Er æskilegt að orða atvinnuauglýsingar þannig að þær eigi við um sem flesta og fæli engan frá? Er eðlilegt að óska eftir viðskiptafræðingi með að lágmarki 5 ára reynslu af fjárstýringu fyrir 350 þúsund krónur á mánuði?
Frá haustmánuðum 2008 og þar til nýlega má segja að atvinnurekendur hafi búið við einstaklega góð kjör með tilliti til vals á starfsmönnum og launakjara. Fyrst um sinn jókst atvinnuleysi á sama tíma og þeir sem héldu sínum störfum prísuðu sig sæla af þeirri ástæðu einni. Áhersla launþega var því um tíma á að búa að starfi í stað þess að fá fyrir það eðlileg og sanngjörn laun í samræmi við virði.
Síðustu ár hefur laus staða þýtt óteljandi umsóknir hæfra aðila fyrir kjör sem samræmast ekki alltaf þeim væntingum sem gerðar eru til starfsins. Reglulega má sjá atvinnuauglýsingar sem eru almennt orðaðar og gera miklar kröfur til tilvonandi starfsmanns. Viðskiptastjóri með háskólapróf, starfsreynslu, söludrifni, ótakmarkaðan tíma, hæfni í mannlegum samskiptum og hófstilltar launakröfur er fjólublár íkorni.
Í ráðningum er talað um fjólubláan íkorna (e. purple squirrel) þegar fundinn er aðili sem passar í eins og flís við rass við starfslýsinguna án þess að þurfa svo mikið sem þjálfun. Eins og gefur að skilja eru fjólubláir íkornar vandfundnir en eftirspurn eftir þeim mikil.
Starfsmannaleit sem gengur út frá því að fjólubláir íkornar finnist með lítilli fyrirhöfn og tilkostnaði, endist í starfi, upplifi virði sitt og skili fyrirtækinu langtímaverðmætum má líkja óhóflega bjartsýna hreindýraskyttu. Skyttan ætlar að fella 140 kg tarf, með stór horn, fyrsta daginn í túrnum, án þess að ganga meira en 5 km og helst án aðstoðar sjónauka. Umræddur veiðimaður kann að hafa keypt veiðileyfi, ekið austur á land og leigt leiðsögumann, en það þýðir ekki að væntingar hans séu raunhæfar.
Eftir því sem atvinnulífið hefur vaknað úr dvala hafa samhliða skapast ný störf. Þess gætir þó enn að atvinnurekendur fagni batnandi gengi rekstursins án þess að setja það í samhengi við nýjan raunveruleika á atvinnumarkaði. Árið 2008 er komið og farið og góðir starfskraftar eiga aftur val um vinnustaði. Atvinnurekendur þurfa að vera meðvitaðir um þessa áhættu, rækta fólkið sem fyrir er og gæta þess að gera eðlilegar kröfur þegar ákvörðun er tekin um nýja ráðningu. Ef til stendur að ráða starfsmann sem á að koma inn í fyrirtækið eins og stormsveipur og hafa raunveruleg áhrif er líklegt að viðkomandi vilji raunverulega viðurkenningu og finni fyrir því frá fyrsta viðtali að tilvonandi vinnuveitandi skynji, skilji og kunni að meta þá hæfileika sem óskað er eftir.
Höfundur starfar við stjórnenda- og mannauðsráðgjöf hjá Hagvangi.