverði til álvera í heiminum“. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Og það hlýtur Ágúst að vita. Og það er reyndar svo að a.m.k. allt frá aldamótunum síðustu hefur meðalverðið hér verið undir þessu heimsmeðalverði og stundum mjög langt þar undir.
Niðurstaðan af öllu ofangreindu er sú að ég fór ekki með rangt mál í grein minni, né fór ég rangt með tölurnar um raforkuverð. Og ég setti tölurnar þar ekki fram með misvísandi hætti né heldur hagræddi ég tölum á nokkurn hátt.
Umfjöllunin hjá Ágústi, sem er meira og minna í belg og biðu og inniheldur rangfærslur í minn garð, er að mínu mati bersýnilega gerð í þeim tilgangi að reyna að gera mig tortryggilegan og draga úr trúverðugleika mínum. Hver og einn lesandi verður að meta hvort sú tilraun hafi tekist hjá Ágústi og Norðuráli. En til að lesendur átti sig betur á málinu ætla ég nú að beina athyglinni sérstaklega að nokkrum mikilvægum atriðum, sem áríðandi er að lesendur hafi í huga:
Meðalverð á íslenskri raforku til stóriðju fer hækkandi
Vegna vangaveltna um meðalverð á raforku til álvera er skynsamlegt að líta til sem flestra og bestra gagna. Í þeim skrifum okkar Ágústs sem hér eru til umfjöllunar, litum við að því mér sýnist báðir til meðalverðs á mjög afmörkuðu tímabili. Þess vegna er mikilvægt að lesendur taki skrifum okkar beggja þar um með nokkrum fyrirvara. Því meðalverðið er sífellt að breytast og sveiflast.
Í þessu sambandi má minna á álit Eftirslitsstofnunar EFTA (ESA) frá árinu 2011. Þar kom fram að raforkuverðið til álveranna hér hafi um það leyti verið hið 14. lægsta í heiminum af 184 álverum. Og hið 3. lægsta í Evrópu af 32 álverum.
Íslenska meðaltalið á raforku til álvera hefur vel að merkja hækkað eitthvað eftir þennan tíma - vegna nýs orkusamnings Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan vegna álversins í Straumsvík auk annarra smærri samninga. Og það er gleðilegt að meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju hefur hlutfallslega farið hækkandi síðustu árin. En það stenst enga skoðun að meðalverðið hafi þar rokið úr þeim botni sem lýst er í skýrslu ESA og alla leið yfir heimsmeðaltalið. Meðalverðið hjá Landsvirkjun hefur vissulega farið þarna upp á við undanfarið, en er ennþá töluvert undir heimsmeðaltalinu.
Meðalverð Landsvirkjunar 65-90% af meðalverðinu
Um og upp úr aldamótunum var meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju einungis u.þ.b. 65-70% af meðalverði raforku til álvera í heiminum (sbr. árreikningar Landsvirkjunar og uppgefið sögulegt meðalverð frá CRU). Rétt rúmum fimm árum síðar, um 2006-07, var staðan orðin mun jákvæðari og meðalverðið frá Landsvirkjun þá skyndilega komið rétt undir meðalverðið í heiminum.
Meginástæða þessarar jákvæðu þróunar var hrein heppni. Þetta var sem sagt ekki sjálfbær hækkun í anda góðra viðskiptahátta, heldur voru þetta dagarnir þegar bóluhagkerfi heimsins blómstraði og álverð hækkaði upp úr öllu valdi. Þarna svínvirkaði sem sagt veðmálið sem fólst í hinni þáverandi útbreiddu álverðstengingu orkusamninganna hjá Landsvirkjun. En svo tók raunveruleikinn tökin á ný, álverð féll og Landsvirkjun húrraði aftur niður meðalverðlistann - vegna útbreiddrar álverðstengingarinnar.
Með nýjum samningi Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan vegna álversins í Straumsvík 2010 urðu ákveðin vatnaskil þar sem álverðstenging var ekki í samningnum. Þar með var dregið verulega úr áhættu Landsvirkjunar. Í kjölfarið tók meðalverðið í raforkusölu Landsvirkjunar til stóriðju aftur að skríða upp á við í átt að meðalverði í heiminum.
Þarna skiptir reyndar líka máli að umrætt meðalverð í heiminum hefur undanfarið verið að lækka og þar með koma til móts við meðalverð Landsvirkjunar (þarna hafa allskonar breytur mikil áhrif, t.d. gengisfall rússnesku rúblunnar sem hefur snarlækkað orkuverð til margra álvera í Rússlandi). Ennþá er þó meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju talsvert langt undir meðalverði til álvera í heiminum.
Sá munur gæti aukist á ný ef orkuverð í heiminum fer upp á við. Fyrst og fremst er algert grundvallaratriði fyrir Landsvirkjun og Ísland að ná fram samningum sem skila verulegri aukningu í arðsemi af orkusölunni - ekki síst þegar stóriðjusamningar losna. Þá gæti hið ótrúlega jafnvel gerst; að meðalverð Landsvirkjunar til iðnaðar næði heimsmeðaltali raforkuverðs til álvera. Vonandi hefur þó Landsvirkjun ennþá metnaðarfyllri markmið.
Strönduð íslensk orka
Okkur Ágústi hefur orðið tíðrætt um meðalverð á raforku til stóriðju. Úr því þetta er hér til umræðu er tilefni til að vekja athygli á því, að það vill svo til að jafnvel þó svo raforkuverð til álvera á Íslandi væri yfir meðalverði álvera í heiminum eða jafnvel yfir meðalverði til álvera í Evrópu - sem það þó er vel að merkja ekki eins og hér hefur áður verið nefnt - þá væri Ísland engu að síður í einhverri allra slökustu stöðunni í samanburði á orkusölu þjóða.
Þetta er um margt dapurleg staðreynd. En stafar af því að íslensk orka hefur ekki átt og á ekki aðgang að mörkuðum þar sem hátt raforkuverð býðst. Orkan er strönduð.
Áliðnaður leitar þangað sem hann fær ódýrustu orkuna. Það er ekki tilviljun að Ísland er stærsti álframleiðandi heims (miðað við stærð þjóða). Ástæðan er lágt verð á raforku; verð sem í áratugi hefur verið lægra en víðast hvar annars staðar í heiminum. Með þessu er ekkert verið að rægja áliðnaðinn, heldur bara benda á hið eðlilega samband álvera og orkuverðs (þetta eðlilega samband stafar af því hversu óskaplega mikla raforku þarf til að vinna álið úr súrálinu).
Meðalverð til álvera á Íslandi er táknmynd fyrir lítt arðsaman raforkugeira
Það eru vissulega til lönd þar sem meðalverð á raforku til álvera er ennþá lægra en hér á landi (þar er Kanada besta dæmið). En þegar svo háttar til, þá er það ávallt svo að miklu lægra hlutfall af raforkusölunni í viðkomandi landi fer til álvera en er hér á landi. Hér er þetta hlutfall alveg geysilega hátt; um eða yfir 70% (stóriðjan öll fékk hér um 77% af raforkunni 2014).
Það er sem sagt svo að sum lönd eiga auðvelt með að bjóða álverum raforku á mjög lágu verði, en njóta samt mjög góðrar meðalarðsemi af raforkuvinnslunni (því hlutfall álvera í orkusölunni er ekki nærri því eins yfirgengilega hátt eins og hér á landi). Noregur er ágætt dæmi um slíkt land, auk Kanada og fleiri landa.
Hér á landi er aftur á móti arðsemin í raforkuvinnslunni nánast dæmd til að verða kaffærð vegna hins mikla umfangs áliðnaðarins. Nema að það takist að hækka raforkuverðið hér til álveranna verulega -og/eða minnka hlutfall áliðnaðar í heildarnotkun á íslenskri raforku. Af fréttum undanfarin misseri og ár er augljóst að þetta er Landsvirkjun einmitt með að markmiði (þ.e. að auka arðsemina). Það markmið er bæði skynsamlegt og eðlilegt og líka hagkvæmt fyrir þjóðina.
Hið geysiháa hlutfall áliðnaðar hér á Íslandi er táknmynd um lítt arðsaman raforkugeira. Þess vegna er svo áríðandi að við skoðum af opnum huga öll tækifæri til fjölbreyttari raforkusölu. Og að við skiljum mikilvægi þess að nota tækifærið þegar raforkusamningar álvera renna út, til að beina orkunni í sem arðsamastan farveg. Þetta er afar mikilvægt að við höfum í huga, þegar við lesum fullyrðingar um að meðalverð á raforku til álvera á Íslandi sé hærra en í einhverjum öðrum löndum. Í slíkum samanburði má ekki gleymast hversu óvenju hátt hlutfall af raforkunni fer hér til álvera.
Óróleiki hjá Norðuráli vegna framtíðarinnar?
Eitt af því jákvæðasta sem gerst hefur í íslensku efnahagslífi síðustu árin er að raforkuverð Landsvirkjunar til stóriðju og iðnaðar sem hlutfall af álverði hefur farið hækkandi. En það er mikilvægt að muna að sú jákvæða þróun er mestöll til komin vegna nýja raforkusamningsins við Straumsvík. Að auki skipta nýlegir samningar við önnur iðn- og þjónustufyrirtæki þarna líka máli, sbr. gagnaver, en þó fremur litlu enn sem komið er því hlutfallslega er þar ennþá um lítið orkumagn að ræða. Það hlutfall mun vonandi vaxa hratt.
Álverið í Straumsvík er sem sagt farið að greiða verulega hærra raforkuverð. Álver Fjarðaáls og Norðuráls eru aftur á móti ennþá bæði að njóta raforkuverðs sem er með því lægsta í heimi. Þess vegna er Norðuráli / Century Aluminum nú afar mikið í mun að ástandið breytist ekki og að álverið á Grundartanga verði áfram sú dásamlega mjólkurkú hagnaðar sem verið hefur. Alcoa þarf aftur á móti ekki að vera að stressa sig yfir þessu í bili - því hinn risavaxni og álverðstengdi raforkusamningur Fjarðaáls gildir til 2048!
Gífurlegir hagsmunir Norðuráls og Century Aluminum
Þarna eru geysilegur fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Bæði fyrir Landsvirkjun og fyrir viðkomandi stóriðjufyrirtæki. Þegar raforkusamningur Century vegna Norðuráls rennur út, sér fyrirtækið fram á mjög mikla hækkun á raforkuverði (sennilega á bilinu 50-100%). Þess vegna kom mér ekkert á óvart að greinarskrif mín um þetta mál legðust illa í stjórnendur Norðuráls - því þau skrif kynnu að leiða fólki í ljós hið svakalega lága orkuverð sem Norðurál greiðir fyrir orkuna frá Landsvirkjun.
Almenningur á Íslandi gerir sér því miður ennþá litla grein fyrir þeim hagsmunum sem þarna er um að ræða. Hér verður þetta ekki rakið ítarlega, heldur látið nægja að minna á að hagsmunirnir þarna vegna mögulegrar hækkunar raforkuverðsins, ef Norðurál ætlar að viðhalda sinni framleiðslu, jafngilda nokkrum milljörðum ISK árlega og tugum milljarða ISK yfir samningstíma svona orkusamninga.
Þarna er í reynd um að ræða auðlindaarðinn af íslensku orkulindunum. Stóra spurningin er hvert þessir tugir milljarða, sem orkuauðlindin getur þarna skilað aukalega í formi auðlindaarðs, munu renna. Norðurál og Landsvirkjun munu takast á um þetta í viðræðum um mögulega áframhaldandi orkusölu - í aðdraganda þess þegar orkusamningurinn rennur út. Stóra spurningin er hvort þessi geysilegu verðmæti renna í vasa eigenda Norðuráls (þar sem stærsti hluthafinn gegnum Century er hrávörurisinn Glencore) eða til Landsvirkjunar og þar með til íslenska ríkisins og íslensks almennings.
Norðurál talar gegn Century Aluminum
Þá er að snúa sér að því sem Ágúst segir um samningstíma raforkusamnings Norðuráls og Landsvirkjunar:
Ágúst skrifar: Ketill segir að orka sé að losna frá Norðuráli árið 2019. Það er ekki rétt. Þessi orka er samningsbundin með sérstöku framlengingarákvæði í samningunum. Norðurál er að nota þessa orku í dag og ætlar að nota hana áfram um fyrirsjáanlega framtíð. Hún er því ekkert að losna – það er misskilningur Ketils.
Þessi fullyrðing Ágústs er mjög athyglisverð. Því hún er beinlínis í andstöðu við þær opinberu upplýsingar sem liggja fyrir um raforkusamning Landsvirkjunar og Norðuráls. Í þessu sambandi má nefna að þann 30. apríl s.l. (2015) var eftirfarandi haft eftir Michael Bless, forstjóra Century Aluminum, í tengslum við uppgjör Century á fyrsta ársfjórðungi ársins:
At Grundartangi, the contract with the national power company expires in 2019. This […] represents just about 30% of the plants power requirement. […] The contract says that the two parties should be talking now even at this early time.
Ég leyfði mér að taka mark á þessum orðum forstjóra Century um að samningurinn rynni út 2019 (expires in 2019). En ef þetta voru rangar upplýsingar eða rangt eftir forstjóranum haft, væri vissulega gott ef Ágúst eða forstjóri Norðuráls eða forstjóri Century leiðrétti það. Og ekki síður gott ef þeir myndu upplýsa um það til hversu margra ári samningurinn hafi framlengst – að þeirra mati. Ég hef ekki séð neina fréttatilkynningu þess efnis; hvorki frá Norðuráli eða Century, né frá Landsvirkjun.
Að auki má svo vísa til heimasíðu Century Aluminum, þar sem nú segir orðrétt: Power is supplied from geothermal and hydro sources under various long-term contracts expiring between 2019 and 2036. Þarna er aftur vísað til samningsins sem rennur út 2019 og ekkert minnst á framlengingarmöguleika. Samt heldur Ágúst því fram að orkusamningurinn við Landsvirkjun sé ekki að renna út 2019; slíkt sé bara tómur misskilningur og bull. Sem kann að vera rétt hjá honum en er þá mjög undarlegt í ljósi upplýsinganna frá Century.
Norðurál talar gegn öðrum fyrirliggjandi gögnum
Það er líka tilefni til að vekja hér athygli á öðrum upplýsingum um lengd raforkusamningsins. Þar er um að ræða skýrslu sem iðnaðarráðherra lagði fyrir Alþingi í nóvember 2011. Sú skýrsla ber titilinn Heildstæð orkustefna fyrir Ísland. Þar er m.a. birt yfirlit um það hvenær orkusamningar við stóriðjuna hér renna út (sjá bls. 56-57 í skýrslunni).
Í þeirri skýrslu segir að orkusamningur við Norðurál, sem nemi um 186 MW, renni út 2019. Þetta er sama orkan og ég vísaði til í grein minni. Tekið skal fram að umrædd skýrsla var unnin af sérstökum stýrihópi sem í sat m.a. Orkumálstjóri landsins; Guðni A. Jóhannesson. M.a. í því ljósi taldi ég mega treysta að umræddar upplýsingar um gildistíma raforkusamninganna væru réttar. Og að samningur Norðuráls við Landsvirkjun renni í reynd út 2019.
Einnig studdist ég við skýrslu sem Hatch vann vegna Norðuráls árið 2003. Þar er raforkusamningi Norðuráls við Landsvirkjun lýst af verulegri nákvæmni. Enda var þessi skýrsla Hatch gagn í tengslum við fjármögnun Norðuráls vegna stækkunar álversins og því mikilvægt að í henni væri bæði nákvæmt og rétt farið með staðreyndir. Í þeirri skýrslu er ekkert minnst á tækifæri til framlengingar eftir 2019, heldur segir þar orðrétt (bls. 25-26 í skýrslunni):
The original Power Contract between Landsvirkjun and Norðurál was signed on 7 August 1997 and is valid until 31 October 2018. This contract provides sufficient power for Norðurál Phase I production of 60,000tpa. An amendment to the original contract was signed on 29 October 1999 and extends the validity of the original contract to 31 October 2019. This amendment enables the increase in toll conversion rate to 90,000 tpa aluminium from the 60,000 tpa of Phase I.
Enn og aftur er þarna talað um að raforkusamningur Landsvirkjunar og Norðuráls renni út árið 2019 (validity of the original contract to 31 October 2019).
Birtir Norðurál raforkusamninginn?
Af ofangreindu ættu allir að sjá að ég var í margfaldri góðri trú þegar ég áleit að raforkusamningurinn rynni út 2019. Það virðist líka augljóst að býsna margt þurfi að leiðrétta í fyrri upplýsingagjöf Century. Það hlýtur t.d. að skipta marga hluthafa í Century Aluminum, sem er skráð í kauphöll vestra, talsverðu máli hvort helsta hagnaðareining fyrirtækisins kann að missa þriðjunginn af raforku sinni 2019 eða einhverjum árum síðar.
Eftir umrædda fullyrðingu Águsts um að Norðurál hafi fullan aðgang að orkunni skv. samningnum við Landsvirkjun eftir 2019, er áríðandi að Century útskýri undanbragðalaust öll atriði sem lúta að gildistíma raforkusamningsins. Þetta kann vissulega að hafa verið gert nýverið, en ég hef þó enga slíka fréttatilkynningu séð og fyrrnefndar upplýsingarnar á vefsíðu Century segja sitt.
Lokaorð
Með ofangreindum athugasemdum mínum tel ég mig hafa hrakið alla gagnrýni Ágústs á skrif mín. Ég vil svo líka vekja athygli á því að í allri sinni gagnrýni forðast Ágúst það eins og heitan eldinn að upplýsa um það hvaða raforkuverð Norðurál er að greiða miðað við álverð á hverjum tíma. Ef Norðurál vill áfram malda í móinn um raforkuverð og meðalverð og CRU, vil ég hvetja fyrirtækið til að koma hreinlega fram við þjóðina og birta samning sinn við Landsvirkjun. Strax og undanbragðalaust.
Þá gætum við öll orðið betur upplýst og hætt að velta vöngum um bæði raforkuverðið og samningstímann. Ég efast um að Landsvirkjun hafi eitthvað á móti því að umræddur samningur yrði birtur - þó ég geti vissulega ekki fullyrt neitt um það. En ég fæ ekki séð að þessi gamli samningur geymi nein viðkvæm viðskiptaleyndarmál í huga Landsvirkjunar. Og hver er það þá sem þarf að halda í leyndina?
Álfyrirtækin á Íslandi eru í þægilegri stöðu. Þau starfa hér í bómullarumhverfi þar sem þau hafa t.a.m. aldrei þurft að birta neinar upplýsingar um hvað þau greiða fyrir risavaxna nýtingu á orkuauðlindum Íslendinga; orkuauðlindir hvers nýting hefur óhjákvæmilega oft kallað á töluverð og jafnvel umfangsmikil umhverfisspjöll. En svo hika þessi sömu stóriðjufyrirtæki, í eigu erlendra stórfyrirtækja, ekki við að kalla það bull ef fram koma upplýsingar sem sýna að raforkuverðið til þeirra er mjög lágt.
Nú reynir á hvort Norðurál taki áskorun minni og horfist í augu við þjóðina með þær upplýsingar uppi á borðum hvenær samningur fyrirtækisins rennur út og hvert raforkuverðið nákvæmlega er - með raforkuflutningi og án raforkuflutningsins. Þar með yrði þá óumdeilt hvert verðið er. Kannski ætti ég einfaldlega að birta þessar upplýsingar - því ég veit þetta. Ég held samt að það væri mun þrifalegra að Norðurál sjálft stigi það skref.
Um gildistíma raforkusamningsins vil ég að lokum nefna það aftur að þar ber upplýsingum Ágústs ekki saman við það sem áður hefur komið fram um gildistíma samningsins. En ef það er rétt, sem Ágúst segir, að Century geti framlengt samninginn einhliða - og hafi eða hyggist gera það - þá eru það sannarlega slæm tíðindi fyrir íslensku þjóðina. Því það mun draga það ennþá meira á langinn að hér náist eðlileg og sanngjörn arðsemi af raforkuvinnslu Landsvirkjunar.
Að síðustu vil ég hvetja lesendur þessarar greinar til að lesa einnig vandlega mína upphaflegu grein, sem skrif Ágústs eru sprottin af, svo og grein hans. Og ef einhver lesandi telur þá ennþá eitthvað óljóst í mínum skrifum hvet ég viðkomandi til að hafa samband við mig og óska nánari skýringa.