Samtök verslunar og þjónustu hafa um árabil vakið athygli stjórnvalda á því óhagræði sem núverandi fyrirkomulag varðandi opna tollkvóta á landbúnaðarvörum felur í sér og að kvótarnir stuðli ekki að því hagræði sem þeim er ætlað að tryggja vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.
En hvað er þessum opnu kvótum ætlað að tryggja? Því er að svara að gripið er til þeirra þegar framboð á tilteknum vörum er ekki nægjanlegt á innanlandsmarkaði eða sýnt þykir að það verði ekki nægjanlegt á næstu þremur mánuðum. Við fyrstu sýn mætti ætla að tilvísun til opinna tollkvóta feli í sér niðurfellingu á tollum en því fer fjarri. Þessir kvótar fela ekki í sér heimild til að fella niður tolla á vörum heldur er einungis dregið úr tollum á vörum.
En ef slegið er af tollum mætti ætla að ákvörðun um tollana sé aftengd áhrifum skerts framboðs á vörum innanlands. En því fer enn á ný fjarri enda eru tollarnir beintengdir við innlent verð. Án mikillar þekkingar í hagfræði má ætla að þegar framboð er skert og eftirspurn mikil þá hækkar oftar en ekki verð á vöru hjá framleiðenda. Að mati SVÞ felur því slík tenging við innlent verðlag í sér opinbert inngrip inn í verðlagningu á þá vegu að þrýsta upp verði á vörum sem skortur er á hverju sinni í stað þess að draga úr áhrifum skorts á verðlag.
Til skýringar má nefna skort á nautakjöti á innlendum markaði sem hefur verið viðvarandi undanfarin ár. Afleiðing þessa skorts er að verð á innlendri framleiðslu hefur hækkað verulega. Sem dæmi um hækkun hefur verð hjá leiðandi aðila fyrir algengan flokk, þ.e. ungnaut 1. flokkur, frá árinu 2013 hækkað úr 623 kr. í 833 kr., eða alls um 25% hækkun á tveimur árum. Ofan á þessa hækkun leggst svo annar kostnaður, s.s. sláturgjald og kostnaður við að sækja gripi ásamt hækkun á förgun úrgangs til viðbótar við annan rekstrarkostnað. Á grundvelli þessa verðs eru svo opnir tollkvótar m.a. grundvallaðir. Til viðbótar bætist ofan á annar kostnaður vegna hagnýtingar á þeim kvótum, s.s. flutningskostnaður og annar kostnaður sem fellur til erlendis. Í stað þess að leita leiða við að lækka verð á vörum sem skortur er á eru þessir opnu tollkvótar grundvallaðir á síhækkandi verði hjá framleiðendum sem hefur á endanum áhrif á verð til neytenda.
Þrátt fyrir ákall hagsmunaaðila, jafnt sem Samkeppniseftirlitsins, um breytingar á núverandi fyrirkomulagi er ekki að sjá að stjórnvöld taki tillit til þeirra athugasemda. Í þeim tilvikum þegar skortur er til staðar á tilteknum vörum ætti það að vera kappsmál fyrir stjórnvöld að tryggja innflutning á vörum til að mæta innlendri eftirspurn – s.s. á grundvelli sjónarmiða um fæðuöryggi. Slík heimild á ekki að íþyngja verslun og neytendum fjárhagslega og þess þá heldur að fela í sér aukin kostnað á meðan skortur er viðvarandi. Ef opnir tollkvótar eiga að skila tilætluðum árangri þarf að tryggja að tollar á þeim vörum verði afnumdir eða færðir niður frá því sem þeir eru ákvarðaðir núna.
Ef fram fer sem horfir er ljóst að boðað verkfall opinberra starfsmanna kann að leiða til skorts á kjöti hér á landi og eru opnir tollkvótar síst til þess fallnir að leysa þann vanda. Í því ástandi, og komi til skorts, er ekki boðlegt að stjórnvöld líti yfir öxl og hugsi að hugsanlega hefði átt að huga betur að þessum málum. Aðgerða er þörf til að breyta núverandi fyrirkomulagi og þeirra er þörf strax.
Höfundur er héraðsdómslögmaður og lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu.